26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði hér í miklum undrunar- og hneykslunartón um það að yfirvöld Ríkisútvarpsins hygðust koma í veg fyrir auglýsingar um aðgerðir sem samræmdust lýðræðisvitund þjóðarinnar. Hann gat þess að aldrei áður hefði verið neitað um leyfi til auglýsingar eða neitað að taka auglýsingu frá samtökum sem í væru u. þ. b. 3/4 hlutar þjóðarinnar. Þetta hljómar í fljótu bragði vel, ef mönnum væri ekki fyllilega ljóst að þessir 3/4 hlutar þjóðarinnar hafa ekki gefið neitt umboð til handa stjórnendum launþegasamtaka til þess að beita samtökunum í stórpólitískum tilgangi. Þetta samræmist að mínu viti ekki lýðræðisvitund þjóðarinnar. Þetta er misnotkun á launþegasamtökum þjóðarinnar. Og það sýnir sig best hvað þarna liggur að baki þegar upp standa tveir þm. Alþb. og því miður með formann Alþýðusambandsins í slagtogi með sér. Ég harma — (Gripið fram í). Ég veit ekki textann sem bannaður var, en honum var lýst í máli hv. fyrsta ræðumanns. Og ég hlýddi á texta þeirra auglýsinga sem birtar voru í hádeginu. Aðeins það, að boðað var til á vegum launþegasamtakanna og á vegum einstakra félaga hvers af öðru til útifundar um jafnstórt pólitískt deilumál, það vakti mig til umhugsunar um það, hvar á vegi lýðræði í þessu landi væri statt.

Það er bara svo, að samtök með þúsundir manna innan sinna vébanda eru dálítið annað en fámennt lið manna sem hefur verið kosið til forustu í þessum samtökum. Ég hef litið svo á, og svo mun og gera fjöldi manns í þessu landi, að launþegasamtökin séu fyrst og fremst til þess að berjast fyrir stéttarhagsmunum og fyrir almennum hagsmunum þess fólks sem í samtökunum er, en ekki til þess að beita sér fyrir annan aðilann aðeins í stórpólitískum og mjög viðkvæmum átökum með þjóðinni sjálfri.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. nefndi að allt, sem málið hefði snúist um í þessum auglýsingum, hefði verið það að hvetja þjóðina til samstöðu. Samtökin eða samstarfsnefndin, sem á bak við auglýsingar hinna ýmsu félaga stendur, og ályktanir, sem frá þeirri nefnd hafa komið, eru sannarlega ekki þess eðlis að það sé hægt að segja að það hvetji þjóðina til samstöðu. Með þessum auglýsingum er verið að misbeita verkalýðssamtökum landsins til þess að efla sundrung með þjóðinni.