26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að margar tilraunir hafa verið við gerðar af hálfu stjórnarandstæðinga til þess að fá umr. um landhelgismálið hér á Alþ. á undanförnum vikum, fyrst og fremst til að fá upplýsingar, þannig að þjóðin sem heild gæti fylgst með því sem væri að gerast :

þessu stóra máli. En allar slíkar tilraunir hafa að mestu leyti borið tiltölulega lítinn árangur. Slík meðferð máls sem landhelgismálsins er vissulega ekki til þess fallin að efla samstöðu og skapa einhug meðal þjóðarimar, heldur miklu fremur til þess líkleg að upp komi tortryggni og getsakir um að ekki sé allt með felldu hjá þeim sem ráða ferð í slíku máli.

Nú fyrst, þegar tíu vikur eru liðnar frá því að formlegar samningaviðræður við erlendar þjóðir voru hafnar, þá er fyrst í dag opin umr. um þessi mál. Það er fyrst í dag sem almenningur í landinu getur fylgst með því, hvað hefur gerst, og fengið vitneskju um það, hvað á að gerast, a. m. k. að því er varðar annan höfuðandstæðing okkar íslendinga í landhelgismálinu, vestur-þjóðverja.

Það hefur ábyggilega ekki farið fram hjá neinum, að þegar ákvörðun um útfærslu í 200 sjómílur var tekin, þá fögnuðu allir íslendingar slíkri ákvörðun. Hvaðanæva að streymdu yfirlýsingar um samstöðu og stuðning og að ekki skyldi hvikað frá settu marki um 200 mílna fiskveiðilögsögu fyrir íslendinga eina. Einnig hafa fylgt þessum samþykktum sterkar viðvaranir gegn öllum samningum um veiðiheimildir öðrum þjóðum til handa innan fiskveiðilögsögunnar og þá fyrst og fremst innan 50 mílna markanna. Þetta er saga, sem er öllum kunn, og einnig að líklega hefur málstaður Íslands á alþjóðavettvangi aldrei verið sterkari en einmitt við útfærsluna í 200 sjómílur.

Það hefur, að ég hygg, ekki farið neitt milli mála, hvorki hjá hv. alþm. né öðrum, að ég hef borið tiltölulega lítið traust til núv. hæstv. ríkisstj. og kannske hvað minnst í þessu máli. En að ég ætli eftir að lifa það að sjá hæstv. ríkisstj., hæstv. ráðh. og stjórnarliða fórna málstað íslensku þjóðarinnar með þeim hætti sem þetta samkomulag gerir ráð fyrir, það hefði ég svarið fyrir að ég ætti eftir.

Því hefur verði haldið fram af okkur stjórnarandstæðum að hæstv. ríkisstj. hafi svo sannarlega verið á samningsbuxunum í þessu máli allt frá upphafi. Stanslaust samningamakk, formlegt og óformlegt, hefur verið í gangi. Hugmyndir, óskir og tilboð hafa streymt af vörum hæstv. ráðh. til okkar höfuðandstæðinga og mestu fjandmanna í þessu máli, breta og vestur-þjóðverja. Eins og hér hefur komið fram, er nú þegar búið að bjóða erlendum aðilum a. m. k. 140–150 þús. tonna afla af þeim tæplega 400 þús. tonna afla sem fiskifræðingar telja að taka megi án þess að hrun eigi sér stað í fiskstofnum við landið. Hér er um að ræða tilboð til breta, samning við vestur-þjóðverja, og í burðarliðnum mun vera samningur við belga, norðmenn og að öllum líkindum færinga. Hæstv. ríkisstj. er með þessu nú þegar búin að skerða veiðigetu íslenskra fiskiskipa frá 400 þús. tonnum niður í 240–250 þús. tonn, þ. e. skerða afkomu íslendinga í fiskveiðum um nær því 40% frá því sem hefði getað orðið. Þetta hlýtur að teljast furðuleg framkoma þegar höfð er í huga sú skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar sem í daglegu tali er nefnd hin svarta skýrsla, því að svo dökk mynd er dregin upp af ástandi helstu fiskstofna við landið í þeirri skýrslu að sumir hverjir ráðh. meira að segja hafa að eigin sögn hrokkið í kút þegar slík skýrsla birtist í síðasta mánuði. Er í þessari skýrslu sterklega fram sett að verði meira aflamagn tekið af miðunum við landið en það sem íslendingar einir geta sannanlega aflað, þá vofi yfir hrun helstu fiskstofnanna við landið, og meira að segja er talið að við íslendingar eigum nú þegar meiri skipastól en til þess þarf að taka það aflamagn sem réttlætanlegt er að taka.

Maður skyldi ætla að þegar slík vopn af hálfu viðurkenndra íslenskra fiskifræðinga, og ekki bara íslenskra fiskifræðinga, heldur og líka breskra, er lagt upp í hendur hæstv. ríkisstj. sem eitthvert skæðasta vopn í þessu máli, þá hefði mátt beita því með betri árangri en það samkomulag, sem hér er nú til umr., virðist bera vitni. Það hefði mátt ætla að hæstv. ríkisstj. væri vopnfimari með slíkt vopn í hendi en það samkomulag, sem hún nú leggur fyrir Alþingi, ber með sér. En eigi að síður, það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. hafi forherst við að fá slíka skýrslu í hendur, sem átti þó að vera henni mikill stuðningur við málstað íslendinga varðandi þetta mál.

Það samkomulag, sem hér er nú til umr. og að því er best verður heyrt og vitað meiningin að hljóti hér lokaafgreiðslu n. k. föstudag, komi ekki eitthvað sérstakt til, það hefur vissulega mörg ákvæði sem ástæða er til að gefa sérstakan gaum og vekja athygli á. Þar er í fyrsta lagi um að ræða aflamagnið, sem er, eins og margoft hefur komið fram, 60 þús. tonn næstu tvö árin og þar af um 5 þús. tonn af þorski. Það er gert ráð fyrir því að heildarafli þjóðverja á Íslandsmiðum í ár verði um 40 þús. tonn. Með boði til vestur-þjóðverja um 60 þús. tonna ársafla er verið að bjóða þeim 50% meira en þeir fiska á Íslandsmiðum í ár. Þetta segja hæstv. ráðh., síðast hæstv. iðnrh. hér áðan, að sé gott boð, góður samningur fyrir íslendinga. En ekki nóg með það, þau 60 þús. tonn sem hér er talað um að þjóðverjar eigi að fá að veiða á miðunum við landið næstu tvö árin, verða í reynd a. m. k. 70 þús. tonn, því að þessi 60 eru miðuð við vog þeirra þýskara úti í Þýskalandi sem er orðin vissulega talsvert minni en það aflamagn sem þeir taka hér og eru með þegar þeir fara af stað til Þýskalands. Skyldu nú ekki þessar tölur um aflamagn geta gefið vísbendingu um það, að bretar teldu þær hagstæðar sér til viðmiðunar um afla sinn á Íslandsmiðum þegar hæstv. ríkisstj. fer í áframhaldandi samningaviðræður við breta, sem enginn vafi er á að hún gerir á því 5 mánaða aðlögunartímabili sem hún hefur nú gengið að að fallast á vegna bókunar 6 um tollafríðindin? Ætli breska ljónið, sjálfur Hattersley, ofjarl hæstv. utanrrh. og iðnrh. í samningum, — ætli hann grípi ekki fegins hendi þessa viðmiðun þegar til lokaslagsins kemur í samningsgerð við breta, sem ég a. m. k. er ekki í neinum vafa um að er ekki langt undan? (Utanrrh.: Hvað er átt við með því, ofjarl okkar?) Hann hefur sýnt það af sér, hæstv. ráðh. (Utanrrh.: Er það af því að hann hefur herskip?) Nei, kannske komum við að því atriði síðar. Það þarf ekki alltaf herskip til að sigra andstæðing. Það hefur sýnt sig.

Ég vil í öðru lagi víkja hér að skipalistanum. Samkv. þessu samkomulagi eiga þjóðverjar að fá heimild til þess að veiða á 40 skipum við Ísland, og sagt er í samkomulagsdrögunum að útilokuð séu verksmiðjuskip og frystitogarar. Nú er, að því er ég best veit, sá galli á þessu, að þau skip, sem eru t. d. með fiskimjölskvarnir innanborðs, það er ekkert í þessu samkomulagi sem kemur í veg fyrir að þau geti unnið úrgang úr þeim afla sem þau fiska hér á Íslandsmiðum. Þau flokkast í venjulegu tali, að því er ég best veit, ekki undir verksmiðjuskip eða frystitogara, og það var einmitt þetta atriði, sem lengst af strandaði á í viðræðum við vestur-þjóðverja, í þeim viðræðum sem fyrrv. ríkisstj. átti við þá.

Þetta er því opið enn. Þarna er smuga fyrir þjóðverja, eins og samkomulagsdrögin liggja nú fyrir, til þess að hagnýta sér þetta og þar með fallið frá því prinsipatriði sem íslendingar allt til þessa hafa þó staðið á.

Og þá er komið að svæðunum. Ég verð að segja fyrir mig, að ég trúi því varla enn, þó að búið sé að leggja þetta plagg fram á Alþ., að hér sé ekki um misskilning að ræða á þeirri svæðaskiptingu sem er á korti sem fskj. með þáltill. Ég trúi því sem sagt ekki enn, en kannske það komi að því að ég verði að gera það, að það sé meining hæstv. ríkisstj. og stjórnarliða að í stað þess að færa út landhelgina fyrir Vestfjörðum allt frá Kögri suður fyrir Reykjanes, í stað þess að færa hana úr 50 í 200 mílur er hún færð inn úr 50 og allt upp í 25 eða 23 mílur. Allt svæðið frá Kögri og suður fyrir Reykjanes, á bilinu frá 50 og út í 200 mílur, er frjálst fyrir þjóðverja plús það að á þremur stöðum fá þeir að fara inn fyrir gömlu 50 mílna línuna allt upp að 23 mílum. Kannske hef ég misskilið að það ætti að færa fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur eins fyrir Vestfjörðum og annars staðar við landið. Ég stóð í þeirri meiningu að það ætti að gerast á þessu svæði einnig að færa út frá 50 mílum út í 200. Annaðhvort hef ég misskilið þetta eða, sem mér þykir líklegra, að hæstv. ráðh. og stjórnarliðar hafi með einhverjum hætti teljið þetta öfugt inn í höfuðið, hver meiningin í raun og veru var með ákvörðun um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur.

Ég get ómögulega skilið það, ekki hvað síst eftir ræðu hæstv. iðnrh. áðan, þegar hann var að hælast um yfir því að Sjálfstfl. hefði verið fyrstur til þess að hafa orð á og gera samþykktir um útfærslu í 200 sjómílur, en eins og hv. þm. Benedikt Gröndal kom inn á áðan, er hann þá líka fyrstur til þess að færa landhelgina úr 50 mílum og inn fyrir. Þetta er eitthvert mesta öfugmæli sem ég hef heyrt. Að vísu skal viðurkennt að ég hef ekki lifað lengi, en eigi að síður er þetta eitthvert mesta öfugmæli sem ég hef heyrt þegar svona er talað. (Gripið fram í: Þekkir þú ekki fordæmin?) Nei, því miður, hv. þm. En þekki þessi hv. þm., sem greip fram í, fordæmi slíks, þá vænti ég að hann komi því til skila hér á eftir og þá verður það rætt við hann.

Það er sem sagt gert ráð fyrir því, eins og þessi þáltill. liggur fyrir, að á þremur svæðum, tveimur svæðum úti fyrir Vestfjörðum og Breiðafirði, fái þjóðverjar, auk þess að geta hagnýtt sér allt svæðið milli 50 og 200 mílna, að fara inn fyrir, á svæðinu frá Kögri og að Barða, inn að 34–37 mílum, út af Breiðafirði inn að 40 mílum og á svæðinu út af Reykjanesi inn að 23 mílum. Auk þessa er þeim svo heimilað að fara inn fyrir gömlu 50 mílna mörkin á stóru svæði fyrir Austfjörðum og þar inn að 25 mílum. Á öllu þessu svæði frá Kögri og suður fyrir Reykjanes mega þjóðverjar vera frjálsir allt árið að undanskildu svæðinu út af norðanverðum Vestfjörðum sem þeir fá ekki að vera á nema hálft árið. Þetta er útfærslan á þessu svæði.

Svo kemur hæstv. iðnrh. og fer að reikna hér stækkun landhelginnar í ferkm, eins og það skipti meginmáli. Það skiptir auðvitað meginmáli hvaða veiðisvæði það eru sem útlendingar fá til veiða, en ekki hver ferkm-tala landhelginnar sem slíkrar er. A. m. k. held ég að sjómenn skilji það betur, hvaða veiðisvæði það eru sem útlendingum eru afhent til afnota, heldur en hvað stærð í ferkm segir til í sambandi við landhelgismálið.

Hvað er hér að gerast? Það er engu líkara en þeir, sem hér ráða ferðinni, ætli sér í eitt skipti fyrir öll — og ég endurtek það: Það er engu líkara en þeir, sem hér ráða ferðinni, ætli sér í eitt skipti fyrir öll að ganga að Vestfjörðum dauðum. Það getur ekki verið annað sem vakir fyrir þeim mönnum sem standa þannig að málum eins og sú þáltill., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir, að heimila þjóðverjum veiðar á þessu svæði. Það er því ástæða til að spyrja hv. 1., 2., 3. og 4. þm. Vestf., að ógleymdum hv. 9. landsk. þm.: Hvað ætla þessir hv. þm. þessa landshluta að láta lemja sig lengi til hlýðni til þess að samþykkja slíkt plagg sem hér liggur fyrir? Er það virkilega meining þessara hv. þm. að fallast á kannske með semningi, að slíkt eigi sér stað úti fyrir þessum landshluta? Ætla þeir virkilega að taka þátt í þessari aðför sem ég fullyrði að er verið að gera að Vestfjörðum? Kannske er þetta einn liðurinn í hinni þróttmiklu byggðastefnu sem er á stefnuskrá núv. hæstv. ríkisstj. Vel má svo vera. En ef þetta á að gerast, þá fer ekki hjá því að menn verði að spyrja um það, hvað hafi orðið af öllum stóru orðunum sem sumir þessara hv. þm. viðhöfðu hér á Alþ. fyrir tveimur árum, þegar til umr. var samningurinn við breta. Kannske kafna slík stóryrði eins og hv. 3. þm. Vestf. viðhafði hér þá í koki hans nú. En það verður eigi að síður fróðlegt að heyra og sjá viðbrögð þessara hv. þm. við því sem hér er lagt til gagnvart þeirra umbjóðendum fyrst og fremst. Mér virðist að hér hafi það gerst sem líklega enginn íslendingur hefði látið sér til hugar koma að gæti gerst, þ. e. að landhelgin sé færð inn í staðinn fyrir út, og það er meginmálið.

Það hefur einnig verið vikið að því hér, að samkv. þessu samkomulagi liggur engin viðurkenning fyrir af hálfu þjóðverja á útfærslunni í 200 mílur. Það er einnig ljóst varðandi friðunarsvæðin að samkomulagið gerir einungis ráð fyrir því að þjóðverjar virði þau friðunarsvæði sem eru fastbundin, ekki skyndilokunarsvæði. En eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að ég hygg, hefur þróunin orðið sá, að menn hafa talið nauðsynlegt að beita fremur skyndilokun til verndunar ungfisks en verið hefur, en engin slík viðurkenning er til í þessu plaggi af hálfu þjóðverja í þeim efnum. Ég skil satt að segja ekkert í forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar sem skrifar undir plagg sem hæstv. utanrrh. vitnaði til, sem ég veit þó ekkert hvort er í nafni stofnunarinnar sem slíkrar, því að það kemur hvergi fram, — ég skil ekkert í honum að láta það í þetta plagg, eins og hann segir: „Stofnunin telur mjög mikilvægt að vestur-þjóðverjar munu virða lokun hrygningarsvæða eða svæða þar sem mikið er af ungfiski.“ Þetta fær á engan hátt staðist samkv. þessu samkomulagi. Það er ekki stafkrókur um að þjóðverjar viðurkenni skyndilokanir sem íslendingar hafa þó orðið og verða að sætta sig við. Enda hygg ég að það fari ekki neitt á milli mála hjá einum eða neinum hv. þm. að stefnan er sú að auka mjög slíkar aðgerðir, en fækka bundnu friðunarsvæðunum. Þetta var eitt þeirra atriða sem sumir hv. þm. Sjálfstfl. gagnrýndu þegar hér var til umr. samkomulagið við breta fyrir tveimur árum. En hafi það verið gagnrýnanlegt þá , eins og hv. 3. þm. Vestf. gerði þá og hann að ég hygg hefur talið réttilega, þá er það ekki síður gagnrýnanlegt nú, að ekkert slíkt ákvæði skuli vera í þessum samkomulagsdrögum, því að öll þróun hefur orðið í þá átt að beita miklu frekar slíkum aðgerðum en fastbundnum svæðum.

Það, sem kannske vekur þó — ja, ég vil segja næstmesta furðu varðandi þetta samkomulag, er að þrátt fyrir marggefnar yfirlýsingar sumra ráðh. núv. hæstv. ríkisstj. um að samningar komi ekki til greina nema bókun 6, þ. e. a. s. tollfríðindin, komi til framkvæmda strax, — mátti lesa slíkar yfirlýsingar á síðum Morgunblaðsins í viðtölum við suma hæstv. ráðh. lengi fram eftir hausti, en slíkt er þagnað nú fyrir nokkru, enda gerir þetta samkomulag ekki ráð fyrir því að bókun 6 komi til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi eftir 5 mánuði. Þjóðverjar eiga að fá að veiða hér á þeim svæðum sem þeim sýnist svo til í 5 mánuði, án þess að nokkuð sé tryggt að bókunin komi til framkvæmda, og auðvitað er ekki tryggt að hún komi til framkvæmda þá, nema, sem er auðvitað grundvöllurinn að þessu samkomulagi, — nema samningar takist við breta, og það er það sem er stílað upp á.

Þessi atriði, sem ég hef hér nefnt, eins og allflest þau ákvæði sem þetta samkomulag hefur inni að fela, koma, að ég hygg, mörgum íslendingum í opna skjöldu. Þetta samkomulag er því eitt sér og út af fyrir sig stórhættulegt íslensku efnahagslífi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, því að í kjölfar þessa samkomulags er ekki nokkur vafi á því að samkomulag við breta verður gert. Það er verið að gera samkomulag við belga, norðmenn og færeyinga í næstu nálægð. Vel má vera að fleiri komi á eftir. Ég vil því í áframhaldi af þessu spyrja hæstv. forsrh., af því að mér heyrist að kannske einu röksemdirnar, sem hæstv. ríkisstj. hefur hampað hvað mest til stuðnings þessu samkomulagi, séu þær að samkomulag við vestur-þjóðverja þýði að það sé hægt að einbeita sér að þeirri baráttu sem hafin er gagnvart bretum. Ef þessi skilningur er réttur, þá vil ég spyrja hæstv: forsrh. að því, hvort hann vill hér og nú lýsa því yfir við þessar umr. að ekki komi til greina samningar við breta úr því sem komið er. Ef það á að taka mark á þeim málflutningi hæstv. ráðh. að þetta samkomulag sé gert til þess að einbeita sér að bretum, þá verður slík yfirlýsing að koma fram, ella er þetta marklaust tal.

Það er fyrir nokkru upplýst að hæstv. ríkisstj. hefur boðið bretum samkomulag upp á 65 þús. tonna afla á ári. Ég vil því í áframhaldi af þessu, fáist ekki yfirlýsing frá hæstv. forsrh. um lokun á breta að því er varðar samninga, þá vil ég enn fremur spyrja hann að því: Stendur enn 65 þús. tonna tilboðið til breta ef þeir vilja að því ganga? Er það opið enn að bretar geti fengið veiðiheimildir upp á 65 þús. tonna kvóta á ári hér við land.

Eins og ég hef áður sagt, þá er ég persónulega ekki í neinum vafa um það og lýsti því yfir fyrir rúmri viku í umr. hér á Alþ. að ég líti svo á að samkomulag við vestur-þjóðverja væri grundvöllurinn eða fyrsta skref að samningum við breta, og ég er sömu skoðunar enn. Ég er ekki í neinum vafa um það. Þegar íslensk stjórnvöld fórna hagsmunum þjóðarinnar á þann veg sem þetta samkomulag við þjóðverja gerir ráð fyrir, við hverju má þá ekki búast af hálfu hæstv. ríkisstj. undir gínandi fallbyssukjöftum hinnar bresku vinarþjóðar? Skyldi verða meiri harka þá? Ég held ekki. En ef þetta á að verða niðurstaðan varðandi vestur-þjóðverja og í kjölfar þess fylgja samningar við aðrar þjóðir, þá er ekki nema tvennt til fyrir okkur íslendinga, þ. e. a. s. annað hvort verður að taka upp kvótaskiptingu á íslendinga varðandi fiskveiðar eða í hinu tilfellinu að kasta skýrslu fiskifræðinganna í ruslakörfuna og meta hana sem einskisnýtt plagg eða kannske sambland af þessu hvoru tveggja. Ég fyrir mitt leyti tel að báðar þessar leiðir séu slíkir afarkostir að það sé ekkert saman leggjandi að afneita þeim eða afneita því samkomulagi sem hér er lagt til að gert verði við vestur-þjóðverja. Það er tvennt ólíkt. En hvort þessara tilfella sem fallist yrði á að framkvæma mundi leiða efnahagslega kreppu, atvinnuleysi, eymd og volæði yfir íslensku þjóðina. Þeir, sem að slíku samkomulagi standa, bera vissulega mikla ábyrgð, og ég trúi því vart að hæstv. ríkisstj., stefni vísvitandi að þess konar ástandi í landinu.

Í viðtali við dagblaðið Þjóðviljann s. l. laugardag sagði hæstv. utanrrh., með leyfi hæstv. forseta: „Persónulega mun ég mæla með því að þessi drög verði samþ. á Alþ.“ Og hann bætir við: „Ég held að það sé best að láta hengja sig strax.“

Nú vil ég, ef þarna er rétt með farið, — ég skal ekkert um það fullyrða, — en ef þarna er rétt með farið, þá verður mér a. m. k. að spyrja — (Utanrrh.: Hver eigi að taka við?) Nei, það hefur sýnt sig í núverandi stjórnarliði að nógir eru til að taka við þeim embættum sem öðrum. En mér verður á að spyrja hvað hæstv. utanrrh, eigi við með hengingartalinu. Það skyldi þó ekki vera að meining hæstv. ráðh. sé sú að með því að samþykkja þetta samkomulag hér á Alþ. og því, sem í kjölfar þess fylgir, sé verið að leiða efnahagslega hengingu yfir íslensku þjóðina í heild? Sé sú ekki meiningin hjá hæstv. ráðh., þá væri vissulega fróðlegt að fá um það vitneskju, fá að heyra hver meining hæstv. ráðh. var með slíku tali, — ef hér er rétt sagt frá, ég tek það enn fram.

Hæstv. utanrrh. vitnaði í framsögu fyrir þessu máli í bréf frá Hafrannsóknastofnuninni, þar sem hann las upp m. a. að sá kostur, sem þetta samkomulag gerði ráð fyrir, væri hinn skásti frá fiskifræðilegu sjónarmiði séð. Nú er það orðið upplýst að fyrir liggur yfirlýsing frá fjölda fiskifræðinga við þessa sömu stofnun sem ber þetta allt saman til baka. Þeir eru hér a. m. k. 14 fiskifræðingar sem vitna á móti forstjóranum. Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh. hvort honum sé um það kunnugt hvar sú ákvörðun var tekin um að svara sjútvrn. frá Hafrannsóknastofnun á þann veg sem yfirlýsing sú, sem hann las hér upp, gerir. Var það stjórn stofnunarinnar eða er það bara viðkomandi einstaklingur sem hér á hlut að máli. Ég tel að það sé mikið alvörumál þegar slíkt á sér stað, að stór hópur sérfræðinga í stofnun eins og Hafrannsóknastofnuninni ber til baka fullyrðingar sem settar eru fram af forstjóra viðkomandi stofnunar. Og ég tel ástæðu til þess að fá á því fulla skýringu, hvaða aðili þar er eða hverjir það eru sem tóku afstöðu til þessa bréfs frá Hafrannsóknastofnuninni sem forstjóri hennar, Jón Jónsson, undirritar.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð hér um. Ég vil ítreka spurningar mínar til hæstv. forsrh. um það, hvort hann vilji hér og nú lýsa því yfir að ekki komi til greina samningar við breta um veiðiheimildir í fiskveiðilögsögunni, og ef hæstv. ráðh. treystir sér ekki til þess að gefa slíka yfirlýsingu, hvort enn standi boð hæstv. ríkisstj. til breta um 65 þús. tonna veiðiheimildir hér við land á ársgrundvelli.

Ég hef gert hér að umræðuefni nokkur mikilvægustu atriði, að mínu mati, þess samkomulags sem hér er til umr. Ég vil í lokin ítreka það, að SF eru andvíg þessu samkomulagi, þau telja að verði slíkt samkomulag gert sem þetta, þá sé það aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal og að staðar verði ekki numið fyrr en búið er að afsala svo miklum landsréttindum og aflamagni að innleidd verði kreppa yfir íslensku þjóðina. Ég heiti því á alla alþm. að virða nú í verki vilja yfirgnæfandi meiri hl. íslensku þjóðarinnar með því að hafna því samkomulagi sem hér er nú til umr.