15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

7. mál, almenningsbókasöfn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka vinsamleg ummæli hv. 3. þm. Reykn. um frv. og stuðning hans við málið. Ég get vissulega tekið undir það, að það er í sjálfu sér of langur aðlögunartími, ef við lítum á hag bókasafnanna, að miða við 3 ár. En hér sem oftar verður sjálfsagt byr að ráða. En ekki hefði ég á móti því ef Alþ. og þar með fjárveitingarvaldið sæi sér fært að stytta þennan tíma. Ég vil láta það koma fram út af fsp. hans um hvernig skilja bæri 14. gr., þá er minn skilningur sá, að hækkunin komi til framkvæmda jafnt, þ. e. 1/3 árlega.

Varðandi aths. hv. 9. þm. Reykv. vil ég aðeins rifja það upp að fjárlagafrv. eru yfirleitt samin með hliðsjón af gildandi lögum, en ekki frv. sem eru í farvatninu.