03.12.1975
Neðri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

Umræður utan dagskrár

Jón Skaftason:

Virðulegi forseti. Fjölmiðlar hafa skýrt frá því í gær og í dag að í gærmorgun kl. 4.40 hafi varðskipið Árvakur skorið á vörpu breska togarans Port Vale frá Grimsby þar sem hann var að veiðum um 33 mílur vestur af Straumnesi. Það vildi svo heppilega til að varðskipsmönnum tókst að ná í vörpu togarans eða a. m. k. slitur úr henni og við athugun kom í ljós að poki vörpunnar var klæddur að innan með smáriðinni klæðningu sem kemur í veg fyrir að smáfiskur, sem lenda kann í vörpunni, sleppi þar út.

Þetta atvik sannar ótvírætt að hinn breski togari hafi ekki aðeins brotið íslensk lög með notkun slíkrar vörpu, heldur einnig lög og samþykktir sem englendingar eru sjálfir aðilar að.

Ég held að ég geti fullyrt að þetta sé einstakur atburður, að landhelgisgæslunni hafi tekist að ná í botnvörpu frá útlendu veiðiskipi þar sem hægt er að staðreyna að hún er með smáriðnum poka. Ég hygg þó að ég muni það rétt að fyrir nokkru var slædd upp af miðunum hér umhverfis landið botnvarpa sem klædd var að innan með smáriðinni nót og líkur bentu til þess að hér væri um að ræða veiðarfæri frá þýskum togara, en engar sannanir munu þó hafa fengist fyrir því.

Ég held að miðað við aðstæður og allra hluta vegna eigi íslensk stjórnvöld að nota sér mjög vel þetta atvik. Það er enginn minnsti vafi á því að það stendur talsvert upp á okkur íslendinga um kynningu okkar málstaðar í landhelgismálinu á erlendri grund. Því vil ég af þessu tilefni og nú beina þeirri áskorun til hæstv. ríkisstj. að hún láti nú þegar hefja undirbúning að gerð kvikmyndar, kynningarkvikmyndar um landhelgismálið, sögu landhelgismálsins á Íslandi, ástæðurnar fyrir því að við höfum lagt í að færa íslenska fiskveiðilandhelgi ítrekað út, — þrátt fyrir að við næstum því með fullri vissu fyrir fram gátum reiknað með að lenda í baráttu við erlendar veiðiþjóðir, — þar sem rök okkar fyrir þessum aðgerðum okkar íslendinga kæmu vel fram, og þá yrði í þeirri kvikmynd þessa atburðar og hinnar ólöglegu vörpu getið vel og gefið gott rúm í þessari kvikmynd.

Ég hygg að flest óbrjálað fólk um allan heim skilji hversu lífsfjandsamleg starfsemi er rekin af þeim veiðiþjóðum sem nota smáriðna vörpu til þess að fiska hér á Íslandsmiðum, —- vörpu sem drepur ungviði í hundruðum og þúsundum tonna talið, sem síðan er sópað öllu aftur dauðu í sjóinn ef ekki er um verksmiðjutogara að ræða. Ef þetta yrði sýnt í sjónvarpi nágrannalanda okkar og fleiri landa, þá mundi það verða betri kynning á okkar málstað en margt annað sem hefur verði gert í þessum efnum og þá fengju kannske fleiri það á tilfinninguna að við íslendingar værum ekki að berjast eingöngu fyrir þröngum sérhagsmunum okkar þjóðar þegar við erum að reyna að vernda fiskimiðin frá því að vera eyðilögð, því að svo sannarlega eru fiskimiðin kringum Ísland auðugt matarbúr í heimi þar sem hungur ríkir mjög víða og því ábyrgðarhluti að eyðileggja þau.