02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

47. mál, útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af fsp. hv. 3. þm. Reykv. get ég svarað því strax að reglugerð um þetta efni hefur ekki enn þá verið samin. En til frekari skýringar vil ég lesa hér svar það sem póst- og símamálastjóri hefur látið mér í té í sambandi við mál þetta. En á s. l. sumri óskaði ég eftir því að starfsmenn samgrn. viðuðu að sér efni í sambandi við framkvæmd á þessu máli, og því verki er nú langt til lokið.

Þetta er svar póst- og símamálastjóra, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til bréfs samgrn. frá 10. nóv. s. l. varðandi fsp. á Alþ. um undanþágu afnotagjalds fyrir síma, sbr. lög nr. 24 1975, um breyt. á lögum nr. 30 frá 1941, um fjarskipti, skal hér upplýst eftirfarandi:

Vilji löggjafans, hins háa Alþingis, verður að okkar mati best framkvæmdur með því að hækka uppbætur á elli- og örorkulífeyri um sömu upphæð og símagjöldum nemur, sem mundi vera um 800 kr. á mánuði. Með þessari tilhögun fær hlutaðeigandi styrkþegi á öruggan og hagkvæman hátt það sem til er ætlast í nefndum lögum og umræddur styrkur greiðist af almannafé, en verður ekki sérstakur skattur á símanotendum einum. Eftirlit og endurskoðun mundi þá fylgja uppbótum á elli- og örorkugreiðslur að öllu leyti og kosta enga teljandi fyrirhöfn.

Samkv. upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins er fjöldi þeirra, sem njóta uppbóta á elli- og örorkulífeyri í des. 1974 sem hér segir: einstaklingar 1934, hjón 273, samtals 2203. Nú hefur hins vegar verið kannað hversu margir af framangreindum aðilum hafa síma nú. Það er ekki lokið þeirri könnun, heldur ekki hvar í landinu þeir eru búsettir, og vinna við þessa athugun er kostnaðarsöm, þar sem ekki liggur beint við að nota skýrsluvélavinnslu vegna þess að nafnnúmer símnotenda er ekki fært inn á spjaldskrár sem notaðar eru við útskrift símareikninga. Eftirlit með þessum málum í þeirri mynd að fella símgjöldin niður mundi fyrirsjáanlega verða mikið og kostnaðarsamt, og það sem mest er, að þetta gæti hugsanlega boðið heim hættunni á misnotkun.

Að lokum skal bent á að tekjutap vegna umræddrar ráðstöfunar gæti numið 21 millj. kr. á ári, miðað við núverandi gjaldskrá og eftirgjöf á ársfjórðungsgjaldi eingöngu. Enn fremur ber að hafa í huga að stofnkostnaðurinn við hvern nýjan síma nemur 200–300 þús. kr.

Hér er þá svar póst- og símamálastjóra við þessu og till. hans um hvernig með málið skuli farið. Hins vegar er unnið að athugun málsins og verður gert og verður þá ákvörðun tekin um framkvæmd þess.