03.12.1975
Efri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

88. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. er afleiðing af því samkomulagi sem gert hefur verið við vestur-þjóðverja. Í samkomulaginu er kveðið á um sérstök viðurlög við brotum á því. Þau viðurlög þarf að taka upp í íslensk lög, svo að þeim verði beitt, og enn fremur er nauðsynlegt að taka það fram hvaða íslenskt yfirvald tekur þá ákvörðun sem hér er um að tefla, þ. e. a. s. ákvörðun um að strika skip út af skrá. Það er í stuttu máli efni þessa frv. Og þar er kveðið svo á, að það skuli vera dómsmrn. sem tekur ákvörðun um það hvort skip sé strikað út af skrá þegar það telst hafa brotið ákvæði samkomulagsins. Ákvæðin í þessu frv., sem eru ákvæði til bráðabirgða, eru algjörlega sams konar og ákvæði í fyrri lögum, þau sem sett voru vegna samkomulagsins við breta á sínum tíma.

Ég held, herra forseti, að frv. þurfi ekki skýringa við. En þar sem ekki er hægt að beita viðurlögum, sem liggja við brotum á samningnum, fyrr en ákvæði þar um hafa verið tekin upp í íslensk lög, þá er auðvitað aðkallandi að þetta mál sé afgreitt. Ég vona líka að það sé ekki ágreiningur um þetta frv. út af fyrir sig, og þess vegna vil ég nú mælast til þess að meðferð þessa máls verði hraðað svo sem kostur er og fara þess á leit við hæstv. forseta, ef hann sér sér það fært, að þetta mál verði afgreitt frá d. í dag, — að allshn. gæti fengið lítið tóm til að líta á frv., en ég vil óska þess að frv. verði að lokinni 2. umr. vísað til hv. allshn.