27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta gerast alleinkennilegar umræður nú hjá síðustu ræðumönnum, ekki síðasta, heldur næstsíðasta, sem kannske er ekki að undra, maðurinn er miklum leikhæfileikum gæddur sem við þekkjum hér frá fyrri tíð. En áður en ég aðeins kem að ræðu hans, þá langar mig að geta eins atriðis, sem kom fram í ræðu í útvarpsumræðunum í kvöld, og minnist þá orða sem Einar Olgeirsson fyrrum alþm., sem oft átti til mjög létta kímni, viðhafði þegar hann kom hér í ræðustól í neðri deild, reyndar eftir að Einar Sigurðsson, sem þá sat á þingi, hafði haldið ræðu, — Einar sem stundum hefur verið kallaður Einar ríki. Það fór oft mikið fyrir honum, og hann var eins og í starfi sínu áhugamaður, hann talaði hátt og það heyrðist hér vel út í öll horn. Þegar Einar Olgeirsson stóð upp og tók til orða, þá leit hann með undrunaraugum yfir salinn og síðan á nafna sinn og sagði: Þegar ég horfði og hlustaði á nafna minn, þá datt mér í hug risaeðla úr fornöld. — Einhvern veginn datt mér þetta líka í hug þegar ég hlustaði á hv. þm. Alþfl., Sighvat Björgvinsson, þegar hann hélt ræðu sína í kvöld. Hann gat verið einstaklega barnalegur og einfaldur í máli sínu, eins og þegar hann t. d. kom með þetta samanburðardæmi um frelsun íslendinga þegar um var að ræða árs umþóttunartíma vestur-þjóðverja ef möskvastærð yrði breytt í stækkunarátt. Hann taldi þetta hinn versta leik fyrir okkur íslendinga að gefa ársfrest til þess. Það var eins og að hann gæti ekki skilið það, að þetta mundi að sjálfsögðu gilda líka fyrir íslenska útgerðarmenn og sjómenn. Eins og Jón Árnason, hv. alþm. tók fram hér í kvöld, er ekki hægt að skipta um þetta bara með því að auglýsa það í kvöld og segja: þetta kemur til framkvæmda á morgun. — Þarna er um tugmilljóna verðmæti að ræða t. d. í okkar flota og að sjálfsögðu fá þeir þennan sama umþóttunartíma eins og vestur-þjóðverjar fá.

Vegna þess að hv. þm. Jónas Árnason var með sanni að lýsa formanni okkar þingflokks sem prúðmenni, sem hann er og allir þekkja til, þá eiginlega þótti mér undarlegt að hann skyldi ekki líka gegnumlýsa Stefán prúða Jónsson, samþingmann hans.

En fyrst menn leyfa sér í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, að fara nokkuð út fyrir ræðuefnið, þá langar mig nú aðeins að koma að orðum hæstv. dómsmrh. sem hann viðhafði hér í dag í tvítali hans við Stefán Jónsson þm., er hann benti honum á að fyrrv. alþm. Bjarni Guðnason hefði að öllum líkindum hrökklast út af þingi vegna afstöðu sinnar til samninganna við breta 1973. Ég vil nú benda hæstv. dómsmrh. á að það voru fleiri en hann á móti þeim samningi, og ég veit ekki betur en að allir þeir, sem voru á móti samningnum auk hans, séu enn þá á þingi. (Gripið fram í.) T. d. er einn þeirra formaður landbn. Nd., annar formaður sjútvn. Nd., einn er forseti efri deildar og einn þeirra situr við hlið hæstv. dómsmrh. í ríkisstj. landsins. Ég held að það verði að leita einhverrar annarrar ástæðu fyrir því, að Bjarni Guðnason var ekki endurkjörinn á þing eins og við sex, sem greiddum atkvæði á móti breska samningnum, sögðum nei þá.

Ég vil taka það skýrt fram að allir sjálfstæðismennirnir sem greiddu atkv. þá á þennan veg, enginn okkar er á móti samningum, teljum hins vegar mjög æskilegt að sú leið sé farin. En ég tel persónulega að það eigi ekki að gera samninga bara samningsins sjálfs vegna, heldur vegna hagsmuna þeirra viðsemjenda sem þar eigast við. Og það er alveg ljóst að þegar samningar eru gerðir, þá getur annar aðilinn ekki fengið allt, einfaldlega vegna þess, eins og einn ræðumaður sagði hér í gær, að Palli er ekki einn í heiminum.

Í sambandi við samningana frá 1973 þótti okkur, sem greiddum atkv. á móti, sem hagsmunir okkar íslendinga væru fyrir borð bornir og bretar hefðu þá fengið meira en góðu hófi gegnir í sinn hlut. Ég skal þó viðurkenna að eitt þeirra gagnrýnisatriða sem ég var þá með að íslensku varðskipin yrðu að kalla til ensk eftirlitsskip til staðfestingar á broti hins breska togara, hefur komið betur út í framkvæmd heldur en ég áleit þá. Það eru nær sams konar ákvæði í þeim drögum sem við erum að ræða hér. En ég verð hins vegar að segja það og ég er ekki að leyna því að mér finnst enn þetta ákvæði vera lítillækkandi fyrir okkar ágætu landhelgisgæslu eða starfsmenn hennar og það er engu líkara en að með þessu sé verið að bera brigður á kunnáttu þeirra, með því að hafa þetta ákvæði í væntanlegum samningi. En ég skal ekki heldur bera á móti því að slík framkvæmd, sem um er talað í 8. lið í þessum drögum, mun að sjálfsögðu flýta fyrir dómsniðurstöðu, ef yfirmenn eftirlitsskipsins þýska samþykkja t. d. staðarákvörðun okkar gæsluskipa ef um slíkt brot hefur verið að ræða.

Af því að ég er farinn að tala um þessi drög sem eru að sjálfsögðu okkar meginmál hér og við allflest vegum þau og metum og óhjákvæmilega berum þau saman við breska samninginn frá 1973, þá er ég ekki í vafa um að þessi samningsdrög bera af sem gull af eiri ef miðað er við samninginn frá 1973. Í greinargerð, sem ég gerði fyrir atkv. mínu við endanlega afgreiðslu breska samningsins 1973, vitnaði ég í orð hv. þm. Jónasar Árnasonar sem hann hafði viðhaft í þeim umræðum, en hann sagði að þetta samkomulag væri meingallað og að sumu leyti grábölvað, en svo sagði hann já. Ég sagði að gallar samkomulagsins væru þyngri en kostirnir og því segði ég nei. Nú tel ég þessu öfugt farið. En það er ekki þar með sagt að ég telji þessi samningsdrög alveg gallalaus. Ég er t. d. sammála þeim, sem hér hafa talað og gagnrýnt drögin, um að það magn, sem um er getið í samningnum, sé of mikið, og ég er líka sammála þeim gagnrýnendum, sem hér hafa komið fram, um að það sé hættulega nálægt okkar ströndum gengið með þau svæði sem á að leyfa veiðar á. Ég tel t. d. að fyrir Vestfjörðum sé þetta alveg í það tæpasta sem við göngum þar að með samningi þessum ef af verður og reyndar líka við Suðausturlandið. Reyndar er þetta allt meira en það ætti að vera. En ég held að þeir, sem af einhverju viti hugsa um og tala um landhelgina, ég tala nú ekki um þegar hún er stækkuð í 200 mílur, hafa allir gert sér grein fyrir því að það væri ekki nokkur leið að vinna hana til fullnustu eða verja öðruvísi en að samið væri um einhverjar heimildir innan hennar. Ég held að það hafi samt sem áður verið ósk meiri hluta þjóðarinnar að það yrði hægt að losna við að semja um nokkurn fermetra innan 50 mílnanna. En þegar við höfum í huga að allt svæðið á milli 12 mílna og 50 mílna er talið vera 141 þús. ferkm og það, sem nú er samið um ef samið verður, er 25 þús. ferkm, þá má máske segja að þetta sé dropi í hafið, þegar við höfum það í huga að vinstri stjórnin samdi um það við breta að þeir mættu fiska á svæði sem nam 130 þús. ferkm af 141 þús.

Þá má segja sem svo líka að þegar samningurinn er gerður til tveggja ára, þá hefði verið æskilegt að seinna árið hefði einhver minnkun komið til greina í aflamagni fyrst því var ætlað að verða þetta mikið strax í byrjun. Ég geri ráð fyrir því, og þá skýringu hef ég heyrt, að þetta hafi verið haft á þennan veg vegna þess að menn séu ekki trúaðir á að hafréttarráðstefnufundurinn í vor ljúki sínum störfum til fullnustu þá, og það þurfi lengri tíma enn til og kannske enn einu sinni fund til að fá endanleg úrslit.

Þá að sjálfsögðu eru tvö atriði sem hefði verið ákaflega æskilegt að fá inn í þessa samninga, og það er viðurkenning á 200 mílunum í einni eða annarri mynd frá vestur-þjóðverjum og að bókun 6 taki gildi strax við undirskrift. Ég sló einu sinni fram þeirri skoðun hvort ekki hefði verið hægt að undirrita samninginn með þeim fyrirvara að hann tæki gildi þegar bókun 6 væri komin í gildi. Það var ekki talið ráðlegt.

En það sem kemur á móti, því að ég segi að kostirnir séu þyngri en gallarnir, þá er það náttúrlega fyrst og fremst þetta, að það er tiltölulega lítið svæði þó að það sé okkur dýrt, þessir 25 þús. ferkm, miðað við allt hitt sem við fáum á móti. (Gripið fram í: Hvað er það?) Við losnum við 105 þús. ferkm t. d. sem bretar hefðu ef við hefðum látið þann samning gilda áfram sem þú og þínir flokksbræður gerðu á sínum tíma, 1973. (Gripið fram í: Ég sat ekki á þingi þá, Pétur.) Nei, þú hefur nú sjálfsagt ráðið sumu sem þar var gert eins og síðar.

Að þessu sinni er aðeins samið um 5 000 tonn af þorski, en af 260 þús. lestum, sem vinstri stjórnin samdi um, voru 200 þús. tonn þorskur. Og ef við tækjum þá reikninga sem hér hefur verið farið með af ýmsum þingmönnum, nú síðast síðdegis í dag, þar sem að 60 þús. tonn af karfa, ufsa og 5 þús. tonn af þorski eru metin sem gjöf til vestur-þjóðverja upp á 2–3 milljarða, þá leyfi ég mér að fullyrða það, að ef við reiknum á sama hátt og á verði dagsins í dag, þá hafði vinstri stjórnin gefið englendingum um 44 milljarða kr.

Í þessum samningi, sem við erum að ræða, er miklu betur gengið frá ákvæðum um verndun heldur en áður. Við getum friðað svæði, þýðingarmikil svæði, og þeir gangast undir það að virða þau, enda sé jafnt látið ganga yfir báða aðila varðandi togarana.

Þeir fallast á að vera með sömu möskvastærð og okkar togarar og hlíta því ef við stækkum möskvann, með þeim sama fyrirvara og að sjálfsögðu okkar skip verða að fá.

Þá má tala um yfirlýsingu formanns þýsku samninganefndarinnar við okkar samninganefnd þess efnis að þeir lofa að vinna að því að bókun 6 taki gildi.

Svo er hitt, sem ég met ekki hvað minnst, og það er þetta, hvað sem menn hafa mörg orð í kringum það, að með því að samþykkja þessi drög, sem við erum að ræða, og semja svo við norðmenn og færeyinga líka og belga, þá erum við búnir að einangra breta í sambandi við fiskveiðideilur hér í Norður-Atlantshafi, það er enginn vafi.

Ég veit að það er ekki að ófyrirsynju að sumir hv. þm. bera fiskveiðihagsmuni rússa og austur-þjóðverja og pólverja fyrir brjósti, en engin þeirra þjóða hefur gert neina kröfu til að fá hér aðild að, enda þarf þess ekki, þær eru búnar að eyða þegar grálúðumiðunum sem þær hafa stundað hér undanfarin ár. Og nú fara þær bara á mið þriðja heimsins og sjálfsagt verða þær búnar að eyðileggja miðin þar líka eftir nokkur ár. (Gripið fram í) Þú getur sjálfsagt fengið að tala á eftir, ef þú nennir því ekki, þá skaltu bara skrifa mér.

Það má segja sem svo að sú spurning geti vaknað, hvort við þurfum að semja, og sú spurning hlýtur auðvitað að vera uppi hverju sinni. Vinstri stjórnin taldi sér nauðsynlegt að semja — og samdi. Þeir sömdu m. a. á grundvelli samþykktarinnar hér á Alþ. 15. febr. 1972. Þá var samþ. með 60 shlj. atkv. að færa fiskveiðilandhelgina út í 50 mílur, og að sjálfsögðu, eins og hefur komið fram í dag, gilda nákvæmlega sömu rökin fyrir 200 mílunum eins og giltu þá fyrir 50 mílunum. Þá var jafnframt ályktað með atkv. allra alþm. að áfram skyldi haldið „samkomulagstilraunum við ríkisstjórnir Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um þau vandamál sem skapast vegna útfærslunnar“, svo ég vitni orðrétt í þingtíðindi, með leyfi forseta. Og áfram segir: „Hér voru höfð í huga tímabundin og takmörkuð veiðiréttindi innan 50 mílnanna. Þessi tillit þótti Alþ. óhjákvæmilegt að taka, ekki bara vegna erlendra útgerðarfélaga, heldur einnig vegna erlendra fiskimanna sem höfðu lífsviðurværi sitt af þessum veiðum.“ Hér var hafður í huga alger umþóttunartími. Þannig mótaði Alþ. stefnuna 15. febr. 7972.

Það skeði meira á árinu 1972, það skeði meira þá. Þá á árinu kom frá Hafrannsóknastofnuninni bréf til ríkisstjórnar Íslands sem hæstv. þáv. sjútvrh. mun hafa tekið við. Þar var mjög alvarlega varað við því að við stefndum í átt til þess að ofveiða okkar fiskstofna, sérstaklega þorskstofninn. Þetta var 1972. Þá sögðu fiskifræðingar: Það verður að minnka sóknina í þorskstofninn um helming. — En 1973 gengur hæstv. sjútvrh. fram í því, að semja um 130 þús. tonn af þorski, sem fóru til breskra, en alls um 240 þús. tonn sem fóru til þeirra þjóða sem samið var við, þannig að það er eiginlega skrýtið og undarlegt, hvernig hræsni manna getur komið fram frá ári til árs. Í mars 1974 bauð þáv. hæstv. sjútvrh., Lúðvík Jósepsson, í samningaviðræðum við vestur-þjóðverja 54 þús. ferkm innan 50 mílnanna sem þeir mættu veiða á, þannig að þessi hæstv. ráðh. virðist nú bæði hafa verið að færa inn og út, eins og sagt er um okkur núna í sambandi við þetta landhelgismál okkar, og hann bauð upp á 80 þús. tonn af fiski án nokkurra takmarkana á þorski.

Það er kannske að bera í bakkafullan lækinn að vera að tína svona fram, og auðvitað er ekki mál málanna að vera að hnotabítast um það sem liðið er. En hvernig hv. þm. Jónas Árnason gat farið að láta að því liggja að loftbólan á Lækjartorgi hefði verið á þann veg að um tímamótafund hefði verið að ræða fæ ég ekki séð. Ég held að ég geti jafnvel gefið betri upplýsingar en hæstv. iðnrh., ekki aðeins um fjölda þeirra, sem þar voru, heldur mat manna á því hvernig skiptingin hefði verið. Það var talað um að þar hefðu verið um 1200 fullorðinna manna, en um 3 800 börn og unglingar, enda voru flokksbræður hv. þm. Jónasar Árnasonar í kennarastétt ákaflega duglegir við að gefa frí í unglinga- og barnaskólum, en með því skilyrði þó að nemendurnir færu á Lækjartorg á fundinn.

Ég geri ráð fyrir því að það fari að styttast hér um ræðuhöld, og má vera samt að það dragist eitthvað fram eftir nóttu. Nema sérstök ástæða gefist til skal ég ekki trufla fundinn meira en orðið er. En ég vil aðeins taka fram að lokum að þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem við heyjum baráttu fyrir umráðum okkar yfir öllu hafsvæðinu innan 200 mílna fiskveiðitakmarkanna, og auðvitað höldum við því áfram þangað til fullur sigur er unninn. Ég veit að það verða menn af öllum flokkum og hvar í flokki sem þeir standa sem verða einhuga í því að gera allt sem hægt er til þess að hrinda þessari innrás breta inn á lögmætt yfirráðasvæði íslensku þjóðarinnar. Persónulega tel ég að ekki sé aðeins fallið niður það tilboð sem mun hafa komið fram á einum tíma um 65 þús. tonn til þeirra ef samið yrði, heldur einnig það að slík tala geti ekki staðist ef til samninga komi, hún sé allt of há. En ég vil helst að það verði ekki neitt talað við þá, að þeir verði látnir vera úti í kuldanum í vetur hér við Íslandsstrendur, við tölum ekki við þá og sýnum þeim í tvo heimana með að við getum varist þeim, því að það er eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði einu sinni í ræðu, við höfum náttúru Íslands með okkur gegn þeim, það er enginn vafi.

Ég tel ekki, herra forseti, að ástæða sé til þess að hafa þessi orð öllu lengri. Ég vil þó taka það fram í sambandi við ákvæði, sem ég minntist hér á áðan aðeins á í sambandi við þessi drög, að það eru auðvitað til fleiri ráð til þess að stækka okkar fiskstofn heldur en að fækka fiskiskipum. Ég hef lengi talið að það hafi verið allt of lítið gert að því að alfriða svæði hér í kringum landið. Þá á ég við að friða stór svæði fyrir öllum veiðarfærum, ég tala nú ekki um hrygningarsvæðin eða uppeldsstöðvar ungfisksins. Þetta tel ég að við eigum að gera og við eigum að herða viðurlög við brotum, því að það sárgrætilegasta er, þegar verið er að standa í þessari baráttu við aðrar þjóðir og kannske við sjálfa ykkur líka, þegar íslendingar sjálfir ganga á undan og brjóta þessi lög sem við erum að setja til friðunar fiskstofnum og til þess að íslenska þjóðin geti lifað í þessu landi sómasamlegu lífi á ókomnum öldum. Við getum auðvitað gert miklu meira. Við getum aukið möskvastærð og sitthvað fleira. En númer eitt, þá skulum við styðja okkar landhelgisgæslu til góðra starfa, eins og hún hefur sýnt fram til þessa, og við skulum a. m. k. vera sammála um að láta breska úlfinn ekki vaða yfir okkur.