15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

7. mál, almenningsbókasöfn

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til þess aðallega að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við framgang þessa máls. Þessi mál hafa lengi verið vanrækt, en nú verður úr því bætt á þann hátt sem ég vil meina að sé myndarlega gert. En það, sem kom mér til þess að standa hér upp, fyrir utan það að lýsa yfir stuðningi við frv., var þetta, sem ég rek augun í hér í 1. gr. frv. og síðan í aths. við frv., sem sannar að hér er ekki um neinar prentvillur að tefla. Það er þar sem segir: „Almenningsbókasöfn“ o. s. frv. „skulu gefa fólki sem bestan kost á að lesa og færa sér í nyt bækur og veita afnot af nýsigögnum, svo sem hljómplötum, segulböndum og öðrum miðlunargögnum til fræðslu og dægradvalar.“ Ég geri fsp. um hvað þetta þýði, vegna þess að ég er helst á því að maður þurfi að skilja orðalag þeirra frv. sem fram eru lögð. Og hér segir í aths. við 1. gr.: „Bókakostur æ fleiri heimila verður rýrari vegna hækkandi bókaverðs og kaupa á dýrum fjölmiðlunartækjum og gögnum, svo sem útvarpi og sjónvarpi, tónflutningstækjum og plötum og nýsigögnum af ýmsum gerðum.“ Hvaða tæki eru þetta og hvaðan er þetta orð komið inn í málið? (Menntmrh.: Úr Þrymskviðu.) Úr Þrymskviðu? Og ég sem var farinn að halda að þetta væri úr dönsku og væri skylt orðinu „nysgerrig“ sem þýðir forvitinn og þetta væri þá sama orðið og hnýsni. En það er alveg nauðsynlegt þegar hæstv. menntmrh. seilist í Þrymskviðu eftir nýyrðum í málið að hann þá í framtíðinni láti fylgja með orðskýringu, svo að menn viti nokkurn veginn hvað um er að tala. Annars er þetta nokkuð sérviskulegt orð og ætti að breyta því. En ég vil fá að vita samt, af því að ég hef ekki við höndina að fletta upp á þessu orði í Þrymskviðu, hvaða gögn þetta eru. Það er talað hér um fjölmiðlunartæki. (Gripið fram i: Um segulbönd og hljómplötur.) Nú, þetta eru nýsigögnin, segir hæstv. ráðh. Það er talið hér upp útvarp og sjónvarp, tónflutningstæki og plötur og nýsigögn af ýmsum gerðum þar fyrir utan. Maður þyrfti að kynna sér þetta og þess vegna var ósk mín sú að fá á þessu skýringu. Það hefur hæstv. menntmrh. gert úr sæti sinu, en nokkuð er þetta sérviskulegt og næsta óþarft.