27.11.1975
Sameinað þing: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef satt að segja enga löngun til þess að flytja hér langt mál. Það er búið að rekja aðalatriði þessa máls. Margir hafa talað hér langt mál, sumir snjallt, en þó vil ég bæta hér við fáeinum orðum.

Það er eftirtektarvert að stuðningsmenn ríkisstj. hafa í þessum umr. ekki reynt að halda því fram, að ávinningur íslendinga af þessum samningi væri mikill, a.m.k. ekki beinn ávinningur. Það er óumdeilt í þessu máli að ekki liggur fyrir nein viðurkenning á 200 mílunum af hálfu hins samningsaðilans. Það er einnig óumdeilt í þessu máli að samningurinn segir ekkert um það hvað við tekur að samningstímabilinu loknu, og það er ekkert sem hindrar það að vestur-þjóðverjar hafi í frammi áframhaldandi yfirgang gagnvart okkur íslendingum þegar samningstímabilinu lýkur, nema þá það eitt að hafréttarráðstefnunni sé lokið og alþjóðalög hafi verið samþykkt um landhelgismál. En eins og allir vita, þá veit enginn hvort hafréttarráðstefnunni lýkur 1977 eða 1978 eða 1979. Að vísu ætla menn nú að ekki verði svo langur dráttur á því að sjálfri ráðstefnunni ljúki, en við vitum að þá er ekki öll sagan sögð. Þá er eftir að fá samningana undirritaða og fá þá staðfesta af nægilega mörgum þjóðum. Ég er því sannfærður um að flestir, sem til þekkja, geti verið mér sammála um að það er engin fjarstæða að það gæti dregist til a.m.k. ársins 1978, ef ekki 1979, að endir fáist á þetta mál. En ef samningurinn, ef hann verður gerður, rennur út á árinu 1977, eins og kunnugt er, og það er því vel hugsanlegt að til umr. gæti orðið nýtt tveggja ára samningstímabil.

Í þessu máli er ekki deilt um tölur varðandi aflamagn vestur-þjóðverja á liðnum árum. Það er viðurkennt að á árinu 1973 veiddu þeir 93 þús. tonn, 1974 68 þús. tonn og áætlað er að þeir veiði á þessu ári að óbreyttu 40 þús. tonn. Um þetta er ekkert deilt. Hitt er meira þrasað um, við hvaða ár sé réttast að miða, og við, sem erum andvígir þessum samningi, teljum eðlilegast að miða við árið í ár og árið sem leið, en talsmenn ríkisstj. leitast við að miða við árið 1973 eða jafnvel þaðan af fyrri ár, og verður svo hver að meta hvað honum þykir sanngjarnast.

Það er nú svo að einnig í Bretlandi er það lítt umdeilt að samningur íslendinga og vestur-þjóðverja hafi verið þjóðverjum mjög í hag. Í fréttum í dag var frá því sagt að í umr. í Bretlandi um landhelgismálið hefðu menn lýst undrun sinni á því, að íslendingar ætluðu að semja við vestur-þjóðverja án þess að fá að því er virtist nokkuð í staðinn og aðstoðarutanrrh. Breta, Roy Hattersley, hefur sagt alveg nýlega að ef bretum hefði verið gert hliðstætt boð og vestur-þjóðverjum stæði nú til boða, þá hefðu mál íslendinga og breta farið á annan veg, því að samningurinn við vestur-þjóðverja jafngildi, eins og hann sjálfur hefur sagt, yfir 90 þús. tonna veiðiheimild fyrir breta.

Eins og ég hef hér rakið, þá virðist öllum vera það ljóst og það virðist vera almennt viðurkennt að beinn ávinningur íslendinga sé mjög smávægilegur af þessum samningi. Jafnframt er það almennt viðurkennt og það meira að segja einnig af stjórnarsinnum, að afli á Íslandsmiðum er alls ekki til skiptanna, enda enginn sem ég veit til að vefengi skýrslur Hafrannsóknastofnunarinnar. Það er sem sagt óumdeilt að veiði vestur-þjóðverja á 60 þús. tonnum hlýtur óhjákvæmilega að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf og einkum ef haft er í huga að aðrir samningar kunni að fylgja í kjölfarið. En það er ein röksemd sem stjórnarsinnar hanga í og leggja alla áherslu á. Þeir segja að ef við semjum ekki, þá taki vestur-þjóðverjar meira en þeir hafa tekið, samningurinn sé þrátt fyrir allt skárri kostur af tvennu illu. Þeir segja það ýmist beint eða óbeint: Við getum ekki varið landhelgina. Hæstv. sjútvrh. sagði þetta reyndar beinlínis í sjónvarpsumr. sem ég tók þátt í ekki alls fyrir löngu, og það má segja að þessi kenning sé rauði þráðurinn í röksemdafærslu stjórnarsinna, ef undan eru skildar bollaleggingar manna um hugsanlega tollaívilnun af hálfu Efnahagsbandalagsins sem mjög er misjafnt hvernig menn meta. Ég hef alltaf litið svo á, að þessi margumtalaða tollaívilnun Efnahagsbandalagsins væri það smá í sniðum að hún næði ekki máli í samanburði við hina stórkostlegu hagsmuni, sem við eigum í húfi í landhelgismálinu. En það er nú svo að þetta hefur verið dregið inn í málið, og er því rétt að gleyma því ekki algerlega. En eins og menn vita, þá er allt í óvissu um það hvort þessi margumtalaða bókun 6 kemur til framkvæmda eða ekki, hvort það verður og hvenær það yrði. Eins og menn vita, þá á samningurinn að frestast ef bókunin kemur ekki til framkvæmda eftir 5 mánuði í samræmi við ákvæði í fskj. IV.

Það gerðist hér í gær að Einar Ágústsson, hæstv. utanrrh., var spurður að því hvað gerast mundi ef bókunin kæmi ekki til framkvæmda á næstu 5 mánuðum, hvort vestur-þjóðverjar mundu þá fara út fyrir 200 mílurnar okkar. Hæstv. ráðh. svaraði þessari spurningu með eins atkv. orði. Hann sagði einfaldlega já. Ég vil leyfa mér að inna hæstv. utanrrh. nánar eftir þessu atriði. Ég fæ í fyrsta lagi ekki séð að þetta standi neins staðar í samningnum, það er víst öllum ljóst. En ég vil leyfa mér að spyrja hvaða tryggingu hæstv. utanrrh. hafi þá fyrir því að þessi fullyrðing hans standist. Ég er ansi hræddur um að fleiri en ég telji að þetta eins atkv. orð, sem hann lét hér frá sér fara í gær, sé heldur ófullnægjandi grg fyrir svo stórkostlega mikilvægri fullyrðingu. Ég vil sem sagt fá að vita á hverju hann byggir þessa fullyrðingu sína, að verði samningnum frestað í samræmi við ákvæði hans, þá fari vestur-þjóðverjar út fyrir. Ég vil sem sagt eindregið mælast til þess að hann svari því til á hverju hann byggir fullyrðinguna. Ég vil til viðbótar spyrja hann að því, hvert sé álit hans á því hvað verði ef spá hans reynist röng, ef hann reynist fara með rangt mál. Ef einstök skip veiða í íslenskri landhelgi eftir að samningnum hefur verið frestað, verða þau þá strikuð út af listanum fyrir fullt og allt eða koma þau aftur inn ef samningurinn skyldi taka gildi seinna? Og í öðru lagi: Ef mikil brögð verða að þessu og bert er að vestur-þjóðverjar eru staðnir að því að halda skipunum í landhelginni er þá ekki samningurinn bersýnilega úr gildi fallinn vegna samningsrofa? Þetta þætti mér gott ef hæstv. utanrrh. sæi sér fært að segja til um.

En ég vil snúa mér aftur að því atriði sem ég tel raunverulega vera rauða þráðinn í málflutningi stjórnarsinna. Það er kenningin um það að við getum ekki varið landhelgina. Og seinast í gærkvöld gerðist það að einn ágætur hv. þm., Steingrímur Hermannsson, lýsti því yfir að hann hefði átt í ströngu stríði við samvisku sína, þar hefðu ást við flokkshagsmunir og samviska og hann hefði mikið velt því fyrir sér að láta verða af uppreisn gegn flokknum í þessu máli, en hann hefði nú endað með því að beygja sig og þá fyrst og fremst fyrir þeim rökum að íslendingar gætu ekki varið landhelgina. Hann sagði beinlínis að ekki væri hægt að ætla að fara að ota íslenskum togurum og varðskipum gegn breskum freigátum, eins og ég skrifaði eftir honum.

Ég lít svo á að þetta sé bersýnilega kjarni málsins. Þeir, sem svara þeirri spurningu játandi að hægt sé að verja landhelgina, vilja ekki semja. Þeir sameinast um að segja það, hvort sem þeir hafa verið fylgjandi samningum við aðrar þjóðir um undanþágu til veiða í landhelginni einhvern tíma áður eða ekki, þá sameinast þeir um að segja nú að aðstæður séu þvílíkar, útlitið sé það dökkt, nauðsynin það rík að það sé óhjákvæmilegt að við íslendingar berjumst ótrauðir og semjum ekki, hvorki við breta né vestur-þjóðverja né neina aðra þjóð. Í því sambandi skiptir að sjálfsögðu engu máli hvort einstakir þm. hafa verið reiðubúnir að bjóða þetta eða hitt fyrir einu, tveimur eða þremur árum, hvort það voru alþb.-menn eða framsóknarmenn eða alþfl.-menn sem voru þeirrar skoðunar, ellegar hvort menn voru tilbúnir að gera samning við breta fyrir 2–3 árum eða hvort menn gerðu samning við breta og vestur-þjóðverja fyrir 12 árum, Þetta er liðin tíð, liðnar aðstæður. Það eru aðstæðurnar hér og nú sem eru á dagskrá. Það er hrun íslenskra fiskstofna sem við blasir, sem við verðum að taka afstöðu til, og þá er bara spurningin: Eru menn tilbúnir að verja landhelgina með öllum þeim ráðum, sem við eigum tiltæk, eða ekki? Hinir, sem það vilja ekki, að landhelgin verði varin, eru að sjálfsögðu tilbúnir að semja. Svo einfaldlega liggja línurnar í þessu máli.

Eins og menn vita hefur fólk víða um land lagt niður vinnu í dag. Við höfum að vísu ekki fengið nákvæmar fréttir um það hve mikil brögð hafa verið að því, en þó nægilega miklar fréttir til að vita að um allt land voru þúsundir og tugþúsundir manna sem lögðu niður vinnu. Í dag hafa auk þess tugþúsundir manna eða a.m.k. yfir 10 þús. manns safnast saman á Lækjartorgi og staðið þar á löngum fundi. (Gripið fram í: 5 þús. manns.) Já, við skulum nú ekki, hv. þm., fara að rökræða það, hvort það var einu þúsundinu fleira eða færra, það skiptir í sjálfu sér ekki máli. Hitt er aðalatriðið, að þúsundir manna hafa í dag safnast saman á Lækjartorgi og staðið þar á löngum fundi í frostveðri og norðankuldagjóstri til að mótmæla öllum samningum við erlendar þjóðir.

Það er enginn minnsti vafi á því að minni hyggju að mikill meiri hl. þjóðarinnar er andvígur þessum samningi, a.m.k. ef marka má einróma samþykktir sem borist hafa mjög viða að. Á hinn bóginn verð ég að játa það, að ég veit ekki um ein einustu fjöldasamtök í landinu, sem hafa gert ályktun um hið gagnstæða. Ég hafði að vísu heyrt um ályktun Fiskiþings sem hæstv. utanrrh, nefndi hér áðan, en ég býst ekki við að margir líti á þau samtök sem mikil fjöldasamtök. Það hafa heyrst einstakar raddir, en þær eru fáar og hjáróma.

Ég held að það sé ljóst að þjóðin sé andvíg samningum. Og hvers vegna? Vegna þess að hún vill að landhelgin sé varin og hún veit að það er gerlegt. Á þriðjudagskvöldið var bárust okkur fréttir af því að íslenskt varðskip hefði klippt á togvíra bresks togara. Þarna voru nærstaddir þrír dráttarbátar hennar hátignar og þar að auki freigáta sem bar hið virðulega nafn Leopard, það mun víst vera nafn hins mikla villidýrs frumskógarins, hlébarðans. Þarna voru sem sagt 4 bresk skip til varnar og þó réðu þau ekki við íslenska varðskipið. Ég tel að þetta sé ein sönnunin af mörgum sem þjóðin hafi fengið um möguleika íslendinga til þess að verja íslenska landhelgi. Afstaða þess mikla fjölda fólks, sem nú hefur snúist til harðrar andstöðu gegn hvers konar samningum við aðrar þjóðir, byggist vafalaust á þeirri sannfæringu að ef forustumenn þjóðarinnar hafa vilja og þor til þess að beita landhelgisgæslunni, þá er hægt að verja íslenska landhelgi, kannske ekki þannig að veiðarnar stöðvist með öllu, en það er hægt að minnka þær mjög verulega. Það er hægt að gera veiðarnar óhagkvæmar og dýrar, bæði fyrir vestur-þjóðverja og breta.

Staðreyndin er sú, að klippingar togvíra hafa reynst mjög árangursríkt vopn gegn veiðum þessara ríkja. Á þessu ári hafa að vísu ekki verið miklar víraklippingar, eins og mönnum er kunnugt. En á seinustu tveimur vikum hafa 7 breskir togarar verið halastýfðir. Á þessu ári munu vestur-þjóðverjar hafa orðið fyrir því 9 sinnum að klippt væri á togvíra þeirra, en þess ber að geta að vestur-þjóðverjar hafa reynt að forðast það eins og heitan eldinn að klippt væri aftan úr þeim, og þeir hafa því dregið inn vörpuna oftast þegar varðskipin hafa nálgast og hafa ekki gefið kost á því að klippt væri. Ég lít svo á að þessar aðgerðir eigum við að auka af fullum krafti af því að við getum það. Og ég vil minna á það, að á árinu 1973 klipptum við 74 sinnum á togvíra erlendra togara. Við klipptum 60 sinnum á togvíra breskra togara og 14 sinnum á togvíra þýskra togara. Við erum núna með 6 varðskip í gangi og eina flugvél, og það má vel vera að við þurfum að tvöfalda þennan flota sem við höfum til ráðstöfunar. Það má vel vera að við þurfum að taka 5–6 skip á leigu til bráðabirgða og auka flugþjónustuna. En þetta er hægt og þetta á að gera því að það er mikið í húfi. Menn kunna að segja sem svo að þetta muni nú eitthvað kosta. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því og það er rétt. En vita menn hver er allur rekstrarkostnaður landhelgisgæslunnar. Hann er samkv. fjárl. 1975, þegar með er talinn gjaldfærður stofnkostnaður og framlög í Landhelgissjóð, 644 millj. Hliðstæð tala á fjárlfrv. 1976 er 867 millj. Það má vel vera að við þurfum að bæta annarri eins upphæð við ef við ætlum að axla þau viðfangsefni sem því fylgja að þurfa að berjast nú jafnt við breta og vestur-þjóðverja. En þá það. Þá verðum við bara að horfast í augu við það. Og ég er sannfærður um að menn gera sér grein fyrir því að 700–800 millj. eru ekki mikið þegar haft er í huga hvaða verðmæti eru í húfi. Árlegt tekjutap þjóðarinnar er áætlað, ef samið væri, um 150 þús. tonn., 1520 milljarðar, 15–20 þús. milljónir, þá er eftir að reikna óbeint tap okkar, tap af völdum atvinnuleysis og minnkandi tekna einstaklinga, sveitarfélaga og ríkis og stórminnkandi veltu fjármuna í landinu. Er ekki augljóst að það er fráleitt að setja fyrir sig nokkur hundruð millj. kr. aukakostnað ef við gætum raunverulega náð þeim áfanga að halda bretum og vestur-þjóðverjum nokkurn veginn fyrir utan?

Nú eru ýmsir sem segja að þetta sé hættuleg leið og að varsla landhelginnar af fullri einurð geti kostað slys. Auðvitað er það rétt að varsla landhelginnar er hættulegt starf og erfitt. Eins og það sé eitthvað nýtt! Páll Pétursson sagði hér áðan, hv. þm. Norðurl. v., að við þm. ætluðum ekki að fara stunda landhelgisgæslu, við skyldum tala varlega. Ég verð að segja að þetta er afskaplega lágkúruleg röksemd og einkennileg. Ég held að það detti ekki nokkrum manni í hug að sé erfitt að fá menn í landhelgisgæsluna ef því er að skipta. Ég held að rök af þessu tagi verði að teljast afar léttvæg. (Gripið fram í: Dómsmrh. hefur boðið mér það.) Þar að auki virðist vera framboð manna hér í þingliði til gæslustarfa, og þar af leiðandi held ég að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu atriði. Auk þess er auðvitað ljóst að varsla landhelginnar þarf ekki að vera miklu hættulegri en hún hefur verið. Ég veit ekki betur en að utanrrh. legði á það sérstaka áherslu áðan að klippingar væru hættulausar. Hann vildi undirstrika að þær væru ekki aðeins hættulitlar, þær væru hættulausar, og benti á að engin slys hefðu hlotist af þeim tæplega 100 klippingum sem átt hefðu sér stað. Þetta er auk þess margyfirlýst af yfirmönnum landhelgisgæslunnar og við vitum að þetta er rétt hjá þeim. Okkar menn hafa beitt fyllstu varfærni og þó að þeir fái að beita hæfilegri hörku, þá hljóta þeir áfram að beita um leið nægilegri varfærni. Það er sem sagt gerlegt að ástunda fulla hörku við klippingar og aðrar áreitingar án þess að mannslíf séu beinlínis í hættu. Viðfangsefni landhelgisgæslunnar er og verður það að hvekkja erlenda landhelgisbrjóta, taka þá þegar þess er kostur, ella a. m. k. að gera þeim lífið leitt, tefja og trufla veiðar þeirra, reyna á þolrif þeirra og draga úr afla þeirra. Markmiðið á sem sagt að vera að skipstjórar á breskum skipum telji sig til neydda, telji sig nauðbeygða að leita á önnur mið. Þetta getur tekið tíma. Þetta getur kostað okkur nokkra fjármuni og það mun vafalaust reyna á þolinmæði okkar og þrautseigju, en þessi leið er nauðsyn, — óhjákvæmileg nauðsyn ef við ætlum að halda uppi mannsæmandi lífi í þessu landi.

Ég vil að lokum segja það eitt að spurningin um samninga eða ekki samninga er augljóslega spurningin um það hvort við höfum vilja og vit, ráð og rænu að verja landhelgina. Ætlum við að lyppast niður eins og aumingjar og horfa á erlend stórveldi kúga út úr okkur verulegan hluta af þeim afla sem þorandi er að veiða hér á miðunum á næstu árum — eða ætlum við að harka af okkur og reyna að lifa eins og menn? Það er áreiðanlega vilji þeirra tugþúsunda manna sem mótmælt hafa samningum við vestur-þjóðverja að svo verði gert, og það er áreiðanlega vilji mikils meiri hl. þjóðarinnar, þótt svo illa hafi til tekist að eitthvað lægra sé upplitið á meiri hl. alþm., eins og ég óttast að komi í ljós við atkvgr. um þetta mál á morgun.