15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

5. mál, byggingarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti: Hér er greinilega um allviðamikinn lagabálk að ræða í sambandi við byggingarframkvæmdir í landinu. Mitt erindi hingað upp var og er fyrst og fremst að gera að umræðuefni það sem hv. 8. landsk. var hér að ræða um, og ég get í meginatriðum tekið undir hans mál varðandi það. Það er í sambandi við V. kafla frv. Það hefur verið mikið um það rætt og lengi að brýna nauðsyn bæri til að reyna að gera ráðstafanir til lækkunar byggingarkostnaðar í landinu. Og vissulega er þess full þörf. Ég óttast a. m. k. að verið sé að leggja aukinn kostnað á húsbyggjendur, og ég vil koma því hér með á framfæri til þeirrar virðulegu n., sem málið fær til skoðunar, að hún gefi því gaum og gangi úr skugga um það með hvaða hætti þetta ákvæði frv. um sérstaka byggingarstjóra verði framkvæmt, hvaða kostnaður fylgir því að setja slíkt embætti á stofn, hvað það er sem væntanlegir húsbyggjendur koma til með að þurfa að greiða meira, því að mér dettur ekki í hug annað en að þeir komi til með að þurfa að greiða meira en er við ríkjandi aðstæður. Og ég tel nauðsynlegt að það liggi þá fyrir hvaða kvöð er hér verið að leggja á húsbyggjendur til viðbótar því sem nú er. Ég óttast sem sagt að hér sé verið að setja einn hattinn enn ofan á kerfið, sem þýði í reynd aukinn tilkostnað húsbyggjenda sem ég held að allir séu þó sammála um að sé ærinn fyrir hendi í dag. Og ég vil sem sagt taka mjög undir það, sem hv. 8. landsk. þm. kom hér inn á, og beina því eindregið til þeirrar n., sem málið fær til skoðunar, að hún gefi þessu ákvæði frv. sérstakan gaum, þannig að það verði vitað, áður en gengið verður frá þessari löggjöf hér í þinginu, hvað er verið að leggja á húsbyggjendur í þessu tilvíki umfram það sem nú er gert. Mér kemur vart til hugar að sú þjónusta, sem hér er um að ræða, verði innt af hendi án þess að greiðsla eigi að koma fyrir, og það mundi þá að mínu viti a. m. k. verða umfram það sem nú er gert.