26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þeir þm., sem um nokkurt árabil hafa átt sæti hér á Alþ., hlusta nú í þriðja sinn á umr. um það, hvort veita skuli erlendum aðilum heimildir til fiskveiða innan íslensku fiskveiðimarkanna. Fyrst var þetta 1961 í sambandi við þá samninga sem þá lá fyrir að gera við breta eftir útfærsluna í 12 mílur, síðan árið 1973 eftir útfærsluna í 50 mílur, þá einnig um samninga við breta, og nú eftir útfærsluna í 200 mílur um hugsanlega samninga við vestur-þjóðverja.

Ég hlýt að minnast þess í samningagerðinni við breta 1961 hversu þær umr., sem þá urðu, voru harðar, miklu harðari en þær umr. sem urðu um samningana við hreta 1973 og miklu harðari en þær umr. sem hér hafa enn þá átt sér stað. Alþb. var þá í stjórnarandstöðu og hafði tekið að sér að efna til múgæsinga um land allt. Og ég hlýt að minnast þess einnig að þá rigndi yfir Alþ. mótmælum alls staðar frá á landinn, bæði frá heildarsamtökum, alls konar félagasamtökum, allt ofan í fámenna saumaklúbba. Þegar málið var hér á lokastigi í Sþ., þá minnast þeir þm., sem þá áttu sæti á þingi, að grjótið dundi á þinghúsinu og rúður brotnar og gler flaug inn á gólf í þessum sal. Það var þá búið að skapa þá múgæsingu og múgsefjun gegn samningunum við breta að það virtist vera búið að rugla dómgreind meiri hl. þjóðarinnar

Skömmu eftir að samningarnir voru gerðir var gengið til kosninga hér á landi. Þá sýndi það sig að þjóðin hafði vissulega viðurkennt og virt þá niðurstöðu sem meiri hl. Alþ. komst þá að, því að í þeim kosningum vann Sjálfstfl., sem þá var forustuflokkur í ríkisstj., stórkostlega á í kosningunum, og ég man ekki betur en að samstarfsflokkur hans hafi einnig bætt við sig nokkru fylgi. Þetta sýnir að Alþ. og þm. verða að vera mjög vel á verði fyrir því aðláta ekki utanaðkomandi þrýstihópa hafa áhrif á afstöðu sína, þegar um stórmál er að ræða og um stórhagsmunamál þjóðarinnar er að tefla.

Þetta gekk allt miklu rólegar fyrir sig í sambandi við samningana við breta 1973. Þá voru alþb.-menn komnir í stjórn, formaður þingflokks þeirra var þá orðinn sjútvrh., og þá var að sjálfsögðu ekki haldið uppi frá þeirra hendi neinum áróðri gegn þeim samningum, þó að þeir hefðu áður í málgögnum sínum og ræðu og riti fordæmt alla samninga og talið alla samninga svik við málstað íslendinga.

Það vill svo til að núv. stjórnarandstæðingar, alþb.- menn og þm. Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, sem studdu samningana 1973, berjast nú hatrammlega gegn þeim samningum sem nú liggur fyrir að gera. Þó að þeir séu búnir að skipta um skoðun síðan 1973 væri það í sjálfu sér ekkert ámælisvert, því að þm. verða auðvitað að hafa leyfi til þess, ef þeim sýnist svo, að skipta um skoðun í málum. En það, sem ég tel að sé mjög alvarlegt í þessu sambandi, er að þeir túlka þessi skoðanaskipti þannig, að það hafi verið eingöngu til þess að halda saman vinstri stjórninni að þeir samþ. samningana við breta. Ég tel þetta mjög alvarlegt fyrir Alþ. í heild, þegar þm. heils flokks á Alþ. tilkynna opinberlega hér í þingsal að þeir láti afstöðu sína til stjórnar og afstöðu sína um það, hvort hún sitji áfram eða ekki, ráða frekar en þann málstað sem um er að ræða, sérstaklega þegar um er að ræða jafnviðamikið mál og landhelgismálið er fyrir okkur á hverjum tíma. Ég tel varla sæmandi fyrir þm. að lýsa þessu yfir, að það hafi verið eingöngu vegna þess að þeir vildu halda tiltekinni stjórn við völd, en það hafi ekki verið málstaður sem réð gerðum þeirra.

Einn þm., hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal. gat þess í dag í ræðu sinni að honum hefði ekki verið kunnugt um það að nein hætta steðjaði að fiskstofnunum. Ég held að þarna hljóti að fara eitthvað á milli mála hjá þessum hv. þm., því að ég held að hann hljóti hafa fylgst með þeim yfirlýsingum sem komu þá frá fiskifræðingum og lágu fyrir þegar þetta mál var afgr. hér í Alþ. Hafi hann greitt atkv. með samningnum við breta 1973 vegna þess að hann hafi ekki talið sig hafa upplýsingar um annað en það væri óhætt þá að hleypa bretum inn á miðin, þá ber að harma það því að svo sannarlega hafði Alþ. og þjóðin verið vöruð við.

Ég vil í því sambandi benda á viðtal sem fréttamaður átti við Ingvar Hallgrímsson fiskifræðing í sjónvarpinn 22. nóv. 1971, og lesa kafla úr því orðrétt, með leyfi forseta: Fréttamaður spyr þennan fiskifræðing hve alvarlegt er smáfiskadráp í raun og veru og hve mikið er í húfi. Fiskifræðingurinn svarar: „Ég held að mjög mikið sé í húfi. Við getum t. d. tekið þorskárganginn frá 1964 sem var mjög stór. Hann var byrjað að veiða hér við land 1968 og í svo miklum mæli að af því, sem veitt var við landið af smáþorski, var helmingurinn árgangur frá 1961, og þessu hefur verið haldið áfram. Við bjuggumst við því að þessi fiskur kæmi fyrst til hrygningar á síðustu vetrarvertíð hér sunnan- og vestanlands“ — þ. e. a. s. vertíðina 1971 „en hann kom ekki. Og það læðist náttúrlega að sá grunar að það hafi einmitt verið vegna þess hve mikið var gengið á hann meðan hann var ókynþroska.“

Þetta lá fyrir þegar í nóv. 1971, að fiskifræðingar höfðu gert sér það ljóst að heill árgangur og að þeir töldu annar stærsti árgangurinn, sem þá var vitað um, var hreinlega týndur vegna ofveiði við Norður- og Norðausturland þar sem hann var drepinn sem smáfiskur.

En það var einnig annar fiskifræðingur sem tjáði sig um ástand fiskstofnanna. Það var í maí 1972 í útvarpserindi sem fiskifræðingurinn Sigfús Schopka hélt þá í útvarpinu. Hann sagði þar m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er samdóma álit fiskifræðinga að íslenski þorskstofninn sé nú fullnýttur og aukin sókn muni ekki skila sér í auknum afla. Þvert á móti mun afli á sóknareiningu minnka við aukna sókn, þ. e. að minni afli kemur í hlut hvers og eins, og er því full ástæða til að koma í veg fyrir að sóknin aukist.“

Einnig þetta lá fyrir þegar samningurinn við Breta var gerður 13. nóv. 1973. Er ákaflega erfitt fyrir nokkurn þm. að halda því fram að þjóðin hafi ekki þá þegar verið aðvöruð um ástand fiskstofnanna. Ég tel að það hljóti svo að vera, a.m.k. að hæstv. sjútvrh., hv. 2. þm. Austurl., hafi hlotið að vera kunnugt um þetta álit og þessa afstöðu sem þá þegar lá fyrir. En þrátt fyrir þetta létu flestir alþb.- menn sig hafa það að greiða atkvæði með samningunum við breta þar sem þeim var leyft að veiða 130–140 þús. tonn 2 ár í röð. Það hlýtur því að hljóma nokkuð undarlega í eyrum okkar, sem höfum fylgst með þessum málum, að þessir aðilar, sem að samningum við breta 1973 stóðu, skuli nú fordæma þann samning sem hér liggur fyrir og er til umræðu.

Einn hv. þm., Stefán Jónsson, var hér áðan allstórorður og taldi að þeir menn, sem nú stæðu að væntanlegum samningum við vestur-þjóðverja, væru eiðsvarnir vinir óvina okkar. Hann taldi einnig að ráðamenn með þjóðinni í dag, hæstv. ráðh., væru erindrekar kapítalista og umboðsmenn NATO að sjálfsögðu, eins og honum er mjög tamt að halda fram. En þá hlýtur einnig að vakna sú spurning: Hvað þá um þá menn sem sömdu 1973? Voru þeir einnig eiðsvarnir vinir óvina okkar þegar þeir voru að semja við breta og eru þeir einnig umboðsmenn NATO og umboðsmenn erlendra kapítalista. Ég held að þar verði ekki skilið á milli. Ef á að dæma menn eftir því hvort þeir eru með eða á móti samningum, ef þeim, sem eru með samningum, er hægt að lýsa á þann veg sem þessi hv. þm. gerði, þá er hann einnig að lýsa sínum eigin ráðh. sem áttu sæti í vinstri stjórninni, því að ef þeir samningar, sem nú er verið að gera, eru hættulegir fyrir íslensku þjóðina og eru svik við íslensku þjóðina, þá voru bresku samningarnir svo sannarlega svik við íslensku þjóðina og í miklu stærri og ríkari mæli en þeir samningar sem nú eru til umræðu og fyrir liggur að Alþ. greiði atkvæði um. Hv. 2. þm. Austurl. reiknaði það út í ræðu sinni í dag að það verðmæti, sem nú væri um að ræða að tekið yrði hér á Íslandsmiðum, væri 15–20 milljarðar. Ef sami reikningur er viðhafður um bresku samningana, þá er þar ekki um 15–20 milljarða að ræða, heldur miklu stærri upphæð eða 28–35 milljarða.

Ég sagði að þm., sem hér hefðu átt sæti um nokkurt árabil, stæðu enn frammi fyrir því að hlusta á umræður og taka þátt í umræðum um hugsanlega veiðiheimild til erlendra aðila innan fiskveiðimarkanna. Ég tók afstöðu í sambandi við samninginn við breta 1961 eftir því sem ég taldi þá hentugast fyrir íslensku þjóðina og affarsælast fyrir afkomu hennar. Ég greiddi atkvæði gegn samningunum 1973 vegna þess að ég taldi að þar væri allt of miklu afsalað og ekkert fengið í staðinn, því að ef á þá samninga er lítið, þá var ekki verið að semja við breta, það var verið að fresta útfærslu 50 mílna útfærslunni í tvö ár. Það var það sem raunverulega lá fyrir og var verið að gera. Af þeim sökum tók ég afstöðu gegn þeim samningum og taldi þá mjög hæpna og skaðlega fyrir þjóðarheildina. Þm. standa enn frammi fyrir þeim vanda að meta það nú í sambandi við samningana við vestur-þjóðverja hvað sé affærasælast og heppilegast fyrir þjóðina í heild að gert verði. Ég skal viðurkenna og alveg taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá öðrum hv. þm., að auðvitað vildum við öll helst vera laus við að þurfa að semja við nokkurn aðila um nokkrar veiðiheimildir innan 200 mílna markanna. Þetta held ég hljóti að liggja alveg ljóst fyrir. Það er því um það að tefla að meta það — og það tel ég að hver einasti þm. verði að gera — meta það með sjálfum sér, láta ekki neina utanaðkomandi þrýstihópa hafa áhrif á sig í því sambandi, heldur aðeins meta það kalt með sjálfum sér hvað hann telur að eðlilegast og best sé að gert verði.

Það hefur komið hér greinilega fram að samningarnir við þjóðverja hafa bæði kosti og galla og hægt að tala um að það séu samningar, miklu frekar en þegar rætt er um samningana 1973. Vissulega er það mikils virði fyrir íslendinga að samið skuli um þær fisktegundir sem fiskifræðingar telja að íslendingar hafi þó ekki fram að þessu þurft að fullnýta. Á ég þar við ufsa og karfa. Það hlýtur einnig að vera mikils virði að með samningum er hægt að fækka veiðiskipum þjóðverja hér úr tæpum 60 niður í 40 og fá í burt af miðunum öll stærstu skipin frá þessari þjóð sem áður hafa stundað hér veiðar. Á ég þar við frysti- og verksmiðjutogara. Þetta hlýtur að vera geysilega mikið atriði og hljóta menn nokkuð að vega þetta á móti þeim ókostum sem samningunum fylgja. Þá kemur það auðvitað til greina, sem þm. einnig verða að meta, hvort þjóðverjar muni veiða hér meira ef við gerum við þá samninga eða ef við gerum ekki við þá samninga. Mitt mat er það að þjóðverjar muni fara með minna aflamagn af Íslandsmiðum, ef samið verður við þá á þeim grundvelli sem fyrir liggur, heldur en ef engir samningar verða gerðir. Eins og ég sagði áðan, þá mundu þeir koma með allan sinn flota hingað, bæði stóran og smáan, og veiða á þeim stöðum sem þeim nokkurn veginn sýnist. Það hlýtur að vera nokkuð þungt á metunum að samningur við þessa þjóð þýðir það að þeim er hvorki hleypt inn á hrygningarsvæði né uppeldistöðvar ungfisksins. Ég tel þetta vera geysilega mikið atriði, því að það eru einmitt þessir staðir sem íslendingar hljóta í framtíðinni að gera sér grein fyrir að þeir verða að vernda, ekki einasta fyrir veiðum erlendra aðila, heldur einnig fyrir veiðum íslenskra skipa. Og í þeirri aðstöðu sem við erum nú komnir í, þar sem bretar eru komnir með herskip sín hér á miðin til verndar þeim togurum sem þeir hafa hér til veiða, þá hlýtur það að vega einnig nokkuð þungt að ef við semjum við þjóðverja, þá getum við snúið okkur af fullum krafti gegn bretum og gert þeim veiðarnar eins erfiðar og við eigum frekast tök á.

Ég vil enda þessi fáu orð mín með því að lýsa ánægju minni yfir þeirri yfirlýsingu, sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. í dag, að ríkisstj. sé óbundin af þeim 65 þús. tonna afla sem hún hafði nefnt í viðræðum við breta. Þegar þessir samningar, sem nú eru hér til umræðu, hafa fengið afgreiðslu hér á Alþ. og aftur mun komast ró á út af þessu máli, þá vona ég og held að þjóðin í heild beri gæfu til að snúa bökum saman í baráttunni gegn bretum. Ég hef trú á því að íslendingar geti varist og að það endi með því að bretar hljóti að verða láta þar undan.

Ég tel mig þekkja fiskimenn það vel að þeir muni aldrei til lengdar vilja eða geta unað því að fiska á stöðum og eftir fyrirmælum sem þeir fá frá einhverjum aðilum í landi. Ég þekki það að íslenskir útgerðarmenn hafa ætlað að stjórna skipstjórum sínum hvernig þeir ættu að veiða, en ég held að það hafi aldrei borið annað en mjög neikvæðan árangur.

Það er mitt mat í sambandi við þá samninga sem liggja fyrir að eins og aðstæður allar hafa þróast, þá sé affarasælast fyrir íslensku þjóðina að þessir samningar verði gerðir. Ég endurtek: Ég vona að við berum öll gæfu til þess að snúa bökum saman í þeirri hörðu baráttu sem fram undan er í sambandi við ofbeldi breta sem þeir nú beita okkur á okkar fiskimiðum.