03.12.1975
Neðri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Þar sem hér er um talsvert veigamikið mál að ræða vona ég að mér líðist að hafa mína örstuttu athugasemd í heldur lengra lagi þótt ég skuli ekki fara illa með tímann.

Það er rétt að mér er kunnugt um að það er fordæmi fyrir því að heimila erlendum þjóðum veiðar við Ísland samkv. samningi sem ekki hefur verið staðfestur á Alþ. En mér er líka kunnugt um að það er a. m. k. talsvert ágreiningsmál lögfræðinga hvort slíkt sé leyfilegt. Ég get gjarnan upplýst það að ég hafði í morgun samband við einn af prófessorum lagadeildar Háskóla Íslands og hann tjáði mér að það væri ekki löglegt og það væri ekki í anda 21. gr. stjórnarskrárinnar að heimila erlendum veiðiskipum veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu samkv. samningi sem ekki hefði verið fullgiltur á Alþ. íslendinga.

Þá hefur það einnig verið nefnt að hér sé um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða. Á bls. 377 í bókinni Stjórnskipan Íslands eftir hæstv. dómsmrh. er fjallað um gerð milliríkjasamninga, þar segir svo, með leyfi forseta: „Hins vegar er auðsætt að brbl. stoða hér ekkert“ — þ. e. a. s. til fullgildingar slíks samnings — „því að þau eru gefin án þess að samþykki Alþ. liggi fyrir“. Með þessu lýsir hæstv. ráðh. því skýrt og skorinort yfir að bráðabirgðalagasetning dugi ekki þar sem samþykki Alþ. liggi ekki fyrir, og þá get ég ekki ímyndað mér að ákvörðun ríkisstj. dugi á þeim tíma sem Alþ. situr þó að störfum.

Þá vil ég enn fremur ítreka það sem ég sagði í ræðu minni hér áðan, þar sem hæstv. ráðh. segir í bók sinni: „Stundum komast og milliríkjasamningar á með svokölluðum nótuskiptum á milli viðkomandi ríkisstj.“ — og svo síðar: „En þó að þessar undirskriftir hafi farið fram er aðalreglan sú að milliríkjasamningurinn sé enn ekki orðinn endanlega skuldbindandi fyrir ríkið. Þar þarf meira til að koma, þ. e. a. s. staðfesting samningsins með þeim hætti sem fyrir er mælt í stjórnlögum viðkomandi ríkis.“ Ég tel að þetta sé algjörlega ótvírætt og í samræmi við álits þess lagaprófessors sem ég hafði samband við í morgun, að ráðabreytni eins og sú að heimila belgískum togurum veiðar í íslenskri landhelgi samkv. samningi, sem enn hefur ekki verið staðfestur á löglegan hátt af Alþ. íslendinga, sé brot á lögum og 21. gr. sjálfrar stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Ég vil a. m. k. eindregið mælast til þess af hæstv. ríkisstj. að hún láti ekki langan tíma líða áður en hún leggur þessa samninga sína fyrir hv. Alþ. til staðfestingar, því að ég hef þá von — við skulum ekki segja trú — að svo kunni að fara að þeir samningar verði felldir, og þá er betra fyrir hæstv. ríkisstj. að hafa ekki of lengi staðið að því að heimila erlendum veiðiþjófum veiðiþjófnað á Íslandsmiðum án samþykkis Alþingis.