25.11.1975
Sameinað þing: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós að ríkisstj. lítur mjög alvarlegum augum á þá ólögmætu valdbeitingu sem bretar hafa sýnt af sér á íslenskum fiskimiðum. Strax og tilkynning var um það gefin hér í Reykjavík af hálfu breska sendiherrans og í London með orðsendingu til íslenska sendiherrans, þá voru mótmæli uppi höfð, og til áréttingar þeim mótmælum hefur ríkisstj. mótmælt þessu skriflega á þessa lund:

„Ríkisstjórn Íslands mótmælir harðlega þeirri ráðstöfun bresku ríkisstj. að beita herskipum til að vernda ólöglegar veiðar breskra togara innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Hér er um ólögmæta valdbeitingu að ræða sem ekki einungis brýtur í bága við ákvæði samþykkta Öryggisráðstefnu Evrópu í Helsinki, heldur samræmist hún ekki aðild beggja þjóðanna að Atlantshafsbandalaginu. Slík valdbeiting útilokar allar frekari viðræður við ríkisstjórn Bretlands a. m. k uns hin bresku herskip hverfa af Íslandsmiðum.

Að sjálfsögðu munu íslensk varðskip halda áfram að vernda hin íslensku fiskimið eftir því sem unnt er, enda er varðveisla fiskstofnanna við Ísland lífshagsmunir íslensku þjóðarinnar.“

Ég tel ekki rétt á þessu stigi málsins að greina nánar frá þeim ráðstöfunum sem til mála koma og til athugunar eru af hálfu ríkisstj. sem gagnviðbrögð við þessari ólögmætu valdbeitingu og ofbeldisaðgerð. Ríkisstj. mun láta Alþ. í té nánari vitneskju þar að lútandi jafnóðum og málið er kannað og undirbúið, og því vil ég á þessu stigi ekki hafa fleiri orð til svara þeirri fyrirspurn er hv. þm. flutti hér áðan.