26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Málstaður hv. síðasta ræðumanns er ekki góður. Hann er slæmur. En hann er samt ekki svo slæmur að hann eigi skilið þann málflutning sem þessi hv. þm. hefur hér viðhaft.

Margt hefur nú borið á góma í ræðum hv. þm. stjórnarandstöðunnar um þáltill. þá sem hér er til umr. Ég ætla ekki að fara að elta ólar við allt, sem þar hefur verið sagt, og allar þeirrar fullyrðingar. Þess gerist ekki heldur þörf. Margt af því fellur marklaust um sjálft sig.

Það er eins og menn tali hér þannig að við íslendingar eigum alls kostar við alla. Stundum eru fullyrðingar, ályktanir og málatilbúnaður þessara herra eins og staða okkar íslendinga sé utan við tíma og rúm. Sú var tíðin, að sjálfstæðishugtakið að þjóðarétti var skilgreint þannig, að sjálfstætt væri það ríki talið sem gæti framfylgt vilja sínum með valdi. Þessi tími er löngu liðinn eða a. m. k. eru nú öllum ríkjum sett meiri takmörk í þessu efni en áður var. Jafnvel risaveldunum eru nú sett viss takmörk í valdbeitingu sem felst í möguleikunum á gagnkvæmri beitingu nútíma tortímingarvopna.

Sjálfstæðishugtak Íslands hefur aldrei að þjóðarétti byggst á valdi. Það eru augljósar ástæður fyrir því sem ekki þarf að ræða. Smáþjóðir hafa nú á dögum takmarkað vald, og jafnvel þær þjóðir sem við höfum kallað stórveldi, en þær hafa nægilegt vald samt til að beita okkur hervaldi og viðskiptalegu ofbeldi, svo sem dæmin sýna í landhelgismáli okkar íslendinga. Þetta eru staðreyndir sem ekki tjóar að láta sem vind um eyru þjóta. En þessar staðreyndir draga ekki úr gildi þess réttar sem við höfum til fiskimiðanna umhverfis landið. Þvert á móti er þessi réttur meira virði vegna þess að við höfum ekki annað en réttinn til að tefla fram gegn óréttinum. Þess vegna veltur á mesta hvernig við förum með þennan dýrmæta rétt okkar.

Við íslendingar megum ekki gleyma því, að í rann og veru eigum við allt undir því að lög og réttur ráði í samskiptum ríkja og þjóða. Við búum ekki yfir öðru valdi en því sem lög og réttur, mannvild og þroski þjóðarinnar veita. Þess vegna hljótum við íslendingar öðrum þjóðum fremur að halda í heiðri þá grundvallarreglur réttarskipulagsins að jafna ágreiningsmál okkar við aðrar þjóðir með samningum. En við gerum samt ekki samninga við aðrar þjóðir nema þeir þjóni hagsmunum okkar, betur gerðir en ógerðir. Það er betra að þola órétt án samþykkis en að lúta órétti samkv. samningi. Þetta á við um landhelgismálið ekki síður en í öðrum efnum.

Drög þau að samningi til lausnar landhelgisdeilu okkar við vestur-þjóðverja, sem hér eru til umr., hafa bæði kosti og galla. Ekki var við öðru að búast. Raunar er það útilokað að við hefðum getað fengið allar okkar óskir uppfylltar. Samkv. eðli málsins er samningum ekki komið á nema báðir aðilar sjái sér nokkurn hag í því. Við verðum því að vega og meta hvað megi sín meir fyrir okkur, kostirnir eða gallarnir. Frá mínu sjónarmiði vega kostirnir meir en ókostirnir, og þess vegna mun ég greiða atkv. með þáltill. þeirri sem hér er til umr.

Það, sem einkum ræður minni ákvörðun, er að þorskstofninum er hlíft með ákvæðinu um 5 þús. tonna hámarksafla, frystitogurunum er stuggað út fyrir 200 mílna fiskveiðilögsöguna og gert er ráð fyrir að tollalækkanir samkv. bókun 6 komi til framkvæmda. Ég hefði kosið að hámark heildaraflans, 60 þús. tonn, hefði verið lægra, veiðisvæðin minni og fjær landi og samningurinn tæki ekki gildi fyrr en bókun 6 kæmi til framkvæmda. En það vegur ákaflega þungt í mínum huga að geta klofið þá fjandafylkingu, sem að okkur sækir, með því að ná samkomulagi við þær þjóðir sem viðmælanlegar eru, til þess að við getum einbeitt okkur þeim mun betur að erkióvininum, bretum, sem nú er að mæta í sínum versta ham.

Hv. 5. þm. Vestf. kvað eitthvað á þá leið að ég hefði verið kokhraustur árið 1973 þegar landhelgissamningurinn var gerður við breta. Hér mun vera átt við að ég greiddi þá atkv. gegn þeim samningi. Það er látið liggja að því að það samrýmist ekki að greiða atkv. gegn breska samningnum, en með þeim samningi sem nú er til umr. Hér er að sjálfsögðu um misskilning að ræða, svo að ekki sé meira sagt. Auðvitað ber þm. að taka afstöðu til þess samnings, sem nú liggur fyrir, eftir efni og skilmálum samningsins sjálfs, en ekki eftir afstöðu sem þeir kunna að hafa tekið til allt annars samnings, hvort sem þeir hafa verið með þeim samningi eða á móti.

Ég hef ekki ætlað mér að fara að gera samanburð á þeim samningsdrögum, sem hér liggja fyrir, og samningnum við Breta árið 1973. Í sjálfu sér sé ég ekki að slíkur samanburður hafi ýkja mikið gildi. En þar sem ég var einn þeirra sem greiddu atkv. gegn landhelgissamningnum við breta árið 1973 og það er látið að því liggja að sú afstaða samrýmist ekki því að vera með landhelgissamningum nú, kemst ég ekki hjá því að víkja lítillega að þessu efni.

Við atkvgr. í Sþ. 13. nóv. 1973 um þáltill. um bráðabirgðasamkomulag við breta um veiðar breskra togara voru sjálfstæðismenn skiptir í afstöðu sinni. En þótt þessi ágreiningur væri fyrir hendi um afstöðu til þessa landhelgissamnings voru þm. Sjálfstfl. sammála í veigamiklum grundvallaratriðum. Þeir voru sammála um það í fyrsta lagi, að leita skyldi samkomulags við breta og koma á friði á miðunum til að bægja frá hættum. Þeir voru í öðru lagi sammála um að magnaðir gallar væru á þessum samningi. Og þeir voru í þriðja lagi sammála um það, að unnt hefði verið að ná betri samningum en raun bar vitni um ef betur hefði verið staðið að málum. Þm. Sjálfstfl. lögðu hins vegar mismunandi áherslu á kosti og galla samningsins. Sumir töldu kostina vega svo mikið að þeir greiddu atkv. með samningnum, svo sem kunnugt er. Aðrir þm. Sjálfstfl. töldu galla samningsins svo magnaða að þeir greiddu atkv. gegn samningnum.

Ég var einn þeirra sem greiddu atkv. gegn þessum samningi við breta árið 1973. Við, sem greiddum atkv. gegn samkomulaginu, töldum að íslendingar gæfu of mikið eftir með því að ákveða, að 5/6 hlutar 50 mílna landhelginnar, að frádregnum báta- og friðunarsvæðum, væru stöðugt opnir bretum. Við töldum og að lokunartími hinna einstöku hólfa væri annar og óhentugri en íslenskir útvegsmenn og sjómenn hefðu óskað eftir og vonað og það kæmi afar illa við suma landshluta og verstöðvar. Við bárum fyrir okkur að samningurinn fæli ekki í sér viðurkenningu breta á 50 mílum og enga yfirlýsingu væri í honum að finna um að við stefndum að landgrunninu öllu og að við mundum taka okkur 200 mílur áður en langt um liði. Í þessu sambandi töldum við að ekki væri farið að með nægilegri gát og vöruðum við að að samningstímanum loknum mundu bretar geta tekið til hernaðaraðgerða á nýjan leik gegn okkur. Hve sannspáir höfum við ekki orðið, því miður.

Nú hefur hæstv. iðnrh. tekið af' mér ómakið að bera saman breska samninginn frá 1913 og þennan samning sem nú er á dagskrá. Hann lagði hv. þm. Austurl. svo kirfilega til í þessu sambandi að ekki þarf frekar vitnanna við. En ég verð þó að segja hv. 2. þm. Austf. til lofs, að í umr. hér á hv. Alþ. um breska samninginn kom fram að hann sá og skildi galla samningsins mætavel. Ég fann þá engan teljandi mun á gagnrýni minni á samningnum og gagnrýni hv. 2. þm. Austf., og utan þings hafði þessi hv. þm. uppi miklu meiri fordæmingu á þessum breska samningi en ég hafði nokkru sinni. Ég átti því ekki á öðru von en að atkv. okkar hv. 2. þm. Austurl. féllu á sama veg um samning þennan. En það fór samt á aðra leið. Hann greiddi atkv. með samningnum, en ég á móti. Það var hér sem kom til stóllinn góði, sem var svo dýrt keyptur eins og hæstv. iðnrh. hefur þegar lýst.

Þegar við hlýðum nú á hv. 2. þm. Austurl. bölsótast svo gegn samningi við þjóðverja eins og átt hefur sér stað í þessum umr. hér í dag, þá getum við ekki annað en undrast það, ef við höfum í huga atkv. hans með breska samningnum árið 1973. En kannske er þetta ekki að undra frekar en framferði þessa hv. þm. árið 1973, ef stólinn góði er enn í dæminu.

Ég sagði hér áður, að ég mundi ekki hirða um að elta ólar við hv. stjórnarandstæðinga um allar þeirra fullyrðingar. Ég ætla ekki einu sinni að gera það hvað varðar hv. 5. þm. Vestf. Hann ræddi hér um þetta mál og sagði margt sem var með mestu ólíkindum. Hann var stórorður og hávær eins og honum er lagið. Hann talaði um að fórnað væri málstað íslensku þjóðarinnar, að í staðinn fyrir að færa út landhelgina væri verið að færa hana inn. (Gripið fram í.) Hann sagðist hafa staðið í þeirri meiningu að það ætti að færa landhelgina út. Hann spurði hvort nú ætti að ganga af vestfirðingum dauðum. Það væri hægt að ræða mikið um þessar upphrópanir sem hér voru settar fram, en ég ætla ekki að gera það. Ég held að það fari vel á því að láta þetta standa óhaggað í þingtíðindum, sem hv. 5. þm. Vestf. hefur til þessara mála að leggja. En ég mætti kannske þó leyfa mér að spyrja hann hvers vegna hann greiddi atkvæði með því árið 1973 að hleypa bretum inn í landhelgina fyrir utan Vestfirði í 10 mánuði og taldi það harla gott, en telur nú að það jafngildi því að leggja Vestfirði í auðn að gera samning sem felur í sér að þjóðverjar geti veitt aðeins á takmörkuðu svæði fyrir utan 34–37 sjómílur í 6 mánuði. Hvers vegna er verið að leggja Vestfirði í auðn með slíkum ráðstöfunum sem nú á að gera? Og hvers vegna er Vestfjörðum gert gott til með því að hleypa bretum inn á allt svæðið, öll miðin á Vestfjörðum fyrir utan bátamiðin, eins og gert var 1973? Þegar hv. þm. hefur svarað þessu, þá kann að vera að hann sé viðræðuhæfur um þetta atriði.

Ég vil, herra forseti. ekki vera að lengja þetta mál mitt. Ég sé ekki ástæðu til þess. Þetta mál hefur verið ítarlega rætt í þingflokki Sjálfstfl., og mér var því þegar kunnugt um þær upplýsingar sem mér virðist að hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, hafi ekki fengið í sínum flokki. Við höfum rætt þessi mál ákaflega ítarlega í Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Það er ágætt að fá þetta fram opinberlega og ég skal ekkert hafa á móti því, enda engin ástæða til. En það gæti kannske einhverjum dottið í hug, þar sem nú er svo náið á milli okkar hv. 2. þm. Vestf., að þá væri ég ekki betur settur í þessum efnum en bann og hefði ekki fengið frekari upplýsingar. Ég vildi aðeins láta þess getið að þær hefði ég fengið.

Ég er sannfærður um það, að það er rétt stefna að samþykkja þennan samning, og ég vænti þess að það geti verið sem mest samstaða um þá afstöðu.