15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

5. mál, byggingarlög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Forseti. Um byggingarmál gilda nokkur ákvæði, sumpart um byggingar í þéttbýli, sumpart um byggingar í strjálbýli, en engin almenn byggingarlög eru í gildi hér á landi. Um byggingarmál í þéttbýli eru lög nr. 19 frá 1905, um byggingarsamþykktir, þau lög gilda fyrir verslunarstaði og aðra skipulagsskylda staði, og lög nr. 61 frá 1944, um byggingarmálefni Reykjavíkur. Lögin varða fyrst og fremst stjórn og meðferð byggingarmálefna, en hafa auk þess að geyma nokkur ákvæði um tæknileg efni. Að formi eru einnig enn í gildi lög frá 1857 eða réttara sagt opið bréf um að stofna byggingarnefnd á Akureyri, opið bréf frá 1866 um að stofna byggingarnefnd á Ísafirði og lög frá 1897 um að stofna byggingarnefnd í Seyðisfjarðarkaupstað.

Þessi lög, sem ég nefndi í byrjun, heimila sveitarstjórnum að setja byggingarsamþykktir. 1967 gerðist það að félmrn. gaf út fyrirmynd að byggingarsamþykktum fyrir löggilta verslunarstaði og aðra skipulagsskylda staði og hafa mörg sveitarfélög sett sér byggingarsamþykktir eftir þeirri fyrirmynd.

Um byggingarmálefni í strjálbýli gilda lög nr. 108 frá 1945. Þau eru efnislega sniðin eftir l. frá 1905, nema ákvæðin um byggingarfulltrúa. Skv. þessum l. hafa flestar sýslunefndir sett byggingarsamþykkt fyrir hlutaðeigandi sýslu.

Það hefur lengi verið um það rætt að æskilegt væri að setja heildarlög um byggingarmálefni. Árið 1924 var lagt fyrir Alþ. frv. til byggingarlaga, ítarlegt frv., og var aðalhöfundur þess Guðjón Samúelsson þáv. húsameistari ríkisins. Frv. varð ekki útrætt og mun ekki hafa verið lagt fyrir Alþ. að nýju. 1967 var lagt fyrir Alþ. frv. til byggingarlaga fyrir skipulagsskylda staði sem var samið að tilhlutan félmrn., en það frv. dagaði einnig uppi á Alþ. og var ekki endurflutt.

Með hliðsjón af því hvernig byggingarstarfsemi og byggingarmálefni hafa þróast hér á landi, þá mæla rök með því, að sams konar reglur gildi um byggingarmálefni hvarvetna á landinu hvað varðar stjórn og meðferð byggingarmála og ekki síður að því er varðar tæknikröfur sem talið er rétt að gera til bygginga og annarra mannvirkja. Að sjálfsögðu er rétt að hafa það í huga að staðhættir geta verið í ýmsum byggðarlögum nokkuð mismunandi, þannig að sérákvæði í byggingarsamþykktum er sjálfsagt að heimila fyrir hin einstöku sveitarfélög eða samtök þeirra.

Það var í maímánuði 1973 sem þáv. félmrh. skipaði n. manna til að endurskoða lög um byggingarmálefni og semja frv. til byggingarlaga. Í grg. þessa frv. eru þeir taldir sem þá n. skipuðu, en það voru fulltrúar frá Tæknifræðingafélagi Íslands, frá landbrn., frá Reykjavíkurborg, frá Arkitektafélagi Íslands, frá Verkfræðingafélagi Íslands, frá Byggingafræðingafélagi Íslands, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og frá Skipulagsstjórn ríkisins, en ráðuneytisstjóri í félmrn., Hallgrímur Dalberg, var skipaður form. nefndarinnar. Nokkru síðar var tveimur mönnum bætt við í n., öðrum frá Meistarasambandi byggingarmanna og hinum frá Sambandi byggingarmanna, þannig að alls var n. skipuð 11 mönnum.

Þessi n. starfaði vel að málum, skipaði þriggja manna undirnefnd úr hópi aðalnefndarmanna. Hún kannaði ítarlega gildandi íslensk lög um byggingarmálefni, aflaði sér gagna frá Norðurlöndum um löggjöf þar og kynnti sér að sjálfsögðu hugmyndir og tillögur ýmissa þeirra félaga og samtaka sem nm. voru fulltrúar fyrir og þeir hafa svo aftur rætt ýmsar hugmyndir og tillögur við samtök sín og félög. Niðurstaðan af þessari rækilegu athugun hefur orðið það frv. til byggingarlaga sem hér liggur fyrir þessari hv. deild.

Í l. gr. frv. er mælt svo fyrir að lög þessi skuli ná til alls landsins og er það að sjálfsögðu mikilvægt nýmæli í löggjöf um þessi málefni.

Frv. fylgir svo ítarleg grg., bæði almenns eðlis og um einstakar gr., að ég tel óþarft í þessari framsögu að rekja þetta mál ítarlega. Þess má þó geta að í 4. gr. er gert ráð fyrir því að sett verði almenn byggingarreglugerð og auk þess verði settar sérreglugerðir með ákvæðum um staðla á ýmsum sviðum byggingariðnaðarins. Í þessari gr. er mælt fyrir um hvað í byggingarreglugerð skuli vera. M. a. er svo fyrir mælt, að í reglugerðinni, þessari almennu byggingarreglugerð, skuli skýra orð og hugtök sem þar er fjallað um og orkað geta tvímælis, svo sem varðandi stærðir og byggingarstig mannvirkja. M a. er það nefnt í grg. að ýmis algeng hugtök þurfti að skýra nánar í reglugerð, eins og t. d. hugtökin „fokhelt ástand“ og hvenær hús er „tilbúið undir tréverk“. Það getur stundum valdið nokkrum vafa og ágreiningi hvernig nánar skuli túlka slík og önnur hugtök og æskilegt að hafa um það greinargerð og skilgreiningu í reglugerðinni.

Í 6. gr. frv. er rætt um byggingarnefndir og eru þar nokkur nýmæli. Í sveitarfélögum með fleiri íbúa en 300 skal kosin byggingarnefnd með 3, 5 eða 7 mönnum eftir ákvörðun sveitarstjórnar. Sveitarstjórn kýs menn í byggingarnefnd, aðalmenn og varamenn, skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga, og nefndin skiptir með sér verkum. — Ég vil í þessu sambandi taka það fram að frv. er að öllu leyti lagt fyrir Alþ. eins og það kom frá undirbúningsnefnd að öðru leyti en þessari 1. málsgr. 6. gr., en svo var ráð fyrir gert í tillögu n. að framkvæmdastjóri sveitarfélags skyldi vera formaður byggingarnefndar eða staðgengill hans, en rn. þótti réttara að hafa þetta frjálst, þannig að n. skipti sjálf með sér verkum, sveitarstjórn eða byggingarnefnd gæti sjálf ákveðið hver vera skyldi formaður n. Þetta er eina breyt. sem gerð hefur verið, og hún miðar að því að sveitarstjórn og n. hafi þarna rýmri hendur.

Varðandi sveitarfélög, þar sem íbúar eru færri en 300, segir í 6. gr. að sveitarfélag skuli hafa samvinnu við nágrannasveitarfélög um kosningu svæðisbyggingarnefndar og ráðningu byggingarfulltrúa, enn fremur sé sveitarfélögum, þar sem íbúar eru fleiri en 300, heimilt að eiga aðild að svæðisbyggingarnefnd. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu og það er skýrt svo í grg. n. að í mörgum fámennum sveitarfélögum, litlum sveitahreppum og þorpum, sé byggingarstarfsemi ekki svo umfangsmikil að ástæða sé til að hafa þar sérstaka byggingarnefnd. Þannig er hér gert ráð fyrir að freistað sé samstarfs milli sveitarfélaganna þar sem íbúar eru þetta fáir.

Frv. skiptist þannig í kafla, að 1. kaflinn fjallar um gildissvið laganna, þar sem meginatriðið er þetta, að lögin nái til landsins alls. II. kaflinn fjallar um yfirstjórn byggingarmála, og almenna byggingarreglugerð og byggingarsamþykktir, III kaflinn um byggingarnefndir, IV. um byggingarleyfi, V. um byggingarstjóra, en þar er nokkuð breytt frá því sem verið hefur. Þar er svo ákveðið að við gerð hvers mannvirkis skal vera einn ábyrgur aðili sem nefnist byggingarstjóri og eru svo nánari reglur um það í þessum kafla. Í VI. kafla er rætt um byggingarfulltrúa, VII. um leyfisgjöld, VIII. um viðurlög og í IX. kafla eru gildistökuákvæði.

Í gildistökuákvæðunum vekur það kannske nokkra athygli að gert er ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. jan. 1977, en viss ákvæði þeirra skuli þó koma til framkvæmda smám saman, en að fullu skulu lögin koma til framkvæmda í árslok 1980. Þetta er byggt á því að rétt sé að sveitarfélög og byggingaryfirvöld hafi rúman aðlögunartíma til þess að breyta skipulagi sínu í samræmi við lögin. Hins vegar er svo fyrir mælt í ákv. til brb. að almenn byggingarreglugerð skuli sett innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna.

Ég vil að öðru leyti vísa til hinnar ítarlegu grg. með frv., tel að hér sé um merkilegt mál að ræða sem æskilegt væri að Alþ. gæti fallist á að lögfesta. Í þeirri fjölmennu n. frá hinum margvíslegu samtökum, sem undirbjó málið, var algjör samstaða og n. stendur öll að frv. eins og hún skilaði því frá sér.

Ég legg svo til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.