26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson, sem gegnt hefur formennsku samninganefndar og leitt málið af lipurð og myndarskap, hefur í framsöguræðu sinni gert grein fyrir efni þessarar till. Ég get þess vegna stytt mjög mál mitt og sleppt að minnast á ýmis atriði sem hann gerði skil.

Eftir þeirri lýsingu, sem við fengum á þessu máli hjá hv. síðasta ræðumanni, Lúðvík Jósepssyni, og ýmsum samherjum hans í málinu, utanþings, þá er hér um vont mál að ræða, og þó að hann notaði ekki svo sterk orð, þá höfum við heyrt og lesið um „smánarsamninga“, „svik“ og „landráð“ og fleiri ámóta faguryrði.

Sú spurning kemur að sjálfsögðu upp í huga fjölda manna sem hlusta á þetta: Hvernig stendur á því að ríkisstj. með stuðningi a. m. k. 2/3 hluta Alþingis leggur slíka till. fyrir þing og þjóð ?

Svar mitt er í fyrsta lagi þetta: Þessi samningsdrög miða að því að vestur-þjóðverjar veiði minna á Íslandsmiðum en þeir mundu gera án samninga. Og í öðru lagi miðar samningurinn að því að íslendingum megi takast betur en án samninga að vernda og friða fiskimiðin og hafa stjórn á veiðunum.

Hvers vegna dreg ég þessar ályktanir? kunna menn að spyrja. Ég vil benda á nokkrar staðreyndir.

Um allmörg undanfarin ár áður en deilur hófust mun meðalársafli þjóðverja á Íslandsmiðum hafa verið um 120 þús. lestir. Á árinu 1973 var hann nær 92 þús. lestir og á s. l. ári, 1974, 68 þús. lestir. Landhelgisgæsla okkar hefur, eins og við vitum öll, unnið frábært starf á undanförnum árum. Til hennar berum við fullt traust, og ég tel ástæðu til að votta henni þakkir fyrir dugnað samviskusemi og snarræði. En möguleikum landhelgisgæslunnar eru auðvitað takmörk sett vegna skipakosts og flugvéla. Á s. l. ári, 1974, gat landhelgisgæslan vegna samninganna sem þá voru í gildi við breta, einbeitt sér að því að stugga þjóðverjum af Íslandsmiðum. Samt sem áður veiddu þjóðverjar rösk 68 þús. tonn. Nú eru það ekki 50, heldur 200 sjómílur sem á að verja, og ef ekki er samið þarf að verja þetta stóraukna svæði bæði gegn bretum og þjóðverjum og þá væntanlega einnig öðrum þjóðum. Er það nú líklegt, þegar litið er á þessar staðreyndir að afli þjóðverja mundi minnka við það að hafsvæðið stækkar svo mjög og að landhelgisgæslan þyrfti að fást við skip allra þeirra þjóða sem vildu veiða á Íslandsmiðum, ef hvergi má semja?

Síðasti ræðumaður hélt því fram nú, eins og hann raunar hefur gert oft áður, að það væri óþarft að semja við nokkrar aðrar þjóðir í landhelgismálinu, við gætum hæglega varið okkar landhelgi. Og þrátt fyrir þessar staðreyndir sem liggja fyrir, þá komst hv. þm. svo að orði, að það væri auðvelt að verja landhelgina, ef við beittum okkur eindregið, það væri ekkert að marka það sem gerst hefði á þeim tveimur árum, 1973 og 1974, sem þjóðverjar hefðu veitt, 91 þús. og 68 þús., vegna þess að landhelgisgæslan hefði af sérstökum ástæðum ekki tekið nægilega á. Ég veit, að hv. þm. beinir þessu ekki til landhelgisgæslunnar sjálfrar, heldur yfirstjórnar hennar. Hins vegar sagði hann að landhelgisgæslan hefði nú sýnt hvað hún gæti. M. ö. o.: af einhverjum annarlegum ástæðum frá hinum æðri stöðum hefði landhelgisgæslan ekki haft frjálsar hendur, heldur verði lömuð í tíð þeirrar stjórnar sem þessi hv. þm. var sjútvrh. í. En nú eftir stjórnarskiptin hefur hún sýnt hvað hún getur, þá getur hún tekið á.

Æðsti yfirmaður landhelgisgæslunnar, hæstv. dómsmrh., er sá sami nú og í fyrri stjórn, svo að ef eitthvað er til í þessu sem hv. þm. segir. þá virðast það hafa verið einhver áhrif frá öðrum innan fyrrv. ríkisstj. sem hafi valdið því að landhelgisgæslan tók ekki á, eins og hann nú talar um. Þetta er þung ásökun í garð einhverra í fyrrv. stjórn.

Ég minntist á það, að önnur meginástæða til þess að þessi samningsdrög væru lögð fram og mælt með þeim væri sú, að þau mundu einnig gera okkur auðveldara að skipuleggja og stjórna veiðum á Íslandsmiðum. Vernd og friðun fiskimiðanna er eitt mikilvægasta verkefnið sem við íslendingar eigum við að glíma, og við höfum því miður á undanförnum árum ekki gengið nægilega vel fram í þeim efnum. Þar þurfum við mjög að gæta okkar sjálfra, setja strangari reglur og fylgja þeim betur eftir varðandi landsmenn sjálfa. Með því að semja við vestur-þjóðverja skapast miklu betri tækifæri og möguleikar heldur en án samninga til þess að vernda og friða fiskimiðin. Í samningnum er sérstakt ákvæði um það, að þjóðverjar skuldbinda sig til þess að virða verndar- og friðunarsvæði, og það bæði við þau, sem nú eru í gildi, og þau, sem síðar verða ákveðin. Ef ekki er samið mundu vesturþjóðverjar væntanlega fara sínu fram. Það er viðbúið að þeir mundu þá senda frystitogara á Íslandsmið, en samkv. þessum samningsdrögum skuldbinda þeir sig til að gera það ekki. Þeir mundu væntanlega veiða meira af þorski og þeir mundu ekki telja sig skuldbundna til þess að virða þau verndar- og friðunarsvæði, sem við ákveðum.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, sem hæstv. utanrrh. rakti hér, er m. a. sagt að stofnunin telji mjög mikilvægt að vestur-þjóðverjar muni virða lokun hrygningarsvæða eða svæða þar sem mikið er af ungfiski.

Það er rétt, áður en lengra er haldið að rekja með örfáum orðum aðdraganda að útfærslunni í 200 mílur.

Nú eru rúm tvö ár liðin síðan þingflokkur sjálfstæðismanna varð fyrstur stjórnmálaflokkanna til þess að taka ákveðna afstöðu í þessu máli. Hann gerði um það samþykkt síðari hluta ágústmánaðar 1973 — og síðan sameiginlegur fundur þingflokks og miðstjórnar Sjálfstfl. 30. ágúst 1973 — að lýsa eindregnum stuðningi við 200 mílna fiskveiðilögsögu, en miðað verði við miðlínu milli landa, þar sem vegalengd er minni en 400 mílur, og þingflokkur og miðstjórn telja rétt, að fiskveiðilögsagan verði færð út í 200 mílur eigi síðar en fyrir árslok 1974.

Þegar Alþ. kom saman í okt. sama ár lögðu sjálfstæðismenn fram till. til þál. um útfærslu fiskveiðilandhelgi Íslands í 200 sjómílur miðað við 31. des. 1974. Fyrir þessari till. var gerð ítarleg grein á Alþ. Því miður fann hún ekki þá náð fyrir augum þáv. stjórnarflokka og náði ekki afgreiðslu. Þegar ríkisstj. var mynduð haustið 1974 var þetta mál að sjálfsögðu tekið upp. Vegna tregðu ýmissa manna á þinginu 1973–74 var ekki hægt lengur að miða við þetta tímamark, árslok 1974. En það var tekið upp í stjórnarsáttmálann að landhelgin skyldi færð út í 200 mílur á árinu 1975 eins og gert hefur verið.

Það er athyglisvert í þessu sambandi að sumir, sem nú telja sig sérstaka boðbera og postula þess að ekki megi semja við neinn aðila um neinar veiðiheimildir innan 200 mílna, ekki einu sinni við frændur okkar og vini, færeyinga, þeir voru sumir harla tregir í taumi þegar 200 mílurnar komu á dagskrá. Um svipað leyti og Sjálfstfl. tók þannig upp 200 mílna málið, þá átti hv. þm., sem síðast talaði, Lúðvík Jósepsson, viðtal við blaðið Þjóðviljann um 200 mílurnar og komst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í dag stöndum við í baráttu um 50 mílna landhelgi. Þessi barátta skiptir nú öllu máli. Hitt er allt annað mál, hvort við íslendingar tökum okkur 200 mílna landhelgi einhvern tíma í framtíðinni, þegar slíkt er heimilt samkv. breyttum alþjóðalögum eða að lokinni hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna:

Ekki var nú áhuginn meiri en þessi þá, 1. sept. 1973. Jú, við gætum fært út í 200 mílur einhvern tíma í framtíðinni, réttast væri nú að bíða eftir því að hafréttarráðstefnunni væri lokið.

Í rauninni kemur það enn fram hjá málsvörum og talsmönnum Alþb. að hrifningin yfir 200 mílunum og áhuginn á þeim er nú ekki sérstaklega mikill. Í forustugrein í Þjóðviljanum frá 26. okt. s. l. er skrifað um för okkar hæstv. utanrrh. til London. Þar er aftur og aftur talað um 50 mílurnar, aldrei minnst á 200 mílur. Sá sem les þennan leiðara, gæti haldið að 50 mílurnar væru enn þá í gildi og alls ekki væri búið að lögleiða 200 mílur. Þannig lifa þessir menn, hv. síðasti ræðumaður og hans nánustu, í þeim heimi að 50 mílurnar eru það eina sem máli skiptir.

Í sambandi við útfærsluna í 50 mílur á sínum tíma var ákveðið af Alþ. einróma að leitað skyldi samninga við aðrar þjóðir um umþóttunar- eða aðlögunartíma. Að sjálfsögðu var það einnig ætlunin þegar fært yrði út í 200 mílur. Afleiðingin af þessari ákvörðun Alþingis 1972 var m. a. samningurinn við breta í nóv. 1973. Vegna þess að hv. síðasti ræðumaður vill nú yfirleitt skoða alla samninga um veiðiheimildir í samhengi, þá er rétt að staldra við andartak. Þessi hv. þm. heldur því fram, að tillögurnar, sem nú liggja fyrir, séu fjandsamlegar þjóðinni, þýði alvarlega kjaraskerðingu fyrir þjóðina, hann skorar á stjórnina að taka þessar till, til baka. Það, sem hér er um að ræða, eru veiðiheimildir í tvö ár allt að 60 þús. lestum á ári. Það á að veiða aðallega ufsa og karfa, en þjóðverjar ætla að hætta að stunda þorskveiðar. Hins vegar vita allir, að viðbúið er að eitthvað af þorski komi í netin þegar verið er á öðrum veiðum, en hámark er þó sett 5 þús. tonn á ári.

Með þessum samningi við breta frá því í nóv. 1973 var það hins vegar forsenda samninganna að bretar veiða á ári í tvö ár 130 þús. tonn. Það er öllum vitanlegt að það er aðallega þorskur sem englendingar afla yfir 80%, þannig að með þessum samningi var verið að semja um að láta bretum í té á ári a. m. k. 110 þús. tonn. Þó að skýrsla Hafrannsóknastofnunar Íslands frá síðasta mánuði lægi ekki fyrir í nóv. 1973, þá vissu það allir menn, sem eitthvað fylgdust með að of nærri var gengið fiskstofnunum þá þegar og ekki síst þorskstofninum. Fjölmargir reyndir fiskimenn, skipstjórar, höfðu bent á þetta mjög greinilega. Þetta fór ekki fram hjá neinum. Þess vegna voru ekki út af fyrir sig nein tíðindi, er kæmu öllum að óvörum, það sem birtist í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar. En sú skýrsla var hins vegar vísindaleg staðfesting á því sem marga hafði grunað og raunar margir talið vist. Og þegar maður heyrir nú þennan boðskap leiðtoga Alþb., Lúðvíks Jósepssonar, að það stappi nærri landráðum að semja um allt að 5 þús. tonn af þorski á ári og heildarafla 60 þús. tonn, þá verður mönnum á að spyrja: Hvar stóð þessi sami hv. þm. þegar samningarnir voru gerðir við breta um 130 þús. tonn á ári, að meginhluta þorsk? Það er skemmst frá að segja. að allir þm. Alþb. studdu þennan samning. Ég held að ég hafi hérna nafnakallið hjá mér. Þeir, sem samþykktu þennan samning, voru m. a., með leyfi hæstv. forseta: Eðvarð Sigurðsson, Garðar Sigurðsson, Geir Gunnarsson, Gils Guðmundsson, Helgi F. Seljan, Jónas Árnason, Magnús Kjartansson, Ragnar Arnalds, Svava Jakobsdóttir, og enn fremur sagði Lúðvík Jósepsson já.

Það er eðlilegt, að menn spyrji hvernig á þessu stóð. Það hét þá á fínu máli frá Alþb.-mönnum að þeir vildu ekki fórna stjórnarsamstarfinu. Þetta heitir á hreinni íslensku að Lúðvík vildi ekki missa ráðherrastólinn. Shakespeare skrifaði einu sinni leikrit um Ríkharð III konung breta. Þegar hann í sinni síðustu orrustu var orðinn aðþrengdur og hafði misst hestinn sinn, þá kallaði hann: Konungsríki fyrir hest. Lúðvík Jósepsson bauð bretum væna sneið af þorskríki Íslands fyrir einn stól.

Þetta var það sem gerðist í nóv. 1973. En nú er það gagnrýnt af þessum hv. þm., fyrrv. sjútvrh., að 60 þús. tonna afli til handa vesturþjóðverjum sé fásinna.

Eftir að Alþb.-menn höfðu staðið að samningunum við breta, þá var haldið áfram að reyna að semja og þá við þjóðverja. Og í marsmánuði 1974 skrifaði sjútvrh. Lúðvík Jósepsson bréf til utanrrh. Bréfið er dags. 19. mars 1974. Þar leggur hann fram nýjar till. um veiðisvæði til handa þýskum togurum á Íslandsmiðum. Hann segir að þessar nýju till. séu gerðar á grundvelli þess að samkomulag takist um útilokun þýskra frysti- og verksmiðjuskipa, — sem nú hefur tekist, — og síðan segir: „Gert er ráð fyrir að 48 þýskir togarar aðrir fái veiðiheimildir og að árlegur hámarksafli þeirra fari ekki fram úr 80 þús. tonnum.“ 19. mars 1974 lagði sjútvrh. því til að samið yrði við þjóðverja um 80 þús. tonna afla á ári. Nú á hann ekki nægilega sterk orð til að hneykslast á því að lagt sé til að semja um 60 þús. tonn. Í hans till. var ekki minnst á þorskveiðar, enginn hámarksafli varðandi þorsk. Nú eru þó mjög þröngar skorður við því settar.

Varðandi veiðisvæðin, sem hér hefur borið töluvert á góma og verið gagnrýnd, er rétt að víkja að þeim. Hins vegar get ég haft þau orð færri vegna hinnar ítarlegu grg. hæstv. utanrrh. þar um. En ég vil gjarnan að þingheimur viti um það, hvað boðið hefur verið á ýmsum tímum af veiðisvæðum. Í þessu boði, sem sjútvrh. fyrrv. stóð að í marsmánuði 1974, var gert ráð fyrir að veiðisvæði innan 50 mílna væru 54 þús. ferkm. Í þeim till., sem samninganefnd íslendinga stóð að í okt. 1974, voru veiðisvæði innan 50 mílna 42 þús. ferkm. Þær till. náðu ekki fram að ganga. Samkv. þeim till., sem hér liggja fyrir, munda veiðisvæði þjóðverja innan 50 mílna vera 25 þús. ferkm, m. ö. o. ríflega helmingi minni en í till. fyrrv. sjútvrh. frá 19. mars 1974. Til fróðleiks má svo upplýsa að það svæði, sem bretar fengu með samningunum 1973 að veiða á innan 50 mílna, nam 132 þús. ferkm.

Í morgun kemst málgagn Alþb. svo að orði: „Þjóðverjum ætluð öll veiðisvæði sem þeir fóru fram á.“ Þetta er með feitu letri sett á forsiðu blaðsins. Ekkert getur verið fjær sannleikanum en slíkar fullyrðingar. Kröfur þjóðverja voru í upphafi þessara samningaviðræðna í rauninni þær sömu og í fyrra. Síðan hefur það gerst, að samninganefndin hefur fengið því áorkað að veiðisvæðin hafa minnkað svo stórlega sem þessar tölur bera vott um. Það eru því gersamlega staðlausir stafir sem málgagn Alþb. heldur þarna fram.

Það kom fram í máli hv. 2. þm. Austf., Lúðvíks Jósepssonar, og einnig utan þings, að þessi samningur, sem hér liggur fyrir, mundi þýða almenna, stórfellda kjaraskerðingu. Og annar hv. þm. Alþb. sagði hér í dag utan dagskrár að með þessum samningi og afleiðingum hans væri búið að ráðstafa helmingnum af öllum fiskafla Íslands á næstu árum. Það er auðvitað hægt að viðhafa svona ummæli ef menn hafa þann háttinn á að búa sér sjálfir til falskar forsendur, en allt er þetta byggt á röngum tilbúnum forsendum. Það er byggt m. a. á þeirri röngu forsendu, að ef ekki yrði samið, þá mundi ekkert útlent fiskiskip veiða einn einasta ugga hér við land. Þegar menn renna augum yfir það, sem gerst hefur á undanförnum árum, þá vita menn náttúrlega að slíkt er fásinna. Og þrátt fyrir það að hv. síðasti ræðumaður endurtaki fyrri fullyrðingar frá ráðherradómi sínum um að það þurfi ekki að semja við neinn, vegna þess að við getum varið landhelgina og stuggað öllum útlendingum burt, þá hefur reynslan sýnt að ekkert af þessu hefur staðist. Hann hefur sjálfur viðurkennt það í verki. Á sama tíma sem hann hélt því fram að bretar hefðu tapað þorskastríðinu og væru að hverfa af Íslandsmiðum, þá greiddi hann við nafnakall atkv. með því að veita þeim heimild til þess að veiða 130 þús. tonn á ári í tvö ár.

Það er rétt í þessu sambandi að bera fram eina spurningu. Svo er mál með vexti, að í viðræðum við vestur-þjóðverja voru viðstaddir fulltrúar frá Alþýðusambandi vestur-þjóðverja sem haft hefur samband við Alþýðusamband Íslands um þessi mál. Þar hafa gengið bréfaskipti á milli. Ekki síst vegna þess að forseti Alþýðusambands Íslands hefur gerst þátttakandi í samstarfsnefnd svokallaðri, sem berst gegn því að veita nokkrum erlendum þjóðum veiðiheimildir innan 200 mílna, — og hann hefur nú tekið hér sæti á Alþ., — þá held ég að það væri fróðlegt fyrir þingheim að fá að heyra um efni þeirra bréfaskipta, sem gengið hafa á milli Alþýðusambands Íslands og Alþýðusambands vestur-þjóðverja í sambandi við þetta mál.

Herra forseti. Ég mun nú ljúka máli mínu. Ég vil aðeins taka það fram að lokum, að þegar dregin eru saman meginatriði þessa máls og litið á hverjir eru kostir þessara samningsdraga þá má í fyrsta lagi nefna það, að frysti- og verksmiðjutogarar þjóðverja fá engar veiðiheimildir, fara út fyrir 200 mílur, en það var kannske fyrst og fremst á þessu atriði sem samningar áður fyrr strönduðu. Í öðru lagi má benda á það, að vestur-þjóðverjar hætta þorskveiðum, en það er eins og kunnugt er viðkvæmasti fiskstofninn og um leið sá langsamlega mikilvægasti fyrir íslendinga sjálfa. Í þriðja lagi er nú lagt til að semja um 60 þús. tonna hámarksafla og er það töluvert lægra en áður hefur verið talað um og jafnvel boðið fram af Íslands hálfu. Í fjórða lagi eru togarar færri nú en áður. Í fimmta lagi eru veiðisvæðin, sem þjóðverjar fá, miklu þrengri en áður. Í sjötta lagi, þótt tollalækkunin samkv. hinni margumtöluðu bókun 6 komi mót von okkar ekki til framkvæmda nú, — náttúrlega höfðum við vonast til þess að það tækist að ná því fram, en það tókst ekki, — þá hafa vestur-þjóðverjar heitið að beita sér fyrir því af alefli, að þessi tollalækkun komi til framkvæmda. Í sjöunda lagi: Þegar bretar hafa sýnt okkur slíkt ofríki að senda hingað herskip, þá munu samningar við vestur-þjóðverja styrkja okkur í því stríði. Og loks er rétt á það að minnast, að hafréttarráðstefnunni er ekki lokið, og þó að líkur séu til þess að hún gangi að óskum okkar íslendinga, þá eru þar vissar hættur í vegi. Ef íslendingar semja ekki við neina þjóð, þá telja hinir fróðustu menn á þeirri ráðstefnu hættu á að þeirri till., sem nú liggur fyrir um rétt strandríkis, verði spillt, t. d. með einhvers konar gerðardómsákvæðum, í stað þess að samkv. þeirri till., sem nú liggur fyrir ráðstefnunni, er gert ráð fyrir því að strandríkið ákveði sjálft hvernig ráðstafa skuli veiðum innan 200 mílna. Þeir sem fróðastir eru í þessum efnum, telja að við mundum með því að samþykkja þessi drög að samningum styrkja stöðu íslendinga á hafréttarráðstefnunni.

Ég vil undirstrika það að lokum, að vitanlega er stefna okkar sú, að sem allra fyrst ráði íslendingar einir yfir fiskimiðunum umhverfis landið. Hins vegar hefur okkur íslendingum verið það ljóst, þegar við höfum stigið skref og náð áföngum í þessum málum á undanförnum árum, að það er ekki hægt með einu pennastriki að vísa öllum útlendingum af miðunum. Reynslan hefur sýnt að vissa samninga, vissan aðlögunar- og umþóttunartíma hefur þurft. Það er skoðun ríkisstj , að fyrir hagsmuni Íslands sé hyggilegt að gera þennan samning við vestur-þjóðverja og að slík samþykkt muni færa okkur nær því marki, sem við stefnum að hið allra fyrsta, að íslendingar ráði einir yfir öllum fiskimiðum umhverfis landið.