26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson óskaði eftir því í upphafi máls síns að alþm. gerðu sér grein fyrir því og gerðu grein fyrir því í upphafi máls síns hvort þeir teldu að við ynnum meira með því að gera samning þann, sem hér um ræðir, næðum meiri árangri í fiskvernd, að vernda stofnana okkar með því að gera ekki samning og að reyna þá að verja landhelgina. Ég skal verða við þessari beiðni.

Ég er persónulega viss um að við gætum og hefðum getað hindrað vestur-þjóðverja gjörsamlega í veiðum á miðum okkar. Við gætum það nú og hefðum getað það ef það hefði verið ærlega reynt. Við getum tafið svo veiðar breta, þrátt fyrir herskipavernd, ef við beitum okkur — ef við fáum að beita okkur, að þeim sé ekki vært við veiðarnar þannig að þeir geti stundað þær af neinu gagni. Ég er sannfærður um það að samningsuppkastið, sem hér liggur fyrir, er vesti kosturinn.

Nú, heyrðist mér það rétt, að hv. þm. Steingrímur Hermannsson sem finnur þó þrátt fyrir allt þessum samningi ýmislegt til foráttu, setur gagnrýni sína fram með blæ sem hæfir ritara Framsfl., en finnur honum samt ýmislegt alvarlegt til foráttu, — heyrðist mér það rétt að hv. þm. teldi okkur vera aflögufæra með 60 þús. tonn af fiski, þótt við neyðumst til þess með skírskotun til nýlega útkominnar skýrslu Rannsóknaráðs vegna aflabrests, vegna ofveiði á miðum okkar, að leggja okkar eigin fiskiskipum, og samt erum við e. t. v. aflögufærir um 60 þús. tonn af fiski?

Ég vil aðeins víkja að fögnuði hv. þm. þrátt fyrir allt yfir því að þjóðverjar skuli nú fara með alla stóru togarana, skuttogarana sína, út fyrir. Á skránni yfir 40 skip sem þjóðverjar mega hafa skv. fyrirhuguðum samningi á miðum okkar, 40 togara, eru þó 8 þeirra miklu stærri en stærstu skuttogarar okkar og meðalstærð þessara skipa lætur nærri að sé tvöfalt meiri en meðalstærð einstakra togara í togaraflotanum okkar. Og svo er fögnuðurinn yfir því að verksmiðjuskip skuli nú ekki fá að veiða á miðunum hjá okkur. Flestir þessara togara, sem nafngreindir eru á listanum, sem fylgir þáltill., eru verksmiðjutogarar. Þeir eru búnir fiskmjölsverksmiðjum. Það eru verksmiðjutogarar. Þetta eru togararnir sem hafa verið kallaðir ryksugur, togararnir sem ljúka veiðitúrnum á Íslandi með því að veiða smáfisk í gúanó. Og það er ekki víst að hv. þm. þurfi að hafa mjög miklar áhyggjur af því að þorskinum verði mokað fyrir borð. Það er hægt að koma honum í vöru.

Undir lok ræðu sinnar sagði hv. þm. að það hefði ekki verið fyrr en í gær sem hann hefði ákveðið að styðja þennan samning, allt fram að þeim tíma hefði honum verið efst í huga að ganga gegn honum, og tilgreinir sem fyrstu ástæðu óánægju sína með vinnubrögð stjórnarandstæðinga, stjórnarandstæðingar hafi ekki þannig að unnið í gagnrýni sinni á þessum samningi að hann teldi sig geta gengið í þeirra sveit. Persónuleg skoðun mín er nú sú, að hv. þm. hefði nú getað snúist gegn þessum samningi án þess að ganga í Alþb., Alþfl. eða SF. Og mikil má hans óánægja vera með vinnubrögð þessara flokka, sem hann er nú ekki í, fyrst hann vill heldur greiða atkv. með því að þjóðverjar fái að taka hérna 60 þús. tonn á ári í tvö ár af ofveiddri fiskislóðinni okkar — eða öllu heldur, vel má hann una sér í flokki sínum og kompaníinu með íhaldinu í þessu máli ef hann vill borga 60 þús. tonn af miðunum okkar fyrir að fá að vera þar.

Það er þungbær reynsla fyrir þessa blessuðu þjóð að hafa nú við æðstu völd eiðsvarna vini óvina sinna, og ég skal taka það fram — vil taka það fram sérstaklega, að þar á ég ekki við Steingrím Hermannsson, en við æðstu völd í þessu landi eru nú eiðsvarnir vinir óvina okkar, einmitt þegar þeir ráðast á okkur, þ. e. a. s. NATU-forsprakkar íhalds og Framsóknar. Við berum það okkur stundum í munn, íslendingar, að við kjósum hverju sinni yfir okkur þá stjórn sem við eigum skilið, að íslendingar eigi yfirleitt skilið þær stjórnir sem þeir kjósa yfir sig. Í dag finnst mér þó a. m. k. að þeir hafi afsökun. Þeir kusu ekki yfir sig þessa stjórn. Í síðustu kosningum var a. m. k. annar ríkisstjórnarfl. kosinn undir öðru merki en því sem hann ber í dag. Í þetta skipti og umfram allt í þessu máli hafa íslendingar því verri stjórn loksins en þeir eiga skilið.

Ef til er eitthvað sem mætti nefna þjóðareiningu á þessu landi nú, þá er það sú skoðun að núv. ríkisstj. sé ekki treystandi í landhelgismálinu. Sú þjóðareining sem ráðh. okkar hafa borið sér í munn undanfarna daga og bera sér í munn í dag og þáltill., sem hér liggur nú frammi, ber ljósastan vott um, — sú þjóðareining er ekki til. Í þessari þáltill. er hvatt til þjóðareiningar um undanslátt í landhelgismálinu, þjóðareiningar um uppgjöf og algjöran ósigur í landhelgismálinu. Á síðum þessa þskj. blasa við okkur einhverjar hryggilegustu mótsagnir sem um getur í íslenskri stjórnmálabaráttu. Hér lesum við svart á hvítu alvöruna sem bjó í fyrirheiti íhaldsstjórnar um útfærslu fiskveiðilögsögu okkar í 200 sjómílur. Sú alvara er hér kortlögð, hvað þá heldur annað, og hefur fyrirsögnina: „Till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að ganga frá samkomulagi við ríkisstj. Sambandslýðveldisins Þýskalands um veiðar þýskra togara.“ Hv. alþm. þurfa ekki annað en að líta á meðfylgjandi kort til þess að sjá að fyrsta þingmál ríkisstj. eftir hina nafntoguðu útfærslu í 200 sjómílur er að heimila vestur-þjóðverjum að veiða innan gömlu 50 mílna markanna.

Ég mun ekki eyða tíma í það að ræða um þá vitneskju sem fyrir liggur um ástand íslensku fiskstofnanna eða um efnahagslegar afleiðingar af veiðum útlendinga hér við land, það hefur verið gert svo rækilega áður við þessar umr. En hæstv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen, rétt aðeins byrjaði í ræðu sinni nú að lesa nýtt plagg frá Hafrannsóknastofnuninni, hann rétt aðeins byrjaði að lesa það, en tók sig svo á og áttaði sig á því að bréfið var ekki frá Hafrannsóknastofnuninni, heldur frá Jóni Jónssyni, og hætti að lesa það strax í upphafi og fór að tala um það hvenær sjálfstæðismenn fengu hugmyndina að 200 sjómílunum. Þetta þótti mér dálítið leitt, að hann skyldi hætta svo snemma, því ég var farinn að hlakka til þess að heyra dr. Gunnar Thoroddsen lýsa fiskifræðilegu áliti sínu á Jóni Jónssyni. Ég vík seinna að þeirri staðreynd að ríkisstj. hafi, áður en þessi samningur eða samningsuppkast var lagt fram, boðið bretum að veiða 65 þús. tonn af þorski, ekki bara innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar, heldur innan 50 sjómílna lögsögunnar. Ég staðhæfi að sú þjóðareining, sem ríkisstj. íhalds og Framsóknar biður nú um í landhelgismálinu, birtist í þessari þáltill. svart á hvítu sem pólitískt bellibragð og er beiðni um þjóðareiningu um þá ákvörðun ríkisstj. að svíkja í landhelgismálinu.

Í þessu skjali blasir sem sagt við okkur sú staðreynd, að ríkisstj. ætlar að framkvæma útfærsluna margauglýstu í 200 sjómílna fiskveiðilögsögu með því að heimila útlendingum fiskveiðar innan gömlu 50 sjómílna markanna. Það vissu flestir sem vildu, að ræður sjálfstæðismanna og samþykktir um útfærslu í 200 sjómílur voru á sínum tíma til þess ætlaðar að breiða yfir óþjóðholla baráttu forustumanna flokksins gegn útfærslunni í 50 sjómílur á sínum tíma. Það var núv. forsrh., form. Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, sem reri beinlínis gegn útfærslunni í 50 sjómílur og andmælti tilburðum okkar til að verja þá fiskveiðilögsögu þegar við tókum rögg á okkur og tókum fastast á til þess að gera það, og hæstv. ráðh. Gunnar Thoroddsen, fyrrv. viðreisnarrh., einn þeirra sem gerðu samninginn við breta og vesturþjóðverja 1961, lagaprófessorinn sem þuldi yfir þjóðinni 18. ágúst 1972 þá predikun að henni bæri að hlíta úrskurði Álþjóðadómstólsins um að færa ekki út í 50 sjómílur, — það voru þessir ráðh. sem fundu upp á því snjallræði, þegar þeir kenndu til undan fordæmingu flestra góðra manna, að krefjast útfærslu í 200 sjómílur, og meining þeirra blasir nú við okkur með striki utan um kortið af Íslandi og svo öðrum strikum þar sem erlendum togurum er markaður réttur til að veiða innan 50 sjómílna markanna.

Við vissum það áður, það var ekkert leyndarmál, að það var ekki sérstakra dáða að vænta af Framsfl. í landhelgismálinu. Eitt af meginviðfangsefnum Alþb. í fyrrv. ríkisstj. var að halda aftur af áráttu Framsfl. til að semja við breta og vestur-þjóðverja um veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar nýju, innan 50 mílna markanna, að halda aftur af áráttu ráðh. Framsfl. til þess að semja um undanslátt — og tókst þó ekki alveg um það er lauk, og af því súpum við seyðið nú, og má beinlínis til sanns vegar færa að Alþb. hafi í nærri því bókstaflegri merkingu dregið Framsókn með sér út í 50 sjómílurnar aftur á bak og á halanum og orðið að halda henni þar með handafli þangað til Ólafur smaug úr takinu í nóv. 1973 og skrapp til Lundúna, sem frægt var, til að semja við breta. Og nú heldur enginn aftur af hæstv. dómsmrh. Nú þarf ekki einu sinni að teyma hann á hinum endanum.

Hér liggur sem sagt fyrir okkur uppkast að samningi sem ríkisstj. vill gera við vesturþjóðverja um heimild til að veiða allt að 60 þús. tonn af fiski innan nýju efnahagslögsögunnar okkar, að verulegu leyti innan gömlu 50 sjómílna markanna. Með samningsuppkastinu fylgja nöfn 40 vestur-þýskra togara, sem er ætlað að stunda þessar veiðar. Sum þessara nafna eru þegar fræg í landhelgissögu Íslendinga, og í samningsuppkastinu er tekið fram það, sem hæstv. ráðh. hafa tekið hér fram í ræðum sínum í dag, að engin verksmiðjuskip fái að veiða á Íslandsmiðum. Þetta sagði hæstv. utanrrh. ekki alveg eins satt eins og æskilegt hefði verið, þetta sagði hæstv. ráðh. Gunnar Thoroddsen e. t. v. eins satt og hann gat, en flestir hinna nafngreindu togara eru þó verksmiðjuskip. Þeir eru með fiskimjölsverksmiðjur um borð. Í samningsuppkastinu, eins og það var kynnt fyrir þingflokkunum í fyrradag, var ákvæði um það að vestur-þjóðverjarnir mættu ekki nota verksmiðjurnar til annarrar mjölvinnslu en þeirrar sem slógið úr aflanum næði til. Þetta ákvæði hefur verið numið burt úr uppkastinu eins og það liggur nú fyrir ekki vegna þess að hætt hafi verið við að heimila verksmiðjutogurunum veiðar við Ísland, heldur vegna þess að það þurfti að vera hægt að halda áfram að staðhæfa í ræðum að þetta væru ekki verksmiðjutogarar. Það var numið burt til þess að reyna að fela þá staðreynd að verksmiðjutogurum er ætlað að veiða hérna, enda þótt kveðið sé á um það að hér skuli ekki veiða erlend verksmiðjuskip. Þetta eru togararnir sem hafa verið kallaðir ryksugur hafsins. Þetta eru togararnir sem hafa veitt með klæddum pokum hérna og lokið túrunum við Ísland með því að fiska smáfisk. Þetta eru togararnir, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sem hafa tæknilegan búnað til þess að koma í veg fyrir að það sé nauðsynlegt að henda þorskinum fyrir borð þegar búið er að fiska 5 þús. tonn, til að hann sjáist ekki.

Það var vikið hérna áðan að því lauslega af hæstv. utanrrh., að það hefði komið fram í samtölum úti í Bonn að íslendingar ættu að hafa óskoraðan rétt til eftirlits með veiðunum í togurunum hérna. Ég vil trúa því að slíkt hafi verið tekið fram. Það væri raunverulega ástæða til þess að — og ég mun ef til vill reyna að koma því í orð — að veita hæstv. utanrrh. sérstaka viðurkenningu fyrir eðlilega áráttu til þess að segja satt við hin verstu skilyrði, því honum takist það ekki alltaf. Og svo er, sem sagt í samningnum a. m. k., eigendum þessara skipa og þeim Jóni Jónssyni, sem Bonn-ríkisstjórnin hefur á launum úti hjá sér, ætlað að veita okkur fullnægjandi upplýsingar um það hvernig samningurinn sé haldinn. Þetta atriði um það, með hvaða hætti málsgreinin um fiskimjölsverksmiðjurnar um borð í skipunum er numin burt úr samningnum, þó engin ráðstöfun sé gerð til þess að nema verksmiðjurnar burt úr skipunum, er enn ein vísbendingin um það með hvers konar heilindum er staðið að þessum samningi. Hæstv. ráðh. mun nú standa upp og fara skyndilega að bera á móti því að ætlunin sé að afsala íslendingum 60 þúsund tonnum af því sem þeir geta ekki í té látið með þessum samningi.

Það hefur verið minnst á það fyrr í kvöld af öðrum aðilum, en má ítreka það atriði, að við vitum það gjörla — raunar er kveðið á um það í þessu plaggi með ákvæðinu um 5 mánaða frestinn vegna bókunar 6 — að það er ætlunin að semja einnig við breta um veiðiheimildir innan 50 mílna markanna á allra næstu vikum. Ég man það ekki svo gjörla, ég vona að þar hafi ekki verið ljóstrað upp leyndarmáli, — leyndarmál hafa nú verið ýmis opinber í sambandi við þessa samningsgjörð, — ég vona að þar hafi ekki verið ljóstrað upp leyndarmáli, en ég heyrði það haft eftir hæstv. utanrrh. að hann hefði sagt á landhelgisnefndarfundi að þessa 5 mánuði ætti einmitt að nota til þess að semja við breta. (Gripið fram í.) Enn mun ég taka orð hæstv. utanrrh. trúanleg, að hann hafi ekki sagt þetta. Kannske á hann það ósagt. Ríkisstj. hefur boðið bretum þegar 65 þús. tonn af þorski og ýsu innan 50 mílna markanna. Ég hygg að hver einasti maður, sem sjáandi sér og heyrandi heyrir, geri sér ljóst að með þessu tilboði íslensku ríkisstj. til breta var samkv. venjum í slíkum samningum stefnt að því að heimila bretum veiðar á 80 þús. tonnum innan 50 sjómílna markanna — í samningum sem þessum hefur það tíðkast að mætast á miðri leið. Það hefur harla litla þýðingu að flytja um það yfirlýsingar núna, ekki þó að rómurinn sé brýndur, þetta hafi verið endanleg tala. Þó þeir setji rómmildan klökkva sem nægir til þess að túlka hugsunina: við hefðum betur aldrei nefnt þessa tölu — eða eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson greinilega sagði áðan: þeir hefðu betur aldrei nefnt þessa tölu, það breytir ekki þeirri staðreynd að bretar líta á þetta sem tilboð og krefjast nú framhalds.

Ofan á allt annað er vitað að samningsdrög liggja þegar fyrir um heimild handa færeyingum til að taka 15–20 þús. tonn af þorski á miðunum okkar, og handa belgíumönnum til þess að taka 6–7 þús. tonn og handa norðmönnum til þess að taka 3 þús. tonn. Og þá er hitt ótalið, með hvaða hætti þessi samningur mun knýja okkur af siðferðilegum og pólitískum ástæðum til þess að heimila austur-þjóðverjum, pólverjum og rússum veiðar innan fiskveiðimarkanna. Þessar þjóðir virtu þó í verki útfærsluna í 50 sjómílur. Og það er rangt, það veit ég, að þessar þjóðir eigi ekki sams konar ísfisktogara með fiskimjölsverksmiðjum og þá sem vestur-þjóðverjar eiga að fá að nota á miðunum okkar. Þeir eiga þess háttar togara. Er sennilegt að ríkisstj. ætli þessum þrem þjóðum minna hlutskipti en vestur-þjóðverjum sem níddust þó á okkur við útfærsluna í 50 mílur? Ég verð að segja eins og er, ég vildi að ríkisstj. hefði brjóstheilindi til þess. En hún hefur það ekki. Eða eigum við núna að nota það sem rök að vestur-þjóðverjar eigi sögulegan rétt til miðanna okkar, en hinir ekki? Varla getum við gert greinarmun á vesturþjóðverjum og austur-þjóðverjum í því sambandi. Fái þessir þrír aðilar sama rétt og vestur-þjóðverjar munu bætast þarna við 180 þús. lestir. Ef tekið verður tillit til þess, sem kannske væri ekki óeðlilegt, — ef tekið væri tillit til þess að þessar þrjár þjóðir eru ekki í Atlantshafsbandalaginu og aflaheimild þeirra yrði þar af leiðandi skorin niður í t. a. m. 10 þús. lestir handa hverri, þá verður heildarmagnið ekki nema 30 þús. lestir til viðbótar af því sem við höfum engin efni á að láta í té.

Hér er um það að tefla, að verði þessi samningur við vestur-þjóðverja staðfestur á Alþ., þá semjum við ekki aðeins af okkur þessi 60 þús. tonn á ári, aðallega af ufsa og karfa sem við þyrftum sjálfir að nota til þess að vega upp á móti þorskinum sem við verðum að afsala okkur vegna afleiðinga af rányrkju þessara þjóða hér á undanförnum árum, — þá semjum við ekki aðeins af okkur þessi 60 þús. tonn árlega í tvö ár, semjum af okkur 200–350 þús. tonn af fiski í tvö ár, þar af um 120 þús. tonn af þorski. Og má svo hver sem vill trúa því, að ef þeir menn, sem vélað hafa um þennan vestur-þýska samning, verða þá enn við völd, — það má hver sem vill trúa því, að mikil fyrirstaða verði að tveim árum liðnum, gegn því að endurnýja þessa samninga.

Og svo með tillíti til staðreyndanna sem við blasa varðandi ástand fiskstofnanna og aflavonirnar, hver verður fiskafli okkar íslendinga þessi tvö ár? Hvert verður hlutskipti þjóðar okkar þessi tvö ár og þaðan í frá? Hæstv. utanrrh. hefur áhyggjur af þeim málum, það efa ég ekki. Hann var kannske og raunar efalaust að gera að gamni sínu, utanrrh. Einar Ágústsson, í eins konar samningakæti, þegar hann kom heim frá Bonn og svaraði hreinskilnislega þessari spurningu um hvert hlutskipti okkar yrði, þegar hann sté út úr flugvélinni og sagði við blaðamenn að best væri að hengja sig strax. Ég minntist áðan í alvöru á hana, þessa eðlislægu áráttu Einars Ágústssonar til að segja satt, þó að hann neyðist stundum til að harka af sér. Og hvað pólitíska framtíð hans sjálfs og Framsfl. í heild áhrærir, þá hygg ég nú líka að honum hafi ratast þarna satt á munn, það sé best fyrir þá, hann og Framsfl., pólitískt séð að hengja sig bara strax.

En líf þessarar þjóðar er undir því komið að henni heppnist að skera af sér þá snöru sem nú er verið að smeygja um háls henni í mynd þessa samningsuppkasts. Ég er ekki að krefjast hengingar. Ég er að mælast til þess að hv. Alþ. hjálpi hæstv. ráðherrum nú strax til að skammast sín og segja af sér, svo að hægt verði að mynda nýja ríkisstj. sem sé trúandi til þess að veita þjóðinni forustu í baráttunni sem nú er fram undan. Hv. þm. Sverrir Hermannsson kynni enn að varpa fram spurningunni, eins til hv. þm. Karvels Pálmasonar fyrr í dag, og spyrja: hvers konar ríkisstj.? Ég hygg að ekki þurfi að nafngreina þann aðila sem mikill meiri hluti þjóðarinnar treystir til forustu í þeirri baráttu sem hér er háð. Ég hef meira að segja grun um að meiri hluti þm. hv. þm. hæstv. ríkisstj. gæti nafngreint þennan aðila sem ég á við, þótt hitt kunni að koma í ljós við atkvgr. um þetta samningsuppkast, sem mig uggir, að meiri hl. hv. stuðningsmanna þessarar ríkisstj. sé þess háttar fólk sem ekki er nógu vel að sér til þess að kenna sínum eigin ráðherrum að skammast sín.

Ríkisstj. hefur liggjandi fyrir sér á borðinu vantraustsyfirlýsingu þjóðarinnar á þá stefnu sem hún ætlar nú að knýja þm. sína til að samþykkja í landhelgismálinu. Öll stærstu og öflugustu stéttasambönd , landsmanna, auk stjórnarandstöðuflokkanna, hafa gert afdráttarlausar samþykktir gegn hvers konar samningum um veiðiheimild handa útlendingum í fiskveiðilögsögu okkar. Það má bæta því við, að á liðnum vikum hafa verið birtar fréttir frá þó nokkrum samtökum annars stjórnarflokksins líka þar sem mælt er eindregið gegn hvers konar samningum við útlendinga um veiðiheimildir í landhelginni. Þessi samtök hafa innan sinna vébanda 3/4 hluta atkvæðisbærra manna á Íslandi og hafa andmælt því eindregið og ljósum orðum að útlendingum verði heimilað að taka eitt einasta tonn af Íslandsmiðum.

Og röksemdirnar virðast með andmælum liggja einnig á borðum ráðherranna, þar sem er skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar, og þeir hafa samþykkt þau rök í einu og öllu. Fiskstofnarnir á Íslandsmiðum þola ekki þá sókn sem nægir íslendingum einum til framfæris. Og samt á að semja. Samt á að veita útlendingum heimild til þess að taka í tvö ár hundruð þúsunda lesta af fiski af miðunum okkar.

Það fer ekki á milli mála að mikill hluti þjóðarinnar hefur með atkvæðagreiðslum og samþykktum síðustu vikurnar svipt ríkisstj. lýðræðislegu umboði til þess að gera neins konar undanlátssamning við útlendinga í íslenskri auðlindalögsögu — og samt á að semja. Hvað er það þá sem veldur því, að Geir Hallgrímsson, hæstv. forsrh., Gunnar Thoroddsen, hæstv. iðnrh., hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson og hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson og Co. eru svo áfjáðir í það að gera samning sem þeir vita að þeir hafa enga heimild til að gera? Eru þeir svona vondir menn, að þeir vilji beinlínis fórna lífi þjóðar sinnar baráttulaust í þágu erlendra kapítalista? Ég held, að þeir séu ekki vondir menn. Um þá má margt gott segja sem einstaklinga, það má margt gott segja um þá sem einstaklinga, privat og persónulega, hvern fyrir sig, þó að enginn geri það að vísu þessa dagana.

Við skulum þá reyna að gera okkur grein fyrir því hvað hugsanlega geti valdið eða búið á bak við þessa undarlegu lýðhvöt, að íslendingum sé best að hengja sig strax. Við skulum gera örlitla könnun á þessum hóp manna sem ég hygg að séu ekki vondir menn privat og persónulega.

Geir Hallgrímsson, hæstv. forsrh., er uppalinn í Heimdalli, nærður við brjóst sjálfrar rússagrýlunnar, er fyrst og fremst fulltrúi íslenskrar heildsalastéttar og á sjálfur gróðavon sína í verslunarsamböndum með umboðslaunum í Bretlandi og Vestur-Þýskalandi.

Hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen, fágaður maður, leiðtogi embættismanna í Sjálfstfl., lagaprófessorinn sem stóð að því að gera landhelgissamninginn við breta og þjóðverja 1961 og sérstakur málsvari Alþjóðadómstólsins í Haag í landhelgismálinu.

Matthías Á. Mathiesen, uppalinn uppalningur kaupsýslustéttar Suðurnesja undir túngarði herstöðvarinnar, eins konar lifandi Búdda í tilbeiðslustellingum við herstöð Atlantshafsbandalagsins.

Ólafur Jóhannesson, hæstv. dómsmrh., einn af vöskustu erindrekum NATO innan Framsfl. allar götur síðan 1948, yfirmaður Landhelgisgæslunnar sem gætti þess af sérstakri umhyggju við útfærsluna í 50 sjómílur að varðskipunum væri beitt af sem allra yfirveguðustu ráði og sem dásamlegustu hófi gegn bresku og þýsku landhelgisbrjótunum, þáverandi forsrh. sem lék á meðráðherra sína og þjóðina alla að loknu viðtali við Luns framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og fór til Lundúna og samdi við breta.

Einar Ágústsson, sérstakur trúnaðarmaður hersetuklíkunnar hjá SÍS, drengilegur maður, eins og ég hef æ borið honum, sem hann á skilið, en gæddur furðulegum soðkjarna hinna teygjanlegustu skoðana.

Vilhjálmur Hjálmarsson, austfirðingur sem okkur að austan þykir vænt um fyrir ýmsar persónulegar dyggðir, en með alls enga skoðun nema þá að Ólafur Jóhannesson hafi rétt fyrir sér.

Og Halldór E. Sigurðsson, sem er gæddur ýmsum þeim eiginleikum sem hæfa þessum félagsskap slíkur sem hann er.

Ég held ekki að þeir séu vondir menn að innræti, en til síns brúks í íslenskri pólitík eru þeir ekki nógu góðir. Það mætti kannske orða það svo, að þá bresti sumt það sem geri þá hæfa til þess að veita þjóðinni forustu í þessari baráttu, og hafi svo vissulega líka til að bera ýmislegt annað sem geri þá gjörsamlega óhæfa til þess. Við getum orðað það þannig, að þeir menn, sem fara nú með ráðherradóm á Íslandi, hafi vafist fyrir ýmiss konar óheppni — vafist einhvern veginn svo í málstað andstæðinga okkar að þeir sjái í rauninni hag þeirra hið næsta sér og stundum hag Íslands í gegnum þann vef og fyrir utan. Af því að hér var rætt um umboð í dag, umboð forustumanna verkalýðshreyfingarinnar til þess að ræða um samningsuppkast þetta, til þess að ræða um þau kjör sem íslenskri alþýðu eru búin í fiskaflanum við þetta land, — af því að réttar þeirra, forustumanna verkalýðshreyfingarinnar, til þess að ræða þetta mál var dreginn í efa, þá vil ég enn kveða að orði um rétt ráðherranna, það umboð sem þeir hafa frá þjóðinni til að afsala 60 þús. tonnum af fiski árlega í tvö ár í hendur vestur-þjóðverjum, fiski sem þessir hæstv. ráðherrar eiga ekki, fiski sem íslendingar eiga og þá fyrst og fremst mennirnir sem hafa fyrir því að sækja hann á miðin og vinna hann og gera úr honum vöru, en ráðherrarnir hafi svipt því umboði eins ljóslega og íslenska þjóðin framast getur svipt ráðherra umboði til þess að framkvæma ranga og hættulega stefnu í lífshagsmunum þjóðarinnar, og ætla samt að þvinga þá stefnu fram.

Af því að ég er farinn að tala um umboð á annað borð, þá má til sanns vegar færa, að hinum ráðherrunum annars ólöstuðum, að það sé alveg sérstök ástæða til þess að fjalla sérstaklega um umboð tveggja þeirra.

Hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen, sem fjallaði áður um samning um landhelgina okkar árið 1961, hann sagði í ræðu sinni fyrr í dag að til mála gæti komið að við þyrftum að verja 200 mílna landhelgina gegn fleiri aðilum en bretum og vestur-þjóðverjum. Þó er nú sannleikurinn sá, að sá ágætissamningur, sem hæstv. ráðh. gerði 1961 ásamt félögum sínum, var með þeim hætti að í skjóli hans — einmitt í skjóli þess samnings — níðast bretar og vestur-þjóðverjar á okkur núna með blessun Alþjóðadómstólsins í Haag. Aðrar þjóðir, sem hæstv. ráðh: Gunnari Thoroddsen láðist að gera svona góðan samning við treysta sér ekki til að brjóta á okkur rétt.

Hinn ráðherrann, sem ég tel alveg sérstaka ástæðu til þess að helga fáeinar mínútur prívat og persónulega, er dómsmrh. hæstv., Ólafur Jóhannesson, um hann og aðferðir hans við að fjalla um landhelgismálið og frammistöðu hans í því máli fyrr og síðar. Hann gat sér alveg sérstakt orð, ekki bara sem forsrh., heldur e. t. v. fyrst og fremst sem dómsmrh., í vitund allra þeirra sem fylgdust með gangi mála við útfærsluna í 50 sjómílur, sérstaklega þó í vitund þeirra sem fylgdust af alvöru og einlægni með framkvæmd gæslunnar. Það er gjörsamlega ástæðulaust að vera nokkuð að draga dul á það hér í þennan hóp, að því trúa allir, sem reynt hafa að kynna sér gang málsins, að hæstv. þáv. og núv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson hafi beitt sínu æðsta valdi yfir landhelgisgæslunni til þess að henni yrði hagað með sérstöku tilliti til hagsmuna Atlantshafsbandalagsins sem hann tók hvað mestan þátt í á sínum tíma að blekkja íslendinga til þátttöku í, með sérstöku tilliti til hagsmuna Atlantshafsbandalagsins sem ber æðstu ábyrgð á herskipastólnum sem beitt er gegn okkur nú og var beitt gegn okkur þá. Það er vissulega sérstök ástæða til þess að taka nú til íhugunar frammistöðu þáv. og fyrrv. dómsmrh. og fyrrv. forsrh. Ólafs Jóhannessonar sem raunverulega krýndi feril sinn í vinstri stjórninni með því að loknu makki við Luns framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík haustið 1973, að skreppa til Lundúna „seint á ýlissóttu,“ eins og í því kvæði stendur, með þau orð á vör að ekki mundi hann gera neins konar samning við breta, og kom svo til baka á þriðja degi með samningsuppkast sem hann gerði að kapinettspursmáli og hótaði stjórnarslitum ef það yrði ekki samþ. Ég hef ekki farið dult með það persónulega, að þá vildi ég, á þeim degi þegar ég heyrði fréttirnar um Lundúnaför Ólafs Jóhannessonar, að Alþb. segði sig þá úr vinstri stjórninni. Það hygg ég að hafi líka þá verið öllum alþb-mönnum skapi næst. En ég hlýt líka að viðurkenna að ég féll frá því sjónarmiði er ljóst varð að þá þegar hafði hæstv. ráðh. Ólafur Jóhannesson undirbúið það með milligöngu fyrrnefnds Luns að mynda bara ríkisstjórn með Sjálfstfl. án undangenginna kosninga og leysa þá tvö vandamál Atlantshafsbandalagsins í einu, herstöðvavandamálið og landhelgismálið. Þar með hefði sem sagt vinstra samstarfi á Íslandi verið lokið, það hefði sungið sitt síðasta. Ég sat ekki á þingi þá. Hefði ég selið á þingi þá má vel vera að ég hefði greitt eins og aðrir alþb.-menn atkv. með samningnum á þingi þrátt fyrir allt í þeirri von, sem í ljós kom síðar að borin var, að með því væri hægt að bjarga vinstra samstarfi á Íslandi, að með því væri hægt að koma í veg fyrir að íhaldið og Framsókn véluðu um landhelgismálið og önnur þýðingarmestu mál þessarar þjóðar á eigin spýtur.

Það er sérstök ástæða til þess að rifja upp þennan feril hæstv. dómsmrh. nú þegar hv. þm. Framsfl. eigra milli kjósenda sinna vítt um landið og vitna, þegar kjósendurnir spyrja þá: hvers vegna í ósköpunum ætla þeir að gera svona samning, hvers vegna í ósköpunum ætla þeir að svíkja öll fyrirheit um það að hleypa ekki útlendingum inn fyrir 50 sjómílur? — þm. Framsfl. svara þá með því að vitna af ákefð í alkunnan drengskap Ólafs Jóhannessonar,formanns flokksins, og reyna með þeim hætti að telja fylgismönnum sínum trú um að samningurinn eða þetta uppkast, sem hér liggur fyrir, sé gott og hættulaust ef það sé í höndunum á öðrum eins drengskaparmanni.

Nú sannast sagna er náttúrlega það, að drengskaparmennirnir, sem standa að þessari samningsgerð, hafa svo sem gert annað og meira fyrir Atlantshafsbandalagið en það að stofna matbjörg þessarar vesalings þjóðar í hættu. En það er önnur saga og eldri saga — og þó kannske í dag ný saga á meðan drunurnar í njósnaþotum Atlantshafsbandalagsins hrista varðskipin okkar þar sem þær njósna um ferðir þeirra fyrir flota Atlantshafsbandalagsins sem sinnir nú þeim störfum á Íslandsmiðum að hjálpa erlendum landhelgisbrjótum að ná síðustu tittunum á grunnunum okkar. Ef ekki væri hinn alkunni drengskapur Ólafs Jóhannessonar í spilinu mætti meira að segja vel segja mér það, að jafnvel þm. Framsfl. blöskraði, þá hefðu þeir kannske beinlínis efast um það að nokkrum Ólafi væri trúandi til þess að hafa forustu um gerð nýs undanþágusamnings um veiðar útlendinga í fiskveiðilögsögunni okkar.

Til enn þá nánari staðfestingar á því, að þrátt fyrir allt sé finnanleg ástæða fyrir því, einhvern veginn skynsamleg, útskýranleg ástæða fyrir því að íslenska ríkisstj. ætlar nú að svipta þjóð sína hálfri lífsbjörginni f a. m. k. tvö ár eða sjálfum lífsgrundvelli hennar um ókomin ár ella, þá skal ég geta þess nú í lokin að bresk blöð hafa sagt frá ástæðum sem kemur býsna vel heim við drengskaparkenninguna, — þau hafa það eftir sjálfum utanrrh. Einari Ágústssyni að hann hafi sagt í ræðu í Lundúnum á dögunum að enda þótt íslendingar væru ekki aflögufærir um neitt, þá ætluðu þeir sér samt að leyfa bretum að veiða lítils háttar á miðunum hérna, m. a. vegna þess að þjóðirnar eru báðar í Atlantshafsbandalaginu. Og það var raunar eina haldbæra ástæðan sem tilgreind var af hálfu ráðh. til þess að útskýra þessa furðulegu staðreynd fyrir bretum, að íslendingar, sem halda því fram að þeir séu komnir á heljarþrömina sjálfir vegna þess að fiskstofnar þeirra hafi verið ofveiddir, þeir ætluðu samt að leyfa bretum að veiða hérna vegna þess að báðar þjóðirnar væru í Atlantshafsbandalaginu.

Ég hef íslenskar heimildir fyrir því að frásögn bresku blaðanna sé efnislega sönn. Ef svo er ekki, þá gefst hæstv. utanrrh. enn færi til að koma í þennan ræðustól og leiðrétta ummælin, honum gefst sem sagt kostur á því að segja enn einu sinni satt um landhelgismálið.

Og nú eru bresku herskipin sem sagt komin á miðin okkar, og ómurinn um söng íhalds- og framsóknarráðh. um það, að við getum ekki varið landhelgina, klingir enn í eyrum okkar, rennur raunverulega saman við nýjan söng um hið sama. Það má náttúrlega til sanns vegar færa. Ég trúi því a. m. k. að landhelgin verði ekki varin að neinu gagni með hinum alkunna drengskap Ólafs Jóhannessonar einum saman. En hún kynni að verða varin með annars konar drengskap. Ég geri ráð fyrir því að flestum okkar sé ljóst að fyrsta aðgerðin hlýtur að verða sú, að við hættum að styrkja óvinina í stríðinu gegn okkur. Á meðan við styðjum NATO, sem níðist á okkur í landhelgismálinu, munum við ekki berjast af neinum dug gegn ræningjum breta og þjóðverja á fiskíslóðum okkar. Á meðan við höldum áfram að versla við breta og vesturþjóðverja, samtímis því sem þeir beita okkur yfirgangi, munum við tæplega ganga fram í vörn landhelginnar af nauðsynlegri einurð. Og umfram allt, ef við ætlum að heimila vestur-þjóðverjum nú og þar af leiðandi síðar bretum að taka frá okkur fiskinn, sem þeir veiða nú við Ísland í banni, þá er okkur náttúrlega best að berjast bara ekki neitt og hengja okkur strax, eins og ráðh. komst að orði. Það er þá fyrst ef við hættum að kyssa á vöndinn, að við getum tekið upp vörnina af alvöru með því litla afli sem við þó eigum. Ef okkur skyldi auðnast að fá að beita því viðbótarafli sem við eigum umfram fyrrnefndan drengskap einstaks ráðh., þá getum við gert landhelgisbrjótunum ólíft á fiskislóðum okkar. Það hefur ekki verið reynt enn. Það hefur verið bent á leiðirnar til þess, það hefur verið haldið aftur af umboðslausum mönnum sem vildu gera tilraunir til þess.

Norðfirðingar hafa enn einu sinni — við skulum aðeins minnast á það — gefið okkur vísbendingu um til hvaða baráttuaðferða eigi að grípa við þessar aðstæður. Þeir gerðu það áður í þorskastríðinu 1958, þegar bresku herskipin tóku 10 manns af Maríu Júlíu og hertóku þá. Þá var auglýst eftir sjálfboðaliðum á Norðfirði. Það gáfu sig fram 120 á einum klukkutíma. Norðfirðingar skynjuðu sinn vitjunartíma í gær, þegar Othello var sendur inn til þess að ganga úr skugga um slappleika stjórnvalda á Íslandi þeirra erinda að setja í land sjóveikan mann og sækja póst. Hattersley orðaði það svo, að þorskurinn vírtíst koma við hjartataugarnar á þeim Norðfirðingum. Ég er ekki viss um að íslenskir kollegar Hattersleys geri sér grein fyrir því að þetta er nú eiginlega enn þá grófara í raun og veru, að líf fiskstofnanna kringum landið og líf þjóðarinnar fara beinlínis saman. Þessi þáltill. þykir mér benda til þess, að þeir geri sér ekki grein fyrir því, þrátt fyrir öll orð þar að lútandi. Og fari nú svo að stjórnarflokkarnir hengi sig strax í þessari þáltill., þá verður alþýða þessa lands, sem þorskurinn virðist standa í nánara tilfinningasambandi við og vitsmunasambandi heldur en ráðh. þessarar ríkisstj., — þá verður alþýða þessa lands að grípa til sinna ráða og þá hef ég grun um það, að það verði auglýst, hvort sem hæstv. ráðh., hv. leiðtogum Sjálfstfl. og Framsfl. er það ljúft eða leitt.