03.12.1975
Efri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Flm. (Jón G. Sólnes) :

Herra forseti. Frv. shlj. því frv., sem hér er til umr., var flutt á síðasta þingi, en varð ekki útrætt og er því endurflutt nú. Eins og um getur í grg. með frv. þessu er það flutt í samráði við alþm. Norðurl. e. í Nd. og að beiðni bæjarstjórnar Akureyrar og samið í fullu samráði við heimamenn. Lagafrv. þetta er um holræsagjald, byggingargjald og sérstakt gatnagerðargjald á Akureyri, endurskoðun á lögum nr. 87/1970, um gjöld til holræsa, gangstétta og varanlegs slitlags á götum á Akureyri.

Holræsagjald er nú lagt á samkv. l. nr. 87/1970. Það hefur verið lagt á í fjölda ára og verið ætlað við viðhalds, eftirlits og hreinsunar ú holræsum í götum bæjarins. Húseigendur njóta í staðinn ókeypis hreinsunar á frárennslisheimtaugum frá húsum sínum og ýmsa fyrirgreiðslu bæjarins við viðhald og eftirlit heimtauga að húsum. Gjaldið er því í eðli sínu hreint þjónustugjald. Byggingargjald hefur verið tekið af nýbyggingum síðan á árinu 1967. Bærinn hefur litið á þetta gjald sem selda þjónustu við húsbyggjendur. Að meginhluta til er gjaldið hið sama og almennt gatnagerðargjald sem kveðið er á um í l. nr. 51/1974. En auk þess að hafa verið almennt gatnagerðargjald vegna undirbyggingar gatna, þá hefur það einnig falið í sér byggingarleyfisgjald og tengigjöld vatnsveitu og holræsa. Í Reykjavík munu þessi gjöld innheimt hvert í sínu lagi, en á Akureyri eru þau innheimt sem eitt byggingargjald til hægðarauka jafnt fyrir húsbyggjendur og bæjarfélagið.

Akureyrarbær sá sig til knúinn að taka upp gatnagerðargjöld árið 1967 ef hann ætti að hafa nokkra möguleika á því að gera nýjar lóðir byggingarhæfar og anna lóðaeftirspurn. Enda þótt byggingargjaldinu hafi alla tíð verið stillt mjög í hóf, þá hefur það þó tryggt það, allt frá því að það var tekið upp, að bærinn hefur árlega getað annað lóðaeftirspurn og má fullyrða að það hefur ekki verið lítils virði fyrir iðnaðar- og byggingaraðila á Akureyri og raunar alla bæjarbúa. Stefna ber að því að hægt sé að leggja gangstéttir og bundið slitlag á götur nýrra byggingarhverfa jafnóðum og hverfin byggjast, og er því miðað við að byggingargjaldíð taki til byggingareftirlits, veituframkvæmda og gatnagerðarframkvæmda sem jafnframt feli í sér lagningu gagnstétta og bundins slitlags á götur auk undirbyggingar gatna.

Sérstakt gatnagerðargjald, sem lagafrv. þetta gerir ráð fyrir, er megintilefni þess, að frumvarp þetta er flutt. Gjald þetta er í raun sérstakur tímabundinn fasteignaskattur, sem í lagafrv. þessu er nefndur sérstakt gatnagerðargjald til samræmis við samnefnt og hliðstætt gjald sem kveðið er á um í l. nr. 51 frá 1974, um gatnagerðargjöld. Leitað er heimilda fyrir gjaldi þessu til að standa straum af ákveðnum gatnagerðarframkvæmdum samkv. sérstakri framkvæmdaáætlun í þeim tilgangi að gera sérstakt átak við gatnagerð og ljúka gerð gangstétta og lagningu bundins slitlags á götur í bænum innan skipulagðra svæða.

Á undanförnum árum hefur Akureyrarbær látið ganga fyrir að malbika götur í miðbæ, aðalumferðargötur og götur við meiri háttar atvinnufyrirtæki, skóla og fjölbýlishús. En ólokið er malbikun á stórum hluta íbúðargatna bæjarins. Þrátt fyrir það að verulega hafi miðað í varanlegri gatnagerð á Akureyri hin síðari ár mun láta nærri að ólokið sé lagningu bundins slitlags á um 55% gatnakerfisins að lengd um 27 km. Auk þess eru um 10 km gatna óundirbyggðar. Áætlaður heildarkostnaður við þessar framkvæmdir, miðað við núverandi verðlag, er um 625 millj. kr. og þar af eru um 600 millj. kr. vegna húsagatna og safnbrauta.

Tekjustofnar bæjarins hafa hin síðari ár verið nýttir að fullu, m. a. til þess að unnt væri að hraða malbikun gatna, enda þótt þeir að óbreyttu hrökkvi langtum of skammt til þess að nokkrar líkur séu til þess að hægt verði að ljúka varanlegri gatnagerð í bænum á þeim tíma, sem bæjarbúar geta sætt sig við, með þeim tekjum sem núgildandi tekjustofnakerfi getur gefið. Til þess að hægt sé að gera stærra átak í varanlegri gatnagerð og ljúka gangstéttagerð og malbikun gatna á fáum árum héðan í frá þarf að afla nauðsynlegs fjármagns til framkvæmdanna umfram það sem bæjarsjóður getur lagt af mörkum sjálfur. Raunhæfasta leiðin til fjármagnsöflunar í þessu skyni er að allir fasteignaeigendur í bænum, hver að sínum hluta, taki sameiginlega þátt í kostnaðinum, að svo miklu leyti sem nauðsyn krefur og bæjarstjórn telur sanngjarnt, með því að greiða sérstakan tímabundinn fasteignaskatt til bæjarins. Ef um sameiginlega kostnaðarþátttöku allra fasteignaeigenda er að ræða, óháð einhverjum tímamörkunum um það hvenær eða hvort bundið slitlag hefur verið lagt á einstakar götur, þá er ástæða til að ætla að almennur áhugi og vilji sé meðal bæjarbúa að hraða framkvæmdum við malbikun, þótt þeir þurfi að kaupa það því verði að öllum fasteignaeigendum verði gert að greiða að sínum hluta sérstakan tímabundinn fasteignaskatt þegar unnt verður að fjármagna framkvæmdirnar.

Megintilgangurinn með flutningi lagafrv. þessa er að leita heimildar til að leggja sérstakt tímabundið gatnagerðargjald á allar fasteignir innan skipulagðra svæða í bænum, óháð því hvenær eða hvort bundið slitlag hefur verið lagt á einstakar götur, til þess að hægt verði að afla nauðsynlegs fjármagns, til að ljúka gerð gangstétta og lagningu bundins slitlags á götur í bænum innan tiltekins tíma, sem ákveðinn er í framkvæmdaáætlun, svo að hægt sé að verða við almennum óskum bæjarbúa um framkvæmdahraða í þessum efnum.

Heimild í l. nr. 87 frá 1970 um gatnagerðarskatt vegna bundins slitlags hefur bæjarstjórn Akureyrar ekki treyst sér til að nota, þar sem samkvæmt þeim lögum er einungis unnt að leggja gjald á þær fasteignir sem eru við ófrágengnar götur eða við götur malbikaðar eftir 6. ágúst 1970. Fasteignir, sem eru við götur með bundnu slitlagi, þar með flest meiriháttar fyrirtæki og stofnanir í bænum, væru undanþegnar því að greiða gjaldið. Sama gildir um almennu lögin um gatnagerðargjöld, nr. 51 frá 1974, um breytingu á lögum nr. 31 frá 1945, en þar nær gjaldið til fasteigna við þær götur sem lagðar eru bundnu slitlagi eftir 7. maí 1969. Lög nr. 31 frá 1975, um breyt. á l. nr. 51 frá 1974, um gatnagerðargjöld ná því aðeins tilgangi sínum í þeim sveitarfélögum þar sem ekki er liðinn lengri tími en 5 ár frá því bundið slitlag hefur verið lagt á götur og þar til lögin tóku gildi. Hvort sem eru sérlögin fyrir Akureyri um gatnagerðarskatt eða almennu lögin um gatnagerðargjöld, þá ná þau ekki tilgangi sínum á Akureyri og hefðu í för með sér, ef gjald væri innheimt samkv. þeim, að fasteignaeigendum væri stórlega mismunað í gjaldheimtu.

Bæjarstjórn telur það óréttlátt, óviðeigandi og ekki framkvæmanlegt í raun. Það er ekki sanngjarnt að dómi bæjarstjórnar að fasteignaeigendur, sem hafa haft beinan hag af því að vera við fullgerðar götur, taki engan þátt í fyrirhuguðu átaki við varanlega gatnagerð, en öðrum fasteignaeigendum, sem í áratugi hafa verið við ófullgerðar götur, verði gert að greiða sérstakt malbikunargjald. Hinir síðastnefndu fasteignaeigendur hafa greitt sín gjöld til bæjarsjóðs, margir áratugum saman, til jafns við hina og þar með tekið þátt í kostnaði við lagningu bundins slitlags hjá þeim.

Það er skoðun bæjarstjórnar Akureyrar að forsenda þess að leggja á sérstakt gatnagerðargjald sé að unnt verði að leggja gjaldið á alla fasteignaeigendur bæjarins, óháð því hvort eða hvenær bundið slitlag hafi verið lagt á einstakar götur, að öllum verði gert að taka sameiginlega þátt í kostnaði við að ljúka gerð gangstétta og lagningu bundins slitlags á götur í bænum, að sínu leyti á sama hátt og bæjarfélagið hefur fram til þessa gert öllum að greiða í álögðum gjöldum til bæjarsjóðs þann kostnað sem þegar hefur verið lagður í varanlega gatnagerð í bænum. Það, sem áunnist hefur í varanlegri gatnagerð í bæjarfélaginu til þessa er sameiginlegt átak alla bæjarbúa. Það, sem ólokið er á þessu sviði í dag, á líka tvímælalaust að vera sameiginlegt átak bæjarbúa.

Sérstakt gatnagerðargjald, sem lagafrumvarp þetta gerir ráð fyrir, er ekki afturverkandi skattur. Það er ekki verið að taka gjald fyrir það sem búið er að kosta og framkvæma í varanlegri gatnagerð, heldur eingöngu fyrir það sem ólokið er og fyrirhugað er að ljúka. Gjaldið nær til allra fasteignaeigenda í bænum og er ekki háð því hvort eða hvenær bundið slitlag hefur verið lagt á einstakar götur. Það felur ekki í sér að fasteignaeigendum sé mismunað í gjaldheimtu eftir því hvort þeir hafa búið lengur eða skemur en 5 ár við götur sem lagðar hafa verið bundnu slitlagi. Gjald þetta, sem í lagafrv. þessu er nefnt sérstakt gatnagerðargjald, felur hvorki í sér tvísköttun né innheimtu gjalda aftur í tímann, heldur er hér um að ræða sérstakan tímabundinn fasteignaskatt, sem öllum fasteignaeigendum er gert að greiða svo að hægt sé að afla fjármagns til framkvæmda sem ólokið er í gerð gangstétta og lagningu bundins slitlags á götur, til þess að unnt sé að hraða framkvæmdum og gera kleift að ljúka þeim á þeim tíma sem bæjarbúar geta almennt sætt sig við.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og til meðferðar hjá hv. félmn. þessarar deildar.