03.12.1975
Efri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

73. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Á þskj. 78 höfum við hv. 5. þm. Norðurl. v. leyft okkur að flytja í þriðja sinn frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, varðandi starfrækslu útibúa frá stofnuninni á Vestfjörðum. Norðurlandi og Austurlandi. Ég þarf ekki að kynna frvgr., hún skýrir sig að mestu leyti sjálf, og það er kannske óþarfi að hafa langt mál hér uppi um þetta mál nú í þriðja sinn.

Þetta mál hefur strandað í n. af þeirri einföldu ástæðu að umsagnaraðilinn, húsnæðismálastjórn, hefur verið sein til svara og um leið haft uppi þær röksemdir að umrædd útibú væru í athugun hjá viðkomandi stofnun og rn., og enn er sagt að þetta mál sé í athugun. En af því að við sjáum engra framkvæmda von í þessu máli, þá leggjum við þetta mál hér fram í þriðja sinn og við vísum í byrjun til álits svokallaðrar staðarvalsnefndar. Það er að vísu ekki rétt, sem þar segir í þskj., miðað við hvenær þskj. var lagt fram, að þetta álit hafi þá verið lagt fram. Ríkisstj. mun þá ekki hafa verið búin að fá þetta álit í hendur, þ. e. hæstv. forsrh. Ég hygg, að það sé nú komið í hans hendur, en það er um mánuður síðan við undirskrifuðum þetta álit.

Það tengist mjög þessu máli og rétt að minna aðeins á það verkefni sem þessi n. fékk, en auðvitað ekki réttur tími nú til þess að fara neitt út í álitið sjálft. Við fengum það verkefni að gera till. um dreifingu stofnana eða útibúa eða deilda frá stofnunum úti um land. Stefna mín var ótvírætt sú, að þar ætti að hafa forgang útibú og deild frá hinum ýmsu stofnunum. Það var aðeins önnur hlið á okkar verkefni, því að við áttum að gera beinar till. og gerðum reyndar um flutning ákveðinna stofnana. Ég skal aðeins nefna dæmi um að okkar dómi auðveldan flutning stofnunar og í raun og veru sjálfsagðan, eins og t. d. Skógræktar ríkisins austur í Hallormsstað í staðinn fyrir hér í Reykjavík, bara til þess að nefna eitt dæmi. En ég hef minni trú á fljótvirkni þess að flytja stofnanir í heilu lagi og í sumum tilfellum er það algerlega út í bláinn. Hins vegar er spurning um nauðsyn á aukinni þjónustu almennt úti um land ótvíræð.

Miðstjórnarvaldið hefur allt dregist saman hér á einn stað og ríkisvaldið gengið þar á undan. Það þarf að minnka þetta án þess að til skaða verði fyrir Reykjavík. Því hefur nú stundum verið haldið fram. Ég er á þeirri skoðun að jöfnuður í þessum efnum geti verið Reykjavík alveg eins hagstæður og landsbyggðinni sjálfri.

Í þessari n. fjölluðum við mjög um stofnanaflutning almennt og þurfti að taka tillit til margs. Það þurfti að taka tillit til þess, sem við minnum á í okkar grg., til húsnæðis fyrir ákveðna stofnun eða útibú frá henni, það þurfti visst fjármagn og vandamálið varðandi sjálfan stofnanaflutninginn sneri kannske fyrst og fremst að starfsfólkinu eða spurningunni um það, ef það þyrfti að flytja sig í fjarlægan landshluta.

Það mætti rekja mörg dæmi varðandi þetta mál. bæði um víðsýni og þröngsýni forstöðumanna hinna ýmsu stofnana. Og erfitt verður án efa að finna gullinn meðalveg í þessum málum almennt. En því verður að treysta að stjórnvöld á hverjum tíma velji hér og hafni af víðsýni og skilningi, en þó fremur öðru að þau meti þörfina réttilega á aukinni dreifingu valds og þjónustu almennt.

Það fer auðvitað ekkert á milli mála að í flestum greinum er þjónustan minni úti á landsbyggðinni gagnvart hinum opinberu stofnunum heldur en er hér í Reykjavík og þar geta orðið á dýr mistök. Varðandi þessa stofnun sem hér er til umr., Húsnæðismálastofnun ríkisins, þá get ég nefnt þar um hrapalleg dæmi sem hafa kostað húsbyggjendur ærið fé, hinar ströngu reglur þeirra um dagsetningar úr fjarlægum landshlutum með erfiðum póstsamgöngum. Ég viðurkenni hins vegar að þessi stofnun hefur verið með aukna þjónustu í seinni tíð, þótt hún hafi auðvitað sérstaklega komið til góða fyrir Reykjavíkursvæðið. Fleiri stofnanir hafa gert hið sama og sumar stofnanir gengið beinlínis á undan í því að færa sína þjónustu út í hina ýmsu landshluta, t. d. Vegagerð ríkisins sem hefur gengið þar á undan með góðu fordæmi. Þetta sem sagt stefnir — hægt þó — í jafnaðarátt. Við mættum gjarnan líta til Norðurlandanna, sem hafa gert skipulegt átak í þessum efnum, og líta til þeirra einmitt með tilliti til þess að það hefur síst orðið til skaða fyrir höfuðborgirnar þar eða stærri borgirnar, siður en svo.

Spurningin er um það, hvers vegna við veljum þessa stofnun sérstaklega, og að því er vikið í grg. Um útibú frá þessari stofnun hafa komið fram mjög eindregnar óskir, ég held hvergi eindregnari. Hér má vitna í sérstaka húsnæðismálaráðstefnu sem haldin var á Austurlandi 1973, þaðan sem krafa kom um samþykkt þessa frv. Og frá öllum þeim landsfjórðungum, sem frv. þetta snertir, hafa komið fram eindregnar kröfur í sömu átt. Við vitum um þá auknu þörf sem fyrir þessa þjónustu hefur orðið með því að húsbyggingar úti á landsbyggðinni tóku kipp og þó alveg sérstaklega vegna þess að fleiri þættir komu þar til sögu, m. a. leiguíbúðirnar sem beinlínis kalla á aukna heimastjórn á einhvern veg. Þó að nú sé um tímabundið erfiðleikaástand að ræða í húsbyggingum almennt, þá megum við ekki taka það með í reikninginn eða láta það villa okkur sýn í þessum efnum, og því verður að halda þessu máli vakandi engu að siður og kannske enn frekar.

Í þriðja lagi er það reynsla mín úr starfi sem veldur þessu, og það höfum við flm. báðir reynt. Kringum þetta er því miður of mikið skriffinnskuflóð, vottorð og leyfi sitt úr hverri áttinni. Þetta er sent á misjöfnum tíma utan af landi, þetta glatast sundum af einhverjum ásæðum og þau mistök geta orðið húsbyggjandanum býsna dýr.

Og í fjórða lagi ríkir hér visst misrétti. Hér á að ríkja a. m. k. viss jöfnuður. Hér er í raun og veru um einn þátt hinnar margumtöluðu byggðastefnu að ræða. Jöfnuður næst auðvitað seint á öllum sviðum. Til þess er Ísland of nærri því að vera hreint borgríki, það er býsna nálægt því. Þjónustan vegna fjöldans, vegna meiri hl., er eðlileg og hagsmunir þess meiri hl. vega þungt, en minni hlutanum má enn síður gleyma. Ég er nú líka á því að við landsbyggðarmenn almennt eigum ekki alltaf að vera að tala um Reykjavík sem eitthvert slíkt gósenland eins og við gerum nú og ekki sífra of mikið heldur. Ég held að við eigum einnig að meta ýmsa kosti þess að búa úti á landi, annars værum við varla þar, þrátt fyrir þann aðstöðumun sem þar er að finna. En samfélagið sjálft á ekki og má ekki skapa aðstöðumun svo sem verið hefur. Þess hlutverk er að jafna metin. Auðvitað vitum við að þetta er eitt lítið skref í þá átt með þessum frv.-fluningi, en á hitt bendi ég, að 5–10 ára áætlun um framkvæmd á því áliti, sem staðarvalsnefndin hefur sent frá sér, mundi hins vegar valda gerbyltingu. Það mætti hins vegar á engan hátt gerast svo, eins og við höfum bent á í okkar nál., að Reykjavík og reykvíkingar litu á það sem árás á sig, heldur sem eðlilega dreifingu sem kæmi þeim til góða sem hluta af þjóðarheildinni.

Það kann að vera að jöfnuður þessi kosti Reykjavík eitthvað. En við teljum, landsbyggðarmenn yfirleitt að við höfum lagt Reykjavík svo margt til sem okkar höfuðborg að við eigum þetta nú nokkuð inni, þó að svo aftur höfuðborgin hafi í nokkru á móti komið. Hér á að stefna eðlilega fram á við án of mikillar útþenslu. Við t. d. gerum ekki ráð fyrir nema fjórum útibúum. Við játum það alveg að hin tvö, þ. e. í Vesturlandi og Suðurlandi, sem eru hér t. d. miklu nær, geta verið sanngjörn og meira að segja kæmu Suðurnes inn í þessa mynd einnig. Við vildum aðeins ekki taka stærra stökk. Verði breyting á vegna þeirra, sem hér eru eftir skilin viljandi, þá skal ekki á okkur standa að fylgja því eftir.

Við minnum um leið á aðra þjónustu sem brýn er út í landsfjórðungana og er þessu skyld, þ. e. a. s. skipulagsskrifstofur. Þarna þarf að vera samræmi og samstarf á milli og þessar skrifstofur þurfa að koma upp jafnhliða.

Það þarf ekki að fara náið út í það hvert á að vera hlutverk þessara útibúa, í raun og veru hið sama og hjá stofnuninni sjálfri, taka við umsóknum, yfirfara þær, sjá um réttmæti þeirra og svo afgreiða þær að fullu frá sér. Við erum þarna inni með útibú Landsbankans eða einhvers annars ríkisbanka. Landsbankinn er þarna inni vegna þess að veðdeild Landsbankans sér um þetta í dag. Við sjáum enga annmarka á því að útibúin geti annast þetta að fullu. Nefnt hefur verið að þarna gæti verið um erfiðleika að ræða vegna veðtrygginga. Það er auðvitað tómur fyrirsláttur. Ég vil benda á mikilvægt hlutverk heimaaðila á smærri stöðum þar sem eru byggingarfulltrúarnir. Við þá þyrftu þessi útibú að hafa náið samstarf, auka þarf fræðslu þeirra, því að þekking þeirra og hæfni er vissulega misjöfn og full þörf á því að auka fræðsluþáttinn, svo sem stofnunin sjálf hefur reyndar gert allmyndarlega nú í seinni tíð. Og inn í það dæmi kæmu auðvitað skipulags- og verkfræðistofurnar í landsfjórðungunum einnig. Einnig mundu þessar skrifstofur að sjálfsögðu sjá um mikilvæg verkefni, fræðsluverkefni og þjónustuverkefni fyrir sveitarfélögin almennt.

Stundum hafa þær raddir heyrst að húsnæðismálin ættu að vera inni í bankakerfinu eingöngu, það ætti sem sagt að leggja Húsnæðismálastofnun ríkisins niður. Ég er því algerlega andvígur og þá alveg sérstaklega vegna félagslegra þátta húsnæðismálanna, sem í vaxandi mæli koma nú inn í verkahring þessarar stofnunar. Húsnæðismálin í eðli sínu eru bein félagsmál. Fjárhagsþátturinn er stór, en bankakerfið á að vera aðstoðaraðili hins félagslega aðila. Það er því eðlilegt að heimamenn, sveitarstjórnir og aðrir aðilar, svo sem stjórnir byggingarfélaga, ráði ferðinni meira, og það verður gert með útibúamyndun. Á annan hátt sjáum við ekki möguleika á því.

Við vitum að íbúðabyggingar á félagslegum grundvelli eiga eftir að stóraukast. Þær verða að gera það. Þarna yrði um sameiginlegt verkefni útibúanna, skipulagsskrifstofanna og sveitarstjórnanna að ræða. Þarna er um hagstæðari og viðráðalegri byggingarmáta að ræða. Ekki er ég að amast við viðleitni fólks til þess að eignast eigið þak yfir höfuðið, en það á að gera meira á félagslegum grundvelli, samhjálpargrundvelli. Ég held, að allir þekki húsbyggingar einstaklinga og mörg slæm dæmi þar um, látlaus vinnuþrælkun bestu æviáranna, sífelldar fjárhagsáhyggjur, sumir lenda í algerri sjálfheldu. Úr þessu þarf og á að bæta. Ég spyr, hvaða vit sé í þessari þrælkun ef annað form félagslega er tiltækilegra og um leið hagkvæmara, form sem Breiðholtið er lýsandi dæmi um, sem verkamannabústaðirnir og leiguíbúðirnar einnig. Allir gallar þessa eru það smáir gagnvart kostunum að ég mæli með því eindregið. Það er einmitt von okkar flm, um að aukning verði á byggingum á hvers konar félagslegum grundvelli, svo sem hér hefur áður verið nefnt, á vegum byggingarsamvinnufélaga og samtaka ýmissa aðila um sameiginlegar byggingar. Úti á landsbyggðinni er hér að verða breyting á. Einbýlishúsin hafa verið afgerandi á flestum stöðum. Þau eru nú á nokkru undanhaldi. Það er aukinn fjöldi raðhúsa í smíðum víða og jafnvel blokkabyggingar einnig þar sem vöxtur er hvað mestur. Allt bendir því í þá átt að það verði meira farið að hugsa um þessi mál og í betra samhengi félagslega heldur en verið hefur.

Við bendum á það sem röksemd fyrir þörf á þessari þjónustu, að það er almennt viðurkennt að það er dýrara að byggja á landsbyggðinni yfirleitt, efniskaup eru þar dýrari. Á móti hefur það komið að sveitarfélögin hafa ekki gengið eins hart að fólki með þjónustugjöld, enda öll þjónusta verið í lágmarki. Á því er nú að verða breyting. Sveitarfélögin úti á landi leggja auknar byrðar á húsbyggjendur með auknum framkvæmdum sem eðlilegt er og ekkert er við að atlauga.

Hér í þessari d. var á sínum tíma mikið rætt um örvunarlán úti á landsbyggðinni. Tvö frv. hafa verið hér til umr. sérstaklega og allir flokkar verið sammála um þau. Hins vegar hefur ekkert miðað í þá átt og ekkert verið gert. Við höfum einmitt bent á það að útibúin væru réttur aðili ef þetta fengist fram. Vonandi næst þetta réttlætismál nú fram, sérstaklega ef eitthvað fer að birta yfir, eins og manni skilst á sumum stjórnarblöðunum að muni fara að gera. Ég hef hins vegar ekki kunnað við það að hreyfa þessu máli neitt frekar. Um þetta mál hefur verið alger samstaða áður, og ég trúi því og vona að á þessu þingi komi þetta mál enn einu sinni til umr. og þá til afgreiðslu um þessi örvunarlán. En á eitt legg ég áherslu og við flm. sem réttlætingu fyrir aukinni þjónustu og þá almennt. Það er að af víðari sjónarhóli verður að líta. Kostnaðarauki landsbyggðarfólks vegna ríkjandi fyrirkomulags um opinbera þjónustu vill nefnilega furðu oft gleymast, en þeim mun meira um hitt talað, þótt aðeins sé brotabrot af því, sem landsbyggðarfólk þarf að bera bótalaust í alls konar aukakostnaði.

Það er blátt áfram ömurlegt til þess að vita, hve svona röksemdir eru oft notaðar af forráðamönnum stofnana og talsmönnum hins opinbera til að berja niður sjálfsagða þjónustu við fólkið úti á landi, hvernig hægt er að horfa fram hjá hinum stóra þætti þessa máls, hinum afgerandi víðbótarkostnaði fólksins, en einblína á hitt. Það er mér og mörgum fleiri alger ráðgáta. Um ávinninginn af þessum útibúum almennt má eflaust deila. En ég vísa aftur á einróma álit heimamanna alls staðar frá sem um þetta hafa fjallað, og ég tek miklu meira mark á því en ýmsu sem hefur komið fram frá því íhaldssama kerfi sem uppi hefur aðrar röksemdir.

Við gerum engar till. beinlínis um heildarfjármagnið og úthlutun þess. Þar má eflaust fara margar leiðir. Við teljum að yfirstjórn stofnunarinnar hljóti að deila sem réttlátast því fjármagni sem hún hefur yfir að ráða. Hún hlýtur að taka heildarákvörðun um hversu mikið fjármagn eigi að fara í hvern þátt byggingarmála almennt. Sem sagt, stofnunin hefur með útfærsluna að gera, auðvitað er valdið í höndum Alþ. sem leggur höfuðlinu í húsnæðismálum almennt, en stofnunin útfærir það svo nánar.

Varðandi þessi útibú hefur því verið hreyft við okkur flm. að þar gætu lífeyrissjóðirnir, sérstaklega ef eitthvert vit kæmist nú í það kerfi, þá gætu þeir komið hér inn í einnig, en við höfum ekki viljað fara út í það. Það er varlegast að spá ekki miklu um þróunina þar. Við gerum heldur enga ákveðna till. um yfirstjórn útibúanna. Það mál þarfnast rækilegrar íhugunar. Við höfum nefnt áður að það væri eðlilegt, t. d. þegar fjallað er um verkamannabústaðina almennt, að þá væru fulltrúar frá stjórnum byggingarfélaga verkamanna á svæðinu þar með í ráðum, eða þegar fjallað væri um leiguíbúðirnar, þá kæmu fulltrúar sveitarstjórnanna þar inn i, en annars ætti afgreiðslan að vera sem sjálfvirkust frá þessum útibúum ef öllum skilyrðum væri fullnægt. Og auðvitað er við það miðað að fyrir fjárþörf útibúanna verði séð á hverjum tíma að mestu eða öllu leyti.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta frv., það hefur verið gert rækilega áður. En mér hefur alltaf þótt að frv. af þessu tagi, sem ekki er þó viðameira en þetta, væri nokkur prófsteinn á viðbrögð og afstöðu jafnt þm. sem stofnana til þessa máls almennt. Ég hreyfði þessu máli hér fyrir tveimur árum, einmitt þegar ég hafði þá nýlega tekið til starfa í þessari staðarvalsnefnd þar sem ýmsar hugmyndir voru mikið ræddar, og taldi þá að rétt væri að sjá hvaða viðbrögð yrðu hér við þessu máli. Ég hef áður skýrt ástæðurnar til þess að þetta mál hefur ekki komið úr n. Umsagnaraðili hefur látið á sér standa og mun eflaust gera enn, því að málið er eflaust enn þá í þessari nákvæmu athugun sem engan endi virðist ætla að taka. En varðandi álit staðarvalsnefndarinnar sem kemur hér eflaust seinna til umr., þá hlýtur þetta mál að vera þar mjög ofarlega á baugi. Að engu má rasa, það er ekki okkar meining. En við krefjumst eðlilega sjálfsagðs réttar til aukinnar þjónustu og aukins jafnaðar, og við teljum að útibú frá þessari stofnun, sem teygir arma sína um allt land, sé mjög ríkur þáttur í því að auka þjónustuna við íbúa landsbyggðarinnar yfirleitt.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.