02.12.1975
Sameinað þing: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, skildi ekki ósk mína. Það var ekkert grunsamlegt á bak við það sem ég fór fram á. Það, sem ég fór fram á, var aðeins þetta: Ég vil gjarnan að vinnandi fólk fái tækifæri til að hlusta á málflutning þeirra stúdenta sem fluttu sitt mál í nafni meiri hlutans í Háskólabíói 1. des. Ég minntist hvergi á niðurskurð í sambandi við það mál í sambandi við fjarveitingar. Ég tel það mjög æskilegt og gott fyrir þjóðina að heyra hver er afstaða þessa unga fólks til borgaralegs þjóðfélags. Ég var einn af þeim sem því miður gat ekki heyrt þetta nema á skotspónum. Ég var við vinnu við nefndarstörf. Ég geri ráð fyrir því að endurflutningurinn muni tala sínu máli. Svo er það fólksins í landinu að kveða upp úr um það hvort því líkar þessi málflutningur eða ekki, og það getur komið sínum skilaboðum væntanlega til hv. 5. þm. Vesturl. sem og annarra þingmanna varðandi það hvernig beri að standa að Háskóla Íslands í framtíðinni. En áður en hv. þm. tekur til máls, þá held ég að hann ætti að fara varlega í það að gera öðrum þingmönnum upp skoðanir eða álykta rangt út frá því sem sagt hefur verið hér á undan.