02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

70. mál, stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga o.fl.

Fyrirspyrjandi (Jóhannes Árnason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 75 fsp. til hæstv. samgrh. um verðjöfnunarsjóð vöruflutninga o. fl. Fsp. þessi hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvað líður störfum milliþn., sem kosin var samkv. þál. um stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga og bætt skipulag þeirra flutninga frá 10. apríl 1973, og hvenær er þess að vænta að nefndin skili áliti?

2. Hver er orðinn kostnaður við störf nefndarinnar?“

Hinn 10. apríl 1973 var samþ. á Alþ. þáltill. sú sem þessi fsp. lýtur að, en hún fjallar um verðjöfnunarsjóð vöruflutninga og bætt skipulag vöruflutninga. Till. er í 4 liðum og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að kjósa 5 manna milliþn. til þess að:

1) Kanna þátt flutningskostnaðar í mismunandi vöruverði í landinu.

2) Skila áliti um hvort tiltækt væri að jafna kostnað við vöruflutninga með stofnun og starfrækslu verðjöfnunarsjóðs, þannig að verð á allri vöru verði hið sama á öllum stöðum á landinu sem vöruflutningaskip sigla til og flugvélar og vöruflutningabifreiðar halda uppi áætlunarferðum til.

3) Kanna hver kostnaður væri af rekstri slíks sjóðs og hver ætla mætti að yrðu þjóðhagsleg áhrif af starfrækslu hans.

4) Gera till. um bætt skipulag vöruflutninga á sjó og landi og í lofti. Skulu þá m. a. hafðar í huga breytingar á tilhögun flutninga frá helstu viðskiptaborgum íslendinga erlendis til hinna ýmsu hafna á landinn.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Þáltill. þessi var á sínum tíma flutt af þm. Matthíasi Bjarnasyni, Sverri Hermannssyni, Guðlaugi Gíslasyni og Halldóri Blöndal. Sú þál., sem ég nú hef lesið, er ákaflega skýr og glögg og þarf í rauninni ekki að fara um hana mörgum orðum. En það var kosin 5 manna milliþn. til að annast úrvinnslu þess, sem þál. fjallar um, og skila áliti og till. þar að lútandi. Síðan þessi þál. var samþ. og nefndin kosin eru liðin 21/2 ár eða þar um bil, og mér er ekki kunnugt um að nefndin hafi enn skilað áliti. Það er tilefni þess að ég hef séð ástæðu til að hreyfa þessu máli hér á hinu háa Alþ. með fsp. um hvað líði störfum nefndarinnar og hver sé kostnaður við störf hennar. Hér er um að ræða milliþn. og milliþinganefndir eiga, svo sem nafnið bendir til, að starfa milli þinga og skila síðan áliti.

Ég vil vekja athygli á því að hér er um að ræða stórt mál fyrir þá, sem búa úti á landi, og eitt af þeim málum, sem skiptir sköpum um lífsafkomu og framfærslukostnað á Reykjavíkursvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar. Svo til allar vörur, sem til landsins koma, eru fluttar inn um Reykjavík. Þaðan er þeim svo dreift út um landið, ýmist með skipum, flugvélum eða vöruflutningabifreiðum. Það leggst þannig gífurlegur flutningskostnaður á vörurnar sem leiðir til þess að vöruverð almennt er hærra úti á landi en hér í Reykjavík. Það má alltaf bæta við sannanlegum flutningskostnaði, eins og það heitir í auglýsingum verðlagsyfirvalda. Þó eru auðvitað frá þessu undantekningar þar sem um fast verð er að ræða hvar sem er á landinu. Það koma þannig oft út hinar furðulegustu niðurstöður hvað snertir verð úti á landi miðað við það sem er í Reykjavík. Það kostar oft ótrúlega mikið að flytja einn lítinn hlut frá Reykjavík vestur á firði eða austur á land. Mætti nefna um þetta mörg dæmi, en ég fer ekki út í það hér, enda skammur tími til að gera grein fyrir þessum málum við slíkar umræður, heldur vil ég aðeins segja það, að á meðan skipulag þessara mála, þ. e. vöruflutninganna er með þeim hætti sem nú er, þá er þess vart að vænta að það með meiru sé hvetjandi fyrir fólk til að flytja út á land, heldur er hið gagnstæða raunin á. Hér er þörf á úrbótum og því ekki vanþörf á að till. þeirrar milliþn., sem á sínum tíma var kosin, fari að sjá dagsins ljós.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að svo stöddu, fsp. er skýr og ákveðin og vænti ég svara hæstv. samgrh. við henni.