26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Athugasemdin verður stutt. Við fengum að heyra það áðan hjá formanni útvarpsráðs, formanni þingflokks Framsfl., að honum væri ókunnugt um að útvarpsráð hefði nokkurn tíma þurft að fjalla um ágreiningsatriði varðandi útvarpsauglýsingar af þessari tegund. Þetta veit ég að er rétt. Þegar gengu í útvarpi og sjónvarpi veturinn 1973–1974 látlausar auglýsingar frá samtökum sem kölluðu sig Varið land og sýsluðu um mál sem var vissulega pólitísks eðlis: „Íslendingar, munið undirskriftasöfnunina. Varið land“ — þá var ekki fundið til foráttu þeirri auglýsingu að þar var ekki verið að boða fund. Afstaða útvarpsstjóra, sem er hinn mesti sómamaður, það get ég tekið undir, — afstaða hans í þessu máli er eðli þess óviðkomandi. Þið skuluð bara þurrka af ykkur hræsnissvipinn þess vegna, hv. þm. Þið vitið það jafnvel og ég að ástæðan fyrir breyttri afstöðu útvarpsstjóra frá því í gær til dagsins í dag var sú, að ríkisstj., aðilar, sem hún hefur f hendi sér, beittu áhrifum sínum til þess að koma í veg fyrir að auglýsingin yrði birt. (Gripið frem í.) Hér er um að ræða valdníðslu af tegund sem við könnumst við, þó að henni hafi ekki verið beitt á þessum vettvangi fyrr, — valdníðslu sem ber nokkurn vott um það með hvers konar samvisku stjórnarþm, hér, stjórnarliðið ætlar að ganga til afgreiðslu veiðiheimildar handa vesturþjóðverjum í fiskveiðilögsögunni okkar.