26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er alveg ljóst hvað hefur gerst í þessu máli. Það er alveg ljóst að stjórnendur Ríkisútvarpsins, sem hafa breytt um skoðun frá deginum í gær, hafa ekki gert það nema vegna þess að einhver aðili, sem þeir hafa talið sér skylt að taka mark á, hefur komið því á framfæri við þá, af hvaða orsökum svo sem það er, að þeim beri að breyta þeirri niðurstöðu sem þeir komust að í gær. Þetta liggur að sjálfsögðu alveg ljóst fyrir vegna þess að frá deginum í gær hefur Ríkisútvarpið breytt þeirri niðurstöðu sem það tók í þessu máli. Hins vegar kemur mér það ekkert á óvart þó að hvorki hv. þm. Þórarinn Þórarinsson né hæstv. menntmrh. vilji við það kannast fyrir þjóðinni að þeir eigi nokkurn hlut að þessu máli. Það kemur mér ekki á óvart. Það kemur mér hins vegar meira á óvart, að það skuli eiga að sakfella okkur, sem höfum athugasemdir við þetta að gera,fyrir það að með þessu séum við að veitast persónulega að útvarpsstjóra.

En það hefur glögglega komið fram í umr. hér úr pontu hvers vegna menn telja að þessi niðurstaða, sem fengist hefur í dag, eigi að gilda. Það kom glögglega fram í máli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur hvers vegna menn hafa komist að þessari niðurstöðu. Það er vegna þess að það er skoðun þeirra sem ráða, hverjir svo sem það eru, að launþegasamtökin í landinu eigi ekki að beita sér í máli eins og landhelgismálinu, slíkt mál sé launþegasamtökunum í landinu óviðkomandi, landhelgismálið komi Alþýðusambandi Íslands ekki við, það sé ekki kjaramál, það sé Alþýðusambandinu, það sé stéttarhreyfingu hins vinnandi fólks óviðkomandi. Þetta er ástæðan fyrir þeirri ákvörðun sem Ríkisútvarpið hefur tekið, og það er lærdómsríkt og íhugunarvert fyrir þjóðina að veita þessum orðum athygli.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir dró það í efa að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar í landinu — rétt kjörnir forustumenn verkalýðshreyfingarinnar í landinu — hefðu umboð frá félagsmönnum sínum til þess að hafa skoðun í landhelgismálinu. En ég leyfi mér að fullyrða að þeir forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa meira umboð frá sínum félögum til þess að hafa þá skoðun, sem þeir hafa í landhelgismálinu, heldur en hv. þm. Sjálfstfl. hafa frá sínum kjósendum til þess að gera það sem þeir eru að gera hér í dag.