26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Enn eitt þorskastríð er hafið, af því að við íslendingar höfum stigið lokaskref í þeirri baráttu, sem eru óskoruð örlög okkar kynslóðar, að frelsa hafið umhverfis okkur, landgrunnið, sem er samvaxinn hluti af landinu. Bretar hafa í þriðja sinn á 20 árum sent herskip sín okkur til höfuðs, til þess að vernda ólöglegar veiðar breskra togara og ögra íslenskri löggæslu. Við höfum áður þurft að þola ofbeldi um sinn, en ekki gefist upp fyrir því, heldur staðið á rétti okkar og svo munum við nú enn gera. Fyrri innrásir breta af þessu tagi reyndust óviturlegar frá þeirra sjónarhóli, — herhlaup sem ekki náðu árangri.

Slíkar deilur sem landhelgismálið verða nú á tímum ekki leystar með valdi. Bretar hafa reynt vopnað ofríki gegn okkur tvisvar sinnum og tapað í bæði skiptin. Nú reyna þeir enn og þeir munu enn tapa þessu stríði.

Alþfl. stendur heils hugar með hörðustu mótmælum gegn framferði breskra herskipa og njósnaflugvéla í íslenskri landhelgi og mun styðja hvers konar einarðlegar gagnaðgerðir sem að bestu manna yfirsýn virðast líklegar til þess að koma málstað okkar að gagni. Við Alþfl.-menn höfum þegar á flokksþingi fyrir fáum dögum sent starfsliði Landhelgisgæslunnar kveðjur og óskir um að því farnist vel í hættulegum skyldustörfum sínum. Við erum sannfærðir um að þjóðin stendur sem einn maður að baki slíkra óska.

Alþfl. hefur ávallt verið flokkur friðar og samkomulags í alþjóðaskiptum lýðveldisins, sé þess kostur með fullri sæmd, og það er flokkurinn í eðli sínu enn. Í samræmi við þetta hefur Alþfl., bæði þegar hann hefur setið í stjórn og verið í stjórnarandstöðu, samþykkt landhelgissamninga til skamms tíma, þegar það hefur virst vera hagkvæmt fyrir þjóðina, og má raunar minna á að allir flokkar þingsins hafa á einhverjum tíma samþykkt slíka samninga. En við núverandi aðstæður hefur Alþfl. þó markað sér þá stefnu að snúast gegn fyrirhuguðum samningum við erlend ríki um veiðihlunnindi í landhelginni, og er sú ákvörðun byggð á veigamiklum málefnalegum ástæðum. Skal ég nú nefna nokkrar þeirra, sem ég tel vera þyngstar á vogaskálum.

Enda þótt rætt hafi verið um verndun fiskstofna allt frá upphafi landhelgismálsins, hefur það aldrei verið útbreidd og vísindalega rökstudd skoðun fyrr en á þessu ári að mikilvægustu botnlægu fiskstofnarnir væru þegar ofveiddir og í alvarlegri hættu. Nú er í fyrsta sinn talað opinberlega og í fullri alvöru um að skammta hverri verstöð innanlands ákveðinn kvóta af þorski, ýsu, ufsa, karfa og e. t. v. fleiri tegundum. Þegar svona er komið, teljum við glæfralegt óráð að veita öðrum þjóðum verulegt aflamagn með samningum, jafnvel innan 50 mílna. Þess vegna er Alþfl. á móti samningunum við vestur-þjóðverja. Ef ríkisstj. fær nú vilja sínum framgengt um samninga þessa teljum við mjög líklegt að það muni reynast undanfari annarra samninga við 4–7 þjóðir, og gæti þá leyft aflamagn komist upp í eða yfir 150 þús. lestir. Íslendingar geta veitt allt þetta magn sjálfir og þurfa þess, það mundi frá okkur sjálfum tekið. Megum við við slíkri fórn, eins og efnahag okkar er komið í dag? Ég held ekki. Þess vegna er Alþfl. á móti samningunum við vestur-þjóðverja.

Meginnauðsyn okkar, sem gæti hugsanlega réttlætt einhverjar fórnir, er að fá aflétt þeim refsitollum á íslenskar afurðir sem Efnahagsbandalag Evrópu hefur beitt okkur og nú kosta okkur ærið mikið fé. Þetta takmark næst ekki með samningunum sem hér liggja fyrir. Um það er allt í óvissu. Þess vegna er Alþfl. á móti samningunum við vestur-þjóðverja, eins og þeir liggja nú fyrir.

Áður fyrr hefur óbein eða bein viðurkenning á útfærslu okkar verið talin meginkostur við svo til hvern landhelgissamning sem gerður hefur verið. Nú veita þjóðverjar hvorki óbeina né beina viðurkenningu á 200 mílunum, heldur er beinlínis tekið fram í samningunum að svo sé ekki gert. Lágmark hefði verið að láta þetta atriði liggja ónefnt milli hluta.

Að lokum tel ég að þessir samningar geti haft slæm áhrif á málstað okkar á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna með því að ýta undir hugmyndir þjóðverja um að þeir og aðrar þjóðir, sem hafa svipaða landfræðilega aðstöðu og þeir, fái til frambúðar veiðiheimildir í íslenskri landhelgi og hjá öðrum strandríkjum. En það er einmitt liður í stefnunni sem þeir berjast fyrir á þeim vettvangi. Af þessum ástæðum er Alþfl. á móti samningum við vestur þjóðverja, og mætti raunar telja ýmsar fleiri sem ég kann að koma að síðar.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um sjálf samningsdrögin sem hér liggja fyrir. Ég er sammála því, sem forsrh. hefur nokkrum sinnum sagt, að það muni hafa yfirleitt góð áhrif meðal annarra þjóða ef íslendingar reynast vera fúsir til þess að ræða um þessi mál við aðra sem hafa á þeim áhuga og telja sig eiga hér hagsmuni. En það er um margt að tala, og það er allt annað að ræða við aðra heldur en að ganga að samningum eins og þeim sem Alþ. hefur nú fengið til úrskurðar.

Ein meginspurningin í sambandi við samninginn sem heild er sú, hvort þjóðverjar mundu veiða meira án samningsins. Ég vil leyfa mér að draga mjög í efa að svo sé, þó að því sé haldið fram fullum fetum. Við megum ekki gleyma því að ýmis ákvæði, alþjóðlegir samningar eða samningar milli tveggja þjóða eða jafnvel ákvarðanir stjórnvalda hjá einni og sömu þjóð um ákveðið aflamagn, sem veiða megi, standast yfirleitt ákaflega illa. Á síðustu 2–3 dögum höfum við heyrt fréttir t. d. frá Danmörku þar sem viðurkennt er að danir hafi farið yfir þann alþjóðlega kvóta sem þeir gengust undir í Norðursjónum. Vitum við það ekki vel, sem höfum viðurkennt opinberlega að okkar eigin sjómenn fóru yfir síldarkvótann þegar þeir fengu slíkan kvóta í fyrsta skipti eftir mörg ár? Stendur það ekki með feitu letri í Morgunblaðinu í dag að s. l. ár hafi bretar veitt 147 þús. lestir hér við Ísland eða 17 þús. umfram þær 130 þús. sem um er talað? Ég vil því ekki fallast á þá röksemd að við þurfum að fórna svo miklu til þess að draga úr veiðum þjóðverja.

Ef litið er á þau atriði, sem eru í samningnum eða réttara sagt í þeirri orðsendingu sem utanrrh. okkar mun senda þjóðverjum og Alþ. er ætlað að staðfesta, reka menn strax augun í það, að í fyrsta lið er gert ráð fyrir að markalínur hinnar nýju landhelgi geti breyst, og mun þar vera átt við yfir markalínur 200 mílnanna ef ég hef skilið það rétt, hugsanlegar breytingar á þeim gagnvart Grænlandi og Jan Mayen. Hér er í raun og veru um að ræða viðurkenningu á því að þessi mál hafi verið illa unnin, ef þegar er farið að festa það í milliríkjasamkomulag að við reiknum með að þurfa að breyta línunum. Það er raunar vitað mál að bæði danir og norðmenn hafa mótmælt því hvernig þessar línur voru ákveðnar og dregnar, þó að þeir sýni okkur þá vinsemd og kurteisi að tala opinberlega vel um stöðu okkar og ráðast ekki á gerðir okkar.

Aflamagnið, 60 þús. tonn, hef ég þegar nefnt. Það er talað um að það sé allt annað að semja við þjóðverja um þessi mál, af því að þeir veiði karfa og ufsa. En þær skýrslur, sem fyrir liggja og hér hafa verið gerðar að umtalsefni og ég þarf ekki að eyða löngum tíma í að rekja, af því að hv. þm. þekkja þær allir, segja okkur að karfi og ufsi séu ofveiddir stofnar líka. Ofan á það bætist að ef við verðum, eins og allar líkur eru á, að draga úr sókn t. d. í þorskstofninn, þá er ekkert líklegra en við verðum, ef við mögulega getum, að sækja harðar í karfa og ufsa sem e. t. v. eru ekki eins illa komnir og þorskstofninn er. En ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, að reynslan sýnir að slíkar samningatölur um fiskmagn standast ekki, og það er algengt að fiskimenn annarra þjóða og raunar okkar eigin líka taka meira ef þeir mögulega geta.

Eftir því sem ég hef komist næst munu veiðisvæðin hafa verið það sem síðast var rætt um í þessum umr., þó að einhverjar hugmyndir um þau hafi verið komnar á blað áður, eftir því sem fram kom hjá síðasta ræðumanni. Ég vil benda á að einmitt á þremur stöðum, þar sem ég tel allra viðkvæmast, er þjóðverjum hleypt inn fyrir og það allverulega inn fyrir 50 mílurnar. Er alveg sérstök ástæða til að mótmæla þeim hluta, því að svo til öll andmæli gegn veiðihlunnindum útlendinga í hinni nýju 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar hafa verið sett fram með því skilyrði að það væri allt annað mál að ræða um eitthvað utan 50 mílnanna. Ég hef sagt það oft og tíðum og það gefur ástæðu til þess að mótmæla alveg sérstaklega þeim svæðum, þar sem þjóðverjum er hleypt inn fyrir 50 mílur, og verður raunar fróðlegt að sjá hvernig þau kort líta út þegar samningar við breta birtast.

Talað er um verndarsvæði og að þjóðverjar ætli sér að hlíta öllum verndarsvæðum sem við íslendingar setjum okkur sjálfir. Þetta hljómar ákaflega vel og er auðvitað virðingarvert að þeir skuli lofa okkur að þeir skuli virða það, ef við ákveðum verndarsvæði til þess að hlífa ungviði og uppeldisstöðvum fiskstofnanna. En á síðustu missirum hefur mikið verið talað um að hegðun fiskstofnanna sé þannig að það geti verið nauðsynlegt að setja með stuttum fyrirvara verndarsvæði á tilteknum stöðum til tiltölulega stutts tíma. Við höfum nú miklu betri aðstöðu en áður til þess að fylgjast með hegðun stofnanna, þannig að það er talað um þetta sem skynsamlega stefnubreytingu. En þjóðverjar hafa skilyrði fyrir því að gangast inn á að viðurkenna þessi svæði okkar. Það verður að láta þá vita, og ef við ætlum að setja slík svæði með stuttum fyrirvara, þá getur verið að það verði ærið erfitt í framkvæmd, þegar boðin eiga að fara úr sjútvrn. hér í utanrrn., þaðan til Bonn og til þýska utanrrn., þaðan yfir til þýska landbúnaðar- og fiskveiðaráðuneytisins og þaðan í einhverjar stofnanir sem væntanlega koma boðunum til skipanna sem eru að veiða við Ísland. (Gripið fram í.) Þetta er ærið þungt í vöfum, og sakar ekki þó að það komi fram að þetta er ekki slík dýrð eins og hv. talsmenn samningadraganna hafa viljað vera láta. Þeir tala um þetta sem hreint ákvæði, sem það þó ekki er, og ummæli mín eru fyrst á þá lund að þetta ákvæði er erfitt í framkvæmd og er því ekki eins jákvætt og hér hefur verið látið í ljós.

Minnst hefur verið á að í skýringunum á till. og í ræðum hæstv. ráðh. er talað um þýska ísfisktogara, en þeir eru ekki nefndir því nafni í samkomulaginu, þó að þeir séu að vísu nafngreindir í fskj. Hitt er mjög alvarlegt mál, að á vissu tímabili var talað um að hafa eitthvert ákvæði um fiskmjöls- og lýsisvinnslu um borð í þessum togurum, og ég veit ekki betur en að tæki til þess séu í þeim mörgum. Úr því að þetta fellur niður og ekkert ákvæði er um það, þá er ómögulegt annað en að benda á þá hættu að togararnir geti unnið fiskmjöl og lýsi skv. þessum samningum og þá e. t. v. ekki aðeins úr úrgangi eðlilegs afla heldur geta þeir malað smáfisk eins og þeim sýnist. Og ekki er ljóst hvort heildarmagnið, sem þannig yrði unnið, verður vegið og talið með í 60 þús. tonnunum.

Ef litið er á bréfin, sem þjóðverjar ætla að skrifa hæstv. utanrrh. á móti hans bréfi, þá eru þar tvö efnisatriði. Hið fyrra byrjar á mörgum fallegum orðum um okkur íslendinga, þessa vesalinga sem allt eiga undir sjónum og fiskinum, en síðan kemur augljós yfirlýsing um að þessi erindaskipti hafi engin áhrif á afstöðu viðkomandi ríkisstj. til hafréttarmála. Þetta hef ég þegar nefnt og tel mjög neikvætt atriði. Með þessu eru þjóðverjar að tryggja sig fyrir því að við getum á nokkurn hátt gagnrýnt þá eða veitt þeim aðhald skv. þessum samningi í baráttu þeirra á hafréttarráðstefnunni, en þar eru þeir tvímælalaust í hópi fremstu andstæðinga okkar. Ég hef setið margar þessar ráðstefnur, en sjaldan liðið eins illa og þegar ég horfði á fulltrúa vestur-þjóðverja og austur-þjóðverja, sem sátu hlið við hlið, og hlustaði á þá flytja svo að segja sömu ræðuna báða, ræður sem voru 100% neikvæðar fyrir baráttu okkar, og það er ákaflega ánægjulegt fyrir hæstv. utanrrh. að fá bréf frá þjóðverjum um að þeir ætli sér ekki að breyta neinu í þessu efni.

Í hinu þýska bréfinu mun væntanlega verða klásúla um 5 mánaða frestinn sem hér hefur verið ræddur, þ. e. a. s. ef bókun 6 varðandi viðskiptasamninga okkar við Efnahagsbandalag Evrópu tekur ekki gildi innan 5 mánaða, verði hægt að fresta þessu samkomulagi öllu. Í raun og veru þýðir þetta ákvæði að ríkisstj. gefur sjálfri sér og bretum 5 mánaða frest til þess að ná samkomulagi, því að ef samkomulag næst ekki við breta og þar af leiðandi fæst engin leiðrétting á viðskiptum okkar við Efnahagsbandalagið og bandalagsríkin, þá tel ég alveg fráleitt að ríkisstj. noti ekki þetta ákvæði og fresti þessum samningum um óákveðinn tíma eftir 5 mánuði. Báðir aðilar, sem að þessu samkomulagi standa, hljóta að vera nokkuð vissir um að það verði búið að ganga frá samningum okkar við breta og auðvitað við belgíumenn, sem munu vera mjög nærri, svo að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því. Ég tel rétt að við gerum okkur ljóst að þetta samningsákvæði er okkur mjög þungt í skauti. Það er ekki rétt að nefna eingöngu ísfisk sem við ættum auðvitað að vinna sem allra mest heima í okkar fiskvinnslustöðvum. Ég get nefnt t. d. rækju og rækjuveiði sem er mjög þýðingarmikil um stóran hluta landsins, en hinir hækkandi refsitollar Efnahagsbandalagsins hafa einmitt komið mjög þungt niður á rækjuveiðum eða réttara sagt á sölu rækjuafurðanna.

Þá kem ég að því að það er ógerningur að líta á þetta samkomulag nema sem hluta af heild. Ég hef þegar nefnt 5 mánaða ákvæðið sem mun vera að ósk íslendinga og er mjög óvenjulegt, en má sjálfsagt finna á því ýmsa kosti frá sjónarmiði hæstv. ríkisstj. Ef litið er á þessi mál í heild, bæði 5 mánaða ákvæðið varðandi Efnahagsbandalagið og það sem vitað er um stöðu okkar gagnvart öðrum ríkjum, er augljóst að við getum átt von á að samið verði við mörg önnur ríki í kjölfarið, eftir að þessum samningum er lokið.

Belgíumenn hafa komið vel fram við okkur áður og okkur var mikils virði að þeir voru reiðubúnir til að gera fyrri samning og ganga fram fyrir skjöldu Efnahagsbandalagsríkjanna og annarra Evrópuríkja og ganga lengra í viðurkenningu en nokkurt annað ríki sem við höfum samið við, hefur gert. Þeir vilja fá að halda áfram veiðum, að vísu helst með óbreyttu magni, þó að skipum hafi fækkað, en þar mun vera tæplega 10 þús. tonn, en tala þó um 8 þús. og fá vafalaust eitthvað örlítið þar fyrir neðan.

Norðmenn hafa á þessum tíma lagt fram óskir um að fá undanþágur fyrir stærri skip en þeir hafa fengið hingað til, þó að mér sé ekki kunnugt um hvaða aflamagn hefur verið talað um í því sambandi.

Færeyingar skipa sérstakan sess í huga okkar, og er að sjálfsögðu erfitt að gera upp við sig hvernig framtíð samskipta okkar við þá varðandi landhelgismálið á að verða. Margir hafa gagnrýnt það að færeysku togararnir, sem veiða og salta, jaðri við það að geta talist verksmiðjutogarar, þó að vinnsluaðferðirnar séu frumstæðari en í þýsku verksmiðjutogurunum. Og ekki er hægt að ganga fram hjá því að aflamagnið, 20 þús. tonn, er töluvert mikið og þar af munu um 12 þús. tonn vera þorskur.

Þá eru eftir spurningar varðandi austurþjóðverja, pólverja og sovétmenn. Staðan mun vera sú, að bæði pólverjar og sovétmenn hafa hreinlega mótmælt 200 mílna landhelginni og eru einu þjóðirnar sem lagt hafa fram formleg mótmæli. Ég hef heyrt einhvers staðar að Sovétríkin óski ekki einu sinni eftir að tala við okkur, vegna þess að sovétmenn líti svo á að með því einu að ræða við okkur um 200 mílurnar hafi þeir rétt okkur einhvern part af litla fingrinum þ. e. a. s. veitt okkur einhvers konar tegund af viðurkenningu. Austur-þjóðverjar hafa hins vegar ekki mótmælt. Nú hafa veiðar þessara þjóða verið æðimisjafnar frá ári til árs, hafa hoppað upp úr því að vera kannske 1–2 þús. tonn og upp í 15-20 þús. tonn. Ekki kann ég skýringar á þessu, nema manni kemur til hugar að veiðum þeirra á Norður-Atlantshafi er yfirleitt lýst þannig að þeir sigli í stórum flotum með móðurskip og nánast þurrki upp heil svæði, en geta svo kannske komið til þeirra aftur ef fiskstofnarnir rétta sig við. Gæti þá verið að þau árin, sem slíkir flotar hafa verið á okkar svæði, hafi aflamagnið hlaupið upp, en þá munar líka um það. Eitt er víst, að tvær þessara þjóða, austur-þjóðverjar og pólverjar, munu eiga von á því að við þá verði rætt um samninga, skal ég ekkert um það fullyrða hvort gengið verður fram hjá þeim algjörlega nú, eins og gert hefur verið áður, eða hvort verður samið við alla þá sem sannanlega hafa veitt á Íslandssvæðinu.

Ég get ekki skilist við þessi mál án þess að láta í ljós enn einu sinni og á þessum stað undrun og andstyggð á því hversu afstaða breta í öllum þessum samningum hefur verið harkaleg og furðuleg. Þeir byrja á því að heimta óbreytt fiskmagn og tala um 10 ár. Þetta er eins og steinaldarmenn sem koma til samninga og bjóða slík skilyrði til þess að ræða um. Hattersley þykist vera sveigjanlegur, en ekki er það mikil sveigja sem á honum hefur sést enn þá. Hún þarf væntanlega að verða töluverð til þess að hann nái því sem sýnilega er þó markmiðið, bæði hjá honum og ríkisstj. okkar, að samið verði.

Rætt hefur verið um það hvaða áhrif þessi samningagerð við vestur-þjóðverja kunni að hafa á hafréttarráðstefnuna og störf hennar. Ég skal játa að þau mál eru öll svo flókin og viðhorf manna víðs vegar um heim svo ólík að erfitt er að segja fyrir eða spá um hver þessi áhrif kunna að verða. Ég held að varla verði hægt að gera ráð fyrir að áhrifin af þessum málum okkar verði hin sömu á nema tiltölulega litla hópa þátttökuþjóða. En í fyrsta lagi tel ég, að svo alvarleg deila sem nú er risin með þátttöku herskipa og herflugvéla, — deila sem vekur athygli um allan heim, hljóti fyrst og fremst að ýta undir alla hugsandi menn, sem :aka þátt í þessari ráðstefnu, og þær ríkisstj., sem þar eiga aðild að, hvað snertir það að hraða vinnu ráðstefnunnar.

Nú er það svo, að fiskveiðimál eru ekki deilumál og valda ekki erfiðleikum aðeins hér við Ísland. Það er á svo mörgum stöðum öðrum í heiminum, suður í Norðursjó og víðs vegar annars staðar, og allt þetta hlýtur að hafa þau áhrif að þátttökuþjóðirnar skilji það og sjái, að knýjandi nauðsyn er á því að að finna botn í þessi mál sem allra fyrst, að ljúka því verki sem nú þegar er langt komið. Ég hygg að það megi telja þær þjóðir á fingrum sér sem beinlínis hafa það að stefnumarki og telja hagsmuni sína að hindra að ráðstefnan yfirleitt nái nokkrum árangri, en þær eru líka til. Ég geri því ráð fyrir að því meiri ýfingar sem eru út af fiskveiðum og öðrum hafréttarmálum, því meiri pressa verði lögð á að hraða störfum hafréttarráðstefnunnar og ljúka þeim sem fyrst.

Komið hafa fram hótanir um að það muni leiða til gerðardóms ef við viljum ekki semja við nágranna okkar. Ég skal ekkert um það segja. En sem betur fer hefur ekki verið um það talað enn sem komið er, og ég er ekki viss um að okkar mál muni ráða úrslitum hvað það snertir, vegna þess að það eru svo margir aðrir hagsmunir sem líka koma við hafréttarmálum. Hitt er augljóst, að þær hættur, sem við munum fylgjast best með og hafa áhyggjur af, eru varðandi það, hvort 200 mílna efnahagslögsögunni muni fylgja einhver skilyrði, sem við eigum erfitt með að sætta okkur við. Fyrst í stað héldum við, að þessi skilyrði mundu verða svokallaður sögulegur réttur. Slíkur réttur hefur verið viðurkenndur á sumum stöðum í heiminum. T. d. hafa kanadamenn gert það, bæði Atlantshafs- og Kyrrahafsmegin. En sem betur fer fór ekki svo, og er það saga sem kemur vonandi í ljós síðar, — hverjir unnu að því, því að embættismenn okkar íslendinga áttu þar verulegan hlut að máli.

Í staðinn fyrir að taka sögulegan rétt komu hugmyndir um að setja hámarksveiðiákvörðun fyrir hvert strandríki og láta síðan strandríkið ákveða hvað mikið það getur veitt, en það munu vera sárafá strandríki í veröldinni sem geta ein sér veitt allan þann fisk sem er á þeirra svæði. Ætlunin er að sá fiskur, sem viðkomandi strandríki treystir sér ekki til að taka eða vill ekki taka, skuli ganga til annarra.

Eitt hættulegasta atriðið, sem er óleyst, eru innilokuð ríki, þau sem eiga ekki land að sjó, og ríki sem hafa mjög stutta strandlengju og fá þar af leiðandi miklu minna út úr útfærslunni eða nálega ekki neitt. Þessi ríki eru allsterk, tæplega þriðjungur af þingaðilum, svo að þau eru raunar hættulega mörg. Þau hafa gengið með bugmyndir um að strandríkin, sem mest fá, eigi að bæta þeim upp að þau fá ekki neitt.

Það er þetta sem ég á við þegar ég nefni hugmyndir sem ég hef heyrt af munni þjóðverja, áhrifamanna sem eru okkur vinsamlegir að mörgu leyti, að þjóðverjar muni fá hjá íslendingum og norðmönnum og kannske grænlendingum og kanadamönnum einhver hlunnindi til frambúðar sem uppbót fyrir að þeir fá nálega ekkert út úr útfærslu landhelginnar. Þarna liggur veruleg hætta, og ég óttast að áframhaldandi samningagerð við önnur ríki um veiðar í íslenskri landhelgi muni styðja þessar hugmyndir og verða notað sem röksemd til að færa sönnur á að við höfum sjálfir í reynd viðurkennt að þessi ríki hafi ekki aðeins hagsmuna að gæta þarna, heldur eigi einhvern rétt og sé því ekkert eðlilegra en að þau fái hann eitthvað áfram, þannig að jafnrétti sé og þau geti unað við og samþ. 200 mílur. Þetta er töluvert veigamikið en flókið atriði, en ætti að nægja til þess að sanna að það eru fullt svo miklar, ef ekki meiri líkur á því, að slíkt samkomulag sem þetta muni ekki greiða fyrir málstað okkar á hafréttarsviði, heldur en hinu, að fullyrða að það muni verða okkur til hjálpar.

Herra forseti. Ég hef vísvitandi ekki eytt löngum ræðutíma í að fjalla um þær upplýsingar sem við höfum fengið nú síðustu missiri varðandi stöðu stofnana og hafa haft gífurleg áhrif á þjóðina, vegna þess að mönnum er þetta kunnugt og aðrir, sem þekkja það betur en ég, hafa mikið um það rætt. En ég vil vekja athygli manna á því, að það er ekki fyrr en nú á síðustu 1–2 árum sem íslendingar gera sér ljóst að staða fiskstofnanna sé orðin svo alvarleg að við séum komnir að hættumarki. Það er ekki fyrr en á alveg síðustu missirum. Auðvitað er búið að tala um verndun fiskstofna frá upphafi landhelgismálsins. Ég get nefnt það sem dæmi að fyrir réttum tveimur árum fóru fram tveggja daga umr. hér á Alþ. um samninga sem þá var verið að gera við breta um veiðar þeirra innan 50 mílna landhelginnar Ég er nýlega búinn að lesa þessar umr. allar yfir aftur og komst að þeirri niðurstöðu, að sumir þm. sögðu beinlínis að þeir teldu verndunarákvæði þeirra samninga fullnægjandi. Það var sagt í þessum stól. Aðrir vildu fá dálítið meiri verndun. En ekki einn einasti ræðumaður í tveggja daga umr. nefndi það á nafn að verðmætustu fiskstofnar okkar væru komnir alveg að barmi hinnar alvarlegu eyðingarhættu. Ekki einn einasti maður notaði nein slík orð.

Þetta sýnir að málið hefur tekið snöggum breytingum í meðvitund okkar. Hefur það raunar gerst bæði á þann hátt, að með hinni hraðvaxandi sókn hafa sjómenn um allt land og raunar landsmenn allir tekið eftir því að aukin sókn hefur ekki veitt aukinn afla, nema síður væri, svo og hitt, að við höfum fengið hver.ja vísindaskýrsluna á fætur annarri á þessu ári, en ég man ekki eftir neinni sem beinlínis bendir á ofveiðihættu og stórhættu fyrr en snemma á þessu ári. Síðan kom svarta skýrslan svokallaða, sem breskir fiskifræðingar viðurkenna í grundvallaratriðum, og svo skýrslan frá Rannsóknaráði. Allt eru þetta atriði sem hafa breytt viðhorfum margra manna, og það er enginn vafi á því að það er þetta sem veldur því að almenn andstaða í landinu gegn því að semja er augljóslega miklu meiri nú en hún hefur verið áður. Ég skal ekki vera með neinar getgátur um tölur eða mælingar, en það er ómögulegt að deila um þá niðurstöðu að hún sé miklu meiri nú en hún hefur verið áður. Ég vil því halda því fram, að hafi verið grundvöllur fyrir samningum um veiðiréttindi annarra þjóða í landhelginni fyrir nokkrum árum, þá er hann ekki í dag. Hann er ekki fyrir hendi í dag.

Ég vil benda á það, að með því að veita allvíðtækar veiðiheimildir til útlendra þjóða í landhelginni eru við í raun og veru að gera alla bestu vísindamenn okkar á þessu sviði ómerka. Ég vil biðja hv. alþm. um að hugsa um það, að ef illa fer, sem ég vona að verði ekki, um einhvern, einn eða fleiri, af þeim fiskstofnum sem um er að ræða, þá verður ekki hægt að segja að Alþ. hafi ekki fengið aðvaranir frá þeim mönnum sem best eiga að vita, og gildir það jafnt um leikmennina og hina lærðu. Ég tel því, að við eigum ekki að semja.

Hæstv. iðnrh. notaði kafla í ræðu sinni áðan til að hæla Sjálfstfl. fyrir að hann hefði haft frumkvæði um núv. baráttu til útfærslu í 200 mílur, og ég skal ekki andmæla því á nokkurn hátt. Þeir tóku mikinn fjörkipp í þessum málum og hafa barist mjög duglega og drengilega fyrir 200 mílunum. En fyrstir til að færa út, það virðist þeim ekki nóg, þeir þurfa að vera fyrstir til að færa landhelgina inn aftur.

Ef útfærslan verður að kosta þorskastríð, eins og nú virðist líklegt, þá það. Við höfum lifað það af áður. Ég tel að við höfum aldrei verið eins vel búnir til þess og nú að hindra veiðiþjófnað, og ég tel enn fremur að andstæðingar okkar hafi aldrei haft eins erfiða stöðu og skilningur þjóðanna á málstað íslendinga aldrei verið líkt því eins mikill og hann er nú, ekki síst vegna þróunarinnar á hafréttarráðstefnunni. Erlendar þjóðir hafa fengið í raun og veru 28 ára umþóttunartíma, ef við reiknum tímann frá því að landgrunnslögin voru samþ. Ef þær hafa ekki tekið eftir þeirri lagasetningu, eru engu að síður um eða yfir 20 ár síðan við byrjuðum að færa út í 12 mílur. Og ef sérfræðingar þjóða eins og breta og þjóðverja í fiskiðnaði gá'u ekki lesið út úr þeim aðgerðum hvað fram undan var og ekki byrjað að búa sig undir þá breyt., þá er það þeim að kenna, en ekki okkur. Er því alls ekki réttmætt af minni hálfu að tala nú um að enn þurfi að veita umþóttunartíma. Ég tel að það sé búið að veita rúmlega tveggja áratuga umþóttunartíma þeim sem mest hafa veitt hér við land. Þar að auki eru fiskveiðar, sem þjóðir stunda á landgrunni og upp undir ströndum annarra ríkja, ekkert annað en angi af heimsveldisstefnu. Þessi heimsveldisstefna hefur verið að hrynja í rústir á landi frá því í lok síðustu heimsstyrjaldar, og það er alveg furðulegt að þjóð, sem hefur gefið nýlendum frelsi í kringum alla jörðina, eins og bretar hafa gert, skuli hanga svona í nokkrum sjómílum við Ísland og jafnvel beita flota sínum hvað eftir annað til þess að reyna að missa þar ekki fótfestuna of hratt. Hafa þeir þó ærna möguleika til að vinna sér þetta upp, hafa t. d. reist nú á síðustu tveim — þrem áratugum algjörlega nýja borg, stórkostlega hafnar- og iðnaðarborg, sem stendur mitt á milli Grimsby og Hull.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir því hvernig við í Alþfl. teljum að þróun málanna hafi verið og hvað það er sem hefur leitt til þeirrar niðurstöðu, að við erum andvígir þessum samningi og skorum á hæstv. ríkisstj. að draga hann til baka og breyta um stefnu í þessum málum.