02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

296. mál, Bessastaðaárvirkjun

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar. Þetta er dálítil upphæð ef af því verður ekki að verði virkjað þarna, eins og margir halda, en sleppum því.

Mig langaði aðeins að nota þær örfáu mínútur, sem ég má tala hérna áður en hringt verður á mig, til þess að svara því sem Ingvar Gíslason var að rétta að mér og kannske einhver annar varðandi rógsherferð sem Alþfl. ætti að standa í gagnvart vini mínum Jóni Sólnes. Ég vil ekki taka undir það að ég hafi staðið í nokkurri rógsherferð gagnvart Jóni. Ég efast um að hann haldi það heldur. En ég get ekki samt sem áður, úr því að ég er hér kominn og þetta ber á góma, látið vera að lýsa þeirri skoðun minni að mér þykir ferð Sólness til Japans hafa verið ákaflega misráðin, þó að honum hafi verið boðið þangað. Honum er boðið af fyrirtæki sem vélarnar eru keyptar af, og einhvers staðar las ég að hann hafi farið þangað til að skoða hvernig gangi að framleiða þessar vélar og líta á hvernig sú framleiðsía hefði gengið. Ég spyr bara þingheim: Í hvernig aðstöðu er maður sem þiggur boðsferð af viðskiptamanni sínum, í hvaða aðstöðu verður hann eftir á til þess að finna að ef eitthvað verður að þessum vélakosti? Það er þetta sem mér finnst hafa verið mistök hjá hv. þm., ekki það að fara til Japans — það er gaman að fara til Japans — en þetta finnst mér mistök hjá Jóni og ég segi honum það hreinskilnislega. Hann má telja þetta róg, en ég held að hann geri það ekki þegar hann þekkir bæði mig og það sem ég hef hér sagt. — Svo þakka ég fyrir.