27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst að hafi komið of lítið fram í þessum umr. að íslenska þjóðin stendur nú í örðugri sporum en sennilega nokkru sinni fyrr á þessari öld. Það þarf ekki að lýsa því að afkoma íslendinga byggist á fiskveiðum og þá fyrst og fremst þorskveiðum. Nú er þorskstofninn verr kominn en hann hefur sennilega nokkru sinni verið. Afkomumöguleikar íslensku þjóðarinnar standa því völtum fótum um þessar mundir. Undir þessum erfiðu kringumstæðum hefur það gerst að breskur herfloti hefur gert innrás á íslensk fiskimið og hyggst með ofbeldi tryggja veiðiþjófnað breskra togara sem gæti orðið allt að 100 þús. smálestum af þorski á ári eða meira. Takist þetta áform verður unnin sú eyðing á íslenska þorskstofninum sem seint mun fást bætt.

Það er gegn þessum vágesti sem þjóðin þarf að sameinast og beita þeim ráðum sem helst geta komið að gagni. Allt bendir til að átökin við hann geti orðið hörð og löng. Þannig má benda á að miklu meira ber á milli í byrjun þorskastriðs nú en í hinum fyrri þorskastríðum. Þegar síðasta þorskastríð hófst 1973, en ég miða þar við innrás bresku herskipanna, þá hafði breska stj. lækkað kröfu sína í 145 þús. smálestir, en vinstri stj. hafði boðið 117 þús. smálestir. Nú krefjast bretar 110 þús. smálesta, en íslenska ríkisstj. hefur boðið 65 þús. smálestir, en það tilboð gildir að sjálfsögðu ekki eftir innrás breta. Þannig ber miklu meira á milli nú en 1973. Horfur á samkomulagi eru í rauninni engar, og bendir því allt til að þetta nýja þorskastríð verði bæði miklu lengra og harðara en hin fyrri.

Það er undir þessum óvenjulegu kringumstæðum sem till. sú er flutt, sem hér er til umr. Þótt það samkomulag við vestur-þjóðverja, sem felst í till., hafi ýmsa kosti er það engan veginn gallalaust, og ég efast um að það hefði verið samþ. hér á Alþ. undir venjulegum kringumstæðum. Ástæðurnar til þess að samkomulagið mun hljóta hér yfirgnæfandi stuðning eru að mínum dómi einkum tvær. Önnur er sú, að vegna þorskastriðs, sem var fyrirsjáanlegt og er nú skollið á, er líklegt að það tryggi fiskstofnunum meiri vernd að semja við þjóðverja um 60 þús. smálestir en að eiga á hættu að þeir veiði hér 90 þús. smálestir, eins og þeir gerðu 1973, þegar við áttum í þorskastriði við breta og urðum að beina mestri orku okkar gegn þeim. Hin ástæðan er sú, að við teljum þetta tryggja okkur bættan grundvöll til að heyja þorskastríð við breta, því að eftir að þessi samningur hefur verið gerður getum við einbeitt okkur gegn þeim. Við getum þá beint allri getu varðskipanna til að verja þorskamiðin fyrir bretum. Þetta er það sem nú skiptir mestu. Framtíð þjóðarinnar byggist á því að okkur takist þetta.

Stjórnarandstæðingar hafa beitt furðulega ósvífnum áróðri í þessum umr. Eitt helsta áróðursefni þeirra er t. d. að með þessum samningi sé verið að gefa útlendingum svo og svo mikinn fisk. Af ummælum þeirra mætti helst halda að íslendingar gætu óáreittir sótt fiskimiðin við landið ef þessi samningur væri ekki gerður. Þegar stjórnarandstæðingar tala þannig láta þeir alveg eins og þeir viti ekki neitt um að þorskastríð er skollið á. Þeir látast ekki sjá bresku herskipin. Þeir loka augunum alveg fyrir þeirri staðreynd að þjóðverjar veiddu rúmlega 90 þús. smálestir árið 1973 undir slíkum kringumstæðum. Að sjálfsögðu er ekki hægt að sanna hvað þeir mundu veiða nú undir svipuðum kringumstæðum. Hér höfum við ekki annað til að byggja á en reynsluna. Reynslan sýnir ótvírætt að með þessum samningi erum við að tryggja fiskstofnunum aukna vernd, en ekki hið gagnstæða. Því má með vissum rétti segja að stjórnarandstæðingar vilji gefa þjóðverjum 30 þús. smálestum meira af fiski en samningurinn gerir ráð fyrir.

Þá hafa flestir stjórnarandstæðingar hampað þeirri fullyrðingu að samningurinn þessi sé undirbúningur að því að ríkisstj. ætli að vera búin að semja við breta innan 5 mánaða. Slíkt er hreinn tilbúningur og ekki á minnstu rökum reistur. Þessi áróður er ekki aðeins ósannur, heldur hættulegur. Af þessum fullyrðingum gætu bretar dregið alveg rangar ályktanir um afstöðu íslendinga og gerst óbilgjarnir í trausti þess að þá yrði látið undan. Þessi áróður stjórnarandstæðinga gæti vel haft alvarlegar afleiðingar.

Þá hafa sumir stjórnarandstæðingar tekið undir þær fullyrðingar Hattersleys, að þýska samkomulagið skapi fordæmi fyrir því að íslendingar semji við breta um allt að 95 þús. smálestir. Þetta er algjörlega rangt. Samkomulagið við þjóðverja er byggt á því, að þorskafli þeirra er skorinn niður um 75%, en annar afli um 40–50% þegar miðað er við meðalafla þeirra af Íslandsmiðum síðustu árin fyrir útfærsluna 1972. Ef fylgt væri sömu reglu í samningunum við breta ættu þeir að fá um 50 þús. smálestir, þar af 40 þús. smálestir af þorski. Þetta samkomulag er því ekki fordæmi um neitt það sem bretar mundu telja viðunandi.

Þá hafa sumir stjórnarandstæðingar reynt að gera lítið úr þeirri viðurkenningu sem fælist í samkomulaginu. Í samkomulaginu felst þó sú mikilvæga viðurkenning að þýsk verksmiðjuskip og frystitogarar munu virða 200 mílna mörkin og ekki fara inn fyrir þau. Þetta er stórfellt spor í þá átt að fá fulla viðurkenningu annarra þjóða á 200 mílna mörkunum. Varla var að vænta að þjóðverjar stigu stærra skref á þessu stigi eða á meðan hafréttarráðstefnunni er ólokið.

Loks gera stjórnarandstæðingar lítið úr þeim ávinningi sem það getur haft á hafréttarráðstefnunni ef okkur tekst að semja við vestur-þjóðverja og fleiri þjóðir á skaplegan hátt. Það má telja nokkurn veginn víst að 200 mílna mörkin verða samþ. ef árangur næst á ráðstefnunni á annað borð, en jafnframt verði lögð mikil áhersla á að fá ákvæði um gerðardóm inn í væntanleg hafréttarlög, en það gæti þýtt, ef t. d. strandríki ákveður hámarksafla innan fiskveiðilögsögu sinnar og möguleika sína til að hagnýta hann, að þeirri ákvörðun þess verði skotið til gerðardóms ef þess væri óskað af öðrum ríkjum, sem teldu umrætt strandríki vannýta fiskstofnana, en á alþjóðlegum vettvangi er vannýting fiskstofna talin jafnfordómaleg og ofnýting þeirra.

Íslendingar hafa af augljósum ástæðum reynt að koma í veg fyrir að hugsanleg gerðardómsákvæði næðu til fiskveiðilögsögunnar. Ef málin stæðu þannig á hafréttarráðstefnunni næsta vor að íslendingar ættu ósamið við öll ríki sem sótt hafa um veiðiheimildir innan 200 mílna markanna, gæti það þótt sönnun þess að hér þyrfti einhver þriðji aðill að koma til sögu er hefði úrskurðarvald um þessi mál. Annars væri hætta á stöðugum deilum. Þótt erfitt sé að spá um framvindu þessara mála virðist mér það skapa okkur sterkari aðstöðu á þessum vettvangi ef við höfum samið við þau ríki sem þykja hafa sýnt sanngirni. Ég álít að okkur verði þá líka auðveldara að sýna fram á hina furðulegu óbilgirni breta.

En fyrst og síðast er það þó aðalatriði þessa máls, að við eigum í þorskastríði við breta, í örlagaríkasta þorskastríðinu, sem við höfum háð við þá, og sennilega einnig því harðasta og lengsta. Ef við eigum að hafa von um að geta hindrað þá eyðileggingu þorskstofnsins sem stefnt er að með innrás breta verðum við að geta beint öllum mætti landhelgisgæslunnar gegn þeim. Þess vegna er ákaflega þýðingarmikið að eiga ekki samtímis í styrjöld við aðra. Þetta hafa stjórnarandstæðingar ekki viljað skilja hingað til og látið eins og við höfum bolmagn til að berjast við alla í senn. Ósennilegt er að þetta sé sprottið af algjöru vanmati á getu okkar og annarra, heldur sé hér meira um að ræða viðleitni til að tortryggja ríkisstj. og gera henni erfitt fyrir. En þessu máli á að halda ofar flokkadeilum. Í þessu máli verður það sjónarmið eitt að ráða að stefna að fullum sigri í átökunum við breta. En það mark getur því aðeins náðst að þjóðin standi saman og að hún geti beint öllum kröftum sínum gegn bretum, en eyði ekki orkunni í baráttu við marga aðra samtímis. Annað er vegurinn til ósigurs. Leið stjórnarandstöðunnar að berjast samtímis við alla er leiðin til ósigurs. Það er von mín, að stjórnarandstæðingar eigi eftir að gera sér þetta ljóst og að full þjóðareining geti skapast um þá stefnu að við eigum að einbeita kröftunum gegn bretum. Aðeins á þann hátt getur þjóðin vænst sigurs í því stríði sem e. t. v. er bað örlagaríkasta sem hún hefur nokkru sinni háð. Stöndum einhuga saman, íslendingar, og beinum allri orku okkar gegn hinu breska ofurefli.