20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

39. mál, eignarráð á landinu

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni ítreka þá sérstöðu sem ég hef í þessu máli öllu varðandi bændur og búgreinar þeirra, og þegar nánar er að gáð virðist vera um hana full samstaða. Flm. eru sem sagt sammála um þetta atriði þó að um það væri deilt hér í fyrra. (Gripið fram í: Þú ert okkur sammála.) Já, en í fyrra kom þetta alveg öfugt út hjá hv. fyrrv. formanni Alþfl., en það stafaði, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, af því að hann hafði aldrei hlustað á það sem ég sagði.

En út af afbrýðiseminni hjá okkur Alþb.- mönnum garð Alþfl. út af þessum ágæta tillöguflutningi langar mig til að segja örfá orð.

Ég vonast svo sannarlega til þess að við Alþb.-menn megum eiga samstöðu með þeim Alþfl.-mönnum í ýmsum góðum málum, og ég vona að hún aukist, — ekki að hún aukist í þá átt að við hverfum í átt til þeirra sjónarmiða, þ. e. a. s. til hægri, heldur að þeir þokist nú loksins, eins og mér sýnast nú ýmis sólarmerki benda til, þeir þokist nú svolítið til vinstri og nálgist okkur örlítið í ýmsum greinum og á þann hátt getum við átt samstöðu um ýmis merkileg mál. En vegna afbrýðiseminnar út af þessu máli og þá alveg sérstaklega meginatriði þessa máls, þ. e. a. s. þeim náttúruauðæfum, sem hér er verið að tala um fyrst og fremst, þá vil ég minna hv. þm. á það, að á árunum 1964, 1965 eða eitthvað um það bil fluttu þm. Alþb. þá, þeir Einar Olgeirsson, Hannibal Valdimarsson, frv. þing eftir þing til stjórnarskrárbreytinga þar sem um var að ræða mjög verulegar breytingar á stjórnarskránni þeim sama almenningi í hag sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson bar svo réttilega fyrir brjósti áðan. Í þessu frv. þeirra til stjórnarskrárbreytinga var m. a. að finna ákvæði um þau náttúruauðæfi sem þessi till. fjallar um og við erum sammála um að eigi að vera þjóðareign. En sú ríkisstj., sem þá sat að völdum, sá um svæfingu þessa máls, m. a. þessa þáttar. Annar stjórnaraðilinn þá var Alþfl. Ég held því að við getum alveg kinnroðalaust fjallað um þetta mál og þurfum síst af öllu að vera með neina afbrýðisemi í þeirra garð varðandi þau náttúruauðæfi sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði réttilega um hér áðan að ættu að vera þjóðareign.