03.12.1975
Neðri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ástæða þess, að ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár að þessu sinni, er sú, að það hefur vakið athygli mína að það er haft í fjölmiðlum eftir landhelgisgæslunni eða málsvörum hennar að belgískir togarar séu nú að veiðum í fiskveiðilögsögu Íslands í leyfi anda samkomulags sem hafði verið gert milli íslendinga og belga um veiðiheimildir til belgískra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þetta hefur vakið undrun mína mjög. Mér er að vísu kunnugt um að hæstv. ríkisstj. hefur gert slíka samninga. Ég tel hins vegar tvímælalaust að þeir samningar séu ekki gildir þar sem þeir hafa ekki verið staðfestir af Alþ. Ég tel ótvírætt að engir undanþágusamningar séu nú í gildi við belga um veiðiheimildir innan íslenskrar landhelgi, þótt vera kunni að íslenska ríkisstj. sé búin að ljúka slíkri samningsgerð fyrir sitt leyti. Ég tel því að ef belgískir togarar eru að veiðum innan íslensku landhelginnar, þá séu þeir þar í óleyfi og landhelgisgæslunni beri að sjálfsögðu að stugga þeim brott. Til þess að færa frekari rök fyrir þessari skoðun langar mig m. a. að vitna í 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins nema samþykki Alþ. komi til.“

Hæstv. dómsmrh. hefur einnig ritað um þetta mál í bókinni Stjórnskipan Íslands. Þar segir á bls. 373, í kaflanum um samninga við önnur ríki, með leyfi forseta:

„Samkv. 21. gr. stjórnarskrárinnar gerir forseti lýðveldisins samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins nema samþykki Alþ. komi til. Þegar um er að ræða milliríkjasamninga er oftast nær greint á milli samningsgerðarinnar sjálfrar og staðfestingar samningsins. Þegar 21. gr. stjórnarskrárinnar segir, að forseti geri samninga við önnur ríki, er fyrst og fremst átt við staðfestinguna, enda verður samningurinn fyrst við hana skuldbindandi fyrir ríkið.“

Í þessari sömu bók segir hæstv. dómsmrh. enn fremur, með leyfi forseta:

„Stundum komast og milliríkjasamningar á með svokölluðum nótuskiptum á milli ríkisstj. Þegar um er að ræða samninga á milli margra ríkja eru þeir oft gerðir í formi alþjóðasamþykktar sem gerð er af ráðstefnu sem aðildarríkin eiga fulltrúa á. Undirrita þeir fulltrúar þá oftast nær samþykktina fyrir hönd ríkisstj. sinna. En þó að þessar undirskriftir hafi farið fram er aðalreglan sú að milliríkjasamningurinn sé enn ekki orðinn endanlega skuldbindandi fyrir ríkið. Þar þarf meira til að koma, þ. e. a. s. staðfesting samningsins með þeim hætti sem fyrir er mælt í stjórnlögum viðkomandi ríkis.“

Þá segir hæstv. dómsmrh. enn fremur á bls. 377:

„Forseta er óheimilt að staðfesta samninginn fyrr en samþykki Alþ. liggur fyrir. Mundi ráðh. sá, er veitti atbeina sinn til fullgildingar samnings þess eðlis sem hér er um að ræða, án þess að samþykki Alþ. væri fengið, baka sér ábyrgð.“

Ég tel að af þessum tilvilnunum sé tvímælalaust að eins og nú standa sakir sé enginn landhelgissamningur í gildi við belga. Ég tel því ótvírætt að þau belgísku veiðiskip, sem eru að veiðum innan íslensku fiskveiðilögsögunnar nú þessa dagana, séu þar í algjöru óleyfi, og ég tel að það, sem haft hefur verið eftir landhelgisgæslunni um að íslenska landhelgisgæslan láti þau skip óáreitt vegna samningsins sé á misskilningi byggt.

Ég vil þá beina þeirri spurningu í fyrsta lagi til hæstv. dómsmrh., hvort þetta sé ekki réttur skilningur hjá mér, að belgísk fiskiskip, sem kunna að vera að veiðum í landhelgi Íslands, séu þar í óleyfi, þar sem samningurinn við belga hafi ekki verið staðfestur af Alþ. íslendinga. Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. dómsmrh.: Hafa af hans völdum verið gefin út nokkur fyrirmæli til landhelgisgæslunnar um að láta þessa togara óáreitta?