27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Á sömu klukkustundum og herskip hennar hátignar stíma inn í íslenska lögsögu í þeim tilgangi að beita okkur íslendinga ofbeldi sitja þm. þjóðarinnar fram á nótt í málstofum Alþ. og saka hverjir aðra um landráð. Efnt er til mótmælafunda gegn rétt kjörnum stjórnvöldum og kynt er undir elda óeiningar og upplausnar. Það er sorgleg staðreynd að við skulum ekki bera gæfu til að standa saman á slíkum örlagastundum þegar þessari litlu þjóð er ógnað með vopnavaldi og yfirgangi. Ekki skelli ég skuldinni á neinn einstakan. Það er tilviljun að þessa atburði ber upp á sömu stundina, þ. e. a. s. innrás herskipanna og umr. um þetta samkomulag eða þessa samninga, og það er víst nauðsynlegt í pólitíkinni að vera ósammála.

Hér hafa menn rætt fram og aftur um einstök atriði þessara samningsdraga, vegið og metið kosti og galla og lýst með sterkum lýsingarorðum afleiðingum til góðs sem ills. En ef við gerum okkur far um að hafa nokkra yfirsýn í þessu máli og líta á þetta samkomulag eða drög að samkomulagi í sögulegu ljósi, þá held ég að öllum geti orðið það ljóst að hér er engan veginn um að ræða lokamark, aðeins áfanga á langri leið. Hér er ekki verið að taka neinar úrslitaákvarðanir í landhelgisbaráttu okkar, en við erum að semja um tímabundnar veiðiheimildir, og þess konar samkomulag hefur verið gert áður í baráttu okkar fyrir útfærslu landhelginnar. Á það hefur verið minnt hér fyrr í dag að við sömdum um tímabundnar veiðiheimildir til handa bretum og vestur-þjóðverjum þegar fært var út í 12 mílur. Við sömdum aftur við breta og aðrar þjóðir þegar fært var út í 50 mílur. Og allir flokkar hafa staðið að slíku samkomulagi. Þær takmörkuðu veiðiheimildir út af fyrir sig, sem ég hef hér minnst á, hafa ekki skaðað málstað okkar. Þær hafa ekki dregið úr rétti okkar og þær hafa ekki tafið fyrir framgangi okkar baráttu til yfirráða yfir íslenskri lögsögu.

Út frá okkar eigin sjónarhóli er hér ekki um eftirgjöf að ræða, heldur aðlögun, ekki um undanslátt, heldur staðfestingu á rétti okkar til að semja um tiltekin svæði innan íslenskrar lögsögu. Afstaða okkar, þótt við höfum gert slíkt samkomulag frá einum tíma til annars, hefur aldrei og mun ekki nú haggast um einu þumlung. Ef litið er á landhelgismálið í sögulegu ljósi, ef við köfnum ekki í smáatriðum, þá hlýtur öllum að vera ljóst að slíkur áfangi að gera samkomulag við andstæðinga okkar getur fært okkur nær, en ekki fjær lokamarkinu. Í slíku samkomulagi felst viðurkenning af þeirra hálfu á rétti okkar, eins og bent hefur verið hér á. Þjóðverjar gerðu ekki samkomulag við okkur um takmarkanir á afla og skipaflota nema af því að þeir viðurkenna að við höfum rétt til þess að setja þeim slík skilyrði. Þjóðverjar gangast ekki undir íslensk lög og íslenskt eftirlit nema af því að þeir fallast á að þau gildi og það eftirlit eigi rétt á sér innan 200 mílnanna. Hæstv. utanrrh. lofaði að koma því á framfæri við þjóðverja, að þessi skoðun hefði komið fram hér á hinu háa Alþ., — sú skoðun að við lítum svo á að með þessu samkomulagi væru þjóðverjar að viðurkenna okkar rétt. Ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. utanrrh. að hann geri betur en segja einvörðungu að þessi skoðun hafi komið fram. Hann á að tilkynna þjóðverjum, að þetta sé skoðun okkar allra, ríkisstj., þings og þjóðar.

Undir þeim kringumstæðum að ástand fiskstofnanna væri með eðlilegum hætti, með hliðsjón af því að hafréttarráðstefnan er í nánd og færir okkur vonandi fullan sigur og af þeirri ástæðu að við íslendingar viljum sýna öðrum þjóðum sams konar tillitssemi og við viljum að þær sýni okkur, þá ætti slíkt samkomulag sem hér er um að ræða ekki að valda okkur umtalsverðum áhyggjum. Réttur okkar er sá sami og staða okkar gæti styrkst. Undir venjulegum kringumstæðum, sagði ég. Nú hefur hins vegar komið fram svart á hvítu að það er ekki um venjulegar kringumstæður að ræða. Fiskstofnar okkar eru í bráðri hættu. Það setur vissulega strik í reikninginn. Og þær upplýsingar um ástand fiskstofnanna og þá einkum um ástand þorskstofnsins hafa haft veruleg áhrif. Það er líka athyglisvert að það eru forsendur sem nánast allir þeir, sem vilja ræða þetta mál af skynsemi og efnislega, ganga út frá, einmitt þessar upplýsingar. Að undanskildum ásökunum um undirlægjuhátt gagnvart Atlantshafsbandalaginn sem ég tek ekki alvarlega og reikna ekki heldur með að viðkomandi ræðumenn ætlist til að séu teknar alvarlega, þá eru skýrslur fiskifræðinganna þau vopn sem menn brynja sig með þegar þeir gagnrýna samkomulagið.

Því er haldið fram að samkomulag mundi ganga af okkar fiskstofnum dauðum og við getum ekki og eigum ekki að semja vegna þess að það sé ekkert um að semja. Í þessu sambandi er vert að minna á að útfærslan í 200 mílurnar mátti ekki seinni vera. Útfærslan í 50 mílur á sínum tíma var að sjálfsögðu mjög eðlileg og tímabær, en engan veginn nægileg. Það, sem mönnum fannst ótímabær dirfska fyrir tveim árum, er nú orðin lífsnauðsynleg aðgerð. Það, sem menn töldu fyrir einu ári að ætti að gera einhvern tíma í framtíðinni, þolir nú enga bið. Án útfærslunnar í 200 mílur sigldu erlend fiskiskip óáreitt á íslenskum veiðislóðum. Án aðgerða af okkar hálfu veiddu þau áfram af fullkomnu tillitsleysi gagnvart hrygningarsvæðum og smáfiski. Spurningin er því sú, hvort það sé rétt að samkomulag valdi meiri usla, auki enn hættuna á að aðvaranir fiskifræðinga verði að veruleika. Til þess að svara þessari spurningu verður að hafa hliðsjón af því hvernig ástandið yrði ef ekki yrði gert samkomulag. Án samkomulags hafa þjóðverjar veitt árið 1973 rúmlega 90 þús. tonn og á árinu 1474 tæplega 70 þús. tonn. Ég gerði ráð fyrir því að okkar landhelgisgæsla gæti komið í veg fyrir að þjóðverjar veiddu jafnmikið magn nú og áður en við skulum hins vegar horfast í augu við það, að mjög líklegt er að þeir veiði að miklum hluta sama magn sem þeir hafa veitt s. l. ár. Þeir mundu veiða þetta magn, hvort sem það væru 35, 40 eða 45 þús. tonn eða hugsanlega eitthvað meira, 45 þús. tonn, án eftirlits og án nokkurrar stjórnunar af okkar hálfu á þeirra veiðum.

Með þetta í huga tel ég að samkomulag við vestur-þjóðverja réttlætist einmitt af skýrslu fiskifræðinganna. Ég vil víkja til hliðar óskhyggju um að við ráðum niðurlögum andstæðinganna án samninga, víkja til hliðar ótta um tímabundna kjaraskerðingu og hótanir um aflakvóta á íslensku skipin. Allt þetta hefur ekki áhrif á ákvarðanir mínar í þessu máli því að ég set verndunarsjónarmiðið ofar öllu. Ef ekki er gripið til einhverra raunhæfra aðgerða til þess að vernda fiskstofninn bæði gagnvart veiðum íslendinga og útlendinga, þá verður það að veruleika sem fiskifræðingarnir eru búnir að spá. Þess vegna verður það að vera meginhugsun og meginatriði í okkar ákvörðunum hvort við getum framkvæmt verndunarsjónarmiðið eða ekki. Það er ekki aðeins verið að eyða öllum fiski með eftirlitslausum, stjórnlausum veiðum hér á Íslandsmiðum, heldur er líka verið að drepa líftaug okkar Íslendinga.

Samkomulag það, sem nú er ætlunin að gera við þjóðverja, gerir ráð fyrir nokkru eftirliti, nokkurri stjórnun og takmörkun á veiðum. Við getum verið óánægðir með aflamagn það sem þjóðverjar mega veiða, en ég tel að án samkomulags muni þeir veiða það mikið magn, a. m. k. 40 þús. tonn, að mér finnst að þau 20 þús. tonn, sem ber hugsanlega á milli, geti ekki ráðið úrslitum þegar önnur atriði eru vegin og metin. Við getum lýst andstöðu okkar við veiðisvæði þau sem samkomulagið gerir ráð fyrir. En deilur eða ágreiningur um veiðisvæði til eða frá getur ekki heldur ráðið úrslitum. Og á það ber líka að líta, að við höfum vald til þess að vernda þau veiðisvæði sem við teljum viðkvæmust. Við vildum gjarnan að bókun 6 kæmi til framkvæmda. En þá er enn á það að líta að ef hún er ekki komin til framkvæmda eftir 5 mánuði, þá frestast þessi samningur, þannig að þetta atriði hefur ekki heldur úrslitaáhrif varðandi það hvort við samþykkjum þetta samkomulag eða ekki.

Allt vegur þetta líka minna en sú staðreynd að þjóðverjar játast undir okkar lög, okkar eftirlit og okkar verndunarákvarðanir. Þeir viðurkenna og hlíta því ef við teljum nauðsynlegt að vernda ákveðin veiðisvæði. þeir takmarka skipafjölda sinn og við hann munu ekki bætast önnur skip. Þeir fara með frystitogara sína út fyrir 200 mílur, gangast undir eftirlit okkar, og þeir skuldbinda sig til að veiða ekki þorsk sem nokkru nemur, en það er einmitt þorskurinn sem er í mestri hættu. Út frá fiskifræðilegu og verndunarsjónarmiði hlýtur allt þetta að vera geysilega mikilvægt. Einmitt með hliðsjón af skýrslu fiskifræðinganna eru þessi ákvæði samkomulagsins þýðingarmest.

Ég vek sérstaka athygli á því, að í skýrslu fiskifræðinganna, þ. e. a. s. Hafrannsóknastofnunarinnar, og í skýrslu Rannsóknaráðs ríkisins er gengið út frá þeirri meginforsendu að við höfum stjórn á sókninni á fiskimiðin, einnig á okkar eigin sókn. Með samkomulaginu við þjóðverja höfum við öðlast þessa stjórn hvað þá snertir og höfum það fullkomlega á valdi okkar að fylgja verndunarsjónarmiðum okkar eftir. Ég minni og á að ekki er mögulegt fyrir neinn að vísa í skýrslurnar öðruvísi en að samþykkja þá það annað sem í þessum skýrslum stendur. En hvernig geta menn haldið verndunarsjónarmiðum á lofti gagnvart útlendingum, en virt þau að vettugi að öðru leyti með stjórnleysi í skipakaupum og andstöðu gegn aflatakmörkunum hjá íslendingum?

Aðvaranir fiskifræðinga byggjast á því að við tökum einmitt þessi mál til alvarlegrar athugunar og setjum á mjög stranga stjórn og mjög strangt eftirlit. Við nálgumst það með þessu samkomulagi hvað þjóðverja snertir, og við verðum jafnframt líka að nálgast það hvað okkur sjálfa snertir.

Á þessum samningum eru bæði kostir og gallar. Á þessu máli eru tvær hliðar eins og á öllum öðrum málum sem einhverju skipta. Margir í þessu landi eru algerlega andvígir öllum samningum í landhelgismálinu. Sumir stjórnmálaflokkar hafa lýst slíkri eindreginni afstöðu. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Þeir dæma sig að vísu úr leik þegar verið er að meta þetta samkomulag af einhverri skynsemi. Og rök þeirra, sem lýst hafa sig algerlega andvíga hvers konar samkomulagi, verða ekki eins haldgóð og trúverðug þegar þeir nú andmæla einstökum atriðum samkomulagsins.

Það er yfirlýstur vilji Alþ. að leita samninga við aðrar þjóðir. Það hefur verið gert bæði fyrr og nú, og vitaskuld hefur það áhrif á stjórnarsinna hér á þingi að þeir hafa fylgst með samningsgerðinni nokkuð náið. Stjórnarsinnar hér á þingi hafa eins og aðrir, bæði utan þings og innatt, verið misjafnlega áhugasamir um samningsgerð, enginn ákafur, flestir nokkuð tregir. Samninga gerir enginn samninganna vegna. Ég hef sjálfur verið fylgjandi samningum, en því aðeins að þeir væru aðgengilegir og okkur til verulegra hagsbóta. Ég hef alltaf gert mér ljóst að í samningum verða báðir að slá af, því að samningar byggjast á samkomulagi og samkomulag verður ekki gert nema báðir aðilar fái eitthvað í sinn hlut.

Mönnum eru nú gerðar upp annarlegar hvatir. Talað er um að stjórnarþm. séu bundnir flokksböndum o. s. frv. Ég vil leyfa mér að lýsa því yfir að í slíku máli læt ég ekki binda mig neinum flokksböndum. Þetta mál er of mikilvægt til að láta flokkshagsmuni eða foringjaráð stjórna gerðum einstakra manna. Við erum ekki hér að togast á um flokksstefnur eða dægurþras. Við erum að fjalla um framtíð þessarar þjóðar, tilveru hennar í landinu. Og ég fylgi þessum samningsdrögum og styð að gert verði samkomulag við vestur-þjóðverja, því að ég tel kosti þessara samningsdraga vera meiri en gallana, og ég hef hliðsjón af þeim upplýsingum og þeim aðstæðum sem nú eru fyrir hendi.

Menn hafa verið stóryrtir í þessum umr. Fullyrt er að afstaða ríkisstj. lýsi „botnlausum aumingjaskap“, að við ættum auðveldlega að geta varið landhelgi okkar, og meira að segja sé verið að svíkja og selja landið með þessum samningum. Ég skal ekki draga úr góðri meiningu þeirra sem slíkt fullyrða. Það bítur að vísu ekki á mig, og ég tek ekki slíkar fullyrðingar til mín. M. a. hafa stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað, gefið sér þær forsendur að þessir samningar væru munstur fyrir samninga við breta. Þetta er fleipur eitt og ástæðulausar tilgátur. Við skulum ekki gefa okkur neitt í þessum efnum, og ég get eða vil fullyrða að ég þekki engan hér á þingi sem hefur skap til þess þessa dagana eða minnstu tilhneigingu til þess að setjast að samningaborði við breta eins og á stendur. Við semjum ekki andspænis gapandi byssukjöftum og við látum ekki kúga okkur til afarkosta. Við skulum vona að íslendingar geti staðið saman í þeim efnum. Ég vil ekki gera mönnum upp óheilindi í þessu máli og tel að öll gagnrýni, sem fram hafi komið, sé mælt af heilindum og í góðri meiningu um að það væri í samræmi við hagsmuni íslensku þjóðarinnar. En ég ætlast ekki heldur til að óheilindi séu borin á mig eða mína samstarfsmenn hér á þingi, og ég vísa á bug öllum svigurmælum þar að lútandi sem bæði ósanngjörnum og óheiðarlegum.

Ég vil að lokum segja þetta, herra forseti: Slík barátta sem nú er háð, hún vinnst ekki með kokhreysti, óbilgirni eða steigurlæti. Íslendingar öðluðust ekki frelsi með því að berja sér á brjóst, ekki með vopnavaldi eða því að vilja ekki eiga orðastað við aðrar þjóðir. Þá eins og nú, þegar við öðluðumst okkar sjálfstæði, og nú, þegar við eigum í stríði við erlendar stórþjóðir, þá er það ekki hraðinn sem skiptir máli, heldur seiglan og festan. Það var þolinmæði, sannfæring og rökræða sem færði okkur sjálfstæðið. Menn verða stöðugri ef þeir taka tvö skref í staðinn fyrir eitt, og stundum er jafnvel skynsamlegt að taka eitt skref til baka til þess að komast tvö áfram. Það kannast flestir við orðtakið: Betri er krókur en kelda. Við höfum þróunina með okkur, málstaðurinn er traustur og rétturinn vís. Við skulum því ekki hafa svo miklar áhyggjur af vopnaviðskiptum, af því að við vitum hver leikslokin verða.