25.11.1975
Sameinað þing: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

63. mál, umferðarmál

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 67 höfum við hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir og ég leyft okkur að flytja till. um umferðarmál. Hún hljóðar svo:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir allsherjar endurskoðun og breyt, á lögum og reglugerðum um umferðarmál svo og öðrum þeim lögum, sem umferðarmál snerta og stuðlað geta að auknu umferðaröryggi og virkari meðferð umferðarlagabrota.“

Þegar þessi till. var samin höfðu á undanfarandi dögum 14 íslendingar látið lífið í umferðarslysum. Þá lágu 4 manneskjur meðvitundarlausar á gjörgæsludeild Borgarspítalans af afleiðingum umferðarslysa. Og á árinu öllu hafa 27 manns beðið bana í umferðarslysum og munu það vera öllu fleiri en áður hafa látist á einu ári af þessum sökum.

Frá áramótum og til októberloka s. l. hafa 595 manns slasast í umferðarslysum. Þar af hefur 221 hlotið meiri háttar meiðsli og 324 hafa verið lagðir inn á sjúkrahús til læknismeðferðar vegna meiðsla er þeir hlutu í umferðarslysum. Ég held að öllum sé ljóst að þetta ástand verður ekki þolað öllu lengur. Þessa alvarlegu þróun verður að stöðva og til þess að hún verði stöðvuð þarf að grípa til einhverra róttækra og fljótvirkra aðgerða í umferðarmálum.

Umferðarlöggjöfin er að meginstofni til frá 1958. Á henni hafa verið gerðar nokkrar breyt. síðan, en engar umtalsverðar. Að vísu eru umferðarlög og reglugerðir í stöðugri endurskoðun og mörg nýmæli eru nú til athugunar hjá umferðarlaganefnd sem tekin hafa verið upp í umferðarlöggjöf á Norðurlöndum og viðar í Evrópu. Í grg. með þessari till. höfum við flm. leyft okkur að benda á nokkur atriði, sem við teljum að þurfi endurskoðunar við og geti leitt til bættrar umferðarmenningar. Ég vil leyfa mér að telja þessi atriði upp, því að þau eru raunverulega inntak þessarar tillögu.

Í fyrsta lagi þarf að breyta gildistíma bráðabirgðaskírteina fyrir byrjendur og athuga hvort ekki sé rétt að lengja hann í þrjú ár úr einu ári eins og nú er. Í öðru lagi þarf að setja í reglugerð ákvæði um lágmarksmerkingu gangbrauta og strangari ákvæði umferðarlaga er verndi gangandi vegfarendur á gangbrautum. Í þriðja lagi þarf að stuðla að stóraukinni notkun ökuljósa og kemur til greina að skylda ökumenn til að aka með fullum ökuljósum allan sólarhringinn frá 1. nóv. til 1. apríl. Í fjórða lagi þyrfti að endurskoða reglur um hámarkshraða í þéttbýli. Í fimmta lagi þyrfti að taka upp svonefnt punktakerfi eða mistakakerfi, eins og nefnt er á fagmáli, sem er talið mikilvæg slysavarnarráðstöfun og notað hefur verið með góðum árangri erlendis. Í sjötta lagi þyrfti að breyta í verulegum atriðum reglugerð um gerð og búnað ökutækja svo og umferðarmerkja. Í sjöunda lagi þarf að endursemja reglugerð um ökukennslu og mál þar að lútandi. Í áttunda lagi verði settar ítarlegar reglur um framkvæmd ökuprófa og jafnframt veitt heimild til að færa vissan hluta námsins inn í skólakerfið. Setja þarf reglur um ökuskóla og löggildingu þeirra sem veita þeim forstöðu.

Hér er aðeins drepið á örfá atriði, Má til viðbótar þessu nefna að til athugunar er að lögbinda notkun bílbelta. Herða mætti sviptingu ökuleyfa þegar menn brjóta af sér gegn umferðarlögunum. Það mætti taka harðar á því þegar menn aka ölvaðir o. s. frv., o. s. frv.

Síðast, en ekki síst er rétt að minna á að umferðarráð, sem hefur haft það hlutverk að efla umferðarfræðslu og fylgjast með umferðarmálum almennt, þyrfti að fá auknar fjárveitingar og aukið svigrúm til þess að geta sinnt sínu hlutverki sem skyldi. Okkur flm. er ljóst, að lög og reglugerðir eru ekki einhlít í þessum efnum. Það, sem skiptir líka máli, er umferðarmenningin sjálf, skoðanir borgaranna og skilningur þeirra á því að menn þurfa að sýna tillitssemi og gæta öryggis í umferðinni. Við teljum að með því að hreyfa þessu máli hér á Alþ. og með því að knýja á um einhverjar breytingar öðlist fólk meiri skilning á þessum meginatriðum, þ. e. a. s. að sýna tillitssemi og gæta öryggis. Þannig mætti smám saman bæta umferðarmenninguna og auka umferðaröryggið almennt.

Það verður ekki unað við það ástand sem nú ríkir, að við fréttum af því í hverri viku að einhver hafi látist í umferðarslysi, og það eru allt of háar tölur sem birtar eru um slasað fólk í umferðinni. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er umferðin, bílarnir og göturnar, orðin snar þáttur í okkar daglega lífi. Við komumst ekki á milli húsa öðruvísi en að gæta að umferðinni. Börnin okkar eru í stöðugri hættu gagnvart vaxandi umferð. Og það er skylda okkar að sinna þessum málum og búa þannig um að við getum ekki kennt okkur sjálfum um aðgerðarleysi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. allshn.