27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því í upphafi þessarar ræðu minnar að vekja athygli á tveimur atriðum í stuttri ræðu hæstv. utanrrh. fyrr í kvöld.

Í fyrsta lagi á því er hann kvaðst draga í efa að andstaðan gegn samningsuppkasti því, sem hér liggur fyrir, væri eins mikil og við stjórnarandstæðingar vildum vera að láta. Kvaðst hann ætla, ef málið væri borið undir þjóðaratkvæði, að þá yrði mjótt á mununum. Ef þetta er ætlan hæstv. utanrrh., þá er það hyggja mín að hann muni ekki mæla gegn því að málið verði lagt undir þjóðaratkvæði. Ef hann leggst gegn því að málið verði lagt undir þjóðaratkvæði, þá hlýtur það að stafa annað tveggja af því að hann sé í rauninni efins um að hann hafi rétt fyrir sér, að hann sé hræddur um að munurinn yrði miklu meiri en hann gefur í skyn, ellegar þá af því að hann vilji ekki lýðræðislega afgreiðslu málsins.

Hitt atriðið, sem ég ætla að drepa á í upphafi máls míns, varðar mismun á svari sem hæstv. utanrrh. gaf hv. þm. Steingrími Hermannssyni í gær við spurningu um það hversu fara mundi ef bókun 6 kæmi ekki til framkvæmda að fimm mánuðum liðnum, hvort þjóðverjar færu þá út fyrir með togara sína. Þá svaraði hæstv. utanrrh. með einu snjöllu jái. Hv. þm. Ragnar Arnalds ítrekaði þessa spurningu í kvöld og bað um ítarlegt svar. Þá svaraði hæstv. ráðherra á þá leið að ef bókun 6 kæmi ekki til framkvæmda á tilskildum tíma, þá mundi ríkisstj. segja samningunum upp, og þá er það skoðun mín, sagði hæstv. utanrrh. að þjóðverjar eigi að fara út fyrir. Sem sagt: prívat og persónuleg skoðun hæstv. ráðherra, á sama hátt og það var prívat og persónuleg skoðun hæstv. fors- og dómsmrh. á sínum tíma, Ólafs Jóhannessonar, að bretar ættu að hætta veiðum innan 50 mílna markanna okkar 13. þ. m. eins og hann sagði þegar hann kom heim frá Lundúnum. Og þetta prívat og persónulega álit hans var látið gilda sem svonefnd lögskýring og notað sem samningsákvæði þar til annað kom í ljós.

Nú mundi ég náttúrlega, ef ég væri ekki eins prúður ræðumaður og drengilegur og raun ber vitni um, geta lagt út af þessum mismun á þá lund að hægt sé að segja sannleikann á þann hátt að hann hafi lítið gildi, að menn geti sagt satt án þess að það sé að marka eiginlega hvað menn segi. Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði sem hér er fjallað um. En mér kemur ekki til hugar að leggja þannig út af þessum mismun. Ég vil aðeins vekja athygli á honum vegna þess að mér þykir hann benda eindregið til þess að það sé varlegra að hafa þetta allt saman skrifað, – einnig vegna þess að þegar hæstv. utanrrh. svaraði hv. þm. Ragnari Arnalds hér í kvöld, skömmu fyrir kvöldmatinn, þá var hv. þm. Steingrímur Hermannsson ekki viðstaddur, og ef svo skyldi nú í rauninni vera að þetta atriði, að það sé tryggt að þjóðverjar fari út fyrir að 5 mánuðum liðnum hafi bókun 6 ekki komið til framkvæmda, gæti ef til vill orðið þess valdandi að hann endurskoðaði nú enn einu sinni afstöðu sína til samningsins, þessa samnings þar sem ráðgert er að heimila vestur-þjóðverjum veiðar á 60 þús. tonnum af fiski sem þeir mega taka af miðunum okkar árlega í 2 ár. Hér er um að ræða fiskmagn sem mundi nægja handa 20 af skuttogurunum okkar í 3 þús. tonna ársafla, — mundi að vísu ekki nægja handa Ögra og Vigra, en vel handa 500 tonna skuttogurunum okkar þannig að þeir skiluðu arði og teljast ágætis afli á íslenskan mælikvarða af karfa og ufsa. Þetta aflamagn, sem mundi nægja 20 íslenskum skuttogurum, ætlar sem sagt ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar að afsala í hendur vestur-þjóðverjum, samtímis því sem þeir ræða af fullri alvöru og festu um að við þurfum af fiskverndarástæðum að selja íslensk fiskiskip, rífa þau eða brenna til að koma í veg fyrir ofveiði.

Hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson vék að þessu með skipastólinn í sinni skemmtilegu ræðu áðan. Ég hygg að ég muni seint þreytast á því að hrósa hæstv. ráðh. fyrir mjög skemmtilegan og notalegan ræðustíl. Hann vék að þessu með skipastólinn áðan, og kankvísa og vingjarnlega brosið hans hvarf meira að segja af ásýnd hans að mestu á meðan hann hnykkti á orðunum eins og hann gerir þegar hann ætlast sérstaklega til þess að honum sé trúað, og hann sagði að hann væri alls ekki þeirrar skoðunar að við íslendingar ættum of mörg fiskiskip, — að hann væri alls ekki þeirrar skoðunar. Ég hefði raunar trúað honum ef hann hefði verið að mæla gegn þessu samningsuppkasti þegar hann sagði þetta, ef hann hefði verið að mæla gegn því og haft að baki sér fylgi Framsfl., þá hefði ég trúað því að við þyrftum ekki að fækka í fiskiskipastólnum okkar, — ef hann hefði verið að mæla gegn þessum samningi, þar sem ætlað er að við afsölum okkur 60 þús. tonna afla, 20 skuttogara afla, af fiskstofnum sem okkar eigin fiskiskipastóll gerir betur en að nægja til að fullnýta og ef hann hefði þá ekki í þessari sömu ræðu líka boðið álíka samninga við breta, belgíumenn, færeyinga, norðmenn og jafnvel austur-þjóðverja, pólverja og rússa, en hann undanskildi ekki þá þrjá síðastnefndu þegar hann sagði að vitaskuld yrði samið. Skilyrði fyrir því, að við þurfum ekki að fækka í fiskiskipastól okkar, er beinlínis það að við fellum þetta samningsuppkast hér á hv. Alþ.

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sem kvaddi sér hljóðs við umr. í gær, hafði við höndina skýrslu sem hann hefur sjálfur látið gefa út í bókarformi á vegum Rannsóknaráðs ríkisins. Þessi skýrsla geymir athugun sérfræðinga á stöðu sjávarútvegs á Íslandi. Og í þessa skýrslu vitnaði hv. þm. eðlilega til sönnunar þeirri skoðun sinni eða öllu fremur til áréttingar þeirri skoðun sem hann byggir á niðurstöður skýrslunnar, að fiskiskipastóll okkar sé of stór fyrir þá sókn sem fiskstofnarnir okkar þola. Það var í gær sem hv. þm. talaði og hélt þessa ræðu, daginn eftir að hann hafði ákveðið að styðja þetta samningsuppkast, og hann hagaði málflutningi sínum náttúrlega í samræmi við það. Daginn áður, í fyrra dag, ætlaði hann, að eigin sögn, að leggjast gegn þessari samningsgerð. Hefði hann talað þá, þá hefði hann notað þessa sömu skýrslu sem sönnunargagn fyrir því að við mættum alls ekki leyfa útlendingum neinar veiðar innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. En hann skipti sem sagt um skoðun og ákvað að styðja samningsuppkastið og notaði þess vegna skýrslu Rannsóknaráðs og niðurstöðurnar af athugun Hafrannsóknastofnunarinnar til stuðnings þeirri skoðun sinni að íslendingum bæri að fækka heldur í fiskiskipastól sínum.

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson tilgreindi fyrst og fremst tvær ástæður fyrir þeim sinnaskiptum sem hann hafði tekið í málinu.

Fyrri ástæðan var sú að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að íslendingar gætu ekki varið landhelgina, gætu ekki komið í veg fyrir að þjóðverjar tækju meiri afla af miðunum okkar ófrjálsri hendi en þann sem þeim er ætlaður með þessu samningsuppkasti. Þessi skýring er að vísu ekki alveg fullnægjandi. Við vissum það flestir fyrr en á þriðjudag að bretar mundu senda herskip inn í fiskveiðilögsögu okkar. Hv. þm. hlýtur að liggja á einhverjum upplýsingum til viðbótar varðandi landhelgisgæsluna okkar sem hann vill ekki láta uppi. Gæti hugsast að honum hefði verið trúað fyrir því að það ætti ekki að beita þessum varðskipum okkar af því afli sem hægt væri,

Önnur eða öllu heldur hin ástæðan, sem hv. þm. tilgreindi fyrir sinnaskiptum sínum, var sú, að andstæðingar þessa samningsuppkasts beittu þess háttar baráttuaðferðum að hann vildi ekki skipa sér í þeirra hóp og þessar ógeðfelldu baráttuaðferðir hefðu einmitt komið í ljós á þriðjudag. Það, sem segja má að hafi komið í ljós á þriðjudag betur en áður varðandi afstöðu stjórnarandstæðinga til þessa samnings, var fyrst og fremst að þeim var og er fullkomin alvara í því að gera sitt ítrasta til að koma í veg fyrir samþykkt þessa samnings. Og það má hver sem vill trúa þessum afsökunum hv. þm. Steingríms Hermannssonar, en það er erfitt fyrir þá sem þekkja manninn. Ég ætla að það verði erfitt fyrir flesta þá sem þekkja hann að trúa því að hann vilji ekki heldur freista þess að reyna að verjast ránskap en afsals eignum með bukki í hendur ofbeldismönnum.

Ég trúi því ekki heldur að hv. þm., slíkt skaplindi sem hann hefur, hafi beinlínis hætt við að berjast gegn samþykkt þessarar þáltill. eða þessa samnings, sem hann veit með rökum að er okkur hættulegur, vegna þess að þá hefði hann orðið samherji okkar hinna sem er alvara með andstöðu okkar, að hann hafi ekki viljað skipa sér í hóp þeirra hv. alþm. sem ætla að beita öllum löglegum ráðum til að koma í veg fyrir gjörð þessa hættulega samnings. Þessari afsökun trúi ég ekki, hreint og beint vegna þess, að ef hún væri sönn, þá þýddi hún það að hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefði ætlað sér að vera á móti þessum samningi ef hann gæti sloppið með það að þykjast að vera á móti honum, en hætt við það þegar hann sá fram á að hann slyppi ekki með það, heldur mundi neyðast til að vera á móti honum í alvöru. Ég trúi ekki þessari skýringu, beinlínis vegna þess að hún kemur ekki heim og saman við mannsins karakter. Það er sjálfsagt erfitt að vera ritari Framsfl. þessa dagana og halda samt áfram að vera maður.

Sannleikurinn í málinu er náttúrlega sá, að þm. Framsfl. stóðu andspænis gerðum hlut þegar hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson kom heim með samningsuppkastið frá Bonn. Þeir höfðu áður, eins og tíðkast hjá þeim, veitt ráðh. flokksins umboð til þess að semja, til þess að leysa mál á eigin spýtur, ráða fram úr máli og semja við vestur-þjóðverja upp á þau býti sem ráðh. þóknaðist. Einar Ágústsson fór með áskrifaða, en óútfyllta ávísun frá þm. Framsfl. til samninganna í Bonn. Það mun að vísu ekki hafa verið á þeim flokksfundi, þar sem skrifað var á ávísunina, en óánægjan innan þingflokks Framsfl. með þetta samningsuppkast var slík að ekki var hægt að leyfa ritara flokksins neins konar fríspil í málinu. Ef hann fengi að taka afstöðu samkv. sannfæringu sinni, þá vildu fleiri fá að gera það og þar með hefði þetta samningsuppkast fallið á sannfæringu Framsfl.

Þm. Framsfl. stóðu frammi fyrir gerðum hlut þar sem var þetta samningsuppkast sem Einar Ágústsson kom með heim frá Bonn, á sama hátt og þeir munu innan nokkurra vikna eða nokkurra mánaða standa frammi fyrir gerðum hlut í mynd samningsuppkasts við breta sem mallað verður á bak við tjöldin á meðan bresku herskipin vernda veiðiþjófa vina okkar í Atlantshafsbandalaginu á grunnslóðinni okkar. Og með sama hætti verða hv. þm. Framsfl. látnir rétta upp höndina með þeim samningi. Með álíka röksemdum munu þeir afsaka það að þeir skipi sér ekki í sveit þeirra manna sem vilja kosta því, sem við eigum, til þess að verja landhelgina og vernda lífshagsmuni okkar.

Hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson sagði í ræðu sinni, það var í þeim kaflanum þar sem hann brosti ekki, að hann hefði ekki laumast neitt til Lundúna í des. 1973 þegar hann fór að ræða við Heath forsrh. Hann endurtók að vísu ekki þau ummæli sem hann viðhafði áður en hann fór, rétt áður en hann fór, samdægurs og hann fór, en þau voru á þá lund að hann væri alls ekki að fara til neins konar samningaviðræðna, ætlaði alls ekki að gera neins konar samning, heldur aðeins að kanna möguleika á samningaviðræðum. Þessi ummæli rifjaði hann ekki upp. En hann sagði í ræðu sinni, og ég held að eilítinn gremjuskugga hafi dregið yfir ásýnd hans, hann sagði: Ég kom ekki heim með neinn samning, ég kom heim með samningsdrög. Og hæstv. dómsmrh. sagði að hann hefði ekki gert þá kröfu til neins þm. stjórnarliðsins að hann greiddi atkv. með þessum drögum, að það hefði öllum verið frjálst hvernig þeir greiddu atkv. Hann brosti ekki þegar hann sagði þetta. Ásýnd hans var mjög alvarleg. Svo bætti hann því við að honum hefði verið ljóst að ráðh. Alþb. hefðu verið þessum samningum mótfallnir þó að þeir samþ. þá.

Hér játaði hæstv. forsrh. náttúrlega það sem hann veit að satt er, sem allir vita að satt er, að Alþb. átti tveggja kosta völ: að gjalda jáyrði sitt við þessum samningsdrögum eða víkja úr ríkisstj. ella, og fyrri kosturinn var tekinn vegna þess að hitt blasti víð, að þá mundi Ólafur Jóhannesson mynda tafarlaust ríkisstj. með Sjálfstfl. og í sameiningu mundu þessir tveir flokkar leiða landhelgismálið til þeirra lykta sem nú er verið að leiða það. Ég ítreka þá skoðun mína að Alþb. hefði betur tekið seinni kostinn.

Hæstv. dómsmrh. skírskotaði til með-ráðh. sinna úr Alþb. og eggjaði þá nú lögeggjan að bera vitni um það hvort hann hefði ekki verið heill í stjórnarsamstarfinu í vinstri stjórninni, hvort hann hefði verið tvöfaldur í því stjórnarsamstarfi. Ég veit það ekki, það má vel vera að þeir stígi upp í þennan ræðustól og geri það, votti slíkt. Það yrði náttúrlega reynslustund fyrir mig að heyra annan hvorn ráðh. Alþb. bera vitni um einlægni hæstv. dómsmrh. Ólafs Jóhannessonar í vinstristjórnarsamstarfinu. En reynist það nú samt svo, að hann hafi verið einlægur í vinstristjórnarsamstarfinu, beri þeir vitni um slíkt og reynist það svo, þá óska ég þess í einlægni að ég eigi ekki eftir að sjá hann taka upp tvöfeldni.

Hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson kom sem sagt ekki heim með samning frá Lundúnum 1973, heldur samningsdrög, á sama hátt og hæstv. utanrrh. kom ekki með samning frá Bonn, heldur samningsdrög. Og verði þessi samningsdrög samþ., þá fá vestur-þjóðverjar sem sagt að taka 20 skuttogara ársafla af miðunum okkar næstu 2 árin, — 20 skuttogara afla á ári næstu 2 árin. Við blasir og er raunar viðurkennt, að samningur þessi muni leiða til þess að færeyingum verður úthlutað 5 skuttogara afla, belgíumönnum 2 skuttogara ársafla, norðmönnum 1 skuttogara ársafla og síðan, úr því að öllum landhelgisdeilum lýkur með samningum, sagði dómsmrh., síðan verður bretum úthlutað 22–30 skuttogara ársafla. Svo getum við eflaust ætlað rússum, pólverjum og austur-þjóðverjum samtals a. m. k. 10 skuttogara afla, — ef farið væri eftir magninu sem vestur-þjóðverjar fá, þá yrði þetta að vísu 60 skuttogara ársafli, en við skulum í þessu tilfelli nefna 10 skuttogara afla. Lágmarksafleiðing af samningsgerðinni við vestur-þjóðverja verður sem sagt 3 þús. tonna ársafli handa 63 skuttogurum í 2 ár. Ef hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson hefði verið að mæla gegn þessum samningi við vestur-þjóðverja og boðað andstöðu flokks síns við samninginn, þá hefði ég tekið undir þau ummæli hans að við ættum ekki of mörg skip. En nú hefur hæstv. ráðh. liggjandi á borðinu fyrir framan sig skýrslu sem hann vefengir alls ekki sjálfur, þar sem staðhæft er að fiskstofnarnir okkar séu ofveiddir svo að við þurfum að halda aftur af aflagetu okkar eigin skipa og yrðum að gera það þó svo við sætum einir að miðunum, ef við ætluðum ekki að mylja sjálfan grundvöllinn undan efnahagsafkomu okkar með eyðileggingu fiskstofnanna á næstu 2 árum. Afli, sem við afsölum okkur handa vestur-þýskum togurum, 20 vestur-þýskum togurum, þýðir beinlínis það að við verðum að fækka okkar eigin togurum úr 70 í 50. Afli handa 63 útlendum togurum þýðir það, að við verðum að fækka okkar eigin togurum úr 70 í 7. Mér er ljóst að hæstv. ráðh. munu tæpast finna fyrir því að ráði í launum sínum þó að fáeinir togarafarmar fari forgörðum af miðunum okkar og e. t. v. síst af öllu þeir ráðh. sem taka þriðjung prófessorslauna í ofanálag — og ég vek athygli hæstv. dómsmrh. á því að ég brosi þegar ég segi þetta.

En sjómennirnir okkar, munu þeir finna meira fyrir þeim missi? Sjómennirnir okkar munu finna meira fyrir þeim missi, og verkafólkið mun finna illa fyrir honum. Hvert einasta fiskiþorp mun finna fyrir honum, og meira að segja skagfirskir bændur munu finna fyrir honum. Ársafli 10 skuttogara í hendur útlendingum skiptir mjög miklu máli fyrir sjómenn og verkafólk á landinu öllu. 20 skuttogara ársafli útlendra togara, eins og hér er verið að semja um, mun kalla eymd yfir alþýðu þessa lands, og samningarnir, sem á eftir koma um ársafla handa 43 útlendum togurum til viðbótar, munu leiða til algjörs efnahagshruns á þessu landi.

Hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson játaði af fullkomnum drengskap í ræðu sinni að verkalýðssamtökunum í landinu kæmu þessir samningar sennilega dálítið við. Hann sagði að þeim samtökum væri vitaskuld frjálst að fjalla um þessi mál. Þetta bendir til þess að hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, form. þingflokks Framsfl. og formaður útvarpsráðs, hafi e. t. v. látið hjá líða að minnast einu orði við hæstv. dómsmrh. og formann Framsfl. á þá ráðstöfun sína, þá snilld sína að koma í veg fyrir að þessi samtök, forustumenn þessara samtaka gætu náð til fólks síns á eðlilegan hátt í dag til þess að ræða þessi alvarlegu mál við það. En hæstv. dómsmrh. lagði ríka áherslu á að það væri Alþ. íslendinga sem ætti að leiða þetta mál til lykta. Það var þá sem sjómannaskólapiltur hérna uppi á pöllunum varpaði fram þeirri spurningu hvort Alþ. væri hugsanlegt án þorsks. Mér fannst þetta býsna greindarleg spurning eins og á stóð, þegar fjallað var um þetta mál. Hæstv. dómsmrh. svaraði spurningu gestsins sem stóð þarna uppi á pöllunum og gat ekki útskýrt spurningu sína frekar, — hann svaraði gestinum með því að kalla hann sjálfan þorsk og hann um það. Ég held raunar að hann hafi ekki ætlað að vera dónalegur og ekki sýna gesti okkar ókurteisi, enda samrýmist slíkt ekki geðslagi hæstv. dómsmrh., að alkunnum drengskap hans slepptum. Ég held að hann hafi gert þetta af klaufaskap, fyrirgefanlegum. Ég held að þessi spurning hafi truflað hann eitthvað, að þeirri hugsun hafi kannske allt í einu skotið upp í hæstv. kolli hans, er hann heyrði spurninguna, hversu komið yrði valdi og virðingu hv. Alþ. í þann mund sem síðasti þorskurinn hefði verið drepinn. Mér fannst hann allt að því roðna, þegar hann nefndi þorsk. Páll Ólafsson, sem var ekki aðeins skáld, heldur framsýnn nokkuð, orti einu sinni vísu um þorsk þar á Austfjörðum sem þessi uggasjór hafði nú verið uppurinn úr firðinum hans. Hún var svona:

„Það er ekki þorsk að fá í þessum firði, þeir eru allir uppi á landi og einskis virði.“

Það verður samið við breta líka, það vissum við allir. Hæstv. dómsmrh. þurfti ekki að taka það fram. Og vitaskuld vildum við það allir að hægt væri að koma vitinu fyrir breta, þannig að þeir féllust á það sjónarmið okkar, á þau rök sem þeir hafa liggjandi fyrir sér sjálfir, að við séum ekki aflögufærir um neinn fisk handa þeim. Hæstv. dómsmrh. þurfti ekki að taka það fram, sem við vissum, að það yrði samið við bretana. Honum er líka ljós sá reginmunur sem er á þess háttar samningum, sem hann veit að vestur-þýska plaggið sem nú liggur fyrir okkur mun neyða hann og ríkisstj. hans til þess að gera við breta, og þeim samningum sem sæmilegir og þolanlegir yrðu fyrir fólkið í landinu.

Hæstv. ráðh. vísaði í samninga sem áður hafa verið gerðir varðandi landhelgismálið okkar. Hann vísaði í samninginn frá 1961 þar sem við vorum samdir undir úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag, sem hæstv. ráðh, andmælti þá skörulega sjálfur og hann sagði að andmælt hefði verið af miklu meiri grimmd og með meiri stóryrðum en komið hefðu fram gegn þessu samningsuppkasti, að undanskildum amtmanninum, sagði hann og brosti til mín. En samt sagði hann, hefði þessi samningur verið skref í áttina til sigurs í landhelgismálinu. Hann vitnaði í sinn eigin samning, samningsdrögin sem hann kom með frá London 1973, sem áttu að tryggja okkur að bretar hyrfu af miðunum okkar 13. þ. m., og sagði að sá samningur hefði líka verið skref í áttina til þess að við næðum fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum okkar. Og svo sagði hann að á sama hátt yrði samningsuppkastið, sem hér liggur fyrir, skref í áttina til þess, að við næðum fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum, — samningsuppkastið þar sem kveðið er á um að vesturþjóðverjar fái heimild til þess að taka innan landhelginnar okkar, innan raunar 50 sjómílna markanna okkar svo að segja þann afla sem þeir vilja, stunda þann veiðiskap með leyfi sem þeir hafa stundað með ránskap fram að þessu. Og svo sagði hann auðvitað að samið yrði á sama hátt við fleiri, þ. á m. við breta, og allir þessir samningar væru skref í þá átt að tryggja íslendingum yfirráð yfir fiskimiðum sínum. Ég veit ekki hvort hæstv. dómsmrh. er kominn í einhverskonar keppni við hæstv. utanrrh. í því að tæpa, ef svo má segja, á grundvallarsamningum í sambandi við þessa samningsgjörð.

En svo bætti hæstv. dómsmrh. ráð sitt og lýsti yfir væntumþykju sinni fornri og nýrri í garð vinstri stjórnarinnar sálugu sem hefði hafið atvinnubyltingu í landinu, — atvinnubyltingu sem þessi ríkisstj. héldi áfram, og þessi ríkisstj., sagði hann, héldi áfram stefnu vinstri stjórnarinnar í landhelgismálinu. Ég er ekki viss um að við eigum að draga frá, ef hér er um stigakeppni að ræða milli þeirra ráðh., draga frá dómsmrh. eitt stig fyrir þessa yfirlýsingu eða hvort við eigum að telja það eins konar sannleik í keppninni, að rök má færa fyrir því að sú ríkisstj., sem nú situr, helmingaskiptastjórnin, þ. e. Framsóknar, heldur áfram stefnu vinstri stjórnarinnar varðandi a`vinnuuppbyggingu á nokkurn veginn sama hátt og hún heldur áfram stefnu vinstri stjórnarinnar í landhelgismálinu. Að vísu féllu hjá hv. þm. Ellert B. Schram spakmæli sem geta stutt þessi ummæli hæstv. dómsmrh., þegar hv. þm. sagði og orðaði það svo, að stundum kæmust menn hraðar með því að taka eitt skref aftur á bak en tvö áfram.

Síðar í ræðu sinni kom hæstv. dómsmrh. með lögskýringu. Hann sagði, að þýsku togararnir 40, sem veiða eiga í lögsögunni okkar, væru ekki verksmiðjutogarar. Hann tilnefndi það sem sönnun fyrir því að þetta væru ekki verksmiðjutogarar, að fellt hefði verið niður úr samningsuppkastinu það ákvæði að þeir mættu ekki nota fiskmjölsverksmiðjur sínar til að framleiða fiskmjöl úr hráefni sem til félli umfram slógið úr fiskinum sem þeir veiddu. Með brottnámi þessa ákvæðis úr samningnum er sem sagt ekki lengur minnst þar á neina heimild til að nota fiskmjölsverksmiðjurnar, sem á þá samkv. áliti hæstv. ráðh. að jafngilda því að þeim sé bannað að nota þær. En fiskmjölsverksmiðjurnar verða enn þá um borð í togurunum. Þeir eru ekki bara verksmiðjutogarar vegna þess að ekki eru í samningnum nein ákvæði um það hvað þeir megi bræða í þessum fiskmjölsverksmiðjum. Hæstv. ráðh. sagði að það væru að vísu litlar kvarnir í togurunum, — hann hristi höfuðið yfir því hvað þetta væru litlar kvarnir, — og bætti við: þær eru víðar. Það lagðist nú að mér sá uggur að þjóðverjar kynnu að álykta sem svo, að úr því að íslendingar heimila togurum með fiskmjölsverksmiðjur um borð að veiða á miðunum sínum, þá sé alls ekki svo fráleitt að nota þær. Ég hygg að vestur-þýskir skipstjórar, togaraskipstjórar, muni varla líta á brottnám þessa ákvæðis sem þeir aldrei vissu að var í neinu samningsuppkasti, — ég er ekki viss um að þeir líti á eyðuna, þar sem þessi athugasemd stóð í samningnum, sem bann gegn því að nota verksmiðjurnar. E. t. v. felst líka í þessum litlu kvörnum um borð í togurunum lausnin á því vandamáli vestur-þjóðverja sem minnst hefur verið á lítils háttar hér á hv. Alþ. Kannske felst hún þar einmitt, lausnin á því vandamáli hvað eigi að gera þegar þeir eru búnir að veiða 5 þús. tonn af þorski og mega ekki veiða meiri þorsk, ef þeir verða búnir að ná 5 þús. tonnum af þorski snemma á veiðitímabili og yrðu samkv. lögskýringu hæstv. ráðh. að hætta þá veiðum áður en þeir næðu 60 þús. tonnum. Kannske felst einmitt í þessum litlu kvörnum möguleikinn til þess að losna við þorskinn sem kemur um borð eftir að 5 þús. tonnin eru fengin, þannig að þeir þurfi ekki að sýna hann í heimahöfn, þannig að þeir þurfa ekki einu sinni að henda honum fyrir borð, þannig að þeir hafi dálítið upp úr honum. Þessir togarar eru verksmiðjutogarar sem staðið var harðast gegn í tíð vinstri stjórnarinnar að hleypt yrði inn fyrir. Þetta eru verksmiðjutogararnir sem ljúka veiðitúrnum á Íslandsmiðum með því að fiska smáfisk í gúanó.

Hæstv. dómsmrh. bauð mér það af vinsemd sinni og glaðlega — ég held í einlægni, ég held að hann hafi meint það — að dómsmrn. fæli mér sérstaklega að fara nú heldur út á sjó, byði mér sérstaklega að taka að mér að fylgjast með veiðum vestur-þjóðverja og þ. á m. notkun þeirra á litlu kvörnunum sínum. Þetta traust þakka ég náttúrlega innilega. En ég hef nú tekið að mér fyrir kjósendur Norðurl. e. að sitja á Alþ. um sinn og fylgjast með starfrækslu annars konar kvarna. Ég hefði hins vegar þegið það ef hæstv. dómsmrh. hefði boðið mér þetta fyrr — eða öllu heldur orðið við beiðni minni fyrr, í tíð vinstri stjórnarinnar, um að veita mér á sama hátt og fyrirrennari hans í fyrri vinstri stjórn veitti mér heimild til þess að fara um borð í varðskip fyrir Ríkisútvarpið til þess að fylgjast með framkvæmd gæslunnar eða beiðni minni um það að hann veitti einhverjum öðrum heimild til þess að fylgjast með störfum landhelgisgæslunnar um borð í skipinu. Þessari beiðni synjaði hæstv. dómsmrh. Hann taldi að andstaða væri gegn því að hafa fréttamenn um borð, andstaða af hálfu skipherra gæslunnar. Þegar það lá svo fyrir að það var síður en svo andstaða af hálfu skipherra á gæsluskipunum, þeim var mjög mikið í mun að fréttamenn væru um borð til þess að fylgjast með störfunum, til þess að hafa aðstöðu til þess að segja satt og rétt frá frammistöðu gæslunnar, segja þá frá því hvað gæslan gerði, segja frá því hvað varðskipunum væri heimilað að gera og hvað þau gætu gert, — þó að þetta lægi fyrir á borðinu, þá var nú þessari beiðni eigi að síður synjað. Fréttamanni frá útvarpinu var að vísu hleypt um borð í eitt varðskipið, en honum var synjað um leyfi til þess að senda fréttir frá skipinu til lands. Þetta er nú að vísu ekki merkilegt innskot. Þó lýtur það að þeim hluta ræðu hæstv. dómsmrh. sem fjallaði um það með hvaða einurð varðskipunum hefði verið beitt til þess að verja landhelgina okkar.

Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir yfirlýsingu hans um það að gæslunni verði beitt af fremsta megni í þeim átökum sem nú eru hafin við breta. Fyrir þessa yfirlýsingu þakka ég honum kærlega. En ég sé mér ekki fært að þakka honum fyrir efndir á sams konar loforðum sem hann hefur gefið oft áður.