02.12.1975
Sameinað þing: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár að beiðni mikils fjölda skattborgara vegna óska þeirra um endurflutning efnis í Ríkisútvarpinu sem útvarpað var í tengslum við Háskóla Íslands 1. des. s. l.

Á undanförnum áratugum hafa íslendingar byggt upp fræðslu- og menntakerfi af miklum myndarskap. Hafa margir hæfir menn hlotið þar menntun og skilað miklu og ómetanlegu framlagi til íslensks þjóðfélags á grundvelli þeirrar þekkingar sem fræðslu- og skólakerfið hefur í té látið.

Alþingi hefur mjög komið við sögu fræðslu- og menntamála í gegnum mangþætta löggjöf í þessum efnum og með samþykkt ríflegra fjárframlaga til þessara mála. Einn stærsti útgjaldaliður fjárlaga á hverjum tíma er vegna fræðslu- og menntamála. Kostnaðarsamasti þáttur skólakerfisins eru menntaskólar landsins og Háskóli Íslands. Skipar Háskólinn sérstakan sess í fjármálum, enda hefur verið litið á þennan skóla sem æðstu menntastofnun þjóðarinnar. Hefur Háskóli Íslands notið sérstakrar virðingar og þjóðin bundið miklar vonir við þá menn sem þar stunda nám, sérstaklega í andlegu- og menningarlegu tilliti. Því miður getur allur almenningur ekki fylgst svo með þróun og þroska nemenda Háskólans sem æskilegt væri til þess að þjóðin viti jafnan hvers megi vænta af þessu fólki í framtíðinni.

1. des. s. l. efndi meiri hluti stúdentaráðs til samkomu í Háskólabíói í nafni stúdenta. Var samkomunni útvarpað að venju. Illu heilli voru flestir almennir skattborgarar við vinnu sína á þeim tíma er samkoman var haldin. Vinnandi fólk átti þess því ekki kost að hlusta á málflutning þessara hugsanlegu framtíðarforustumanna þjóðarinnar úr röðum vinstri stúdenta er töluðu í Háskólabíói. Í Þjóðviljanum í morgun er skýrt frá því að umrædd samkoma hafi tekist mjög vel.

Með tilliti til óska mikils fjölda manna og þess að fyrir liggur að hv. Alþingi mun á næstunni taka afstöðu til afgreiðslu hundraða milljóna króna vegna þeirra aðila, er stóðu að umræddri dagskrá á fullveldisdegi íslendinga í des., vil ég hér á þingi beina þeim tilmælum til útvarpsráðs að dagskrá stúdenta í Háskólabíói umræddan dag verði endurflutt, t. d. síðdegis einhvern næsta sunnudag, svo að allur almenningur geti kynnst vel afstöðu róttækra stúdenta er nú mynda meiri hlutann í Háskóla Íslands til borgaralegs þjóðfélags, þ. á m. til meginþorra skattborgara sem hafa staðið undir núverandi menntakerfi þjóðarinnar með skattgreiðslum sínum og munu væntanlega eiga eftir að standa undir núverandi kröfum stúdenta um nokkurra milljarða króna fjárveitingu í formi lána á næstu árum, auk hundraða milljóna króna vegna rekstrarkostnaðar Háskólans og fjárfestingarframkvæmda.

Vænti ég þess að útvarpsráð geti orðið við beiðni minni um endurflutning. Er hún flutt fyrir hönd fjölda manns sem gat ekki hlýtt á mál róttækra stúdenta vegna atvinnu sinnar. Það fólk, sem ég tala hér fyrir, eru skattborgarar. Það er láglaunafólk einnig sem borgar skatta á Íslandi. — Líður hv. þm. illa undir þessu ávarpi í sambandi við mína beiðni? Það er mjög athyglisvert. Ég er raunverulega að fara fram á að endurtaka það sem Þjóðviljinn segir að vel hafi tekist.

Það fólk, sem ég tala hér fyrir, eru skattborgararnir sem með mikilli eljusemi og vinnu standa undir og bera ábyrgð á því þjóðfélagskerfi er við nú búum við. Veigamikill þáttur þess er Háskóli Íslands. Vinnandi fólk vill með skattgreiðslum sínum stuðla að viðhaldi og eflingu borgaralegs þingræðis og lýðræðis á Íslandi. Það á því fullan rétt á því að kynnast betur viðhorfum róttækra stúdenta, er nú mynda meiri hlutann í Háskóla Íslands, til þess þjóðfélags sem hefur brauðfætt þessi ungmenni til þessa og væntanlega á eftir að gera það í nánustu framtíð í núverandi formi. Endurflutningur í Ríkisútvarpinu á dagskránni í Háskólabíói 1. des. mun varpa skýru ljósi á margt sem vert er að veita nánari athygli.