03.12.1975
Neðri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Ég skal nú ekki blanda mér í deilur um það hvað er löglegt í sambandi við framkvæmd á þegar gerðum samningi við belgíumenn varðandi landhelgina. Það er eflaust rétt að það hefur verið gert áður að byrja að framkvæma slíka samninga áður en þeir hafa verið staðfestir hér á Alþ. og vitnað í ákveðin lög af því tilefni.

En það, sem mér þykir rétt að vekja athygli á í þessu sambandi, er að það samkomulag, sem nú hefur verið gert við belgíumenn, hefur enn ekki verið lagt fyrir landhelgisnefnd. Það hefur ekki verið birt opinberlega, bara sagt frá því að samkomulag hafi náðst, og það hefur ekki komið fram nein formleg tilkynning um þetta samkomulag. Þarna þykir mér mikið á skorta í sambandi við jafnmikið mál og þetta er. Þó að stjórnvöld hafi leyfi samkv. lögum til þess að gera milliríkjasamninga sem breyta okkar lagaframkvæmd varðandi landhelgi, þá finnst mér lágmarkið vera að það sé formlega skýrt frá slíku samkomulagi og það komi alveg skýrt fram hvers efnis það er í öllum greinum og þeir aðilar, sem með málið hafa haft að gera, fái a. m. k. að fylgjast með því áður en það er tekið til beinna framkvæmda. En þetta er aðeins innskot af minni hálfu.

En tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs var annað atriði í sambandi við landhelgisgæsluna. Ég hef veitt því athygli að frá því hefur verið skýrt ná síðustu daga, að landhelgisgæsluskip eru að mínum dómi í býsna einkennilegu stússi við gæsluskip breta hér á miðunum, — skip sem óumdeilanlega eru að aðstoða við lögbrot. Frá því er skýrt að landhelgisgæsluskip okkar kom inn á höfn á Austurlandi til þess að reyna að bjarga einu slíku skipi þar frá bryggju þegar það réð ekki við það sjálft, til þess að reyna þá að koma þessu skipi í þá starfsemi sem tvímælalaust er tengd við að brjóta okkar lög. Í fyrsta lagi verð ég að segja það, að mér þótti það einkennilegt að þessu breska gæsluskipi skyldi vera veitt leyfi til þess að fara upp að bryggju. Ég sé ekki neina ástæðu til þess. En hitt er þó öllu furðulegra, að leyfa því ekki að dúsa við bryggju fyrst það hafði asnast þangað og gat ekki komist sjálft í burtu, að þá skyldi farið að senda okkar gæsluskip til þess að draga það út aftur og láta það taka upp sína fyrri iðju, að aðstoða lögbrjóta.

Hitt atvikið er svo það, að það er sagt frá því að breskt gæsluskip þarf að leita hafnar með sjúkan mann og þá fylgir okkar landhelgisgæsluskip þessu gæsluskipi alveg inn á höfn og virðist vera eins og einhver leiðbeinandi og aðstoðarskip í þessu tilfelli. Allt þykir mér þetta afskaplega furðulegt, og ég vil fyrir mitt leyti taka það fram að ég álit að það sé lágmarksatvik frá okkar hálfu að okkar gæsluskip aðstoði ekki á einn eða neinn hátt þessi aðstoðarskip lögbrjótanna. Það hefur verið mörkuð sú stefna að taka við sjúkum mönnum, og það verður eflaust gert. En öll aðstoð umfram það á ekki að eiga sér stað og við eigum ekki að vera að eyða okkar skipakosti í slíkt.

Í tilefni af þessu vil ég aðeins spyrja hæstv. dómsmrh. um það, hvort honum séu kunn þessi sérstöku atvik og hvort þetta sé með samþykki hans eða yfirstjórnar hér á landi eða hvort þetta sé til komið á annan hátt og hvort honum finnist ekki vera ástæða til þess að brýna það fyrir öllum, sem með hafa að gera, að við lítum á þessi sérstöku gæsluskip breta, úr því sem komið er, sem aðstoðarskip lögbrjóta og við litum í rauninni á þau sem hverja aðra lögbrjóta og eigum að haga okkur samkv. því. — Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðh. vildi svara þessum spurningum mínum.