25.11.1975
Sameinað þing: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér hefur nú orðið nokkur dráttur á því að halda fund í Sþ., og öllum hv. þm. er kunnugt að ástæður til þess eru þær að till. ríkisstj. í landhelgismálinu hefur ekki verið fulltilbúin af hennar hálfu til að leggja fram, en nú mun komið að því að henni muni verða útbýtt hér. En ástæðan til þess, að ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár, er sú að í dag hafa horist fréttir um það að bresk herskip hafi verið send hingað á Íslandsmið til þess að vernda breska landhelgisbrjóta. Það hefur komið fram í sambandi við þessar fréttir að íslenski sendiherrann í London hafi mótmælt þessu, en aðrar upplýsingar hafa ekki komið um málið, sem mér sé kunnugt um, af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það hefur líka verið upplýst að bretar sendi hingað njósnaþotur sem sveimi hér lágt yfir okkar löggæsluskipum á fiskimiðunum, njósni um ferðir skipanna og aðstoði við bresk skip að brjóta okkar lög.

Þetta eru auðvitað mjög alvarlegir hlutir, að bretar skuli senda hingað herskip í þessum tilgangi og halda hér uppi njósnaflugi, og það er augljóst að við getum ekki látið okkur nægja að láta aðeins sendiherrann í London mótmæla því á formlegan eða einfaldan hátt. Ég vil því spyrjast fyrir um það hvað hæstv, ríkisstj. hugsi sér að gera í sambandi við þessa atburði? Ætlar hún að láta nægja aðeins einföld mótmæli eða ætlar hún að grípa til einhverra sérstakra ráðstafanna ?

Ég vil benda á að í fyrsta lagi tel ég sjálfsagt að við köllum heim sendiherra okkar frá London og lokum sendiráðinu þar. Í öðru lagi er ástæða til þess að tilkynna bretum að við slitum stjórnmálasambandi við þá ef herskipin fari ekki þegar út úr okkar fiskveiðilandhelgi og hætti að halda hér uppi lögbrotum eða brotum á okkar lögum á þennan hátt. Þá kemur að sjálfsögðu einnig til greina það, sem bent hefur verið á af öðrum, að íslendingar svari aðgerðum af þessu tagi með því að loka fullkomlega NATO-herstöðinni hér og gera NATO ljóst að íslendingar geta ekki verið í þeim samtökum þar sem einn af aðilum þess sendi her á hendur okkar.

Ég vil sem sagt óska eftir því að hæstv. ríkisstj. upplýsi hér á Alþingi hvað hún hugsar sér að gera í þessum efnum. Hér er um svo alvarlegan atburð að ræða að það er óhugsandi annað en að ríkisstj. hafi þegar fjallað um þetta mál. Það hefur sýnt sig þessa daga, síðan átökin byrjuðu á fiskimiðunum að landhelgisgæsla okkar getur komið í veg fyrir veiðiþjófnað útlendinga. Það er alveg gefið mál um þær litlu veiðar, sem átt hafa sér stað að undanförnu af breta hálfu, að þeir mundu ekki halda slíkum leikaraskap áfram og þeir mundu gefast hér upp og við geta haldið uppi okkar lögum ef allar aðstæður væru eðlilegar. Mér er að vísu ljóst að þó að bretar sendi hingað herskip geti þeir ekki haldið hér uppi neinum eðlilegum veiðum. Þá verða þeir að hópa togurunum saman í þrönga hópa, og veiðarnar eru tiltölulega máttlausar á þann hátt og þeir hljóta tiltölulega fljótlega að gefast upp. En við eigum auðvitað að bregðast við á réttan hátt, þegar þannig er að okkur sótt eins og í þessum tilfellum, og sýna að við meinum eitthvað með því sem við erum að gera. Tilkynnum bretum að við köllum okkar sendiherra heim, lokum sendiráðinn þar og tilkynnum um slit stjórnmálasambands ef þeir haldi þessum aðgerðum áfram.

Ég sem sagt ítreka það, að ég óska eftir því að hæstv. ríkisstj. gefi hér yfirlýsingar um það hvað hún hugsar sér að gera frekar en að senda þessi formlegu mótmæli sem skýrt hefur verið frá.