27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég stíg nú hér í stólinn eingöngu vegna orða hv. 5. þm. Vesturl., Jónasar Arnasonar. Hann hafði verið hættur við að tala hér, hafði fallið frá orðinu, en ég mun bera ábyrgð á því að hann hætti við að hætta við að tala, eftir því sem hann sagði sjálfur, og er það þá annaðhvort mér að kenna eða mér að þakka að við fengum að heyra til hans.

En ég stend nú upp vegna þess að mér fannst gæta ákaflega undarlegs misskilnings hjá honum, þar sem hann hélt því fram að ræða mín, sem haldin var hér í kvöld meðan útvarpað var, hafi verið mestan part persónulegar árásir á hv. 2. þm. Austurl. Þetta kannast ég ekki við, og ég held að ræða mín hljóti að hafa farið — ja, eins og danskurinn segir: „i den gale hals“ á hv. þm., því að ég kannast engan veginn við að ég hafi á nokkurn hátt beint persónulegum árásum á hv. 2. þm. Austurl. Það, sem ég gerði hér að umtalsefni, var fyrst og fremst það sama sem hafði komið fram í ræðuhöldum í gær og tekið upp úr bréfum og blaðaviðtölum í samandi við hv. þm. Ég beið þess vegna mjög spenntur eftir að heyra dæmi um þessar persónulegu árásir. Og hv. þm. fór svo að nefna dæmi. Hann sagði að ég hefði sagt að varðskipin hefðu haft klippur einnig í tíð Lúðvíks Jósepssonar. Ég sé nú ekki að það geti talist til persónulegra árása né heldur hitt, að ég hélt því fram að á útifundinum hefðu ekki verið nema 4 þús. manns í mesta lagi. Ég fæ ekki skilið að þetta geti talist til persónulegra árása, né heldur þriðja dæmið sem hann nefndi, að ég hafi talað um að nú ætli þjóðverjar að hætta að veiða þorsk, en þeir höfðu að mestu leyti verið hættir því áður.

Varðandi útifundinn vil ég vegna ummæla hv. þm. taka það fram, að þegar útifundir eru haldnir, þá er bæði hér og annars staðar ákaflega erfitt að fá um það nákvæmar upplýsingar hversu margir sækja slíka fundi. Það er glöggt t. d. af fregnum útvarpsins í kvöld að nokkuð erfitt er að fá glöggar upplýsingar, því að útvarpið skýrði frá því að á þessum fundi muni hafa verið eitthvað á milli 2 þús. og 12 þús. manns. Það er þannig erlendis víða að til þess að fá einhverja niðurstöðu í slíku efni, vegna þess hvað áætlanir stjórnmálaflokka og blaða og fjölmiðla eru oft ónákvæmar og stangast á, að menn eru teknir að snúa sér beinlínis til lögreglunnar og fá upplýsingar hjá henni um eða áætlun um hversu margt hafi sótt slíka fundi. Það er þessi aðferð sem ég hafði í kvöld. Ég spurðist fyrir hjá lögreglunni hvort hún gæti gefið upplýsingar um það hvert væri hennar mat, og hún gaf mér þær upplýsingar að þennan útifund hefðu sótt í mesta lagi 4 þús. manns, og það er sú tala sem ég leyfði mér að nefna hér. Ekki held ég að þetta geti talist til persónulegra árása á einn eða annan.

En það er eitt atriði sem ég skal viðurkenna að má vera að hafi fallið undir þetta hugtak, þar sem ég minntist á að hv. 2. þm. Austurl. hefði talið að veiðar þjóðverja í ár væru aðeins 40 þús. tonn. Ég vitnaði þar í ummæli hæstv. utanrrh. í dag, að við höfum saknað þess að hafa ekki heyrt getið um neinar heimildir fyrir þessu eða á hverju þetta væri byggt. Ef þetta telst til persónulegra árása á hv. 2. þm. Austurl., þá er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að draga það til baka um leið og ég fæ einhverjar upplýsingar hverjar eru heimildir fyrir þessu eða á hverju þetta er byggt.

Ég vil svo þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir það sem hann sagði okkur vestan af Snæfellsnesi. Mér þykir mjög vænt um að heyra að einhverjir muna enn eftir mér þar í mínu gamla kjördæmi.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég hef svo miklar mætur á hv. 5. þm. Vesturl., Jónasi Árnasyni, að mér þótti heldur leiðara að hann skyldi koma hér upp og halda þessa ræðu sem var á misskilningi byggð. Og ég verð að segja það, að ef ég ætti mér eina ósk honum til handa, þá væri hún sú að hann færi heldur sjaldnar upp í þennan stól, en helgaði sig þeim mun meir leikritagerð og gamanvísnasöng.