27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Benedikt Gröndal:

Herra forseti, góðir hlustendur. Fræg saga er af því er þýskir vísindamenn eitt sinn heimsóttu Einar skáld Benediktsson í Herdísarvík. Þá er sagt að skáldið hafi staðið við glugga og litið til hafs yfir brimgarðinn, slegið út armi og mælt þrumuröddu á þýsku: „Mitt land, mitt haf.“ Aldrei hefur svo vel í svo fáum orðum verið lýst hinu nána sambandi sem er milli landsins okkar og hafsins yfir landgrunninu. Þetta er samvaxin heild og á Íslandi yrði vart lifað á landi án auðlinda hafsins. Af þessu leiðir að fullt sjálfstæði landsins er okkur ekki nóg. Því verður að fylgja samsvarandi sjálfstæði hafsvæðanna á landgrunninu undir stjórn íslensku þjóðarinnar.

Okkar kynslóð hafa verið sköpuð þau örlög að berjast fyrir frelsun hafsvæðanna, og það hefur verið gert síðustu 30 ár skref fyrir skref uns lokamarkið, 200 mílur, varð að veruleika. Alþfl. hefur tekið þátt í þessari baráttu með hinum stjórnmálaflokkunum, og nauðsynleg þjóðareining hefur jafnan verið um kjarna málsins, ekki alltaf um einstök framkvæmdaatriði.

Alþfl. er og hefur verið ábyrgur flokkur sem vill vinna mál þjóðarinnar með friði og samkomulagi þegar þess er kostur með fullri sæmd. Flokkurinn hefur því, rétt eins og allir hinir þingfl., tekið þátt í gerð landhelgissamninga þar sem öðrum þjóðum, er stundað hafa fiskveiðar hér við land, hefur verið gefinn aðlögunartími til óhjákvæmilegra breytinga.

Nú er á dagskrá samningur um að veita enn einu sinni veiðileyfi til útlendinga, í þetta sinn vestur-þjóðverja, allt inn að 23 mílum. En að þessu sinni hefur Alþfl. tekið þá stefnu að snúast gegn þessum samningum og er sú ákvörðun byggð á veigamiklum málefnalegum ástæðum. Grannþjóðir okkar eru raunverulega búnar að fá yfir 20 ára aðlögunartíma síðan íslendingar hófu útfærslu fiskveiðimarkanna og séð varð hvert stefna mundi. Þessar voldugu þjóðir með allar sínar auðlindir hafa sannarlega leyst meiri efnahagsvandamál á skemmri tíma. Hvað breta snertir geta þeir án efa búið togaramönnum sínum betri lífskjör með því að færa sjálfir fiskveiðilögsögu sína út í 200 mílur og efla fiskveiðar á heimamiðum sínum, eins og bresk blöð raunar spá þessa dagana að þeir muni gera áður en langt liður. En úr því að slík þróun er fyrirsjáanleg, hví gera breskar ríkisstj. þrisvar sinnum þá skyssu að senda herskip gegn smáríki sem á að helta vina- og bandalagsþjóð þeirra? Þeir hafa þegar tapað tveimur þorkastriðum og þeir munu tapa hinu þriðja.

Fiskveiðar við strendur fjarlægra ríkja eru aðeins leifar frá nýlendutímunum, og það var í anda þeirra nýlendutíma þegar danir gerðu við breta samning um rétt til að veiða í 50 ár fyrir utan gluggana hjá okkur, inn að 3 mílum inni á flóum og fjörðum á Íslandi. Það er furðulegt að bretar, sem hafa gefið nýlendum frelsi umhverfis allan hnöttinn, skuli ríghalda með vopnavaldi í nokkrar mílur af togaramiðum, rétt eins og þeir skilji ekki upp eða niður í þróun tímans.

Við alþfl.-menn höfum snúist gegn samningunum við vestur-þjóðverja að þessu sinni vegna ástands fiskstofnanna og yfirvofandi hættu á ofveiði, vegna ótta um að þessir samningar séu aðeins undanfari annarra samninga við 4–7 ríki og verði þeim leyfðar um eða yfir 150 þús. lestir fisks, vegna þess að engin vissa er fyrir því að við losnum við refsitolla Efnahagsbandalagsins, vegna þess að ekki fæst nein viðurkenning á útfærslu okkar vegna þess að þessir samningar eru líklegir til að spilla fyrir málstað okkar í hafréttarmálum.

Enda þótt mikið hafi verið rætt um verudun fiskstofna allt frá upphafi landhelgismálsins hefur það aldrei verið útbreidd og vísindalega rökstudd skoðun fyrr en nú á síðustu missirum að mikilvægustu nytjafiskar okkar væru þegar ofveiddir og alvarleg hætta á því að þeir kunni í nánustu framtíð að fara sömu leið og síldin. Fólkið finnur þetta sjálft, af því að við höfum eignast nýjan togaraflota á skömmum tíma og stóraukið sókn okkar, en aflamagnið hefur ekki aukist að sama skapi. Slíka óheillaþróun skilur íslenska þjóðin.

Þá hafa vísindamenn okkar komist á sömu skoðun með rannsóknum sínum, en þeir hafa nú miklu meira rannsóknarefni til að byggja ályktanir sinar á en nokkru sinni fyrr. Hér er ekki um einn eða tvo menn að ræða, heldur fjölmarga sérfræðinga. Skýrslur þeirra, t. d. hin svokallaða svarta skýrsla eða skýrslan sem Rannsóknaráð gekkst fyrir, eru alvarlegustu aðvaranir sem þjóðin hefur fengið í þessum efnum. Það er mikill ábyrgðarhluti að gera þessa vísindamenn ómerka og fara ekki að ráðum þeirra. Það er alltof mikið í veði til þess að gera það. Reynist fiskifræðingarnir of svartsýnir, þá er engu tapað, en ef þeir reynast hafa rétt fyrir sér og við höfum ekki fylgt ráðum þeirra, þá mun þrengjast hagur þessarar þjóðar eftir fá ár.

Það er nýmæli fyrir íslendinga að heyra ábyrga menn ræða í fullri alvöru opinberlega um að takmarka svo fiskveiðar okkar sjálfra að setja verði kvóta af þorski, ýsu, ufsa, karfa eða öðrum tegundum á byggðarlögin. Er hægt að veita erlendum þjóðum stórfelld veiðiréttindi á sama tíma sem slík viðhorf blasa við okkur innanlands?

Ef ríkisstj. fær nú vilja sínum framgengt eru allar líkur á, eins og heyra mátti af forsrh. rétt áðan, að samningar við margar aðrar þjóðir komi á eftir. Ætla má, þótt hann væri neikvæður um það, að það sé hvað sem öðru líður ásetningur stjórnarinnar að semja við breta. Þeim hafa þegar verið boðin 65 þús. tonn, og það er ákvæði í samningunum við þjóðverja, 5 mánaða ákvæðið, sem er beinlínis til þess gert að veita tíma til samninga við bretana. Þá koma belgarnir sem sjálfsagt fá 6–7 þús., norðmenn sjálfsagt um 3 þús., færeyingar hafa haft 20 þús. tonn og fá sennilega eitthvað minna en það, og loks er spurningin um Austur-Evrópuríkin sem vilja líka sum hver fá undanþágur. Fyrr en varir nema þessir samningar yfir 150 þús. lestum af fiskimagni sem við getum veitt sjálfir og höfum ekki ráð á að fórna af fúsum vilja.

Það er sjálfsagt að viðurkenna að aðrar þjóðir munu veiða á Íslandsmiðum þótt ekki verði gerðir við þær samningar. En ástæða er til að ætla að við getum takmarkað það magn verulega og að innan skamms tíma mundu erlendir fiskimenn gefast upp á slíkum veiðiþjófnaði. Því betur sem aðstaða okkar er athuguð, því ljósara verður að hafi verið grundvöllur til að veita undanþágur fyrir nokkrum árum, þá er hann ekki fyrir hendi í dag. Hinn einfaldi kjarni málsins er sá, að fiskurinn er ekki til skiptanna lengur, svo ógætilega hefur hann verið ofnýttur undanfarin ár. Þetta er sorgleg þróun. En bretar og þjóðverjar þola afleiðingar af slíkri þróun. Við íslendingar þolum þær hins vegar ekki nema við fáum að sitja einir að miðunum á landgrunni okkar og við reynumst þeir gæfumenn að skipa okkar eigin málum af viti, ábyrgð og hófsemd.

Það er ástæða til að ásaka ríkisstj. harðlega fyrir það, að löggjöf um hvernig við ætlum sjálfir að hagnýta fiskimiðin við landið skyldi ekki vera tilbúin um leið og landhelgin var færð út. Við höfum flaskað á þessu við fyrri útfærslur og við gerum það enn. Á þessu sviði verður að koma til breyting til batnaðar enda þótt málið sé torleyst, það vitum við vel hér á Alþ. En við skulum ekki gleyma því, að við íslendingar njótum því miður ekki allt of mikils trausts erlendis sem verndarar fiskstofna. Það er búið að eyðileggja það traust með áróðri andstæðinga okkar, ef við eigum það þá skilið. Það verður að koma til breyting í þessum efnum, —- breyting sem verður að ná frá skipstjórum á minnstu bátum og upp til æðstu yfirvalda landsins.

Það líður senn að lokum þessarar umr. og verður þá aðeins eftir atkvgr. um samningana sem væntanlega fer fram í fyrramálið. Miklar deilur hafa verið um málið hér á Alþ. og er það ekki nýtt um landhelgissamninga. Hitt hefur aldrei gerst áður, að svo mikil alda mótmæla hafi risið um allt land sem raun ber nú vitni. Samþykktir gegn samningunum berast úr svo til hverju byggðarlagi, frá hvers konar félögum, stofnunum og sveitarfédögum. Fjöldafundurinn á Lækjartorgi í Reykjavík og aðrir fundir í landinu í dag voru síðasta og stærsta dæmið um þessa einstæðu andspyrnu.

Það hefur raunar komið ljóslega fram við umr. að sjálfir stuðningsmenn ríkisstj. á þingi eru fjarri því að vera hrifnir af þessum samningum. Margir þeirra hafa í ræðum sínum gagnrýnt ýmis, sumir þeirra mörg atriði þeirra, varpað fram spurningum við ráðh. og ekki dregið dul á óánægju sína. „Við gerum þetta ekki ótilneydd,“ sagði einn af þm. Sjálfstfl. í gær. Það er því augljóst að nú hefur flokksvaldið látið til sín taka og allt þinglið Sjálfstfl. og Framsfl. hefur verið barið saman. Verður það að teljast furðanlega góður árangur frá stjórnarinnar sjónarmiði, því að þetta hefur hingað til reynst vera heldur ósamstæður hópur og óstærilátt þinglið. Hefur því mikið þótt við liggja að koma fram málinu, og væri óskandi að ríkisstj. sýndi einhvern tíma slíka röggsemi og slíka málafylgju í baráttunni við efnahagsmál, við verðbólguna miklu, við gjaldeyrishallann og við öll þau vandamál sem plaga þjóðina. En því er ekki að heilsa. Ríkisstj. lét þá fyrst hendur standa fram úr ermum, sýndi þá fyrst einbeittan vilja og beitti þá fyrst stuðningslið sitt hörðum aga er færa átti landhelgina aftur inn og afhenda erlendu stórveldi samning upp á a. m. k. 60 þús. lestir af íslenskum fiski. Þá kom styrkur þeirra í ljós.

Að lokum þetta: Við íslendingar erum ekki einir í heiminum. Við eigum auðvitað að ræða milliríkjamál við aðra eins og við höfum gert. Við erum þjóð friðar og samkomulags. En það þarf ekki alltaf að kenna okkur um þó að viðræður leiði ekki til árangurs. Það þarf tvo til. Það eru 28 ár síðan við tilkynntum öðrum ríkjum með landgrunnslögunum hvert við stefndum, að sjálfstæðisbaráttu okkar yrði ekki lokið fyrr en við réðum landgrunni og landgrunnshafi. Við höfum framkvæmt þessa stefnu skref fyrir skref. Í hvert sinn höfum við mætt fjandskap nágranna okkar: löndunarbanni, refsiaðgerðum, herflota og herflugvélum. Samt höfum við aftur og aftur rætt við þessar þjóðir og veitt þeim hvern frestinn á fætur öðrum. Nú gengur þetta ekki lengur. Það er ekki stífni okkar að kenna, heldur staðreyndum um ástand fiskstofna sem við byggjum afkomu okkar á. Þessar vina- og bandalagsþjóðir okkar hefðu átt að sjá og skilja þetta mál fyrr og þær hefðu átt að nota yfir 20 ára umþóttunartíma til annars en að smíða fleiri og fleiri verksmiðjutogara. Þetta er skoðun Alþfl. Þess vegna segir hann nú í umr. um nýjar veiðiheimildir fyrir útlendinga, sérstaklega innan 50 mílnanna: Nei. — Góða nótt.