26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

Umræður utan dagskrár

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. beindi til mín fyrirspurn í tilefni af því máli sem hér er til umræðu. Ég verð því miður að svara honum því, að ég er ekki viðbúinn á þessu stigi að svara spurningu hans, í fyrsta lagi vegna þess að ég hef ekki séð þær auglýsingar, sem hér er um að ræða, og ég hef ekki heldur haft tækifæri til að kynna mér hvernig reglugerð útvarpsins um þetta er háttað eða hvernig framkvæmd í þessum efnum hefur verið háttað. Að sjálfsögðu verður það að liggja fyrir áður en hægt er að fella endanlegan dóm um þetta. Það er ekki heldur mitt sem formanns útvarpsráðs að kveða upp neinn úrskurð um þetta, heldur væri það þannig ef málið færi til útvarpsráðs, að þá yrði það að fella þann úrskurð í heild, og áður en það hefur tekið afstöðu eða málið kynni að koma þangað, þá vil ég ekkert um það segja hver niðurstaðan yrði þar. Ég held að það hafi aldrei komið fyrir í útvarpsráði, ekki svo að ég muni, að svipað mál og þetta hafi komið fyrir þar. Og það er ein ástæðan til þess að ég er óviðbúinn að svara þessari fyrirspurn.

Ég vil hins vegar láta það koma fram alveg skýrt, að ég trúi því ekki að hér sé um neina pólitíska misbeitingu að ræða eða það sé verið að beita hér valdi af pólitískum ástæðum. Ég þekki útvarpsstjórann Andrés Björnsson það vel að ég tel hann manna ólíklegastan til þess að fella úrskurð af pólitískum ástæðum og síst í máli eins og þessu. Ég veit að það eitt mun ráða hans aðgerðum í þessum málum sem að hann álítur að sé rétt og samkv. reglum sem hann á að fara eftir. Og ég hygg að hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, sé alveg reiðubúinn til þess að vitna með mér um þessa afstöðu útvarpsstjóra. Þess vegna mótmæli ég því að hann sé borinn slíkum sökum eins og hafa komið fram í þessum umr. Ef hann hefur komist að þessari niðurstöðu, þá er það vegna þess að hann álítur að það sé rétt samkv. þeim reglum sem hann á að fara eftir, en ekki af pólitískum ástæðum.

Það var minnst hér á fréttastofur hljóðvarps og sjónvarps í þessu sambandi og hvort slík áskorun eins og sú, sem hér um ræðir, ætti að birtast þar. Mín skoðun er sú að hér sé um frétt að ræða sem sjálfsagt sé að segja frá. Í þeim efnum skiptir það ekki máli hvort menn álíta að viðkomandi félagsskapur fari löglega að eða ekki. Þetta er frétt út af fyrir sig sem eðlilegt er að sagt sé frá. Og ég man ekki betur en að í sjónvarpsfréttum í gær væri sagt frá áskorun þeirrar n., samstarfsnefndar sem hefur verið stofnuð um þessi mál. Ég þori ekki að segja hvort það hefur verið í fréttum hljóðvarpsins einnig, en í sjónvarpsfréttum var það, og að sjálfsögðu verður sagt frá því í fréttum því að þetta er frétt, hvaða álit sem menn hafa á þessum verknaði að öðru leyti.

Hins vegar finnst mér rétt að láta það koma fram að reglur um auglýsingar eru miklu strangari en um fréttir. Fréttir eiga að vera opnar, að svo miklu leyti sem hægt er. Öðru máli gegnir um auglýsingar. Það er alls konar þrýstingur frá bæði þrýstihópum og fyrirtækjum um að koma inn atriðum í auglýsingar sem ekki samrýmast því að þær eigi að vera hlutlausar. Þess vegna þurfa þeir starfsmenn útvarpsins, sem um þessi mál fjalla, að vera vel á verði.

Því miður þá get ég ekki á þessu stigi svarað fyrirspurn hv. 5. þm. Vestf. á annan veg en ég hef þegar gert, vegna þess að ég hef ekki haft aðstöðu síðan hann bar þessa spurningu fram til þess að gera mér nægilega ljóst hvað ég mundi segja eða hvað ég mundi úrskurða í þessu máli ef það kæmi til mín.