02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

299. mál, dýpkunarskip og dýpkunarframkvæmdir

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans. Það kom fram í svari hans, sem ég raunar vissi, að það eru mjög margar hafnir á landinu sem biða þessara framkvæmda á næstunni. Mér finnst reynsla síðustu ára hafa sýnt að þau tæki, sem við höfum anna alls ekki þeirri eftirspurn sem er fyrir hendi í þessum efnum. Ég sakna þess því að mér fannst ég ekki fá fullnægjandi svar við síðasta lið fsp. minnar, um það, hvort leitað hefði verið til innlendra aðila sem hugsanlega gætu tekið að sér verkefni Grettis. Það, sem fram kom í svari hæstv. ráðherra þar að lútandi, stangast raunar algjörlega á við það sem forsvarsmenn Björgunar hf. hafa tjáð mér og raunar öllum þm. í áðurnefndu bréfi sem ég gat um. Ég hef reyndar talað um þetta við Hafnamálastofnunina, forsvarsmenn hennar, og þeir hafa þar uppi staðhæfingar sem stangast á við fullyrðingar Björgunar hf.

Í þessu bréfi, sem ég hef gert að umtalsefni, stendur, með leyfi hæstv. forseta, þar sem talað er um krana á dæluskipinu Sandey 2, að þessi krani hafi verið í notkun fyrir nokkrum árum og tók þá m. a. upp grjót í Sundahöfn sem ekkert annað tæki hér á landi réð við.

Ég hef orðið vör við undarlega tregðu við að nýta þessa innlendu aðila sem staðhæfa að þeir geti sinnt þessum verkefnum sem bíða mánuðum og árum saman í íslenskum höfnum til mikils baga og óhagræðis og maður veit raunar ekki hvenær vandræði hljótast af. Því vil ég ítreka, beina því til hæstv. samgrh., að sérstaklega þessi síðasti liður fsp. minnar verði tekinn gaumgæfilega til athugunar og það hendi ekki að það sé gengið fram hjá íslenskum aðilum sem hugsanlega gætu tekið þessi verkefni að sér.

Ég er að sjálfsögðu sammála hæstv. samgrh. að því leyti, að það er auðvitað ekki rétt nú á þessum þrengingatímum okkar í efnahagsmálum að ráðast í hundruð millj. kr. kaup á nýju tæki eða leigu á tæki erlendis frá ef við höfum tæki sjálf sem gætu leyst verkefnin af hendi. Þess vegna vil ég vænta þess að það verði ekki gengið fram hjá þessum aðilum, sem ég gat um, og raunar fleiri, sem ég hef ekki minnst á hér, en þeir möguleikar verði kannaðir til allrar hlítar.