26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs einungis til að fjalla um tvö atriði, sem ég tel þó alveg nauðsynlegt að komi hér fram og það einmitt strax á þessum fundi. Vænti ég þess að hv. þm., helst allir, séu mér sammála um nauðsyn þess.

Fyrra atriðið er það, að í ræðu eins hv. þm., hv. þm. Benedikts Gröndals, 2. landsk. þm., kom það fram, að hann teldi að hvorki bein né óbein viðurkenning væri fólgin í þáltill. eða orðsendingum þeim sem hér eru til umr., — hvorki bein né óbein viðurkenning á hinni nýju landhelgi íslendinga. Hann gat þess raunar að sovétmenn vildu ekki taka upp samninga við okkur íslendinga vegna þess eins að það að ræða við okkur mundu þeir telja vott um eða tegund af viðurkenningu, eins og hann orðaði það, og auðvitað er það að vissu leyti rétt. En ég leyfi mér að halda því fram að í þessari orðsendingu utanrrh. Íslands til sendiherra Sambandslýðveldisins Þýskalands felist einmitt — ég vil segja: bein viðurkenning á réttindum okkar íslendinga, og það er ekki einungis um að ræða svokallaða viðurkenningu de facto eða í raun, heldur tel ég nálgast að jafnframt sé um að ræða viðurkenningu de jure eða að lögum.

Það er mjög mikill munur á þessari orðsendingu og þeirri, sem send var 1973 til Bretlands, að orðalagi til og allri efnisuppbyggingu. Við gengum að því með opnum augum, bæði þeir sem hér voru á þingi þá, ég sem ritstjóri og mitt blað, að gera þann samning vitandi það að það var ekki um neins háttar viðurkenningu að ræða. En ég tel að í þessum samningi sé um viðurkenningu að ræða og skal færa að því nokkur rök hér á eftir, þótt auðvitað verði aðrir mér færari menn til þess að færa að því traustari rök síðar, því að vissulega er mikilvægt fyrir okkur íslendinga alla að svo megi túlka þessa orðsendingu, ef samningur verður gerður, að þar sé um að ræða viðurkenningu, bæði de facto og de jure. En eins og ég sagði, þá kveð ég mér hljóðs strax til þess að á þessum fundi komi fram andmæli gegn þessum skoðunum hv. þm. Benedikts Gröndals, og þó vil ég taka skýrt fram að ég veit að hann, formaður Alþfl., vill svo sannarlega ekki skaða íslenskan málstað, heldur er það af athugunarleysi sem hann heldur þessari skoðun fram, og ég hygg að svo megi segja um hv. þm. alla, að enginn þeirra vilji túlka þessa orðsendingu okkur í óhag. Ef hún verður samþ. og samningur gerður, þá vona ég að hver og einn einasti 60 þm. vilji túlka hana eins mikið okkur í hag og unnt er.

Ég vek þó athygli á því, að upphaf þessarar orðsendingar er á þá leið að þar er byggt á íslenskum lögum og íslenskum reglugerðum. Það er beinlínis til þess vitnað strax í upphafi orðsendingarinnar og hún öll á því byggð að hér sé um að ræða íslensk lög og reglugerðir á þeim byggðar, gagnstætt því, sem var í orðsendingunni frá 1973, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þar sem efnisleg lausn deilunnar hefur ekki náðst, hefur í þessum viðræðum verið gengið frá eftirfarandi grundvelli að bráðabirgðasamkomulagi um fiskveiðar á hinu umdeilda svæði, enda hafi slíkt ekki áhrif á lagaskoðanir aðila eða réttindi, og er miðað við“ o. s. frv.

Og síðar í þessari orðsendingu er talað um að samkomulagið gildi í eitt ár og „hefur brottfall þess ekki áhrif á lagaskoðanir aðila varðandi efnisatriði deilunnar.“ Þarna er sem sagt ótvírætt frá því gengið að ekki sé um að ræða nein lagaleg áhrif. En það er að vísu rétt að í gagnorðsendingu til utanrrh. Íslands frá sendiherra Sambandslýðveldisins Þýskalands segir að ofangreind erindaskipti hafi „engin áhrif á afstöðu ríkisstjórna aðila til hafréttarmála,“ hinna almennu hafréttarmála, og þá ekki heldur þá afstöðu sem í þessu birtist að vera nú að gera við okkur samninga. Ég tel að á þessu sé mjög mikill munur, og skal færa að því enn frekari rök,

Það er margsinnis í orðsendingunni talað um að Sambandslýðveldið Þýskaland ábyrgist hitt og þetta. Slíkt orðalag er hvergi að finna í fyrri yfirlýsingunni. Þar er allt á annan veg. Og í 5. tl. þessarar orðsendingar segir að á hafsvæðinu umhverfis Ísland ábyrgist ríkisstj. Sambandslýðveldisins Þýskalands að þýskir togarar stundi ekki þær veiðar sem íslenskum skipum eru bannaðar af þar til bærum stjórnvöldum, orðrétt –„af þar til bærum stjórnvöldum“ — þ. e. a. s. af íslenskum stjórnvöldum. Það eru íslensk stjórnvöld sem eiga úr þessu að skera, og raunar er á öðrum stað talað um það, að ef samkomulag verði milli Íslands og annarra ríkja um breyttar miðlínur, þá verði þjóðverjar að sæta því. Þar er ákvörðunarréttur íslendinga sem þjóðverjar hafa ekkert um að segja. Þetta sama kemur fram þar sem rætt er um möskvastærð og eins um friðunarsvæði. Þar er einmitt talað um atriði sem „tilgreind eru í hlutaðeigandi reglum varðandi veiðar íslendinga“, þ. e. a. s. hlutaðeigandi reglum sem íslensk stjórnvöld setja.

Það ber sem sagt allt að sama brunni, að hér er um beina viðurkenningu að ræða, vil ég meina, og ekki einungis de facto, heldur líka de jure, og það hljótum við íslendingar að verða að túlka svo, væntanlega allir hv. þm. og íslenska þjóðin, og ég vona að fræðimenn fallist á að þessi skilningur sé réttur, því að vissulega getur það haft grundvallarþýðingu fyrir okkur í framtíðinni. Ég taldi mér skylt að þetta kæmi hér fram að gefnu tilefni strax á þessum fundi, svo að menn gætu haft það til íhugunar á fundi þeim sem hér verður á morgun.

Hitt atriðið sem ég vildi að hér kæmi fram, er að talað hefur verið um að þjóðverjar megi veiða á ársgrundvelli 60 þús. tonn. Nú er ég ekki viss um að nokkurn tíma taki gildi 6. gr. um tollamálin. Ég hygg miklu frekar að engir samningar muni verða gerðir við breta og samkomulagið við þjóðverja þar af leiðandi falli úr gildi eða frestist að 5 mánuðum liðnum. Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að það liggi alveg skýrt fyrir að það hljóti að vera vilji íslensku ríkisstj. og Alþ. alls og skýring á samkomulaginu að þjóðverjar megi ekki veiða meira en 5/12 hluta þess afla á næstu 5 mánuðum og helst enn minna en það, því að þeir stunda minni veiðar á þessum árstíma en síðla árs, og það sé þess vegna alveg ljóst að undir engum kringumstæðum megi þeir veiða meira en 25 þús. tonn á næstu 5 mánuðum, ef samkomulag verður gert, þannig að ef það fellur úr gildi hafi þeir ekki misnotað rétt sinn að þessu leyti.

Ég vænti þess, að hæstv. utanrrh. taki af öll tvímæli um þetta, ef einhver eru, í orðsendingum til vestur-þjóðverja, hvort sem það er gert munnlega eða skriflega. Þetta tel ég þýðingarmikið og taldi nauðsynlegt að þetta tvennt kæmi hér fram nú strax.