27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ein aðalástæðan fyrir því að ég tek til máls er leiðari í dag í Tímanum, en ég sé nú að leiðarahöfundur hefur gengið úr salnum. Hann er í hliðarsal og gengur inn til að hlýða á mál mitt. En hann skrifar hér leiðara í Tímanum og fyrirsögnin er: „Bretar fá óvæntan bandamann.“ Það var nú rifjað upp af nokkrum mönnum, m. a. af hæstv. dómsmrh., að fyrr á tímum hafi umr. um þessi viðkvæmu mál oft orðið heitar og jafnvel áður fyrr, 1961, að mér skilst orðið nokkuð hvassyrtar og kannske meira en það. En það var ómögulegt annað en að mótmæla þessum leiðara eins og hann er skrifaður. Hann er slík lágkúra og slík ósvífni gagnvart þeim, sem ekki eru með samningunum, að það nær engri átt að senda slíkt frá sér, bókstaflega ekki nokkurri átt, og manni flýgur í hug að þeir, sem aldrei hafa migið í saltan sjó, ættu að halda sér við koppinn. „En bretar hafa ástæðu til að fagna yfir þessum óvæntu handamönnum,“ segir orðrétt í leiðaranum, „og þegar frá líður og menn gera sér almennt ljóst hve alvarlegt þetta nýja þorskastríð getur orðið, verður að vænta þess að stjórnarandstaðan taki upp önnur og raunhæfari vinnubrögð.“

Hvað segja þessi orð? Í fyrsta lagi erum við ásakaðir um það að gerast handbendi breta. Þetta er ósvífni af slíku tagi að það nær ekki nokkurri átt, og hann ætti að biðjast afsökunar hér á Alþ. fyrir svona skrifum. Í öðru lagi staðfestir hann með hinum orðunum að það á að ná samkomulagi við breta við fyrstu möguleika, alveg öruggt mál, þrátt fyrir það sem sagt hefur verið hér margsinnis áður af þeim er mæla með þessum samningum, — þrátt fyrir það. Það á sem sagt að afhenda ekki kannske 65 þús. tonn, eins og þegar hefur verið boðið, — sumir liðsmenn þessa samnings óska þess eindregið að það verði boðið minna, — en dettur nokkrum manni í hug að samkomulag verði um lægri tölu en 65 þús. tonn sem þegar hefur verið boðin? Ég ætla ekkert að spá um það eða gerast neinn spámaður. En auðvitað er þetta upphaf að því að það á að semja við fleiri þjóðir. Mig minnir að það hafi verið hæstv. forsrh. í sinni ræðu í kvöld, í fyrsta skipti sem hann talaði um málið, sem taldi upp fleiri þjóðir sem semja á við.

Það hefur gleymst mjög í kvöld að minna á það að við erum komnir á það stig nú að ofnýting, ofveiði á fiskstofnum okkar er fyrir hendi, og það þýðir ekki að lifa í gömlum tíma og vera að rifja upp gamalt pex. Það þýðir ekki. Okkur ber að líta á staðreyndir dagsins og hvað er næst framundan. Og það er bara einn árgangur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, það er bara árgangurinn frá 1973 sem von okkar er byggð á að takast megi að vernda svo að fiskveiðar hér haldi áfram, þorskveiðin. Ástandið er svo alvarlegt. Og það er þessi grjótharða staðreynd, sem gerir það að verkum að ég og mínir flokksmenn segja: Það er ekkert lengur til skiptanna, því miður, og þetta verða aðrar þjóðir að skilja. Þetta er okkar eina lífsbjörg. Það er ekkert val um annað. Og ef íslenska þjóðin hefur ekki rétt til að verja sína lífsbjörg, hvað hefur hún þá? Hvað hefur ein þjóð ef hún hefur ekki rétt til að verja sína lífsbjörg, það eina sem framtíð hennar byggist á um næstu ár, kannske 10, 20, 30 ár? Hvernig tala okkar menn á alþjóðavettvangi ef þetta eru ekki rök á móti einum ríkustu þjóðum heimsins. Ég segi bara: guð almáttugur, hvernig er á okkar málstað baldið. Við gáfum þessum þjóðum, og það er alveg óþarfi að vera að pexa um það, hv. alþm., innbyrðis, með hvaða hugarfari við höfum staðið að því að gera samninga um margra ára bil til þess að leysa okkar vandamál skref fyrir skref. Við vorum ekki þess umkomnir nema taka það skref fyrir skref. Við höfum staðið að því með mismunandi geði, en það var ekki hægt annað, byggt á þeirri forsendu að við værum nokkuð aflögufærir varðandi sókn í fiskstofninn og fyrst og fremst þorskstofninn. En nú, því miður, eins og með síldina, þá vöknum við við þá staðreynd, a. m. k. sumir hverjir, — ég hafði verið einn í þeim hópi sem taldi að um ofveiði væri að ræða, — en þá er almennt vaknað við þá staðreynd og hún er ekki vefengd, hvorki af okkur hér á Alþ. né okkar vísindamönnum og erlendum einnig, að það er ekkert til lengur. Þess vegna er ekki um neitt val að ræða.

Þó bauð ég það til þess að ná órofa samstöðu meðal þjóðarinnar og leysa nú þennan síðasta áfanga með sameiginlegu átaki allrar þjóðarinnar, bæði hér á Alþ. og annars staðar, að grundvöllur gæti verið fyrir því að semja einungis við þjóðverja til skamms tíma, segjum til 1. maí, og jafnframt að lýsa því yfir að alls ekki yrði samið við neina aðra þjóð, vegna þeirrar staðreyndar að það er ekkert að bjóða af þorski og ufsa nema þetta lítilræði sem um er talað að þjóðverjum takist að ná í gegnum þessa samninga. Á það hefur ekki verið hlustað. Það hefur enginn tekið undir það af a.m.k.forsvarsmönnum í ríkisstj.

Þó hefur verið ýjað að því hér, að ef ekki takist að koma þessari margumræddu bókun 6 til framkvæmda, þá höfum við val um það og fullan rétt samkv. samkomulaginu að láta það falla úr gildi eftir 5 mánuði. Ég verð nú að segja það, að ég óska sannarlega að svo takist til. Við skulum nota bara samvinnu við náttúruöflin, ef svo má orða það, og velgja bretum eins og hægt er. En samningar í dag byggjast á því að við treystum landhelgisgæslunni ekki nógu vel. En það er vantraust að hún geti ekki varið það vel að þeir treysti sér ekki til að halda veiðum áfram, bretar og jafnvel þjóðverjar líka. Allir menn vita að til lengdar er spenna hjá skipstjórum það mikil að þeir gefast upp ef af einbeitni er staðið að. Og mér er kunnugt um það, þrátt fyrir orð hæstv. dómsmrh., að það hefur verið slakað á þegar tækifæri var til jafnvel að taka togara. Hann var þegar stöðvaður og hann beið lengi eða varðskipið með hann, það beið lengi eftir hvað gera skyldi, og hann var látinn fara. Ég kemst ekki hjá því að segja frá þessu atviki af því að það er grjóthörð staðreynd.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að ýmiss konar mistök hafa átt sér stað um ofveiði í heiminum. Má ég minna á dæmið með síldina 1963 og 1964 hjá norðmönnum, þegar norðmenn og rússar veiddu 17 millj. hektólítra af smásíld sem var jafngildi af stórvaxinni síld 10 ára meðalveiði 1 millj. 700 þús. tonn. Allir töldu þetta allt í lagi og það voru allir kátir og allir græddu. Sama skeði með síldina á Íslandi. Sama skeði vegna mikillar tækniþróunar í Perú. Og við getum haldið svona áfram. Sama skeði í Portúgal með sardínuna, og hafið er autt. Sama mun ske á Íslandsmiðum ef við gáum ekki að okkur. Því vil ég mótmæla þeirri hugsun, sem kom áðan fram hjá 8. þm. Reykv., að ekki væri rétt að hafa hart ákvæði um möskvastærð og kvöð gagnvart þjóðverjum um að breyta um veiðarfæri. Man hann ekki sjálfur eftir því að íslendingar hafa lokað fyrir veiðarfærin fyrirvaralaust gagnvart sínum eigin skipum? Hvað skeði með þorsknótina, hvað skeði með dragnótina og fleiri veiðarfæri? Þessir aðilar fengu ekki krónu þótt um tugmilljóna verðmæti væri að ræða, og veiðarfærin liggja enn ónotuð. Af hverju? Það var talin óhjákvæmileg nauðsyn til að tryggja eðlilegt viðhald og veiðimöguleika fyrir framtíðina á þeim fiskstofnum er þessi veiðarfæri sóttu mest í. Svo eigum við að vera að vorkenna þjóðverjum þótt þeir þurfi að borga 10, 20, 30 millj., jafnvel 100 millj. fyrir að skipta um poka eða annað í togveiðarfærum, sem er þó aðeins sáralítill hluti af heildarkostnaði í veiðarfærum. Ég vorkenni þeim ekki, á sama tíma og við vitum, að þessi þjóð hefur ausið út hundruðum milljóna til þess að reka hér þessa útgerð á Íslandsmiðum. Eigum við að vorkenna norðmönnum eða öðrum þjóðum, en norðmenn hafa nú þegar veitt sinni útgerð í bakvasann tæpa 20 milljarða af olíugróða? Svo erum við að vorkenna þessum þjóðum á móti okkar erfiðleikum. Við erum að vorkenna þeim. Það er hlægilegt að heyra svona tal. Ef við erum ákveðnir í því að vernda stofninn, þá segjum við hvað við þurfum og ekkert annað, skilyrðislaust og óhjákvæmilega. Þess vegna er ekki nema hálfsögð saga sem bæði hæstv. forsrh. og utanrrh. drápu á áðan í ræðum sínum í útvarpinn þegar þeir komu að þessu atriði, 5. eða 6. tölulið í samningnum varðandi þetta atriði um möskvann, að þeir muni hlíta okkar fyrirmælum, en þeir hafa árs aðlögunartíma. Þetta tel ég allt of langan tíma. Það gat verið óhjákvæmilegt að gefa þeim segjum 3 mánaða tíma eða eitthvað slíkt, en að gefa þeim árs aðlögunartíma er algjör fjarstæða, því að það er mál allra okkar vísindamanna og margra skipstjóra hér í dag að við komumst ekki hjá því að stækka möskvann hjá okkur og gera það fyrr en síðar, og það er engin ástæða til að vorkenna þjóðverjum þegar við leggjum þær kvaðir á okkar eigin togaraflota í þeim erfiðleikum sem hann á við að búa í dag, — ekki nokkur ástæða til þess. Auk þess, ef einhver veiði er hjá þessum skipum, þá slitna þessi veiðarfæri mjög fljótt.

Hitt hefur enginn drepið á af hálfu þeirra er tala um að fylgja þessu samningsuppkasti ég gera það raunverulegt, hversu hættulegt er að gefa þjóðverjum tækifæri á flottrollinu, hversu það er hættulegt. Menn vita að þessi stóru skip hafa margfalda yfirburði yfir okkar skip þegar þau beita flottrollinu, en okkar skip, langflestir togarar okkar veiða aðeins með botnvörpunni. Við gefum þjóðverjunum tækifæri til að veiða þúsundir tonna framan við nefið á okkar eigin skipum. Þetta er ekki hægt að mínu mati og nær ekki nokkurri átt, að hafa þetta ákvæði. Jafnvel þó að við höfum enn þá leyfi fyrir okkar togveiðiskip að nota flotvörpu, þá er yfirgnæfandi meiri hluti okkar skipa sem ekki notar flotvörpuna. En þessi stóru þýsku skip hafa miklu betri tækniútbúnað en okkar togarar og hirða aflann framan við nefið á okkar togurum. Og það veit ég, að bæði hornfirðingar og vestmanneyingar eiga eftir að finna fyrir áhrifum frá þessu ákvæði í samningunum varðandi ufsaveiðina næsta haust, eftir árið.

Það eru m. a. svona ákvæði sem gera það að verkum að ég get ekki fylgt þessum samningi þó að hann hafi líka kosti. Auðvitað hafa allir samningar sína kosti, þeir hafa bæði mínus og kosti. Og í dag á að sannfæra okkur og þjóðina um að kostirnir séu langt fram yfir galla, og þess vegna myndast hér meiri hl. að fylgja þeim. En það er þó athyglisvert, að úr báðum stjórnarflokkunum hafa menn komið fram og gagnrýnt ýmis ákvæði, og hæstv. ráðh. hafa eðlilega sagt: við náðum ekki öllu fram. Og það vita menn auðvitað, að það næst ekki allt fram þegar menn setjast niður og deila og reyna að ná niðurstöðu. En þetta eru þó svo alvarlegir agnúar á samningnum að það er ekki hægt annað en að hafna honum. Það verður að undirstrika þetta atriði. Það er ekki nokkur minnsti möguleiki að samþ. slíkt uppkast sem felur þetta í sér.

Svo er auðvitað augljóst mál og það má kallast alveg einstök samviskusemi af þýskum skipstjórum, ef þeir geta malað, eins og segir í gömlu ævintýri, malað bæði malt og salt og malað, — það var nú sagt í djöfulsins nafni þá eða einhverra nafni skulum við segja í dag — ef þeir hagnýta sér ekki þetta ákvæði. Og hvar taka þeir þennan afla utan við umráðasvæði okkar, nær Grænlandi eða nær Færeyjum? Við getum ekkert ráðið við þetta, ekki nokkurn skapaðan hræranlegan hlut. Þeir geta sem sagt með flotvörpunni á leið af miðum leikið sér að því að fá tugi tonna yfir sólarhringinn og látið kvörnina dunda við að gera þetta að mjöli og lýsi á næstu 5 dögum vegna þessa ákvæðis, og við ráðum ekkert við það, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta gæti verið eintómur þorskur eða eintómur ufsi. Þetta er því hættulegt ákvæði og ætti að liggja á hreinu hvernig um slíkt mál ætti að fara.

Það hefur margt borið hér á góma í kringum þetta mál sem eðlilegt var. Við vissum það fyrir fram. Fyrst ekki náðist viðtækari samstaða um meðferð málsins, þá hlaut að koma að því, þegar okkur var ekki sýndur meiri trúnaður en svo í stjórnarandstöðunni að við fengum nú að nafninu til eða fulltrúar okkar að fylgjast með því sem var að gerast, þá hlaut að koma að því að við tækjum alllangan tíma til að ræða málið á víðum grundvelli og einnig efnislega í smáatriðum, og fyrir bragðið hafa umr. orðið hér ákaflega langar.

Það hefur verið sagt að við séum að fórna karfanum og getum verið aflögufærir í því sambandi. En 8. þm. Reykv. minntist hér ú bréf 1972, og ég minntist á það í fyrri ræðu minni einnig, að Jakob Magnússon fiskifræðingur, okkar færasti maður, held ég, í karfarannsóknum og sérfræðingur á því sviði, aðvaraði um það þá þegar hversu við værum búnir að ganga nærri stofninum. Og það hefur komið í ljós að karfaafli okkar skipa er stundum samansettur af svo smáum karfa að hann er ekki einu sinni vinnsluhæfur og hefur orðið að fara beint í gúanó. Jakob Magnússon hefur einnig ráðlagt að tryggja stórkostlega friðun á karfanum til þess að byggja upp góðan afla fyrir togara okkar í framtíðinni, vegna þess að margir stærri togarar sækja á karfamið og það er lífsnauðsynlegt að fá góðan karfa handa þessum skipum eða góð karfamið. Það er því ekki síður ástæða til þess að mínu mati að fara varlega gagnvart karfaveiðinni. Það er fljótgert að vinna úr þeim stofni. Hann hefur ekki eins mikla dreifingu og yfirferð og þorskurinn, og nútímatækni gerir það að verkum að ötulir og góðir skipstjórar geta fljótlega þurrausið karfamiðin þegar þeir fylgjast með hvar þau er að finna. Það er fljótlegt að gera það, og tækni þjóðverjanna er það mikil að þeir taka karfann bæði uppi í sjónum og niðri við botn. Hér er um því mjög alvarlegt mál einnig að ræða.

Ég held, herra forseti, að ég tefji nú ekki tímann til að gera fleiri athugasemdir við þetta. En ég vil þó minna á það að hæstv. núv. sjútvrh. hefur sagt að það væri hans mat að algjör forsenda fyrir samningnum við ótiltekna þjóð væri það að bókun 6 tæki gildi áður en samningar væru gerðir og við nytum þeirra verslunarfríðinda sem við höfum þegar átt að hafa heimild til samkv. öðru samkomulagi. Orð þessa ágæta manns eru að engu höfð í dag, ekki að nokkru. Hann er ekki hér viðstaddur vegna lasleika og þess vegna ekki rétt að vera að fjalla mikið um hans orð, þar sem hann getur ekki svarað fyrir sig í því efni. Þó hefur verið staðfest einnig á prenti að þetta sé hans skoðun.

Einnig sakna ég þess, miðað við að fara 2–3 ár aftur í tímann, hversu sjálfstæðismenn höfðu þá geysilegan áhuga á eflingu landhelgisgæslunnar með skipakaupum og mörgu, mörgu fleiru, að þeir skyldu ekki ítreka sinn ódrepandi áhuga þá, þegar önnur ríkisstj. var og þeir voru í stjórnarandstöðu, því að ef ekki á að semja við breta, eins og mér skilst að menn hafi nú allt í einu mjög lítinn áhuga á og jafnvel engan þrátt fyrir þessi furðulegu skrif í dag í Tímanum, þá veitir okkur sannarlega ekki af að hafa mikinn skipakost, kannske ekki ný varðskip í sjálfu sér, en a. m. k. önnur skip — 4–6 hafa skipherrar landhelgisgæslunnar sagt að mundu duga til þess að gera bretum nær ókleift að veiða. Ég vildi því gjarnan heyra það nú á þessari stundu að ríkisstj. væri ákveðin í því efni að bæta við skipakost landhelgisgæslunnar. Menn hafa sagt það hér áður mjög oft að það væri ódrepandi áhugi í því efni. Hví skyldi hann vera minni í dag, eins og ástandið er nú?

Við hörmum allir ósvífna innrás breta í okkar landhelgi og þá smán sem okkur er sýnd með því að beita hér herskipum gagnvart okkur, vopnlausri þjóðinni. Það er forkastanlegt athæfi og ekki hægt að hafa nægilega sterk orð um slík vinnubrögð. En þá er einnig rétt að svara þeim með öllu okkar afli, eins og hægt er og eins og menn hafa lýst áhuga hér áður fyrr, að hann væri fyrir hendi meðal alþm.