15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

5. mál, byggingarlög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Sá kafli í frv., sem þessir hv. þm. báðir hafa gert að umtalsefni, hv. 8. landsk. þm. og hv. 5. þm. Vestf., þarf að sjálfsögðu sérstakrar skoðunar við þar sem þar er um nýmæli að ræða, og mun n. að sjálfsögðu taka hann sérstaklega til meðferðar. Hins vegar vara ég menn við því að líta á málið í því ljósi, sem hv. 8. landsk. þm. hóf mál sitt með, að verið væri að stofna ný embætti. Það er ákaflega mikill misskilningur og villandi. Þegar talað er um embætti, þá er fyrst og fremst átt við að sjálfsögðu ákveðin störf í þágu ríkis eða hins opinbera. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Hér er ekki um neina nýja opinbera starfsmenn að ræða. Það, sem fyrir n. vakir í þessu efni, er fyrst og fremst að tryggja rétt húseigendanna, þ. e. a. s. húsbyggjendanna, að tryggja það að jafnan sé einn ábyrgur aðili sem veiti húsbyggingum forstöðu, þannig að sá, sem byggir hús, hafi alltaf einn ábyrgan mann að snúa sér til. Þetta er hugsunin sem vakir fyrir hjá n., sem hefur orðið til þess að hún mælir einróma með þessari tilhögun.

Það er minnst á kostnaðarhliðina í grg. á bls. 15–16 og virðist eins og hv. þm. tveir, sem hér hreyfðu andmælum, taki ekkert mark á því sem þessi 11 manna n. segir um það mál, því að n. segir hér: „Heyrst hafa raddir um það, að ákvæði um byggingarstjóra kunni að leiða til hækkaðs byggingarkostnaðar. Þar sem telja má víst að húsasmíða- og múrarameistarar yrðu í flestum tilvikum byggingarstjórar við almennar húsbyggingar jafnhliða störfum í sínum sérgreinum, verður ekki séð að slíkt ætti að hafa aukakostnað í för með sér“ Þetta er álit n., eftir að hún hefur kynnt sér það mál.

Ég vil vara menn við því að tala hér á þeim grundvelli eða gefa fólki í skyn að hér sé verið að stofna í stórum stíl einhver ný embætti eða opinberar stöður. Það er byggt á algerum misskilningi. Það, sem fyrir n. vakir, er þetta, að með því að hafa einn ábyrgan mann, sem standi fyrir byggingum, sé verið að tryggja fyrst og fremst rétt húsbyggjendanna. Það er álit hennar að þetta hafi ekki aukinn kostnað í för með sér við byggingar. En eins og ég tók fram er sjálfsagt að kanna þetta mál allt saman nánar.