26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ástæðan til þess að ég kveð mér hljóðs er visst efnisatriði þess samkomulags sem við erum nú að fjalla um. Menn kynnu e. t. v. að ætla að erindi mitt hér í ræðustólinn væri annað, þar eð þó nokkrir þm. Alþb. hafa rangfært dálítið ummæli mín frá því fyrr í dag og lagt í mín ummæli nokkuð aðra merkingu en var sögð og túlkuð af minni hálfu í dag. Ég hef í veiklyndi mínu eins Og fleiri hv. þm. nokkrum sinnum í kvöld brugðið mér niður á neðri hæðina og þegið hið ágæta kaffi sem þar hefur verið á boðstólum, og mér hafa borist fregnir af því að ég hafi fengið smákveðjur öðru hverju í tilefni af ummælum mínum utan dagskrár í dag. Ég ætla nú alls ekki að fara að skaprauna hv. þm. með því að tíunda öll þessi ummæli hv. stjórnarandstæðinga, það yrði allt of leiðigjarnt og það á þessum tíma sólarhrings. En niðurstaða mín er einfaldlega sú, sem fleirum hlýtur að vera ljós, að hv. stjórnarandstæðingar eða a. m. k. vissir menn í þeirra hópi eiga afskaplega erfitt með því að kyngja því, að um þá og þeirra baráttuaðferðir hljóti að gilda sömu reglur og um annað fólk í þjóðfélaginu. Það er einnig svo, að starfsaðferðir í þeim virðulegu og ágætu samtökum, verkalýðssamtökunum, eru ekki heldur yfir gagnrýni hafnar, og ég áskil mér allan rétt til þess að vekja athygli á því, ef ég tel að þar eða í öðrum mikilvægum samtökum í þjóðfélaginu séu teknar ákvarðanir með hætti sem ekki getur talist samrýmast fyllilega lýðræðisreglum. Þetta er alkunnugt atriði, og á þessu hafa ýmsir vakið athygli á undan mér.

Erindi mitt í ræðustól varðar mjög mikilvægt atriði í sambandi við okkar dagskrármál hér. Það hefur komið fram í fregnum af þessu máli að þjóðverjar skuldbindi sig til þess að vinna að því af sinni hálfu að bókun 6 taki gildi. Hér í þessu þskj. er þetta ekki fram tekið. Ég tel að hér sé um svo mikilvægt atriði að ræða að það þurfi að koma fram hér í umr. og standa í þingtíðindum staðfesting ráðh. á því, að þjóðverjar hafi skuldbundið sig til þessa. Ég varð þess ekki vör að þetta kæmi fram í ræðum ráðh. í dag, en sé svo, að þessi skuldbinding hafi komið fram af þjóðverja hálfu í viðræðunum um samkomulagið, þá leyfi ég mér að beina því til hæstv. ríkisstj., sem ég raunar hreyfði í þingflokki sjálfstæðismanna, hvort ekki væri rétt að til viðbótar því, sem stendur í þessu þskj., yrði send af Íslands hálfu orðsending þar sem staðfest væru þessi ummæli eða þessi viljayfirlýsing þjóðverja. Það kunna að vera ástæður fyrir því af þeirra hálfu að þeir hafi ekki sjálfir berum orðum tekið þetta fram, en hafi þetta komið fram í viðræðunum er hér um svo mikilvægt atriði að ræða og getur orðið okkar málstað til svo mikils stuðnings að það er sjálfsagt að mínu viti að láta þetta standa skýrum stöfum í þeim skjölum, sem hér koma við sögu. Það væri e. t. v. hægt að ganga svo frá málum að bréf um þetta efni yrði sent þjóðverjum á morgun.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvort það sé ekki rétt, að þjóðverjar hafi skuldbundið sig til að vinna að því að margnefnd bókun taki gildi og hvort hann telji þá ekki rétt að staðfesta það í orðsendingu af okkar hálfu.