26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Utanrrh, (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég verð nú líklega að kannast við það og það er raunar nokkuð ljóst að mér hefur tekist fremur illa að útskýra samninginn fyrir flokksbræðrum mínum í Framsfl. þar sem svo margar spurningar koma frá flokksbróður mínum. Ég vil þá leyfa mér að reyna að bæta úr því, ef það kynnu að vera hér fleiri, sem væru með svipaðar vangaveltur, til þess að spara þeim að setja þær fram.

Ég ætla að hafa þetta stutt og ganga beint að efninu. Það er í fyrsta tagi spurning um það, hvernig eftirlitinu verði háttað. Hv. 2. þm. Vestf. segir að nauðsynlegt sé að íslenskir ræðismenn í Þýskalandi fái tafarlaust afrit af öllum löndunarskýrslum. Þetta verður auðvelt að framkvæma, og við skulum sjá um að það verði gert. Hins vegar segir hv. 2. þm. Vestf. að þetta sé ekki nóg, við verðum að hafa tækifæri til þess að fara um borð í þýska togara hvenær sem er, og það meina ég að sé algjörlega skýrt í þáltill. Í gr. segir:

„Eftirlitsmenn mega fara um borð í þýsk skip til að kynna sér leiðarbók og aflaskýrslur, svo og rannsaka veiðarfæri og afla um borð.“

Ég hygg að það, sem veldur því að mönnum er þetta e. t. v. ekki öllum alveg ljóst, sé að 1. málsgr. fjallar um að ef ástæða sé til að brot hafi verið framið, þá geti íslensk varðskip stöðvað fiskiskip frá Sambandslýðveldinu hvar sem er á hafsvæðinu umhverfis Ísland. En ég lít á þetta sem tvær algjörlega sjálfstæðar málsgreinar og að það sé hvenær sem er óhætt — og ekki bara óhætt, heldur leyfilegt og skylt í mörgum tilfellum að fara um borð í þýsku skipin og ganga úr skugga um allt það sem þar segir: veiðarfæri, afla og aðra slíka meðferð.

Um hólfaskiptinguna þá held ég að það sé rétt ábending hjá hv. 2. þm. Vestf. að hólf 5a og 200 mílna lögsagan, það af henni sem þjóðverjum er ætlað að veiða á, fari ekki alveg saman, og eru þá að sjálfsögðu þau 60 þús. tonn, þar af 5 þús. tonn þorskur, sem hér er um að tefla, miðað við það sem fellur undir lögsögu, og við munum gera kröfur til þess að skýrslurnar verði þannig úr garði gerðar.

E. t. v. má einnig minna á það, að í Barentshafi var fyrir nokkru ákveðinn hámarkskvóti sem veiða mátti af ýmsum fisktegundum. Þorskkvótinn var fljótlega fylltur. Þá voru bretar staðnir að því að halda áfram veiðum, en moka þorskinum fyrir borð. Slíkt má ekki gerast á Íslandsmiðum. Ég ætla að sameina þetta, ef ég má, með leyfi hv. 2. þm. Vestf., við spurningu nr. 2, sem er svona:

„Í öðru lagi spyr ég að því, hvað gerist þegar hámarkinu er náð, t. d. 5 þús. lestum af þorski.“ Þá gerist það að fiskiflotinn hættir. Um það er alveg örugglega rætt. (Gripið fram í: Má það ekki standa í ályktuninni?) Það getur náttúrlega verið álitamál hvað eigi að standa í slíkum ályktunum, en þetta er alveg umsamið atriði. (Gripið fram í.) Það má athuga það. (Gripið fram í.) (Forseti: Ekki samtal.) Það var talað berum orðum um það í Bonn að þetta yrði framkvæmt svona. Ég sagði ekki að það stæði í samningnum. Ég tók það fram að það stæði þar ekki. Ég sagði að það væri álitamál hvað ætti að standa í slíkum samningum, en þetta væri undirskilið og ég vona satt að segja, að þm. hafi ekkert við það að athuga. (Gripið fram í.) Vilja menn að þeir haldi áfram að veiða þegar kvótinn er fylltur? (Gripið fram í: Nei.) Nei. (Gripið fram í.) Já.

Um þriðja atriðið vil ég segja það sem mína skoðun alveg ákveðið, að ég tel að þetta séu endalok samningsgerðar við vestur-þjóðverja, enda treysti ég því fyrir mitt leyti að hafréttarráðstefnan verði þá búin að komast að ákveðinni niðurstöðu um alþjóðalög sem gildi um fiskveiðilögsögu. En hvort heldur sem það yrði eða ekki, þá er það mín skoðun að hér eigi að setja punkt og hætta.

Í fjórða lagi er spurt um frestun á framkvæmd samkomulagsins sem verður ef bókun 6 í samningi Íslands við Efnahagsbandalagið kemur ekki til framkvæmda innan 5 mánaða. „Hvað merkir þessi frestur? Merkir hann að lokatími samningsins framlengist sem því nemur?“ Svarið við því er nei. Samningurinn gildir í tvö ár frá undirskrift, hvort sem hann verður í framkvæmd lengur eða skemur af þeim tíma. — „Eða merkir hann að þjóðverjar fari út fyrir 200 sjómílur á meðan fresturinn gildir?“ Svarið við því er já.

Um afstöðu hæstv. sjútvrh. get ég ekki sagt. Svo er það sjötta spurningin, hvort ég telji, að íslenska ríkisstj. sé skuldbundin af 65 þús. lesta boði á þorski. Því svara ég hiklaust neitandi. Ég tel að við séum algjörlega óbundnir af tölu sem ekki hefur verið samþ.

Ég vona þá að ég hafi svarað þessum skriflegu spurningum frá hv. 2. þm. Vestf., og til þess að tefja ekki tímann meira en þarf ætla ég að láta þessari ræðu lokið að sinni, en svara þá heldur síðar, ef ástæða verður til.