26.11.1975
Sameinað þing: 22. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

Umræður utan dagskrár

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki misnota tímann hér með langri ræðu, hæstv. forseti, en þegar orð hafa fallið hér um verkalýðshreyfinguna á þann veg sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir leyfði sér að gera, þá er erfitt fyrir mann í minni stöðu að sitja lengi í sæti sínu.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði að Sjálfstfl. hefði ekki áhuga á því að banna auglýsingar sem þær sem hér um ræðir, eða frá aðilum sem hér um ræðir. Ég vona að þetta sé hreinskilnislega mælt og hef enga ástæðu til þess að draga það í efa hjá þessum hv. þm. En það var annar þm. flokksins búinn að taka til máls áður og þar kvað við annan tón og hvort þeirra túlkar stefnu Sjálfstæðisfl. í þessum efnum, það kemur síðar í ljós.

Það fer ekkert á milli mála að með þeirri ráðstöfun, sem nú hefur verið gerð með því að banna tilteknar auglýsingar í Ríkisútvarpinu, er beitt ofbeldi gagnvart verkalýðshreyfingunni í landinu. Það er ekkert vægara orðalag sem þar á við. Hér er ekki spurningin um að lagfæra orðalag á auglýsingum. Auðvitað hefði það verið hægt ef orðalagið hefði brotið í bága við reglur Ríkisútvarpsins. Það er ekki um það að ræða, heldur um innihald og efni auglýsingarinnar. Það er það sem er bannað. Það er það veigamikla í málinu.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði að hér væri um að ræða misnotkun á launþegasamtökum og það væru umboðslausir menn sem hefðu verið að taka ákvarðanir og þessar ákvarðanir samræmdust ekki lýðræðisvitund þjóðarinnar. Og hún sagði enn fremur að það væri fyrst og fremst verkefni launþegasamtakanna að berjast fyrir stéttarhagsmunum launþeganna, en ekki að blanda sér í pólitísk mál eins og þau sem hér um ræðir.

Ég veit að ef þessi hv. þm. hugsaði sig betur um, þá sæi hún áreiðanlega að það er erfitt að greina í milli hvað eru stéttarhagsmunir launþeganna og hvað eru hin stórpólitísku mál í landinu. Þetta fer nefnilega yfirleitt alltaf saman. Stórpólitíkin er fyrst og fremst það að takast á um skiptingu auðæfanna í landinu. Það er stórpólitíkin, og það eru fyrst og fremst hagsmunir launþeganna. Það eru líka nú hagsmunir launþeganna í landinu ef svo á að fara fram sem horfir að samningurinn við vestur-þjóðverja verði samþykktur sem mynstur að öðrum samningum sem koma í kjölfarið. Þá er búið að ráðstafa upp undir helmingi af þeim fiskafla sem sérfræðingar okkar og ekki aðeins okkar, heldur einnig breskir — telja að megi veiða hér við land á næstu tímum. Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur það að við verðum að skera niður okkar afla í sama mæli ef við ætlum að taka mark á aðvörunum sérfræðinganna.

Ég ætla ekki að hafa hér mörg orð um. En það er alveg ljóst að það fólk, sem sat á þingi Verkamannasambandsins um síðustu helgi og er fulltrúar einmitt þessa fólks sem á að hafa atvinnu sína af því að vinna við fiskiðnaðinn í landinu, þetta fólk sá ákaflega vel hvert stefndi og það var með algerlega opin augu fyrir því sem það samþykkti algerlega einróma, alveg án tillits til flokkaskiptingar manna á þessu þingi, en þar voru auðvitað menn af öllum flokkum, — samþykkti einróma hina harðorðu ályktun sem þar var gerð. Það var vegna þess að fólk vissi það, það fann það og vissi að það var að berjast fyrir sínum hagsmunum jafnframt því sem það var að berjast fyrir alþjóðarheill.

Ég vil meina það, að þegar slíkt þing samþykkir ályktun eins og ég trúi að hv. alþm. hafi þegar lesið, þá séu það ekki umboðslausir menn sem nú eru að tala fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu. Þeir hafa áreiðanlega sterkt umboð til þess að hvetja til þess að allt verði gert nú til þess að snúa við á þessari óheillabraut og m. a. að taka sér frí á morgun. Það er ekkert ólöglegt við það. Og hér vill enginn við það kannast að hafa vitað um eða staðið að þessum gjörðum Ríkisútvarpsins í dag. Ég ætlaði að minnast hér á kvennafríið og allt auglýsingaflóðið þá, en á nákvæmlega sama hátt er fólk nú hvatt til að taka sér frí frá störfum til þess að mótmæla því, að gerðar verði ráðstafanir sem bókstaflega blasir við að hljóti að rýra kjör fólksins, og ekki síður og alveg sérstaklega að mótmæla ofbeldi bretanna þegar þeir koma nú með sín vopnuðu skip inn í okkar landhelgi.