27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú satt að segja orðnar óralangar, og það er með hálfum huga að ég stend hér upp til þess að bæta við þær. Mér telst svo til að þetta muni vera líklega 30. ræðan í málinu sem ég er að byrja á. Og það fer ekki hjá því að það kennir mikið endurtekninga. Þótt við séum frjóir í hugsun hér í d., þá kennir orðið ansi mikilla endurtekninga í málflutningi manna, sem eðlilegt er. Þetta er afdrifaríkt mál, og það er ekkert óeðlilegt við það, þótt þm. kjósi að tjá sig um það, en mér finnst að við eigum að keppa að því að vera stuttorðir, eins og raunar sumir hafa verið hér.

Það hefur verið fjallað nokkuð um afstöðu þm. til samningsins og skoðanamótunar innan flokka. Ég vil láta það koma skýrt í ljós vegna ummæla, sem féllu hér í gærkvöld um að það væri einhver ógurleg pressa sem væri notuð á þm. stjórnarflokkanna að fylgja þessu máli, að ég hef ekki orðið var við þá pressu. Ég greiði þessari þáltill. atkv. mitt með góðri samvisku og vegna þess að ég tel rétt, eins og málum er háttað, að semja við þjóðverja. Það eru fáeinar ástæður sem þessu valda. Það er ekki hægt að segja að þetta samkomulag sé gallalaust, það er langt frá því. Auðvitað vildum við komast hjá því sjálfsagt öll saman að þurfa að gera þetta samkomulag. Það er mikið aflamagn sem við þurfum að fórna. Það fæst ekki frambúðarviðurkenning á okkar 200 mílum. Það má fetta fingur út í svæðaskiptingu. Og ég hefði kosið, að um gerð veiðarfæra væri nokkuð annað orðalag en í samningnum er. En þrátt fyrir þetta eru atriði sem eru jákvæð og við samkomulagið, og þau vega þyngra í mínum huga.

Vegna þess hvað Hattersley sagði um hið dulræna samband á milli íslendinga og þorsksins, þá er kannske rétt að hafa þau rök fyrst að ég held að þorskinum sé best borgið og þar með þjóðinni allri með því að ganga til þessara samninga við vestur-þjóðverja, en leggja allt kapp á að verjast bretum. Mér finnst að það sé raunsætt mat á stöðunni að taka þessa afstöðu. Það eru hér menn í hv. Alþ. sem telja allt fært. Það eru ofurhugar sem heimta að gæslan hafi í fullu té við breta og þjóðverja og ég veit ekki hvað og hvað. En við ætlum ekki sjálfir að fara að flæmast út um hafið í skammdeginu til þess að lumbra á þjóðverjum eða bretum. Það var að vísu verið að ráða hér kannske háseta á eitt varðskipið, og ég efast ekki um að hann muni duga vel, en ég held að við verðum nú hér í ylnum flestöll í vetur. Við keifum kannske inn í flokksherbergin okkar og skreppum svo upp í ræðustól til þess að segja nokkur orð okkur til skemmtunar, stjórnarandstæðingar ekki síður en stjórnarsinnar.

Stjórnarandstæðingar hafa útandskotað þessari ríkisstj. Þeir eru ákaflega óánægðir með stjórnarfarið í landinu, að því er þeir segja. Alþb.- menn ganga harðast fram í þeirri sennu. En þeir höfðu ekki ýkjamikinn áhuga á því að taka þátt í stjórn landsins vorið eða sumarið 1974 og sáu þá kannske fram á það að harðna mundi á dalnum. Þeir höfðu ekki áhuga á að taka ábyrgð á óvinsælum ráðstöfunum sem óhjákvæmilegt var að gera. Sérfræðingur Alþb. í sjávarútvegsmálum var ekki kappsamari en það að verða leiðandi maður í sjávarútvegsmálum að hann kaus heldur að fara austur á land og veiða lax meðan reynt var að mynda vinstri stjórn í landinu.

Ef við rekjum söguþráðinn lengra, og það er nú freistandi vegna þess að hér kom gestur í ræðustólinn í gærkvöld, forseti ASÍ, hv. 9. þm. Reykv., og hann var ekki ánægður með ráðstafanir ríkisstj., Sjálfstfl. og Framsfl., en hann velti kannske framar öðrum mönnum vinstri stjórninni, blessuð sé hennar minning. Hann hótaði gróflega með öllum tiltækum löglegum ráðum, að hann sagði, að berjast á móti þessum samningi sem hér er verið að gera, — löglegum, sagði hann. En í sumar komst nú þetta hvað væri löglegt og ekki löglegt dálítið á dagskrá — og hvað er sannleikur? spurði Pílatus. Þá var ríkisstj. Íslands búin að gefa út brbl. um tiltekna vinnudeilu. Þá gekk forseti ASÍ á undan að brjóta þá lagagerð á bak aftur og taldi að hún hefði ekki stoð í réttarvitund almennings, og það er náttúrlega dálítið teygjanlegt hugtak líka.

Hv. þm. sagðist vera hættur að verða hissa, og það kann að vera eðlilegt. Hann hefur nú komið í hana versu fyrr og setið á 19 þingum, að hann sagði, fyrir ýmsa flokka, sennilega fyrir Sósfl., fyrir Alþb., fyrir SF og fyrir Alþfl. Þetta er nú bara þriðja þingið mitt, og ég hef alltaf verið fyrir sama flokkinn, og ég hef ekki heldur enn þá glatað hæfileikanum til þess að verða hissa.

Ef við reynum ekki þessa leið sem hér er verið að þræða, að semja við þjóðverja, þá held ég að það væri ábyrgðarleysi gagnvart blessuðum þorskinum í sjónum og þar með framtíð þjóðarinnar. Og hvar værum við nú staddir, þótt við séum duglegir og snjallir, ef við yrðum ofurliði bornir með ryksugutogara um allan sjó? Þjóðverjar lofa því þó að fara burt með þá. Við eigum varðskip, en ekki nógu mörg. Við eigum dugandi mannskap á þessi varðskip, sjálfsagt mjög góðan og hæfan mannskap. En þessum fáu varðskipum er gert lífið leitt og þau koma ekki að fullu gagni ef bretar halda hér uppi njósnaflugi og segja til um staðsetningu þeirra. Þá er það náttúrlega fjarstæða að halda að 4–5 skip anni því að halda aftur af öllum þessum mikla skipaflota, bæði þjóðverja og breta og jafnvel fleiri þjóða, ef njósnaflugvélarnar gefa á hverjum tíma upp stöðu þeirra.

Það hefur komið fram hugmynd um að taka í gæsluna skuttogara. Ég hef aldrei skilið þá hugmynd. Það getur verið að þetta sé hægt, en ég næ ekki upp í þá hugmynd. Mér finnst að það að ætla skuttogara að fara að fást við freigátur væri eins og þegar mýsnar ætluðu að hengja bjölluna á köttinn. Skuttogarar eru byggðir til þess að vera fiskiskip, en ekki til þess að vera varðbátar eða herskip, og ganghraði þeirra miðast við það, skrúfubúnaður enn fremur. Þetta eru vafalaust lipur og góð skip, en þau eru ekki styrkt til þess að standa í árekstrum við skip ölóðra breskra togaramanna. Og við megum líka gera ráð fyrir því að eitthvað af varðskipunum verði stöðugt í viðgerðum og bretum takist að laska þau. Eftir því hafa þeir náttúrlega mikið sótt. Og svo er eitt af verkefnum landhelgisgæslunnar sem ekki hefur komið fram í þessum umr. svo að ég hafi heyrt. Það er kannske ljótt að vera að hafa orð á því, en því miður, skulum við segja, í einstökum undantekningartilfellum þarf landhelgisgæslan eða varðskipsmenn að gá lítillega að okkur sjálfum, því er nú verr.

Það hefur verið rætt hér mikið um reynsluna af samningum sem gerðir hafa verið á undanförnum árum um landhelgismál. Ég verð nú að segja að sú reynsla er að sumu leyti góð, en hún er að sumu leyti ekki góð. Í landhelgissamningunum 1961 var stigið mikið ógæfuspor með málskoti til Haagdómstólsins, og íslendingar eru enn þá með nokkrum hætti að glíma við þann draug. Þetta málskotsákvæði til Haag-dómstólsins er enn eitt meginatriði í málflutningi breta.

Hér hafa komið mjög á dagskrá bréfaskriftir Hafrannsóknastofnunar annars vegar og fiskifræðinga við þá stofnun hins vegar. Það hefur verið deilt hér harkalega um fiskveiðisjónarmið og stjórnmálasjónarmið og allra handanna hvatir sem kunna að liggja að baki þeirri bréfagerð. Auðvitað liggja bæði fiskveiðisjónarmið og sjálfsagt jafnframt stjórnmálasjónarmið að baki báðum þessum ritverkum, og stjórnmálaþróun hefur í eðli sínu að sjálfsögðu megináhrif á framvindu málanna. Að vissu leyti ber þessum mönnum ekki verulega mikið á milli þrátt fyrir allt. Í niðurlagi á bréfi fiskifræðinganna, sem hv. þm. Lúðvík Jósepssyni barst hér í ræðustól í gær með eftirminnilegum hætti, segir þetta sem niðurlags- og ályktunarorð:

„Af þessum sökum er engan veginn hægt að fullyrða að samningsdrögin við vestur-þjóðverja séu skásti fiskifræðilegi valkosturinn, þar sem það kemur fyrst í ljós þegar allar stjórnmálalegar ákvarðanir hafa verið teknar í þessu máli.“

Þeir gera því skóna sem sagt að það verði samið við breta, og það er þeirra skoðun að þá sé þetta ekki lengur skásti fiskifræðilegi kosturinn. Og ég er á sama máli. Ég er á því máli að fiskifræðilega sé rétt að semja við þjóðverja, en ekki að semja við breta. Ég held sem sagt að það sé ekki lengur unnt að ganga til samninga við breta. Það var þrautreynt hvort hægt væri að koma einhverju tauti við þessa menn. Þeim voru boðin rausnarleg boð. En þeir vildu ekki þiggja þau, þeir vildu meira. Og þeir náttúrlega um það. Að sjálfsögðu liggur það í loftinu að það eru átök fram undan, og ég held að við eigum ekkert að hlífa okkur við því að gera eins og við getum í þeim átökum. En við þurfum sjálfsagt á öllu okkar að halda, og það er nóg að eiga þann andstæðing einan af þeim öflugu. Það er áreiðanlega nóg fyrir okkur að kjósa okkur það veldi til jafnaðarmanns. Og þá kemur að því að við þurfum náttúrlega á öllu okkar að halda. Þá er eðlilegt að til þess komi og rannar óhjákvæmilegt að endurmeta afstöðuna til NATO. Það er ekki mikil stoð í því bandalagi ef bretum líðst að fara því fram sem horfir. Og það er enn fremur ástæða til þess, ef bretum tekst að halda okkur utan við tollfríðindi Efnahagsbandalagsins, að sá samningur verði enn fremur tekinn gaumgæfilega til athugunar. Ef okkur verður ekki gefinn kostur á þeim viðskiptakjörum sem við eigum rétt á, þá verðum við að endurmeta afstöðu okkar til þess tollasamnings. Við getum náttúrlega ekki endalaust fært fórnir, viðskiptalegar, hernaðarlegar og siðferðilegar, í sérstöku vináttuskyni við þessar vestrænu bræðralagsþjóðir, þegar lífshagsmunir íslensku þjóðarinnar eru svo mjög að veði. Þess vegna tel ég rétt að við samþykkjum þessa till. og snúum okkur svo sameinaðir og af alefli að bretum, — sameinaðir, sagði ég, því að í þeirri sennu, sem fram undan er við breta, getum við ekki látið það eftir okkur, held ég, að vera að berjast innbyrðis.