27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Á þeim tíma, sem ég hef til ráðstöfunar að þessu sinni, ætla ég mér ekki að telja upp allar þær afdráttarlausu röksemdir fyrir því að íslendingar taki sér fulla og óskoraða lögsögu yfir auðæfum fiskimiðanna umhverfis landið og sitji einir að hagnýtingu þeirra. Þær röksemdir þekkir hvert einasta mannsbarn í landinu. Á hitt vil ég hins vegar benda, að hver og ein einasta af þessum röksemdum okkar í landhelgismálinu er jafnframt röksemd gegn því að gera samninga um veiðiheimildir við aðrar þjóðir eins og þann samning sem nú liggur fyrir Alþ. Séum við sannfærð um að röksemdir landhelgismálsins séu réttar, rök útfærslunnar í 200 mílur, þá hljótum við jafnframt að vera sannfærð um að þær standi gegn samningum eins og þeim sem nú á að gera. Séu einhverjir annarrar skoðunar, eins og hv. stjórnarsinnar virðast vera, þá er það aðeins til marks um að þá skortir trú á réttmæti vors málstaðar, þá brestur traust á megininntak allrar röksemdarfærslunnar fyrir nauðsyn útfærslu íslensku landhelginnar í 200 mílur.

Þau rök, sem liggja til grundvallar stefnu íslensku þjóðarinnar í landhelgismálunum og útfærslunni í 200 mílur, voru að því er landsmenn töldu smíðuð til þess að nota sem vopn í baráttu okkar við erlendar þjóðir sem eru málstað okkar fjandsamlegar, — gömul nýlenduveldi eins og Bretland og Þýskaland sem heyja gegn okkur sams konar baráttu fyrir því að fá að stunda ránskap á íslenskum náttúruauðlindum og þessar þjóðir hafa háð áratugum saman gegn öðrum smáþjóðum sem reynt hafa að brjótast undan oki arðráns og kúgunar. Röksemdir okkar voru smíðaðar sem vopn í slíkri baráttu, gegn slíkum andstæðingum, móti slíkum úreltum og íhaldssömum viðhorfum um réttmæti frumskógalögmáls, hnefaréttar, aflsmunar og gróðahyggju. Á hinu áttum við hins vegar ekki von, — íslendingar, að þurfa að bregða þessum röksemdum gegn valdstjórn vors eigin lands. En það er einmitt það sem við höfum nú neyðst til að gera. Baráttan fyrir framgangi grundvallarstefnumiða okkar í landhelgismálinu er ekki lengur aðeins háð við skammsýna fulltrúa erlendra stórþjóða. Nú neyðumst við einnig til þess að heyja þessa sömu baráttu við fulltrúa undansláttarstefnunnar í voru eigin landi. Nú er svo komið að við verðum að reyna að sannfæra okkar eigin ríkisstjórn um réttmæti málstaðar Íslands. Svo stór er orðin ógæfa vorrar þjóðar.

Í umræðunum hér á Alþ. í dag og í gær hafa málsvarar ríkisstj., hinir hviklyndu fulltrúar undansláttar og uppgjafarstefnu, lesið það yfir okkur, andstæðingum samninganna við vesturþjóðverja, að við séum nú að rjúfa þjóðarsamstöðuna um landhelgismálið. En hverjir hafa horfið úr þeirri fylkingu sem mynduð var um íslenskan málstað? Sjálfstfl. bar flokka fyrstur fram kröfuna um útfærslu í 200 mílur og fékk í síðustu kosningum mikinn stuðning kjósenda út á þá stefnu. Og nú spyr ég kjósendur Sjálfstfl.: Hvenær var ykkur gefið til kynna að í þeirri stefnu, sem þið studduð í síðustu kosningum, fælist ákvæði um að hleypa 40 vesturþýskum togurum inn fyrir, ekki 200 mílna línuna, heldur 50 mílna línuna líka? Og ég spyr almenning í landinu sem skipaði sér í einhuga sveit þegar ákvörðunin um 200 mílna útfærsluna var tekin og fagnaði þegar sú útfærsla kom til framkvæmda: Var ykkur kunnugt um það á þeim degi, að þeir, sem skipað höfðu sér í fylkingarbrjóst þjóðarinnar, hefðu á fána sinn markað þau einkunnarorð að við tækjum okkur þennan frumburðarrétt yfir íslenskum auðlindum til þess svo að framselja hann öðrum þjóðum?

Ríkisstj. hefur nú skipað sér undir þetta merki. Með því hefur hún rofið samstöðu þjóðarinnar. Fyrir það skref, sem ríkisstj. steig fram með útfærslunni í 200 mílur, hefur hún nú stigið tvö skref aftur á bak, því að hún ætlar nú að veita einhverjum hörðustu andstæðingum okkar í landhelgismálinu, vestur-þjóðverjum, rétt til veiða á svæðum sem þeir hafa ekki átt rétt á að veiða á til þessa. Og ríkisstj. skyldi ekki undra þótt hún sjái ekki mörg andlit umhverfis sig þegar hún lítur í kringum sig á þeim nýja stað þar sem hún hefur nú haslað sér völl. Þjóðin stendur ekki lengur að baki ríkisstj. eins og þjóðin hefur gert til þessa. Nú er það ríkisstj. sem hefur komið að baki þjóðarinnar.

Því hefur verið haldið fram af hálfu stjórnarflokkanna, m. a. af hv. þm. Þórarni Þórarinssyni hér áðan, að samkomulagið eigi að gera við vestur-þjóðverja til þess að við höfum meira svigrúm til þess að berjast við breta. M. ö. o.: ríkisstj. hyggst gefast upp fyrir þjóðverjum vegna þess að hún ætlar sér að sigra breta. Þetta eru rökin, þetta er afsökunin.

En það hafa fleiri þjóðir átt í örðugri baráttu en við íslendingar, m. a. Bretar sjálfir rétt fyrir miðbik þessarar aldar, og mun staða þeirra þá hafa verið talsvert vonlausari en okkar núna, þegar bretar stóðu einir uppi, rúðir bandamönnum, gegn einhverjum öflugustu herveldum þeirra tíma. En hvað skyldi breska þjóðin hafa sagt þá, ef forsrh. hennar, Winston Churchill hefði flutt henni þau skilaboð að nú ætlaði hann að gefast upp fyrir Mússólíni til þess að geta sigrað Hitler? Nei hv. þm. Þórarinn Þórarinsson er enginn Winston Churchill.

En víkjum nú í nokkrum orðum að samningsuppkastinu sem ríkisstj. ætlar Alþ. að samþykkja. Í samningi þessum er þjóðverjum heimilað að taka árlega næstu 2 árin 60 þús. tonna afla af Íslandsmiðum. Þennan afla eiga þjóðverjar m. a. að fá að taka á mikilvægustu veiðisvæðunum út af Vestfjörðum, Vesturlandi og Suðausturlandi og þá m. a. á 25 þús. ferkm svæði innan 50 mílnanna. Þetta segir ríkisstj. að sé til marks um mikla tilhliðrunarsemi af hálfu þjóðverja. En hverjar eru staðreyndirnar? M. a. þær, að hér er samið við þjóðverja um því sem næst sama aflamagn og þeir tóku á Íslandsmiðum á s. l. ári og mun meira en líkur benda til að þeir geti fengið á þessu ári. Og inni í þessari tölu, 60 þús. tonnum, er verið að afhenda þjóðverjum 60% af öllum þeim karfaafla sem fiskifræðingar telja óhætt að taka á Íslandsmiðum. Þetta merkir að sjálfsögðu að ef ráðamenn þjóðarinnar ætla að fylgja þeirri stefnu um vísindalegan fiskibúskap sem þeir hafa látið í veðri vaka að þeir muni gera, þá merkir það að fyrir hvert tonn, sem ríkisstj. heimilar erlendum veiðiskipum að sækja á Íslandsmið, verða íslendingar sjálfir að draga að sama skapi úr sínum eigin veiðum. 60 þús. tonna samningurinn við vestur-þjóðverja jafngildir meðalársafla 20 íslenskra togara, jafngildir því að ríkisstj. taki þá ákvörðun að um 20 íslenskir togarar verði telinir úr umferð á næstu 2 árum. Það er þetta sem ríkisstj. nefnir þýskan undanslátt.

Málsvarar stjórnarflokkanna segja einnig að í samningunum skuldbindi þjóðverjar sig til þess að lúta þeim sérstöku reglum sem íslendingar kunni að setja um verndun fiskstofna, bæði um verndunarsvæði og búnað veiðarfæra. En hverjar eru staðreyndirnar? Þær eru m. a. á þá lund, að þjóðverjarnir fá frest allt fram til 16. ágúst á næsta ári til þess að hætta veiðum með veiðarfærum af minni möskvastærð en 135 mm. Og setji íslendingar strangari reglur um þetta efni, eins og nú er verið að ráðgera, þá fá þjóðverjar heils árs uppþóttunartíma áður en þeir þurfa að lúta þeim reglum. Hér er sem sé um það að ræða að samið er við þjóðverja um forréttindi umfram íslenska fiskimenn. Og þetta nefna málsvarar ríkisstj. þýskan undanslátt.

Þá reyna stjórnarsinnar að fá almenning í landinu til þess að trúa því að samningur við vestur-þjóðverja sé aðeins eitt afmarkað mál. Sannleikurinn er hins vegar sá, að hér er tvímælalaust um stefnumarkandi fordæmi að ræða, sem best sést á því að í fylgiskjali með samningnum er beinlínis gengið út frá því að dellur Íslands við EBE-löndin, þ. á m. breta og belgíumenn, verði leystar á næstu 5 mánuðum. Samningurinn við vestur-þjóðverja er því tvímælalaust fordæmi, boðun um það sem koma skal. Hann er boðun um að það sé stefna ríkisstj. þegar til lengdar lætur að semja við erlendar þjóðir um samtals frá 155 og upp í 180 þús. tonna ársafla við Ísland. Það á m. ö. o. að afhenda erlendum þjóðum annan eða þriðja hvern fisk sem óhætt er að veiða á Íslandsmiðum, og landsmenn sjálfir eiga væntanlega að draga úr veiðum sínum að sama skapi, ef það er þá ekki ætlun ríkisstj. að mikilvægustu fiskstofnarnir við Ísland verði örþrota. Frammi fyrir þessum staðreyndum stöndum við. Frammi fyrir staðreyndum semur ríkisstj. Íslands og hefur síðan uppi þá víðbáru, eins og hæstv. forsrh. orðaði í ræðu sinni hér áðan, að alþýðusamtökin á Íslandi, félagasamtök verkafólks og sjómanna, ættu helst ekki að hafa skoðanir á málinu.

Núv. ríkisstj. hefur hrundið þjóðinni fram á barm hyldýpis. Efnahagslegt öngþveiti ræður nú ríkjum á Ísíandi. Hreint kreppuástand getur verið á næsta leiti. Slæmar ríkisstj., eins og sú sem nú situr, geta með líkum hætti eyðilagt fyrir okkur samtíðina. En fáar ríkisstj. geta verið svo ógæfusamar að eyðileggja jafnframt fyrir þjóð sinni framtíðina með því að svipta hana voninni. Það er það, sem nú er verið að gera, vegna þess að ef fiskveiðarnar, efnahagsleg undirstaða þjóðarbúsins, verða lagðar í rúst, annaðhvort með því að afhenda útlendingum frumburðarrétt landsmanna til auðæfa íslenskra fiskimiða eða með því að láta allar aðvaranir lönd og leið og stefna að eyðingu fiskimiðanna, þá hafa þessir herrar ekki aðeins breytt þeim dögum, sem nú eru að líða, í dimma nótt, heldur hafa þeir svipt okkur framtíðarvoninni líka. Þá höfum við íslendingar verið sviptir þeim möguleika sem við enn höfum á því að eiga betri tíð í vændum, því að sú von byggist á því að við fáum einir að njóta þeirra takmörkuðu auðlinda fiskimiðanna við Ísland sem enn standa okkur til boða. Með því að svipta okkur þessari von, eins og ég tel að undansláttarstefna ríkisstj. boði, er ekki aðeins efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í voða, heldur jafnframt framtíð hennar sem frjálsrar og sjálfstæðrar þjóðar.

Undansláttur í landhelgismálinu, eins og aðstæður eru nú, er því undansláttur í stöðugri baráttu smáþjóðar fyrir að viðhalda sjálfstæði sínu. Í slíkri baráttu megum við íslendingar ekki leyfa okkur að taka áhættu á borð við þá sem nú er ætlunin að knýja Alþ. til þess að gera með samþykkt samninganna við vesturþjóðverja.