03.12.1975
Neðri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

Umræður utan dagskrár

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í tilefni af fsp. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar finnst mér rétt að segja frá því að þegar landhelgissamningurinn við belgíumenn var til meðferðar kom talsvert til athugunar það atriði sem fsp. hans fjallaði um. Þá stóð þannig á að þing var ekki starfandi. Ég hygg að samningurinn hafi verið gerður í byrjun sept. 1972, en þing kom ekki saman fyrr en í okt. og það kom þess vegna til athugunar hvort samningurinn ætti að taka gildi áður en þing kæmi saman og hægt væri að leggja hann fyrir það. Niðurstaðan varð sú, að það var eðlilegt að samningurinn tæki gildi strax, og það var m. a. byggt á tveimur fordæmum um hliðstæða samninga. Sumarið 1961, 19. júlí, var undirritaður sérstakur landhelgissamningur við vestur-þjóðverja. Hann var ekki lagður fyrir Alþ. fyrr en í okt. 1961 og ekki afgreiddur þaðan fyrr en í mars 1962. 1. ágúst 1961 var líka gerður sérstakur landhelgissamningur við færeyinga. Hann var ekki lagður fyrir Alþ. fyrr en það kom saman um haustið og ekki afgreiddur fyrr en um veturinn. Um báða þessa samninga fjölluðu mjög lögfróðir menn, þáv. dómsmrh., Bjarni heitinn Benediktsson, og núv. sendiherra okkar í Stokkhólmi, Guðmundur Í Guðmundsson, sem þá var utanrrh. Þeir hafa að sjálfsögðu báðir litið þannig á að það væri algerlega rétt lögum samkv. að samningarnir tækju strax gildi eða 19. júlí og 1. ágúst 1961, þó að þeir yrðu ekki lagðir fyrir þingið fyrr en þá um haustið og ekki samþ. fyrr en síðar um veturinn.

Það var vegna þessara tveggja fordæma sem þótti eðlilegt að láta landhelgissamninginn við belgíumenn, sem gerður var haustið 1972, taka strax gildi, þó að ekki væri hægt að fá samþykki Alþingis fyrir honum fyrr en síðar.

Ég held að þetta sé algild regla sem hinir færustu lögfræðingar hafa viðurkennt, og ég vil taka það fram í sambandi við þessa tvo samninga, sem voru gerðir 1961, að þá komu engin mótmæli gegn þessari málsmeðferð af hálfu stjórnarandstöðunnar, vegna þess að hún var talin eðlileg og rétt. Þess vegna held ég að sú fsp., sem hér kom fram af hálfu hv. þm., sé sprottin af misskilningi, vegna þess að hann hafi ekki kynnt sér nægjanlega vel hvernig fordæmi hafa verið í þessum efnum.