27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. sagði í lok máls síns eitthvað á þá leið, að á þeirri leið, sem liggur að fullum yfirráðum íslendinga yfir fiskimiðunum á landgrunninu umhverfis landið, kunni að þurfa nú eins og stundum áður að taka á sig krók. Til sanns vegar má það færa. En þess þarf þó að gæta að þótt krókur geti verið betri en kelda, þá er verst af öllu að taka á sig á erfiðri vegferð krók sem endar í keldu. Það er hin stóra hætta sem felst í þeim samkomulagsdrögum sem hér liggja fyrir, að þar sé svo alvarlega sveigt af leið að markmiðið, full yfirráð yfir íslenskum fiskimiðum reynist á leiðarenda langtum minna virði en það ætti að vera að öllu eðlilegu og við höfum alltaf talið að það yrði. Mál standa nú þannig að dómi fróðustu manna að ekkert má út af bera ef ekki á svo að fara innan tiltölulega skamms fyrirsjáanlegs tíma að verðmætustu stofnar nytjafiska okkar verði komnir svipaða leið og Norðurlandssíldin fór fyrir nokkrum árum vegna skefjalausrar ofveiði. Þessi till. um samkomulagsdrög og sá eftirleikur, sem virðist eðlilegur, fleiri samningar um mun stærri hluta af þorskaflanum til annarra þjóða, skapar að mínum dómi og okkar annarra andstæðinga samkomulagsins hættu á því að í slíka ófæru sé stefnt.

Það má vel vera og á það get ég fallist með hæstv. dómsmrh., að hefðu þessi samningsdrög legið fyrir fyrir segjum tveimur árum, þá hefði a. m. k. ég og máske ýmsir aðrir lítið þau nokkuð öðrum augum en nú og þótt þau aðgengilegri samkomulagsgrundvöllur. En síðan hefur margt breyst. Ég held að enginn geti á móti því borið, að tvær af þýðingarmestu forsendum fyrir veitingu veiðiheimilda til erlendra skipa í íslenskri fiskveiðilögsögu hafa gerbreyst á síðustu tveimur árum. Lögsagan hefur verið færð út úr 50 mílum í 200 mílur frá grunnlínum. Sú stórfellda útfærsla er lítið nema nafnið eitt meðan stórlega skortir á að 50 mílna svæðið gamla hafi verið friðað fyrir veiðum útlendinga. Það er ekki hægt að lá fólki það og þá sér í lagi sjómönnum sem líta svo á að það sé nánast leikaraskapur að færa út í 200 mílur á pappírnum, en heimila jafnframt veiðar sem nema mörgum tugum, jafnvel hundruðum þús. tonna árlega, sem vitað er að aðallega yrðu tekin innan við 50 mílna línuna.

Hitt atriðið, sem breytir viðhorfi til veiða á botnfiskstofnum á Íslandsmiðum, er skýrsla fiskifræðinga okkar sem er svo margrakin í þessum umr. að ég ætla ekki að fjalla um hana frekar. En niðurstaða hennar er í sem stystu máli sú, að til þess að misbjóða ekki stofnunum, einkum þorskstofninum, þannig að óvíst sé að hann bíði þess bætur um fyrirsjáanlega framtíð, þá verður annaðhvort að strika út aflamagn sem nemur í stærstum dráttum afla útlendinga á Íslandsmiðum eða þá helminginn af þeim afla sem við íslendingar höfum tekið á þessum miðum. Aðra hvora eða eitthvert sambland af þessum tveim leiðum þarf að fara ef halda á sókninni innan viðunandi hættumarka að dómi fiskifræðinga. Þetta tvennt í sameiningu gerir það að verkum, að það, sem þótt hefði máske viðunandi kostur fyrir tveimur árum, er nú að mínum dómi algerlega óviðunandi.

Þetta, sem ég hef nú tilfært, er að mínum dómi mergurinn málsins. En svo eru ýmis smærri atriði sem ástæða er til að gera að umræðuefni.

Enn vil ég víkja að atriði sem hæstv. dómsmrh. kom að í ræðu sinni. Það er eftirlitið með að fyrirhugað samkomulag sé haldið og að ákvæði þess komist á tilætlaðan hátt til skila. Ég fékk ekki skilið orð hæstv. dómsmrh. öðruvísi en svo, að það væri enn óráðið hvert íslenskt stjórnvald færi með það eftirlitshlutverk sem tvímælalaust verður að gegna samkv. þessu samkomulagi ef gert verður. Það tel ég mjög miður farið ef þetta leikur enn í óvissu. Ég tel mjög nauðsynlegt að ríkisstj. ákveði ekki einungis um rn., — og ég tel langeðlilegast að það sé dómsmrn., yfirstjórnandi landhelgisgæslunnar, sem fái þetta hlutverk í hendur, — heldur og ekki síður að látinn sé í té sá skipakostur og sá sérhæfði mannafli sem til þarf að gegna þessu eftirlitshlutverki, því að það tel ég augljóst að landhelgisgæslan, eins og hún er nú skipuð, og varðskipin munu eiga nógum öðrum verkefnum að sinna þótt nýr skipakostur og nýr mannafli komi til sögunnar að gegna þessu sérstaka eftirlitshlutverki. Og það þarf ekki aðeins að búa svo um hnúta við eftirlit hér á miðunum. Ekki er síður þýðingarmikið að eftirlit í löndunarhöfnunum sé trútt og niðurstöður þess komi skjótt og rækilega til skila. Það skiptir t. d. ekki litlu máli, að það sé staðreynt eins fljótt og kostur er að 5000 lesta þorskaflanum sé náð, því að ef þetta samkomulag tekst, þá segir mér svo hugur um að það verði 5000 lestirnar af þorski sem verði hin ákvarðandi stærð í því efni hver heildaraflinn verður, en ekki 55 þús. lestirnar af karfa og ufsa.

Þá vil ég víkja að atriði sem mjög hefur borið á góma í þessum umr. Það hefur verið staðhæft æ ofan í æ að með þessu samkomulagi séu vestur-þýsk verksmiðjuskip og frystitogarar útilokuð úr íslenskri fiskveiðilögsögu. Nú hefur það kveðið við hjá vestur-þjóðverjum í þeim viðræðum, sem fram hafa farið og ég hef fylgst með um fiskveiðiundanþágur, að í rauninni eigi þeir alls engin réttnefnd verksmiðjuskip af því tagi, sem t. d. þjóðir eins og japanir, sovétmenn og fleiri ráða yfir, þeir eigi alls engin verksmiðjuskip af þeirri stærð og þeirri gerð sem beri það nafn með rentu, heldur séu hinir stærri togarar þeirra búnir vélum og getu til vinnslu á úrgangi og einstökum fisktegundum í mjöl og lýsi, þarna sé um að ræða togara sem ekki séu réttnefnd verksmiðjuskip, heldur togara sem aðallega veiði í ís eða frystingu, en séu að nokkru búnir verksmiðjuvinnslu sem hluta af sínum búnaði. Þetta skiptir auðvitað ekki höfuðmáli. En hitt liggur fyrir, að a. m. k. stór hluti þeirra togara, sem upp eru taldir á þeim lista sem birtur er sem fskj. II með þáltill., hefur slíkar vélar innanborðs, þó vafalaust ekki af stærstu gerð, svo að vel má vera að réttnefni sé það orð sem hér hefur heyrst, að þar séu kvarnir á ferðinni. Engu að síður skiptir það nokkru máli hvernig þessum kvörnum, hvernig þessum bræðslu- og mjölvinnsluvélum er beitt, og ég tel því, ef ég hef skilið dómsmrh. rétt, að það hafi verið misráðið að nema úr samkomulagsdrögunum ákvæði sem takmarkaði vinnslu þessara véla við það eitt að vinna slóg úr aflanum, ef þá ekki kemur það á móti að þessar vélar séu hreinlega teknar úr skipunum. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur.) En þetta var strikað út.

Þá er það enn atriði, sem ég tel rétt að vekja athygli á. Það varðar frystiskipin. Alveg rétt er það hjá hæstv. dómsmrh. að mesti ásteytingarsteinninn í viðræðunum við vestur-þjóðverja var frá upphafi eindregin krafa þeirra um að við hleyptum helst öllum frystitogaraflota þeirra inn í íslenska fiskveiðilögsögu eða a. m. k. verulegum hluta hans. Þeir færðu sig að vísu neðar og neðar í þeirri tölu, en alltaf var þó um umtalsverðan skipakost að ræða. Nú er okkur sagt að því marki sé náð að frystiskipin hafi gersamlega verið strikuð út, hér sé ekki um neitt slíkt skip að ræða. Þetta er ekki rétt samkv. þeim upplýsingum sem ég hef í höndum. Ég hef hér þann lista sem þjóðverjar afhentu á sínum tíma í viðræðum, þar sem talinn var upp allur togarafloti þeirra ætlaður til veiða á fjarlægum miðum. Þar er einnig tilfært hverjir af þessum togurum hafa frystivélar til hraðfrystingar á flökum eða heilum fiski. Á þessum lista eru nöfn tveggja skipa, talin með frystigetu, sem eru á fskj. II. Strax togarinn Altona sem hér er fyrstur á listanum. Samkv. upplýsingum vestur-þýskra stjórnvalda er þetta frystitogari. Frystigeta hans er 33 tonn á sólahring af flökum eða heilfrystum fiski. Þarna er einnig togarinn Othmarschen, einnig eitt af stærri skipunum. Þetta er líka að sögn vestur-þýskra stjórnvalda frystitogari. Frystigeta hans er sú sama og Altona, 33 lestir. Hér eru sem sagt af þessum 40 skipum enn inni tvö frystiskip sem höfðu frystigetu þegar sá listi var útbúinn sem ég hef í höndum, og á eftir að sjá hvort sú hefur raunin orðið á að frystivélarnar hafi síðar verið teknar úr þessum skipum, en það væri það eina sem gæti breytt þeim frystitogurum í venjulega ísfisktogara. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að drótta því að neinum, sem hér eiga hlut að máli af íslendinga hálfu, að þeir hafi vísvitandi gefið rangar upplýsingar um þetta atriði. Ég vil aðeins benda á þetta til dæmis um það, hversu nauðsynlegt er að fara nákvæmlega ofan í þær upplýsingar, sem mótaðilinn í samningunum leggur í té, og sannreyna það sem hann heldur fram um atriði sem þetta.

Á sínum tíma þáðu þjóðverjar skuldbindingu um að þótt frystitogararnir fengju að koma á Íslandsmið, þá skyldu þeir aðeins veiða í ís og ekki nota sína frystigetu. Ekkert slíkt ákvæði er í þeim samningsdrögum sem hér liggja fyrir, svo að sé það rétt, sem mér virðast öll rök benda til, að þarna hafi síæðst með tveir frystitogarar, þá eru engar hömlur á því samkv. þessum drögum að þeir noti frystivélar sinar við þær veiðar sem þeim á að heimila.

Ég tel umr., sem hér hafa farið fram, hafa sýnt að mörg önnur rök, sem þessu samningsuppkasti eru færð til ágætis, séu litlu eða engu haldbetri en þau sem ég tel mig hafa sýnt fram á að séu fallin um sjálf sig. Ég ætla ekki að tíunda þau frekar, það hafa aðrir gert, en ætla aðeins að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að það eru kannske ekki þessi samningsdrög með öllum sínum göllum, sem mér óar mest, heldur sá dilkur sem ég tel augljóst að þau muni draga á eftir sér.