26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hér hafa verið viðhöfð mörg stór orð í stóru máli, svo stóru og afdrifaríku að það ætti að vera hafið upp yfir flokkspólitísk sjónarmið. Við höfum jafnan áður við aðgerðir okkar í landhelgismálum lagt áherslu á nauðsyn þjóðarsamstöðu í viðureign við voldugar milljónaþjóðir sem að okkur sækja. Þessi samstaða virðist ekki vera fyrir hendi nú og það ber að harma.

Ég vildi helst ekki þurfa að væna neinn íslending, hvorki innan Alþ. né utan, um vísvitandi óheilindi í afstöðu sinni til þessa máls, svo viðurhlutamikið sem það er. Hins vegar verð ég að viðurkenna, að svo virðist því miður að allt of margir hafi látið freistast til að taka undir háværar og æsingakenndar upphrópanir um enga samninga við neina þjóð um neins konar veiðiheimildir innan 200 mílna markanna án þess að reynt hafi verið að vega og meta svo sem nauðsynlegt væri þau rök og mótrök er málið felur í sér.

Ég hlýt líka að segja að strákslegur og lítilsigldur málflutningur sumra stjórnarandstæðinga í þessum umr., persónulegt hnútukast og sparðatíningur í langlokustíl er í engu samræmi við alvöru og mikilvægi þessa máls.

Þau rök og mótrök, sem ég minntist á, hafa þegar verið skýrð og skilgreind það rækilega í framsögu málsins í þessum umr. af hæstv. utanrrh. og hæstv. iðnrh. að ég mun litlu þurfa þar við að bæta. Hitt hlýt ég að segja í upphafi og af heilum hug, að það er langt í frá að ég sé ánægð með þessa samninga, og hygg ég að ég tali þar fyrir munn flestra alþm. og um leið flestra íslendinga.

Að sjálfsögðu erum við ekki ánægð með það að veita nokkurri erlendri þjóð verulega hlutdeild í því aflamagni á Íslandsmiðum sem vitað er að við getum fullnýtt sjálfir og meira en það. Þar á móti kemur hins vegar sú meginröksemd, sem við hljótum að byggja okkar endanlegu afstöðu á, að það er tvímælalaust okkur hagkvæmara að hafa í gegnum samninga ákveðna stjórn og eftirlit með veiðum erlendra þjóða innan landhelgi okkar fremur en að bjóða heim stjórnlausri rányrkju.

Önnur meginrök, sem réttlætt geta samninga við vestur-þjóðverja eru að sjálfsögðu sú staðreynd að þeir sækja ekki nema að mjög takmörkuðu leyti í þorskstofninn sem mest ríður á að vernda fyrir áframhaldandi ofveiði erlendra fiskveiðiþjóða og raunar íslendinga sjálfra. Það er því augljóst mál, að 55 þús. tonn af ufsa og karfa til vestur-þjóðverja og 5 þús. tonn af þorski, á móti þeim 65 þús. tonnum af þorski sem nefnd hafa verið í viðræðum við breta — það er ekki sambærilegt og því óþarft að gera of mikið úr hættulegu fordæmi með slíkum samningum við vestur-þjóðverja.

Það er talið samkv. skýrslum að vestur-þjóðverjar hafi veitt á árinu 1974 68 þús. tonn. Því hefur hins vegar verið haldið fram hér í umr. í dag og raunar oft að undanförnu í dagblaðinu Þjóðviljanum að á þessu ári muni þjóðverjar veiða aðeins 40 þús. tonn. Mig langar til að beina þeirri fsp. til hv. 5. þm. Vestf. sem ég hygg að hafi haft þessa tölu hér um hönd í kvöld, hvaðan hann hafi fengið þessa tölu, á hvaða heimildum hann byggir hana. Sjálf hef ég reynt að afla mér upplýsinga um þessa staðhæfingu bæði hjá Hafrannsóknastofnuninni og hjá Fiskifélagi Íslands og hvorugur hefur getað veitt mér nokkra úrlausn, segist hvorugir aðilinn hafa hugmynd um hvaðan þessi tala muni fengin. Læðist þá að manni grunur um að hér sé farið með tölur út í loftið, án nokkurra haldbærra heimilda, og væri það sannarlega í samræmi við mikið af þeim málflutningi sem stjórnarandstæðingar hafa haft hér í frammi.

Ég vænti þess að þeir, sem hafa hampað þessari tölu, sem er okkur að sjálfsögðu mjög neikvæð, upplýsi hvaðan þeir hafi fengið hana.

Þegar við komum svo að blessuðum þorskinum okkar, þá hljótum við að beita af fullum þunga okkar fiskverndunarsjónarmiðum, sem eru raunar upphaf og endir að öllum okkar málflutningi í þessu lífshagsmunamáli íslensku þjóðarinnar. Ég fæ satt að segja ekki betur séð en að bretar, sem þar eiga stærstan hlut að að máli, hafi með framkomu sinni að undanförnu fyrirgert öllum möguleikum á samningum við okkur um veiðiheimildir á íslenskum fiskimiðum, hvað þá heldur um 65 þús. tonn af þorski.

Ég fagna þeim upplýsingum, sem komu fram í ummælum hæstv. utanrrh., að við værum að sjálfsögðu á engan hátt bundin við það tilboð, ef tilboð skyldi kalla, um 65 þús. tonn, sem bretar ganga út frá að þeim hafi staðið til boða.

Ég vil segja það, að það eru ýmis rök sem mæla með þessu máli, þ. e. a. s. staðfestingu þess samkomulags við vestur-þjóðverja sem hér liggur fyrir.

Ég nefni fyrst þá staðreynd að það er ekki þorskurinn sem þeir sækjast fyrst og fremst í, heldur karfi og ufsi sem við þó sannarlega þurfum að gæta okkur með líka að ofveiða ekki til jafns við þorskinn.

Ég vil einnig leggja áherslu á mikilvægi 7. og 8. gr. samningsuppkastsins sem fjallar um staðsetningarskyldu og eftirlit með veiðum þjóðverja. Ég skildi það svo, sem fram kom í ummælum hæstv. utanrrh., að við hefðum frjálsar hendur um framkvæmd þess eftirlits og að upphaf greinarinnar: „ef ástæða þykir til“ o. s. frv. — bindi á engan hátt hendur okkar um að hafa það eftirlit og aðhald sem við teljum okkur þurfa að hafa með veiðum vestur-þjóðverja ef til koma. Við verðum að nýta þessi ákvæði til hins ítrasta, þannig að við fáum skýrt og áreiðanlegt yfirlit yfir aflagerð og aflamagn vestur-þýskra skipa á hverjum tíma. Það varðar miklu að þetta eftirlit og aðhald fari okkur vel og skipulega úr hendi og gæti raunar jafnframt orðið grundvöllur og upphaf að virku eftirliti og stjórnun á veiðum okkar íslendinga sjálfra, sem ljóst er að við munum þurfa að taka upp gagnvart okkar eigin fiskimönnum, hvað sem líður veiðum útlendinga.

Þá ber að hafa í huga einnig í sambandi við þetta ákvæði annað þess efnis, að verði þýskur togari uppvís að broti á settum reglum, verði hann strikaður út af lista yfir þau fiskiskip sem heimild hafa til veiða hér við land. Til þess að slíkt eftirlit verði stöðugt og fullnægjandi, og þá á ég fyrst og fremst við vestur-þjóðverja, þyrfti að mínu mati að vera að staðaldri eitt eftirlitsskip á hverju hinna þriggja meginveiðisvæða: fyrir Suðausturlandi, út af Reykjanesi og úti fyrir Vestfjörðum. Að sjálfsögðu er þetta þó framkvæmdaratriði sem til athugunar kemur síðar. Til þess þurfum við að sjálfsögðu sérstakan skipakost, og virtist eðlilegt að við tækjum til þessa starfa eitthvað af okkar stærri skuttogurum á meðan landhelgisgæslan þarf að beita sér af alefli að breskum veiðiþjófum og herskipaflota hennar hátignar Elísabetar Englandsdrottningar.

Enn ein röksemd fyrir gildi samninga, sem mér heyrist ýmsir gera hættulega lítið úr, er það álit þeirra manna, sem lengst og best hafa unnið að landhelgismálum okkar á alþjóðavettvangi, að afneitun okkar á öllum samningum nú mundi stórlega veikja stöðu okkar þegar til lokaatrennunnar kemur á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og spilla þeirri samúð og skilningi sem við höfum áunnið okkur í fyrri átökum um landhelgina með ábyrgri afstöðu okkar og ágætu starfi okkar fulltrúa fyrir íslenskum málstað.

Þá ber og að hafa það í huga, að enda þótt þróun síðustu ára í hafréttarmálum gefi ástæðu til bjartsýni og æ fleiri þjóðir hneigist að 200 mílna fiskveiðilandhelgi, þá eru samt, eins og hér hefur réttilega verið bent á, ýmsir þröskuldar í veginum fyrir því að endanleg alþjóðleg viðurkenning liggi fyrir. Þeim lokaáfanga verðum við að ná, og ég trúi því að við náum honum með skjótari og farsælli hætti eftir samningaleiðum, enda þótt það kosti okkur nokkrar tímabundnar fórnir, heldur en með stríði við hlutaðeigandi þjóðir, séu þær á annað borð viðmælandi.

Sannleikurinn er auðvitað sá — og það vita allir íslendingar sem skoða málin af raunsæi og skynsemi — að í samningum sem þessum, hversu þýðingarmiklir sem þeir eru fyrir okkur, þá er ekki spurningin aðeins um það, hvað við viljum og hvað við þurfum að fá, heldur um það, hvað við getum fengið.

Það má raunar undarlegt heita, að ekki sé fastar að orði kveðið, hve illa gengur að koma þessum deiluaðilum okkar, þjóðum sem eiga að heita okkur vinveittar bandalagsþjóðir, í skilning um að fiskurinn í sjónum kringum landið er sú lífsbjörg sem við íslendingar eigum líf okkar og tilveru undir sem efnahagslega og pólitískt sjálfstæð þjóð. Eða hvernig eigum við öllu lengur að taka alvarlega hjal um vestræna samvinnu, vinarþel og virka samstöðu um öryggi og sjálfstæði vestrænna þjóða, á sama tíma og það er látið líðast að hin minnsta og hin eina vopnlausa á meðal þeirra sé af vinaþjóðunum sjálfum beitt hernaðarlegu ofbeldi, samningssvikum og viðskiptalegum þvingunum svo að efnahagslegu sjálfstæði hennar er stefnt í voða? Þýðir þetta í raun að við stöndum einfaldlega frammi fyrir þeirri napurlegu staðreynd að bandalagsþjóðir okkar telji okkur nógu góða til að nota okkur til að þjóna vestrænum hagsmunum í varnar- og öryggismálum og um leið nógu litla til að traðka á okkur? Ég held að það sé kominn tími til að við tökum þessa bandamenn okkar alvarlega tali og því fyrr því betra.

Nú vitum við samt að við eigum, sem betur fer, ýmsa einlæga og trausta talsmenn í herbúðum andstæðinga okkar sem skilja og styðja okkar málstað í ræðu og riti. Við eigum menn eins og William Dulforce, breskan fréttaritara fyrir Financial Times á Norðurlöndum með aðsetur í Stokkhólmi. Hann hefur þrásinnis komið hingað, gerþekkir íslensk málefni og hefur á undanförnum vikum og mánuðum skrifað okkur mjög hagstætt í þessu viðlesna tímariti sem hann er fréttaritari fyrir. Slíkum mönnum eigum við mikið að þakka og starf þeirra er metið. En raddir sem þessar eru of fáar, og það mun því miður sanni nær, sem heyrst hefur m. a. frá íslendingum búsettum í Bretlandi, að þar vaði uppi í fjölmiðlum hvers kyns rangfærslur og rangtúlkanir á málstað okkar.

Hér þurfa íslensk stjórnvöld að bregðast skjótt við til úrbóta. Það liggur í augum uppi að okkur er það höfuðnauðsyn nú, er við berjumst til úrslita um 200 mílna landhelgina, að höfð sé uppi af okkar hálfu öflug og vel skipulögð upplýsinga- og kynningarstarfsemi á alþjóðavettvangi, ekki aðeins við samningaborð með deiluaðilum okkar eða á stjórnaráðsskrifstofum hlutaðeigandi ríkja, heldur á miklu víðari vettvangi úti á meðal almennings. Við þurfum að fræða hinn almenna borgara um hið rétta eðli málsins og eyða fjarstæðukenndum misskilningi og rangtúlkunum sem hafðar eru í frammi gegn okkur. Í stuttu máli: við verðum að reyna með öllum tiltækum ráðum að magna upp almenningsálitið, eins og komist var að orði í leiðara Morgunhlaðsins nú á dögunum, utan Íslands og þá fyrst og fremst í þeim löndum sem nú seilast eftir íslenskum fiskimiðum sem við höfum í raun og veru ekki efni á að veita einum eða neinum rétt til þess að veiða á, og við gerum það heldur ekki ótilneyddir.

Mér virtist þannig eðlilegt og sjálfsagt að við notuðum skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, svörtu skýrsluna, eins og hún hefur verið kölluð, sem við byggjum nú okkar málflutning á og er viðurkennd af breskum fiskifræðingum, — að við notuðum hana og tilreiddum þannig í læsilegum og aðgengilegum búningi að hún höfðaði til hins almenna lesanda fremur en skýrslan í heild. Það má telja það of mikla bjartsýni að almenningur utan Íslands nenni hreinlega að lesa hana. Að sjálfsögðu er þó nauðsynlegt að hafa skýrsluna á takteinum birta í heild í erlendum þýðingum fyrir þá lesendur sem kafa vilja dýpra í málið. En hæfilega stuttur myndskreyttur og snotur upplýsingabæklingur, sem hefði að geyma meginniðurstöður skýrslunnar, hæfilega kryddaðar almennum fróðleik um Ísland, gæti að mínu mati gert málstað okkar ómetanlegt gagn ef rétt væri á haldið um gerð hans, útgáfu og dreifingu. Jafnhliða slíkri útgáfu þyrftum við að gera okkar ítrasta nú til að koma að sjónarmiðum okkar í erlendum fjölmiðlum. Ég veit að það kann að reynast erfitt, t. d. í Bretlandi, þar sem við þyrftum hvað helst á slíkum upplýsingum að halda. En væri samt ekki reynandi að fá okkar góða sjónvarpsmann Magnús Magnússon, sem enn starfar hjá BBC í lið með okkur nú? Og höfum við ekki ástæðu til að ætla að frændur okkar á Norðurlöndum væru fúsir til að leyfa okkar rödd að heyrast í þeirra fjölmiðlum og þá ekki hvað síst á sjónvarpsskerminum ef eftir væri leitað af okkar hálfu?

Ég minnist þess, að ég hitti fyrir nokkrum dögum tvo merka íslendinga sem höfðu verið staddir í Svíþjóð í síðasta þorskastríði, þegar sýnd var sjónvarpskvikmynd, sænsk, er sænskir sjónvarpsmenn höfðu tekið um borð í einu af varðskipum okkar og horft upp á aðfarirnar í þorskastríðinu eins og það gekk til þá. Þeir höfðu orð á því hve undursamlega almenningsálitið í Svíþjóð hefði snúist við eftir þessa einu kvikmynd sem sýndi ljóslega hvað var að gerast á Íslandsmiðum. En við verðum hér sjálfir að bera okkur eftir björginni, treysta fyrst og fremst á okkur sjálfa fremur, en ekki eiga það undir áhuga og velvilja erlendra manna hvort eða hvernig haldið er á málstað okkar á erlendum vettvangi. Það kann að ráða meiru um framvindu og úrslit í þessu mikilvæga máli heldur en margur gerir sér grein fyrir.

Ég tel því tímabært og aðkallandi að íslenska ríkisstj. geri þegar í stað ráðstafanir til að byggja upp skipulega og viðtæka upplýsingaherferð til styrktar okkar málstað á alþjóðavettvangi. Ég hygg að nauðsynin hafi aldrei verið brýnni en einmitt nú, er við vopnlaus smáþjóð stöndum um ófyrirsjáanlegan tíma í ójafnri og háskalegri viðureign við eitt af vopnuðum stórveldum heims og jafnframt líður að lokafundum hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, þar sem á ríður enn sem fyrr að málstaður okkar njóti skilnings og samúðar aðildarþjóða. Ég tel því eðlilegt að í þessu skyni væri á vegum forsætis-og utanrrn. komið upp sérstakri n. manna sem falið væri um ákveðinn tíma að byggja upp, skipuleggja og framkvæma þær upplýsingaaðgerðir sem ég hef í huga. Sú n. þyrfti ekki að vera fjölmenn, 2–3 menn, en í hana yrðu að veljast hæfir menn með haldgóða málefnalega þekkingu og reynslu í starfi fjölmiðla. Blaðafulltrúi utanrrn. mun þegar hafa ærnum verkefnum að sinna við móttöku og fundi með erlendum blaðamönnum sem nú streyma hingað hvaðanæva að sem og önnur almenn afgreiðslustörf, svo að greinilega er þarna þörf á liðsauka.

Er við staðnæmumst við ljósu punktana í þessum samningsdrögum, og þeir eru sem betur fer nokkuð margir, þá verður þáttur íslensku landhelgisgæslunnar ekki undanskilinn. Hversu djörfu og traustu líði sem við eigum þar á að skipa, þá má telja það víst að barátta við tvo volduga andstæðinga í einu yrði henni ofurefli. Samningar við vestur-þjóðverja nú koma í veg fyrir að slík aðstaða skapist. Hugir allra íslendinga leita þessa dagana til hinna hugprúðu landvarnarmanna okkar á hafinu kringum Ísland í þakklæti, ósk og bæn um að hollar vættir hlífi þeim við grandi í þeirri erfiðu og hættulegu baráttu er þeir heyja fyrir landsréttindum þjóðar sinnar. Þess er og að vænta að ekkert verði látið ógert af hálfu íslenskra stjórnvalda til að auðvelda þeim varnarstörfin sem mest og tryggja öryggi þeirra svo sem framast er kostur.

Ég hef hér að framan staldrað við nokkra af ljósu punktunum í samkomulagi því við vesturþjóðverja sem hér liggur fyrir til afgreiðslu og staðfestingar. En þar er einnig að finna dekkri punkta sem við lokum ekki augunum fyrir. Ég fer í stuttu máli yfir þau atriði og nefni þá fyrst of hátt aflamagn, í öðru lagi óljós ákvæði um gildistöku tollfríðindaákvæðis í samningi okkar við Efnahagsbandalag Evrópu, í þriðja lagi, að ekki eru í samkomulaginu nein fyrirheit um viðurkenningu á 200 mílna landhelginni né um endanleik veiðiheimilda að loknum tveggja ára samningstíma. Í fjórða lagi nefni ég svæðin sem tiltekin eru til veiða fyrir vestur-þjóðverja meðan á samningstímabilinu stendur. Ég veit að þetta atriði einmitt var eitt af því erfiðasta sem okkar samningamenn úti í Bonn höfðu við að glíma, og ég veit einnig að þeir fengu ýmsu þokað til betri vegar, m. a. að því er varðar veiðisvæðin fyrir norðanverðum Vestfjörðum sem ég tel einn veikasta hlekkinn í þessari svæðaskiptingu, vegna þess að þar er um að ræða óvenjulega fengsæl og dýrmæt fiskimið. Víkurállinn út af sunnanverðum Vestfjörðum er lokaður þjóðverjum vegna tilrauna sem tókust í þá átt af hálfu samningamanna, að þessi mið væru ekki nýtt af þjóðverjum. Hins vegar eru Halamiðin, ein frægustu fiskimið íslendinga, opin hálft árið fyrir vesturþýsk veiðiskip, og það er staðreynd sem ég veit að vestfirðingar og raunar allir landsmenn eru óglaðir yfir — og sömuleiðis þeir sem horfa upp á viðkvæm fiskimið' hér við suðausturströndina látin að nokkru leyti í hendur útlendingum allt inn að 23 mílum.

Hv. 5. þm. Vestf. hafði hátt — (Gripið fram í: Ekki veitir af.) — hér í umr. í dag. Við erum vön því og ég ætla ekki að fara út í að svari þeim málflutningi sem hann hafði þarna í frammi og var ekki þannig vaxinn allur að mark væri á honum takandi, því miður. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég hef þegar oftar en einu sinni gefið þessum ágæta samþm. mínum í skyn, að ögranir hans og allmikill belgingur í ræðustóli munu ekki nú fremur en áður hafa minnstu áhrif á afstöðu mína í þessu máli og það mun gilda um önnur mál sem ég og aðrir þm. þurfum að taka afstöðu til hér á hinu háa Alþ. Ég leiði hjá mér allan kjördæmakryt í þessu stórmáli allrar íslensku þjóðarinnar.

Þetta samkomulag, eins og það liggur fyrir, felur þannig óneitanlega í sér bæði kosti og ókosti sem ég ætla mér ekki að rekja frekar hér. Þannig er það jafnan þegar tveir aðilar semja um eitt eða annað, að hvorugur fær allt sem hann vill. Þannig mun staðfesting þessa samkomulags við vestur-þjóðverja að sjálfsögðu ekki þýða það að þeir alþm., þ. á m. ég sjálf, sem ljá því samþykki séu í sjálfu sér ánægðir með innihald þess, heldur þýðir það hitt, að þeir telja sig ekki eiga betri kosta völ og að það muni fremur en engir samningar nú stuðla að heillavænlegri framtíðarlausn í landhelgismálum okkar.