20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

39. mál, eignarráð á landinu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það hvarflaði að mér sú spurning áðan, meðan hv. þm. Pálmi Jónsson var að tala, í lokin á ræðu hans, svo að ég noti bara hans orð, hvort svo væri nú bara orðið ástatt um íslensk veiðivötn eða hvort ég væri orðinn svo orðhagur að hv. þm. skildi bara ekki orð af því sem ég sagði. En af því að hann innti sérstaklega eftir muninum, þeim mun sem ég sæi á íslenskum bændum og þeim aðilum sem bröskuðu með veiðirétt erlendis í laxveiðiánum okkar, þá get ég vísað honum á heimildir, ef hann kærir sig um, sem hljóða upp á það að þeir peningar, sem koma til skila til veiðibænda fyrir leigu á þessum ám okkar til útlendinga, munu ekki nema um það bil 15% af því sem útlendingarnir borga fyrir þær. Ég vil ekki kveða neitt á um það í hvaða stjórnmálaflokki flestir þeirra manna muni sitja sem annast þessa umboðsverslun fyrir íslenska bændur þarna vestra, hann getur getið sér til um það.